Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.
Upphaflega kom ég inn í heim ferðamálanna í fylgd Agnars Guðnasonar, en hann hóf rekstur Bændaferða fyrir 40 árum. Ég öðlaðist mikla og dýrmæta reynslu í samstarfi við Agnar í öll þessi ár. Það er orðið annar tugur ára sem ég hef unnið við fararstjórn og ferðamál með Bændaferðum. Svo kom að því að Bændaferðir fóru að vera með ferðir til Mið-Evrópu og tók ég að mér fararstjórn í þeim ferðum ásamt því að taka þátt í skipulagningu á ferðunum. Á þessum fyrstu árum voru þátttakendur nær eingöngu fólk úr sveitum landsins og voru margir að fara sínar fyrstu ferðir til útlanda sem var mjög ánægjulegt að fá að upplifa og taka þátt í.
Í starfinu hef ég kynnst fjölmörgu, mjög skemmtilegu og fróðleiksfúsu fólki og eignast marga góða vini sem ég mun ekki gleyma. Þetta á bæði við um gestina og þann stóra hóp erlendra samstarfsmanna sem standa að baki ferðanna. Ég hef notið þess í ríkum mæli að fá að kynnast mörgum þjóðum, fögrum löndum og lenda í alls kyns skemmtilegum ævintýrum með gestum mínum.
"Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á vit ævintýra og gleðistunda með Bændaferðum"
Hægt er að hafa samband beint við Hófý hvort sem er með því að senda tölvupóst eða hringja. Uppgefinn sími er vinnusíminn hennar heima í Þýskalandi, sem þýðir að ekki er hægt að ná í hana í þetta númer ef hún er í ferð.
Netfang Hófýjar er: hofy@baendaferdir.is. Sími: 570-2797 eða 0049 992 19 60 44 10
Vísur frá farþegum:
Hófý mín nú þakka ber
þessi góðu kynni
við biðjum Guð að gefa þér
gæfu í framtíðinni
Norbert hefur nó að gera
að ná í bjór í mannskapinn
allar töskur út að bera
og að koma hópnum inn
Lag: Úr fimmtíu senta glasinu (Bændaferð 21. apríl – 1. maí 2005)
Í Bændaferð við fórum glöð og Frankfurt lentum í
Það fannst okkur nú æðislega gaman.
Á vellinum hún beið okkar, blessunin hún Hófý
og bræddi hjörtu okkar allra saman.
Í Ulm við gistum eina nótt þar enginn var með sút
árla lögðum upp á næsta degi,
Bílstjórinn með flautuna hann blístraði okkur út
og brátt við vorum Brennenskarðs á vegi.
Að Gardavatni komum síðan, kvöldið var svo gott
kjúklinga og lasagna við snæddum.
Boggi dró út vinninga og Hófý var svo flott.
Þau hreinlega úr okkur ísinn bræddu.
Í siglingu við seinna fórum Sítrónubæ í
og sáum hvernig hillur bændur byggja.
Gamli hrútur beið okkar á bryggjunni af því
að bílstjóri nú vildi fara að liggja.
Til Feneyja við fórum snemma fólkið var svo spennt
að fá að líta þessi miklu undur.
Ansi var það margt sem Hófý á okkur gat bent.
Við eltum hana eins og gamall hundur.
Í Veróna við sátum saman hringleikahúsi í
og hugsuðum um afrek dauðra þræla.
En sólin var ei lengur byrgð á bak við bláhvít ský
Hún bakaði okkar andlit, skalla og hæla.
Nú kveðjum Seefield sátt í huga södd og glöð og hress
og setjum stefnu heim til landsins ísa.
Við Alpafjöllin segjum bara, sæl verið og bless
seinna kannski kemur önnur vísa.