Go to navigation .
Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Japan, Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. Eyrún hefur ritað átta bækur en sú nýjasta, Konan sem elskaði fossinn, er söguleg skáldsaga um Sigríði í Brattholti sem barðist gegn virkjun Gullfoss í byrjun 20. aldar. Ljósmóðirin, kom út árið 2012 og var hún m.a. tilnefnd til Fjöruverðlauna. Auk þess hefur Eyrún ritað barnabók, ævisögu og bækur sagnfræðilegs eðlis. Síðustu ár hefur Eyrún verið vinsæll fyrirlesari og m.a. haldið erindi um sögusvið Ljósmóðurinnar sem er heimildaskáldsaga sem gerist á Eyrarbakka. Einnig hefur hún farið með hópa í sögugöngur í Reykjavík, á slóðir fimm fyrstu kvennanna sem sátu á Alþingi ásamt Margréti Sveinbjörnsdóttur menningarmiðlara hjá Brúarsmiðjunni, og haldið erindi um þær hjá ýmsum félagasamtökum. Eyrún hefur mikla frásagnargáfu og miðlar því fróðleik um þjóðfélag og daglegt líf fólks í þeim löndum sem hún heimsækir á skemmtilegan hátt.
Áreiðanleg og úrræðagóð.
Á gott með að kynnast fólki, hefur létta lund.
Vel undirbúin og sýnir verkefninu mikinn áhuga.
Fróð um land og sögu.
Hress, skemmtileg, hugulsöm og hjálpleg.