Svigskíðaferð til Schladming
1. - 8. febrúar 2025 (8 dagar)
Hinn fallegi bær Schladming er oft nefndur skíðahöfuðstaður svæðisins Steiermark í Austurríki og stendur í Ennstal dalnum. Bærinn sem liggur í 745 m hæð á sér langa sögu og tilheyrir hann einu stærsta skíðasvæði Austurríkis með aðgengi að 125 km löngum skíðabrekkum á öllum erfiðleikastigum. Á þessu vandaða og fjölbreytta skíðasvæði ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Umhverfið er stórkostlegt, náttúrufegurð Ennstal dalsins og Alpafjöllin allt um kring og heillandi útsýni að Dachstein fjöllunum. Gist er á vel staðsettu 4* hóteli í Schladming þar sem morgunverðarhlaðborð og kvöldverður með mismunandi valmatseðli á hverju kvöldi er innifalið. Skíðalyftur eru staðsettar rétt hjá hótelinu og mikill kostur að geta farið beint í skíðalyfturnar á morgnana. Flogið er með Icelandair til Salzburg og ekið sem leið liggur á hótelið í Schladming. Fararstjóri er með hópnum alla ferðina og gistir á sama hóteli.