18. - 23. júní 2025 (6 dagar)
Hér er á ferðinni dásamleg ferð til Barcelona, höfuðborgar Katalóníu, sem er að margra mati með fegurstu borgum álfunnar og á sama tíma ein öflugasta og mest skapandi stórborg Evrópu. Við kynnumst töfrandi sögu, menningu, listum og hefðum borgarinnar sem er þekkt fyrir stórkostlegar byggingar arkitektsins Antonío Gaudí en glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Barcelona er forn og saga hennar er merkileg en fegurð borgarinnar og gestrisni íbúanna gera dvölina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell en þessi verk Gaudí eru öll komin á heimsminjaskrá UNESCO. Skemmtileg blanda af strönd og stórborg er vissulega einn af þeim þáttum sem gerir Barcelona ómótstæðilega. Í litla, fyrrum fiskihverfinu La Barceloneta getur þú notið Miðjarðarhafsbrags í miðri stórborg með gylltri baðströnd. Við förum í skemmtilega göngu um elsta hluta Barcelona og um Gotneska hverfið. Við upplifum einnig Güell garðinn en arkitektúr Gaudí og náttúran sameinast hér á hrífandi hátt og gera garðinn að óviðjafnanlegu meistaraverki. La Sagrada Familia kirkjan er annað af meistaraverkum borgarinnar og við ætlum að skoða hana að utan. Við njótum og dásömum borgina á keyrslu og á siglingu, borðum tapas og drekkum sangríu, snæðum katalónískan kvöldverð og upplifum dásemdir Barcelona í þessari skemmtilegu ferð.