Grikklandstöfrar - hinn fagri Pelópsskagi

Í þessari mögnuðu ferð munum við kynnast einstöku samspili náttúru og sögu Grikklands. Grikkir eru hjálpsamir, hlýir og ljúfir heim að sækja enda er þeirra einkunnarorð Philoxenia: að vera vinur ókunnugra. Pelópskaginn er þekktur fyrir mikla náttúrufegurð, heillandi landslag og merkilega sögu. Þar eru tilkomumiklir fjallgarðar sem kallast á við ströndina sem er klettótt austanmegin en með langar sandstrendur vestan megin. Loftslagið er milt og hafgolan leikur meðfram ströndinni. Á skaganum má finna heillandi strandbæi, miðaldaborgir, kastalavirki og fornar leifar borgríkja. Ferðin okkar hefst í Aþenu en þar förum við í stutta skoðunarferð um helstu kennileiti eins og Hof Seifs og Akrópólíshæð. Við höldum síðan á Pelópsskagann, skoðum Kórintu skipaskurðinn og lítum stærsta útileikhús grískrar sögu í Epidárus. Við dveljum í einum fallegasta og rómantískasta bæ Grikklands, Nafplion. Þaðan liggur leið okkar til eyjunnar Hydru sem þykir með þeim fegurri á Grikklandi. Hingað er einstakt að koma þar sem engin vélknúin ökutæki eru leyfð, ferðast er um á ösnum eða bátum. Við komum á slóðir Spartverja til forna sem þóttu eitt mesta hernaðarveldi síns tíma. Í hlíðunum fyrir ofan Spörtu kynnumst við miðaldaborginni Mystra en hún var yfirgefin á 19. öld og er í dag eins og lifandi safn þar sem finna má minjar um gullöld Býsansmanna. Limni Geraka er það sem kalla mætti eina fjörðinn á Grikklandi en hann er í raun náttúrulegt lón og þar er mikil friðsæld og náttúrufegurð. Við skoðum virkisborgina Monemvasia en hún er byggð inn í klettadranga sem er aðgengilegur frá landi um mjótt sandrif við austurströnd Pelópsskagans. Við ferðumst áfram til strandbæjarins Gythion, sem eitt sinn var mikilvæg höfn Spartverja, og kynnumst hellunum í Dirou sem þykja með þeim fallegustu í heimi. Við dveljum í strandbænum Kalamata og förum þaðan til Ólympíu sem er eitt mikilvægasta svæði fornleifauppgraftar á Grikklandi. Eftir náðuga daga í Kalamata höldum við aftur til Aþenu með viðkomu í vínræktarhéraðinu Nemea. Í þessari ferð koma saman tærblár sjór Lígúríuhafs, vogskornar strendur, dásamlegir útsýnisstaðir, heillandi fornminjar, töfrandi þorp og litskrúðugt mannlíf í mikilfenglegu umhverfi.

Verð á mann 679.900 kr.

226.500 kr. aukagjald fyrir einbýli.


Innifalið

  • 12 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Fimm kvöldverðir.
  • Þrír hádegisverðir.
  • Skoðunarferð um Aþenu og Akrópólis með aðgangsmiðum. 
  • Skoðunarferð í Mýkenu og Epídárus með aðgangsmiðum. 
  • Skoðunarferð í Mystras með aðgangsmiðum.
  • Sigling til Hydru. 
  • Bátsferð í dropasteinshella í Dirou með aðgangsmiðum. 
  • Skoðunarferð í Ólympíu með aðgangsmiðum. 
  • Vínsmökkun í Nemea. 
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Hádegis- og kvöldverðir fyrir utan þá sem eru innifaldir. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

23. maí | Flug til Aþenu

Brottför frá Keflavík kl. 07.00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. og lending í Aþenu kl. 15.50 að staðartíma. Við ökum inn til Aþenu þar sem við dveljum á hóteli í miðbænum í tvær nætur. Í eftirmiðdaginn fer fararstjóri með hópinn í stuttan göngutúr að hefðbundnum veitingastað í Plakahverfinu þar sem við borðum kvöldverð.

24. maí | Skoðunarferð um Aþenu

Farið verður í skoðunarferð þar sem við sjáum aðaltorg borgarinnar Syntagma, skiptingu varðanna fyrir framan gömlu konungshöllina sem hýsir þinghús Grikkja í dag, háskólabyggingarnar, Ólympíuleikvanginn, eina marmaraleikvanginn í heiminum sem var byggður fyrir fyrstu Ólympíuleika okkar tíma árið 1896. Sjáum einnig hof Seifs og hlið Hadríans. Eftir rútuferðina er gengið upp á Akrópólishæðina þar sem hofin frægu eru skoðuð en af þeim er Meyjarhofið þekktast. Ferðin endar um miðjan daginn með hádegisverði stutt frá hótelinu. Eftirmiðdagur og kvöldið frjálst. Gaman er að koma við í Plaka, elsta hverfi Aþenu sem er eins og eyland inni í miðri borginni með sjarmerandi verslunum, kaffihúsum og veitingastöðum.

