Hjólað um sveitir Toskana & Umbria
19. – 26. september 2025 (8 dagar)
Í þessari áhugaverðu rafhjólaferð verður farið um Toskana- og Umbria héruðin á Ítalíu.Við gistum í heilsubænum Chianciano Terme en hann er staðsettur milli dalanna Val d’Orcia og Val di Chiana í Toskanahéraði. Hér er yndislegt landslag, grónar hæðir, vínekrur og ólífulundir og við njótum þess að hjóla fallegar leiðir í nágrenninu. Við förum um Hið græna hjarta Ítalíu í Umbria, umhverfis vatnið Trasimeno, sem er eitt það stærsta á Ítalíu, og stöldum einnig við í þorpinu Passignano. Leið okkar liggur í Val d’Orcia dalinn sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar fylgjum við Poggiardelli veginum og á leið okkar verður miðaldaþorpið Monticchiello sem hefur varðveist einstaklega vel. Við förum um hina þekktu hvítu malarvegi Strade Bianche og komum í bæinn Pienza en fallegt umhverfi hans hefur verið mörgum listamönnum innblástur. Í endurreisnarperlunni Montepulciano eru fallegar litlar götur sem liðast upp eftir hæðinni sem bærinn stendur í. Hið þekkta rauðvín bæjarins er látið eldast og ná sínu dásamlega bragði í kjöllurum sem sumir eiga uppruna sinn allt aftur til tíma Etrúríumanna. Við sjáum sérkennilegt landslag Crete Senesi svæðisins en þar er kalkborinn, leirkenndur jarðvegur sem sumum finnst minna á tunglið. Í rólega miðaldaþorpinu Montefollonico sjáum við fallega virkisveggi úr rauðu keramiki, Terracotta, og fallegt útsýni til nærliggjandi dala. Við njótum þess að hjóla í og við bæina Sarteano og Radicofani en þar eru tilkomumikil virki og kastalar. Við komum til bæjarins Acquapendente en hann er þekktur áfangastaður ferðalanga sem ferðuðust að norðan um Via Francigena pílagrímaleiðina til Rómar. Við endum ferð okkar í bænum Montalcino en þar er lagað hið frábæra vín Brunello di Montalcino sem við gæðum okkur á. Frábær ferð um þessi tvö dásamlegu héruð Ítalíu þar sem fara saman skemmtileg hreyfing, fallegt landslag, dásamlegir bæir og þorp og ríkuleg menning í mat og drykk.