Japan - ríki sólarinnar

Japan er fornfrægt menningarríki þar sem djúpar hefðir, nútímalegar uppfinningar, ótrúleg náttúrufegurð og samhljómur þjóðarinnar sameinast í einstakri blöndu. Kurteisi og tillitsemi eru lykilatriði í japanskri menningu, áherslan er á heildina fram yfir sjálfið og Japanir eru natnir við mannleg samskipti og samvinnu. Við sjáum í þessari ferð hvernig fallegt handbragð er stór hluti af menningunni þar sem nákvæmni, gæði og smáatriði fá að njóta sín. Japanir hafa auga fyrir fegurð, einfaldleika og náttúrunni en árstíðaskiptin eru þeim mikilvæg og þeir halda hátíðir sem fagna því sem er einstakt á hverju tímabili. Við fljúgum til höfuðborgarinnar Tókýó þar sem mætast fortíð og nútíð, allt frá keisarahöll til eins hæsta turns í heimi. Upplifum Omotesando hverfið sem er þekkt fyrir sérstæðan nútímarkitektúr og Asakusa hverfið þar sem finna má Senso-ji hofið sem er eitt það fallegasta í Japan. Við ferðumst einnig til Kamakura en þar sjáum við eina af þjóðargersemum Japans, Búddastyttuna við Kōtoku-in hofið. Við gistum í borginni Oiso í Kanagawa héraði þaðan sem við ferðumst til Hakone háhitasvæðisins við rætur eldfjallsins Fuji. Við sjáum þar einnig hið dásamlega útilistasafn Hakone. Við nýtum okkur þægilegan ferðamáta og tökum háhraðalest til Kyoto sem í dag er sannkölluð höfuðborg menningar í Japan. Þar svífur um andi liðinna alda og þar sjáum við Kiyomizu hofið, Nijo kastala og hið gyllta hof Kinkakuji. Við kynnum okkur hefðbundna teathöfn og Kimono búning innfæddra. Við komum einnig til næststærstu borgar landsins Osaka en þar skoðum við hin ýmsu borgarhverfi sem öll hafa sitt einkenni. Við ferðumst til Nara sem eitt sinn var vagga lista, handverks og bókmennta. Þar sjáum við stærstu fornu trébyggingu heims og dádýragarðinn við Kasuga Taisha helgidóminn. Við komum einnig til eyjunnar Miyajima þar sem helgidómurinn Itsukushima er byggður í flæðarmálinu og eitt þekktasta tori hlið Japans stendur úti fyrir ströndinni. Við förum í áhrifamikila heimsókn til borgarinnar Hiroshima sem hefur verið endurbyggð eftir hræðilega árás í síðari heimsstyrjöldinni og stöldum einnig við í hafnarborginni Kobe. Á ferð okkar um Japan munum við upplifa fјölbreytt mannlíf, iðandi borgir, framandi siði, rétti og menningu, rómantíska austræna fegurð, nútímaleg hátækniundur, fögur hof og náttúru, tehús og fjölbreytilegan varning af ýmsu tagi. 

Verð á mann í tvíbýli 1.075.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 222.200 kr.

 
Innifalið

  • Áætlunarflug með Finnair til Japan: Keflavík – Helsinki – Tokyo. 
  • Áætlunarflug með Finnair frá Japan: Osaka – Helsinki - Keflavík.
  • Flugvallarskattar fyrir alla ferðina.
  • Gisting í 10 nætur í tveggja manna herbergjum á 4* hótelum samkvæmt landsmælikvarða. 
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Fjórir hádegisverðir.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Ferðir með hraðlestum samkvæmt ferðalýsingu.
  • Allar skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu. 
  • Innlend staðarleiðsögn í Japan.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð. 

