Grikklandstöfrar - hinn fagri Pelópsskagi
23. maí - 3. júní 2025 (12 dagar)
Í þessari mögnuðu ferð munum við kynnast einstöku samspili náttúru og sögu Grikklands. Grikkir eru hjálpsamir, hlýir og ljúfir heim að sækja enda er þeirra einkunnarorð Philoxenia: að vera vinur ókunnugra. Pelópskaginn er þekktur fyrir mikla náttúrufegurð, heillandi landslag og merkilega sögu. Þar eru tilkomumiklir fjallgarðar sem kallast á við ströndina sem er klettótt austanmegin en með langar sandstrendur vestan megin. Loftslagið er milt og hafgolan leikur meðfram ströndinni. Á skaganum má finna heillandi strandbæi, miðaldaborgir, kastalavirki og fornar leifar borgríkja. Ferðin okkar hefst í Aþenu en þar förum við í stutta skoðunarferð um helstu kennileiti eins og Hof Seifs og Akrópólíshæð. Við höldum síðan á Pelópsskagann, skoðum Kórintu skipaskurðinn og lítum stærsta útileikhús grískrar sögu í Epidárus. Við dveljum í einum fallegasta og rómantískasta bæ Grikklands, Nafplion. Þaðan liggur leið okkar til eyjunnar Hydru sem þykir með þeim fegurri á Grikklandi. Hingað er einstakt að koma þar sem engin vélknúin ökutæki eru leyfð, ferðast er um á ösnum eða bátum. Við komum á slóðir Spartverja til forna sem þóttu eitt mesta hernaðarveldi síns tíma. Í hlíðunum fyrir ofan Spörtu kynnumst við miðaldaborginni Mystra en hún var yfirgefin á 19. öld og er í dag eins og lifandi safn þar sem finna má minjar um gullöld Býsansmanna. Limni Geraka er það sem kalla mætti eina fjörðinn á Grikklandi en hann er í raun náttúrulegt lón og þar er mikil friðsæld og náttúrufegurð. Við skoðum virkisborgina Monemvasia en hún er byggð inn í klettadranga sem er aðgengilegur frá landi um mjótt sandrif við austurströnd Pelópsskagans. Við ferðumst áfram til strandbæjarins Gythion, sem eitt sinn var mikilvæg höfn Spartverja, og kynnumst hellunum í Dirou sem þykja með þeim fallegustu í heimi. Við dveljum í strandbænum Kalamata og förum þaðan til Ólympíu sem er eitt mikilvægasta svæði fornleifauppgraftar á Grikklandi. Eftir náðuga daga í Kalamata höldum við aftur til Aþenu með viðkomu í vínræktarhéraðinu Nemea. Í þessari ferð koma saman tærblár sjór Lígúríuhafs, vogskornar strendur, dásamlegir útsýnisstaðir, heillandi fornminjar, töfrandi þorp og litskrúðugt mannlíf í mikilfenglegu umhverfi.