Hjólað í Varsjá & Kraká

Í þessari ferð verður hjólað um einstaklega spennandi borgir og landsvæði í Póllandi. Við hefjum ferðina í Varsjá og þar njótum við þess að hjóla um grænu svæðin, í fallega Łazienki Królewskie garðinum og meðfram ánni Vistlu. Við höldum einnig út í sveitirnar í Masoviu og hjólum um forna stíga í Kampinos skógi. Boðið verður upp á áhugaverða ferð til bæjarins Oswiecim en þar voru stærstu fanga- og útrýmingabúðir nasista, Auschwitz, og á þeim tíma var það einnig þýskt nafn bæjarins. Einnig verður dvalið í borginni Kraká sem er ein elsta og mikilvægasta borg Póllands en í kring um hana eru mörg falleg landssvæði og tilkomumikil fjallasýn. Við hjólum um borgina en eitt sinn var um hana mikill virkisveggur og þar stendur enn Flórian hliðið. Við sjáum einnig merkar byggingar eins og Wawel kastala sem hefur verið bústaður valdamanna í Póllandi um aldir og allt fram á okkar daga. Við förum í hinn yndislega Ojcowski þjóðgarð en þar er umhverfið myndað úr fallegum kalksteini og sjá má gróðursæla dali og gil. Förum um Arnarhreiðursslóðina og komum við í bænum Kalwaria Zebrzydowska, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, en í honum má sjá skemmtilegt samspil trúar, menningar, náttúru og byggingalistar. Við sjáum hefðbundin timburhús heimamanna í skemmtilega bænum Lanckorona og komum við hjá munkunum í klaustri Benediktína í Tyniec en þeir hafa um aldir framleitt ýmsar nytjavörur. Á heimferðardegi verður haldið í Wieliczka saltnámurnar sem eru þær elstu og þekktustu í heimi og jafnframt einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Í þessari ógleymandlegu hjólaferð förum við um fallegar borgir sem eru iðandi af mannlífi og ríkar af sögu og menningu. Við njótum náttúrunnar í kring með fallegri fjallasýn, grónum engjum og gróskumiklum skógum.

Verð á mann í tvíbýli 469.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 55.000 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallaskattar.
  • Ferðir til og frá flugvelli í Varsjá.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hótelum.
  • Morgunverðarhlaðborð.
  • 2 kvöldverðir og 5 hádegisverðir.
  • Leiga á trekking hjóli.
  • Hjólaprógramm í 5 daga.
  • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt hjólaprógrammi.
  • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Leiga á rafhjóli 10.600 kr.
  • Aðgangur í Saltnámurnar 15.400 kr.
  • Aðgangur í Auschwitz 9.600 kr.
  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir og kvöldverðir sem eru ekki nefndir undir innifalið.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 16-60 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum

13. júní | Flug til Varsjá

Flogið verður með Play til Varsjá. Brottför frá Keflavík kl. 14:50, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Varsjá kl. 20:50 að staðartíma. Farið beint á hótel í miðborg Varsjá þar sem gist verður þrjár nætur. Hér bíður okkar síðbúinn léttur kvöldverður.

14. júní | Hjólað í Varsjá

Eftir góðan morgunverð hittum við staðarleiðsögumannin okkar sem mun hjóla með okkur um borgina. Grænu svæðin í Varsjá meðfram ánni Vislu eða Vistula eru hér í aðalhlutverki, en hún er stærsta á Póllands og rennur bæði í gegnum Varsjá og Kraká. Hin konunglega leið, Royal Route, er breiðstræti í Varsjá sem er nafntogað fyrir merkar byggingar og sendiráð. Við hjólum eftir hjólastíg í Łazienki Królewskie almenningsgarðinum en á þeirri leið eru margar merkar og fallegar byggingar. Við komum einnig í gamla bæinn sem er elsti hluti borgarinnar frá 13. öld. Í gamla miðbænum var gífurleg eyðilegging í hildarleik seinni heimstyrjaldarinnar en enduruppbygging þess var hreint ótrúleg og kom hverfinu á heimsminjaskrá UNESCO. Við skoðum einnig nýja bæinn en sögu hans má rekja allt aftur til 15. aldar. Við njótum fegurðar Vistula en nokkra kílómetra meðfram ánni hefur verið skipulagt skemmtilegt svæði sem er vinsælt til göngu, hjólreiða og skemmtunar. Þar förum við um og skoðum mannlífið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 16 km (gengið þar sem ekki er hægt að fara um á hjólum)
  • Hækkun/lækkun: óveruleg
  • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