25. maí | Pelópsskaginn, Epidárus & Nafplion

Að loknum morgunverði höldum við til Kórinþu þar sem við stöldrum við samnefndan skipaskurð sem grafinn var á síðari hluta 19. aldar. Þaðan höldum við til Epidárus, þar sem gefur að líta stærsta útileikhús Grikklands frá 4. öld f. Krist en leikhúsið státar af besta hljómburði allra fornaldarleikhúsa heimsins. Við stöldrum við í litla laglega bænum Tolo til að fá okkur hádegishressingu. Við höldum síðan áfram til Nafplíon, lítils bæjar frá tímum Feneyjarmanna sem var fyrsta höfuðborg hins frjálsa gríska ríkis eftir frelsisstríðið við Tyrki. Í Nafplion verður dvalið í 2 nætur.

Opna allt

26. maí | Eyjan Hydra

Snemma morguns höldum við af stað í dagssiglingu til Hydru sem er með fallegri eyjum Grikklands og sú frægasta af Sarónísku eyjunum. Gullöld hennar var á 18. og 19. öld þegar hún varð miðstöð siglinga og verslunar en þar bjuggu margir færir skipasmiðir og auðugir kaupmenn sem byggðu upp öflugan flota. Skipstjórarnir efnuðust mjög og voru áberandi í mannlífi eyjunnar en skipstjórafjölskyldurnar tóku mjög virkan þátt í frelsisstríðinu gegn Tyrkjum. Hydra er um margt einstök en sökum þess hve göturnar eru þröngar og bærinn lítill og þéttbyggður eru þar engir bílar eða önnur vélknúin ökutæki, notast er við asna og báta. Um miðja 20. öldina var eyjan vinsælt athvarf listamanna, þar bjó lagahöfundurinn og söngvarinn Leonard Cohen um tíma og eyjan er einnig uppáhalds gríska eyjan hennar Sophiu Loren. Við keyrum fallega leið frá Nafplio til bæjarins Metochi og þaðan er tekinn lítill bátur yfir til eyjunnar. Á Hydru er stoppað í um það bil 4 klukkustundir og síðan er farið aftur í sama bátnum til meginlandsins. Við komum til baka í eftirmiðdaginn og eftir það er frjáls tími í Nafplion.

27. maí | Mystras & Sparta

Eftir morgunverð er haldið áleiðis af stað til virkisbæjarins Monemvasia. Á leiðinni er komið við í miðaldaborginni Mystras sem stendur upp á hæð 620 m fyrir ofan Spörtu. Við skoðum þessa borg sem var reist af Frönkum á 13. öldinni en féll svo í hendur Býsansmanna, Feneyinga og að lokum Tyrkja. Hún er eins og lifandi safn en þar hefur enginn búið síðan á 19. öld. Eftir standa rústir um glæsta tíma þegar borgin var ein sú mikilvægasta á tímum Býsansmanna. Einnig verður tekið stutt stopp í Spörtu, sem var á sínum tíma mikið hernaðarveldi en í dag er hægt að sjá rústir sem vitna um forna frægð borgarinnar og þann metnað sem ríkti við að koma henni og samfélagi Spartverja á fót. Við endum ferð dagsins í Monemvasia en þar sem dvalið verður í tvær nætur. 

28. maí | Limni Geraka fjörðurinn og virkisborgin Monemvasia

Rólegur morgun til að njóta hótelsins og umhverfisins sem er aðlaðandi og yndislegt. Í eftirmiðdaginn er keyrt til eina fjarðarins í Grikklandi sem ber nafnið Limni Geraka. Hann er í raun náttúrulegt lón en lögun hans minnir á fjörð. Við Limni Geraka er mikil náttúrufegurð, tært og kyrrlátt vatn og hlíðar vaxnar ólífulundum. Við tökum stutt kaffistopp til að njóta umhverfisins en keyrum síðan aftur til virkisborgarinnar Monemvasia. Bærinn er byggður inn í klettana á eyjunni og var höfuðvígi Býsansmanna og síðar Feneyinga á svæðinu. Við skoðum þennan fallega virkisbæ sem er eins og hann hafi staðið í stað í yfir 700 ár. Að lokum borðum við kvöldmat á fallegum veitingastað í Monemvasia virkinu.

29. maí | Gythion, hellarnir í Dirou & Kalamata

Í dag er keyrt frá Monemvasia til Kalamata með viðkomu í strandbænum Gythion sem var eitt sitt mikilvæg höfn, meðal annars fyrir Spartverja. Samkvæmt goðsögninni um Helenu fögru og París þá stoppuðu þau í höfninni í Gythion á leið sinni til Trjóu. Þar er kjörið að staldra við fallegu höfnina, rölta þaðan um bæinn eða setjast niður og fá sér kaffisopa. Eftir ljúft stopp í Gythion er haldið áfram til hellanna í Dirou sem eru eitt mesta náttúruundur Grikklands og þykja með þeim fallegustu í heimi. Við skoðum þessa einstöku hella sem eru bæði á landi og í sjó. Frá þeim keyrum við stuttan spöl til þorpsins Areopolis þar sem borinn verður fram hádegismatur. Areopolis er yndislegur lítill bær með hefðbundnum steinhúsum og þröngum steinlögðum götum. Eftir hádegismatinn er haldið áfram til borgarinnar Kalamata þar sem dvalið verður á hóteli við ströndina í fjórar nætur.

30. maí | Stutt skoðunarferð um Kalamata & frjáls tími

Eftir morgunverð fer fararstjóri í stutta gönguferð um borgina og gamla bæinn í Kalamata en eftir það er frjáls tími til að versla, vera við sundlaugina á hótelinu eða til að sleikja sólina og synda í sjónum. 

31. maí | Ólympía

Nú verður farið í dagsferð til Ólympíu þar sem skoðaðar eru fornleifar þessa fræga staðar sem er eitt mikilvægasta svæði fornleifauppgraftar á Grikklandi. Í aldaraðir voru haldnir íþróttaleikar til heiðurs Seifi, konungi guðanna og þarna er margt að sjá meðal annars æfingasvæðið, vinnustofu Fidíasar og hof Seifs. Í hofi Heru er ólympíueldurinn ennþá tendraður fjórða hvert ár fyrir Ólympíuleika okkar tíma og við sjáum einnig leikvanginn sjálfan þar sem leikarnir fóru fram til forna. Frá fornleifunum er gengið að safninu sem hefur að geyma dýrgripi og styttur sem grafnar voru upp á svæðinu. Hádegisverður í þorpinu Ólympíu áður en haldið er til baka til Kalamata.

1. júní | Frjáls dagur í Kalamata

Í Kalamata eru fallegar strendur með tærum sjó og gamli bærinn er skemmtilegur með sínum þröngu götum, sögulegu byggingum, kaffihúsum og mörkuðum þar sem mikið úrval er af vörum ræktuðum í héraði, meðal annars ólífum, ólífuolíu, hunangi og kryddjurtum. Kalamata er höfuðborg ólífanna í Grikklandi. Afbrigðið sem ræktað er í hinu frjósama Messina héraði er talið bera af með sínu magnaða bragði og er flutt út til fjölmargra landa. Hér er einnig úrval veitingastaða sem bera fram þjóðarrétti eins og souvlaki og moussaka.

2. júní | Vínsmökkun í Nemea og Aþena

Eftir morgunverð keyrum við frá Kalamata til Aþenu með viðkomu á vínbúgarði í héraðinu Nemea. Á búgarðinum býður fjölskyldan á staðnum upp á skemmtilega vínsmökkun fyrir þá sem vilja kynnast víni héraðsins en það er vinsælt bæði innan Grikklands og utan. Hér verður einnig borinn fram hádegisverður og síðan er haldið áfram til Aþenu þar sem er dvalið verður í eina nótt á hóteli í miðborginni.

3. júní | Heimferð frá Aþenu

Eftir þessa úrvalsferð er komin tími til að kveðja. Að loknum morgunverði höldum við á flugvöllinn í Aþenu þar sem flogið verður með Play til Íslands kl. 10:20 og lending að staðartíma í Keflavík kl. 13:20. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Guðrún Erla Tómasdóttir

Guðrún Erla bjó á Grikklandi í átta ár. Fyrst í Patra á Pelópsskaganum þar sem hún lærði grísku í eitt ár og svo á Krít þaðan sem hún lauk BA prófi frá Háskólanum í Reþymno í sögu og fornleifafræði. Á Grikklandi kynntist hún manninum sínum og eiga þau þrjú börn. Eftir að hún lauk námi flutti fjölskyldan til Chania á Krít og bjó þar í eitt og hálft ár. Hún hefur starfað sem fararstjóri á Krít og á meginlandi Grikklands. Einnig starfaði hún áður sem flugfreyja hjá Air Atlanta og bjó um tíma í Finnlandi, Danmörku og á Englandi. Eftir að hafa verið staðsett í Aþenu í tvær vikur sem flugfreyja árið 2002 heillaðist hún af landi og þjóð og ákvað að fara þangað í nám. Sumarið 2010 ákvað fjölskyldan að flytja til Íslands. Áhugamál Guðrúnar eru ferðalög, listasaga og fornleifafræði.

 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti