Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði.
Eftir stúdentspróf frá Verzlunarskólanum og leikarapróf frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins fluttist hún ásamt manni sínum og syni til Þýskalands, þar sem þau dvöldu í tæpan áratug við nám og störf. Við háskólann í Köln lagði Sigrún stund á leikhúsfræði og þjóðháttafræði.
Eftir heimkomuna hefur hún einkum starfað sem leikstjóri og sett upp yfir 50 leikrit en einnig komið að leiklistar- og menningarmálum sem framkvæmdastjóri, kynningarstjóri, þáttastjórnandi, rithöfundur, þýðandi og kennari. Í rúma tvo áratugi hefur hún eytt sumrum í óbyggðum sem fararstjóri þýskra og íslenskra gönguhópa, ýmist á Hornströndum eða á Arnarvatnsheiði. Hún hefur einnig farið fyrir sögugöngum Ferðafélags Íslands á slóðum Íslendingasagna í öllum landshlutum. Undanfarin ár hefur hún kennt verðandi gönguleiðsögumönnum í Leiðsöguskóla Íslands.
Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki, Suður-Tíról og Færeyjar.