15. júní | Masovia

Í dag höldum við á slóðir pólska tónskáldsins Frederic Chopin sem fæddur er í þorpinu Żelazowa Wola en það tilheyrir sama héraði og Varsjá, Masovia. Við höldum út í sveitirnar í kring um borgina og komum að Sanniki höllinni sem var byggð á 18. öld. Þar eru fallegir garðar og stór landareign sem gaman er að fara um. Við eigum einnig leið framhjá fæðingarstað Chopin en húsið sem hann fæddist í hefur verið gert að safni og þar er fallegur almenningsgarður. Nær Varsjá er Kampinos skógur sem er á heimsminjaskrá UNESCO en þar er gróðursælt og fjölbreytt dýralíf. Skógurinn gegnir mikilvægu hlutverki í líffræðilegu jafnvægi svæðisins og þar er hægt að finna fágætar plöntur og dýr. Það eru fjölmargar mannvistarleyfar í skóginum sem benda til þess að fólk hafi ferðast og hafist þar við í þúsundir ára og þar eru aldagamlir stígar. Við hjólum um þessa fallegu stíga og endum ferðina okkar á því að setjast niður við varðeld í skóginum og njóta líðandi stundar.

  • Vegalengd: u.þ.b. 60 km
  • Hækkun/lækkun: óveruleg
  • Erfiðleikastig: létt

16. júní | Kraká

Að loknum morgunverði kveðjum við Varsjá og stefnum í suður til borgarinnar Kraká. Hún er ein elsta og mikilvægasta borg Póllands og var höfuðborg landsins fram á 16. öld. Á leiðinni verður boðið upp á mjög áhugaverða ferð til bæjarins Oswiecim sem er staðsettur 60 km vestur af Kraká. Þar voru stærstu fanga- og útrýmingabúðir nasista, Auschwitz, og á þeim tíma var það einnig þýskt nafn bæjarins. Fangabúðirnar samanstóðu af þremur aðalbúðum og rúmlega 40 aukabúðum. Hér voru um 1,3 milljónir manna líflátnir og af þeim voru 85% gyðingar. Þegar þessari heimsókn lýkur er ekið á hótel í Kraká. Þar má finna skemmtilega blöndu náttúru, sögu, menningar og nútímans. Hér er líflegt andrúmsloft, mikið listamannalíf, fallegur arkitektúr og matarmenning sem gera borgina einstaka og eina af mest heillandi borgum Evrópu. Gist er á hóteli miðsvæðis næstu fjórar nætur.

17. júní | Hjólað og gengið um Kraká & nágrenni

Í dag hjólum við um borgina og síðan meðfram Vistula ánni að Niepolomice skóginum sem er fyrrum veiðilenda konunga Póllands. Skógurinn er einn sá best varðveitti af skógum á láglendi, þar er mikil fjölbreytni í dýralífi og mörg stór og falleg tré sem hafa staðið þar í yfir 200 ár, eikur, furutré og beyki. Við fræðumst um sögu konunga og annarra merkra persóna á leið okkar í gegnum skóginn. Við heyrum líka sögur frá seinni heimsstyrjöld en Kraká var mistöð andspyrnu í Póllandi og hér var verksmiðja Oskar Schindler sem bjargaði yfir 1000 mannslífum með því að ráða til sín gyðinga í vinnu. Verksmiðjan er í dag safn þar sem hægt er fræðast nánar um þessa merkilegu sögu. Við snúum aftur til borgarinnar og ferðumst áfram fótgangandi um gamla bæinn í Kraká. Þar er margt merkilegt að sjá, til dæmis leyfar af virkisvegg borgarinnar og Flórian hliðið sem var eitt sinn aðalhlið borgarinnar. Hér er einnig elsta markaðtorg frá miðöldum, Rynek Główny, en þar um kring má sjá fallegar byggingar eins og Basiliku heilagrar Maríu. Við sjáum einnig merkar byggingar sem tengjast kalþólskri trú Pólverja, Erkibiskupahöllina, þar sem Jóhannes Páll páfi II bjó á sínum tíma og kirkju sankti Péturs og Páls. Við endum ferð okkar við Wawel hæð þar sem Wawel kastali og dómkirkjan standa. Hér var bústaður pólskra konunga í yfir 500 ár en rekja má sögu kastalans allt aftur til 11. aldar þegar hann var einungis viðarvirki. Í dag hýsir hann helstu menningarstofnanir Póllands. Í dómkirkjunni hvíla helstu leiðtogar landsins og hún er ein mikilvægasta trúarbygging Pólverja.

  • Vegalengd: u.þ.b. 30 km
  • Hækkun/lækkun: óveruleg
  • Erfiðleikastig: létt

18. júní | Ojcowski þjóðgarðurinn

Í dag liggur leið okkar í Ojcowski þjóðgarðinn sem þekktur er fyrir fallegar kalksteinsmyndanir, fagra dali og djúp gil en hann þykir einn fallegasti staður Suður-Póllands. Hér halda til yfir 500 tegundir af fiðrildum, margar leðurblökutegundir og plöntulífið er einstakt. Við förum um Arnarhreiðursslóðina, Szlak Orlich Gniazd, en á henni voru eitt sinn margir kastalar og turnar reistir til þess að verja syðri landamæri Póllands gegn innrásum. Slóðin liggur í gegnum þjóðgarðinn og hér er margt skemmtilegt að sjá. Við komum í fallega þorpið Ojcow sem á sér ríka sögu, meðal annars sem aðsetur konunga. Við skoðum einn af kalksteinahellunum og setjumst síðan til hádegisverðar á veitingastað þar sem borinn verður fram ljúffengur silungur ræktaður í þjóðgarðinum. Við sjáum einnig Pieskowa Skała kastalann sem stendur uppi á háum kalksteini og þykir einn fallegasti kastali landsins en við byggingu hans spratt upp skemmtileg þjóðsaga um aðkomu djöfulsins að byggingunni.

  • Vegalengd: u.þ.b. 40 km
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 110m/320 m
  • Erfiðleikastig: létt

19. júní | Kalwaria Zebrzydowska, Lanckorona & Tyniec

Í dag förum við inn í mest krefjandi hjóladaginn þar sem við hjólum minna á sléttlendi og meira upp og niður en þá hjálpa rafhjólin. Við hefjum ferðina í bænum Kalwaria Zebrzydowska sem er á heimsminjaskrá UNESCO fyrir menningarlegt og trúarlegt gildi sitt og samhljóm byggingarlistar og náttúru. Hér er hverfi sem kallast Pólska Jerúsalem en þar finnast 42 litlar, fallegar kapellur á hæð sem er þakin ávaxtatrjám. Við hjólum stíga frá Kalwaria Zebrzydowska til Lanckorona sem er fallegur 14. aldar bær frægur fyrir lagleg og vel viðhaldin timburhús frá 19. öld en þau eru einkennandi fyrir tímann þegar Pólland var undir veldi Austurríkis. Í hjarta bæjarins er gamla markaðstorgið sem hefur haldist að mestu óbreytt í gegnum aldirnar og í grónum hæðunum fyrir ofan bæinn sjáum við rústir kastala. Næsta stopp verður í klaustri Benediktsreglunar í Tyniec en það var stofnað á 11. öld og er eitt elsta klaustur í Póllandi. Það er staðsett á klettóttri hæð með útsýni yfir Vistula ánna. Munkarnir sem búa þar í dag halda í gamlar hefðir og framleiða ýmsar nytjavörur eins og hunang, sultur, reykt kjöt, vín og snyrtivörur.

  • Vegalengd: u.þ.b. 55 km
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 365 m/485 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungs

20. júní | Saltnámurnar & heimferð

Nú er komið að því að kveðja Pólland eftir ljúfa daga. Ekin verður fögur leið frá Kraká að Wieliczka saltnámunum sem eru þær elstu og þekktustu í heimi og hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1978. Þetta er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og yfir milljón ferðamanna frá öllum heimshornum skoða saltnámurnar ár hvert. Þær hafa mikla, sögulega þýðingu fyrir landsmenn en í aldaraðir hefur verið unnið þar salt. Farið verður í mjög áhugaverða skoðunarferð um námurnar. Því næst verður haldið áfram á flugvöllinn í Varsjá en brottför þaðan er kl. 22:00 og lending í Keflavík kl. 00:15 að staðartíma. 


Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Gist verður í þrjár nætur á Mercure Warszawa Centrum, hótelið er staðsett í miðborg Varsjár. Herbergin eru öll með baði/sturtu, sjónvarpi og loftkælingu. 

Gist verður á hótelinu INX Design, hótelið er staðsett nálægt gamla bænum í Kraká. Herbergin eru með baði/sturtu, hárþurrku og sjónvarpi.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti