13. - 20. júní 2025 (8 dagar)
Í þessari ferð verður hjólað um einstaklega spennandi borgir og landsvæði í Póllandi. Við hefjum ferðina í Varsjá og þar njótum við þess að hjóla um grænu svæðin, í fallega Łazienki Królewskie garðinum og meðfram ánni Vistlu. Við höldum einnig út í sveitirnar í Masoviu og hjólum um forna stíga í Kampinos skógi. Boðið verður upp á áhugaverða ferð til bæjarins Oswiecim en þar voru stærstu fanga- og útrýmingabúðir nasista, Auschwitz, og á þeim tíma var það einnig þýskt nafn bæjarins. Einnig verður dvalið í borginni Kraká sem er ein elsta og mikilvægasta borg Póllands en í kring um hana eru mörg falleg landssvæði og tilkomumikil fjallasýn. Við hjólum um borgina en eitt sinn var um hana mikill virkisveggur og þar stendur enn Flórian hliðið. Við sjáum einnig merkar byggingar eins og Wawel kastala sem hefur verið bústaður valdamanna í Póllandi um aldir og allt fram á okkar daga. Við förum í hinn yndislega Ojcowski þjóðgarð en þar er umhverfið myndað úr fallegum kalksteini og sjá má gróðursæla dali og gil. Förum um Arnarhreiðursslóðina og komum við í bænum Kalwaria Zebrzydowska, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, en í honum má sjá skemmtilegt samspil trúar, menningar, náttúru og byggingalistar. Við sjáum hefðbundin timburhús heimamanna í skemmtilega bænum Lanckorona og komum við hjá munkunum í klaustri Benediktína í Tyniec en þeir hafa um aldir framleitt ýmsar nytjavörur. Á heimferðardegi verður haldið í Wieliczka saltnámurnar sem eru þær elstu og þekktustu í heimi og jafnframt einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Í þessari ógleymandlegu hjólaferð förum við um fallegar borgir sem eru iðandi af mannlífi og ríkar af sögu og menningu. Við njótum náttúrunnar í kring með fallegri fjallasýn, grónum engjum og gróskumiklum skógum.