Heimsborgin Barcelona

Hér er á ferðinni dásamleg ferð til Barcelona, höfuðborgar Katalóníu, sem er að margra mati með fegurstu borgum álfunnar og á sama tíma ein öflugasta og mest skapandi stórborg Evrópu. Við kynnumst töfrandi sögu, menningu, listum og hefðum borgarinnar sem er þekkt fyrir stórkostlegar byggingar arkitektsins Antonío Gaudí en glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Barcelona er forn og saga hennar er merkileg en fegurð borgarinnar og gestrisni íbúanna gera dvölina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell en þessi verk Gaudí eru öll komin á heimsminjaskrá UNESCO. Skemmtileg blanda af strönd og stórborg er vissulega einn af þeim þáttum sem gerir Barcelona ómótstæðilega. Í litla, fyrrum fiskihverfinu La Barceloneta getur þú notið Miðjarðarhafsbrags í miðri stórborg með gylltri baðströnd. Við förum í skemmtilega göngu um elsta hluta Barcelona og um Gotneska hverfið. Við upplifum einnig Güell garðinn en arkitektúr Gaudí og náttúran sameinast hér á hrífandi hátt og gera garðinn að óviðjafnanlegu meistaraverki. La Sagrada Familia kirkjan er annað af meistaraverkum borgarinnar og við ætlum að skoða hana að utan. Við njótum og dásömum borgina á keyrslu og á siglingu, borðum tapas og drekkum sangríu, snæðum katalónískan kvöldverð og upplifum dásemdir Barcelona í þessari skemmtilegu ferð. 

Verð á mann 319.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 75.700 kr.


Innifalið

  • 6 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hóteli.
  • Tveir kvöldverðir á hóteli.
  • Einn hádegisverður, tapas & sangría.
  • Einn katalónískur kvöldverður með tónlist.
  • Aðgangseyrir í Güell garðinn.
  • Bátsferð á seglskútu með einum drykk og léttu snarli.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur. 
  • Hádegis- og kvöldverðir aðrir en undir innifalið. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

18. júní | Flug til heimsborgarinnar Barcelona

Brottför frá Keflavík kl. 8:25. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Barcelona kl. 14:40 að staðartíma. Haldið er á hótel í Eixample hverfinu í Barcelona þar sem gist verður í fimm nætur. Hótelið er vel staðsett í um 300 metra fjarlægð frá Boulevard Passeig de Gracia strætinu þar sem finna má frægar byggingar eftir sjálfan Gaudí og fínar verslanir. Einnig er Plaza Catalunya og La Rambla í u.þ.b. 10 mínútna göngufæri. Á hótelinu er þaksundlaug með sólarverönd og bar. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

19. júní | Gönguferð um Barcelona með tapas & sangríu ívafi

Barcelona, höfuðborg Katalóníu, er að margra mati með fegurstu borgum álfunnar. Hún er þekkt fyrir byggingar arkitektsins Gaudí og glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Barcelona er forn og saga hennar merkileg en fegurð borgarinnar og gestrisni íbúanna gera dvölina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia eftir Gaudí og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell en þessi verk Gaudí eru öll komin á heimsminjaskrá UNESCO. Við förum í skemmtilega gönguferð um borgina og Gotneska hverfið þar sem m.a. má sjá kirkjuna við hafið sem margir þekkja úr bók Ildefonso Falcones. Við endum þessa ljúfu skoðunarferð í hádeginu á einum skemmtilegasta tapasbar borgarinnar þar sem við njótum tapasrétta & sangríu á spænskan máta. Eftir góða samverustund er frjáls tími á eigin vegum til að njóta þess að vera í þessari skemmtilegu borg. Kvöldverður á eigin vegum.

20. júní | Dýrðardagur í Barcelona á eigin vegum

Nú er komið að því að njóta á eigin vegum í þessari yndislegu borg. Upplagt er að vera búin að skoða svolítið fyrir ferð hvað er í boði í borginni. Það er hægt að að bóka sig fyrirfram á vefnum inn í kirkjuna La Sagrada, húsin Casa Battló og Casa Milá (La Pedrera) eftir meistarann og arkitektinn Gaudí en það er mikil upplifun að koma inn í þessar byggingar. Sama má segja um mörg önnur áhugaverð söfn borgarinnar m.a. Picasso safnið. Einnig eru mörg falleg og skemmtileg torg í borginni, m.a. konungstorgið Place Reia en þar er gaman að sitja á kaffi- eða veitingahúsi og upplifa mannlífið sem er ansi litskrúðugt og skemmtilegt. Það er líka töfrandi að villast aðeins um í þröngum, kræklóttum götum borgarinnar og líta inn í litlu búðirnar sem eru mjög skemmtilegar og bjóða upp á öðruvísi vörur. Hér er mjög fallegt handverk, meðal annars föt, skór, leirmunir og kerti svo eitthvað sé nefnt. Gamli bærinn er einnig frægur fyrir skemmtilega tapasstaði, veitingastaði, bakarí og bari. Kvöldverður á eigin vegum.

Opna allt

21. júní | Güell garður, La Sagrada Familia, bátsferð & katalónískur kvöldverður

Þessi dagur hefst á skoðunarferð með rútu og síðan er stefnan tekin á Güell garðinn þar sem vinur Antoni Gaudí, iðnjöfnuðurinn Eusebi Güelli, fékk meistarann til að hanna fyrir sig hverfi. Garðurinn er sannkölluð paradís, hér er auðvelt að dást að því sem fyrir augu ber og láta sig dreyma. Arkitektúr Gaudí og náttúran sameinast hér á hrífandi hátt og gera garðinn að óviðjafnanlegu meistaraverki. Þaðan er einnig glæsilegt útsýni yfir borgina. Nú verður ekið að La Sagrada Familia kirkjunni sem við ætlum að skoða að utan en hún er eitt af stærstu meistaraverkum Gaudí. Árið 2005 bætti UNESCO svokallaðri fæðingarhlið kirkjunnar á heimsminjaskránna en þar er þemað fæðing Jesú. Þessi hlið var sú fyrsta sem var kláruð og sú sem Gaudi sjálfur hafið umsjón með á meðan hann lifði og þar sjást vel hans listrænu einkenni. Eftir þetta verður farið í skemmtilega siglingu með strönd Barcelona. Sameiginlegur katalónískur kvöldverður.

22. júní | Ljúfur dagur í Barcelona á eigin vegum

Skemmtileg blanda af strönd og stórborg er vissulega einn af þeim þáttum sem gerir Barcelona ómótstæðilega. Í litla, fyrrum fiskihverfinu La Barceloneta getum við notið Miðjarðarhafsbrags í miðri stórborg með skemmtilegum og góðum sjávarréttaveitingastöðum og fengið okkur sundsprett í Miðjarðarhafinu. Einnig er upplagt að fara í göngu á La Rambla og fara inn í La Boquería markaðshöllinam, en þar er hægt að smakka á hinu ýmsa góðgæti. Gamla hafnarsvæðið er mjög skemmtilegt en það tekur við þar sem La Rambla endar. Hér við syðri enda La Rambla og höfnina stendur minnisvarði af Kólumbus með skipið St.Maríu við fætur sér á hárri súlu. Við höfnina er stærðar verslunarhús, eitt stærsta sjávardýrasafn Evrópu og skemmtileg kaffi- og veitingahús. Einnig er hér kláfur sem fer upp á Montjuïc hæðina en þaðan er frábært útsýni. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

23. júní | Heimflug frá Barcelona

Nú er komið að því að kveðja eftir yndislega daga og ljúfar samverustundir. Áður en ekið verður út á flugvöll í Barcelona ökum við upp á Montjuïc fjallið sem er 173 m hátt. Það hýsti bæði heimssýninguna 1929 og var miðpuntkur Sumarólympíuleikanna 1992. Montjuïc á sér einnig merkilega sögu í kring um akstursíþóttir, meðal annars Formúlu 1. Ein af brautum hennar lá hring um Montjuïc en sú leið þótti bæði falleg og hættuleg í senn. Brottför frá flugvelli kl. 15:45 og lent í Keflavík kl. 18:20 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

18. - 23. júní = Barcelona = Hotel Catalunia Eixample 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti