Perla Magnúsdóttir

Perla Magnúsdóttir

Perla Magnúsdóttir er ung og lífsglöð útivistarkona úr Hafnarfirðinum. Hún er menntaður leiðsögumaður og ferðamálafræðingur sem hefur starfað í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin 11 ár. Í dag starfar hún aðallega við alls konar leiðsögn og fararstjórn, og að byggja upp fyrirtæki sitt; NáttúruPerla. Hún býr í smáíbúðahverfinu í Reykjavík með yndislegum ketti og enn betri manni.

Perla hefur óbilandi áhuga á útiveru og ferðalögum. Hún hefur ferðast mikið hérlendis sem og víðs vegar um heiminn. Ferðalögin eiga það öll sameiginlegt að hafa aukið víðsýni hennar, sjálfsbjargarviðleitni og þakklæti. Það er í raun ekkert sem nærir hana meira heldur en útivera í fallegu umhverfi, með góðu fólki og stemmningu.

Perla var heppin að fá gleðina í vöggugjöf. Hún áttaði sig á því mjög ung að lífið væri skemmtilegra ef hún myndi markvisst velja að vera gleði megin í því. Hún leggur mikla áherslu á góða orku, æðruleysi, húmor, hvatningu, von og uppbyggjandi samskipti. Henni finnst lífið einfaldlega skemmtilegra, innihaldsríkara og meira þess virði að lifa þegar hún umvefur sig þessum hliðum lífsins.

Í samkomubanninu þegar fréttaflutningur um kórónu veiruna var orðinn vel þungur, snéri hún vörn í svokallaða gleði-sókn. Í tæpar 7 vikur deildi hún gleðilegum hugleiðingum á samfélagsmiðlum sínum, í þeim tilgangi að færa fókusinn á eitthvað uppbyggilegt sem gerði henni og öðrum gott, í stað þess að svekkja sig á hlutum sem hún fékk ekki breytt.

Jafnframt því að leiðsegja og fararstýra heldur Perla reglulega fyrirlestra um að velja sér bjartsýnt viðhorf til lífsins. Það færir henni mikla lífsfyllingu að hvetja fólk áfram og veita því innblástur um að sækja í meiri gleði, von og seiglu í líf sitt. Hún minnir sjálfa sig og aðra á að þegar þú þarft að hafa meira fyrir hlutunum; þá kanntu yfirleitt betur að meta þá! Það er ekkert sem kennir þetta betur heldur en góð og kraftmikil fjallganga!

Þú getur verið viss um að hvatning og gleði sé með í för undir fararstjórn Perlu.




Póstlisti