Ekki innifalið

  • Þær máltíðir sem ekki eru taldar upp í innifalið, drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
  • Þjórfé fyrir erlendan staðarleiðsögumann og rútubílstjóra. 
  • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Hótel

2 nætur - Tokyo Bay Shiomi Prince Hotel

1 nótt - Oiso Prince Hotel

5 nætur - Hotel Granvia Kyoto

1 nótt - Hotel Granvia Hiroshima South Gate

1 nott - ANA Crowne Plaza Hotel Kobe

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

7. apríl | Brottför frá Keflavík – Helsinki - Tókýó

Brottför frá Keflavík kl. 08:45 og lending í Helsinki kl. 15:10 að staðartíma. Þaðan verður flogið til Tókýó í næturflugi, brottför kl. 18:30 og lending í Tókýó kl. 13:50 að staðartíma þann 8. apríl. Næturflugið tekur um það bil 13 klukkustundir.

8. apríl | Lending í Tókýó

Við lendum á Tókýó flugvelli kl 13:50 að staðartíma. Tókýó var eitt sinn lítill fiskibær en er nú ein af stærstu og nútímalegustu borgum veraldar. Hún samanstendur af mörgum smáum borgarhlutum, hver með sitt sérkenni og einstaka andrúmsloft. Við höldum á hótelið okkar og komum okkur fyrir. Fararstjóri mun fara í stutta skoðunarferð um næsta nágrenni með þeim sem það vilja. 

  • Kvöldverður

9. apríl | Tókýó

Eftir morgunverð byrjum við á því að skoða Keisarahallarsvæðið sem er um margt merkilegt og vin í ys og þys stórborgarinnar. Því tilheyrir Kokyo Gaien garðurinn, Nijubashi brúin og núverandi keisarahöll, sem byggð er á grunni Edo kastala. Höllin er umlukin síkjum, veggjum og varðhýsum sem gefa innsýn í þá valdabaráttu sem ríkti á tímum herstjóranna í Japan (sjogún) þegar kastalinn var reistur. Við förum einnig í heimsókn í eitt stærsta og mikilvægasta Shinto-hof Japans, Meiji Jingu, en Shinto eru upprunaleg trúarbrögð Japana þar sem lögð er áhersla á samhljóm við náttúruna. Hofið var fullklárað árið 1920 og er tákn fyrir mikilvægi keisarans í japönsku samfélagi sem stjórnmálalegs og trúarlegs leiðtoga. Það er tileinkað keisaranum Meiji og keisaraynju hans Shoken, sem náðu Japan úr höndum herstjóranna og snéru því til nútímalegri stjórnarhátta. Hofinu tilheyrir um 700.000 fermetra ræktaður skógur og þar má finna yfir 100.000 tré, af 365 tegundum, sem hafa verið gefin af fólki búsettu víðsvegar um Japan og um heiminn allan. Þessu næst skoðum við Omotesando hverfið sem er þekkt fyrir sérstæðan nútímaarkitektúr, úrval fallegra verslana, kaffihúsa, bakaría og veitingastaða. Hér gefst tími til að taka hádegishlé og fá sér hressingu áður en lengra er haldið. Eftir hádegið upplifum við hina gömlu, hefðbundnu Tókýó í borgarhlutanum Asakusa þar sem finna má mörg vel varðveitt tréhús sem stóðu af sér eyðileggingarmátt seinni heimsstyrjaldarinnar. Í hverfinu stendur Senso-ji eða Asakusa Kannon hofið sem er eitt þekktasta og fallegasta hofið í Japan. Við sjáum aðalhliðið, Kaminarimon, og þar fyrir innan tekur við Nakamise gatan sem liggur að innra hliði hofsins. Þar freista litlir sölubásar með skrautgripum og bæði sætu og söltu nasli. Það er til dæmis tilvalið að prófa nýristuð senbei, þekkt japönsk saltkex sem finnast í mörgum mismunandi bragðtegundum. Við skoðum einnig hæsta turn heims, Tokyo Skytree, sem er eitt af kennileitum borgarinnar og í næsta nágrenni við Asakusa hverfið.

  • Morguverður
  • Kvöldverður
Opna allt

10. apríl | Kamakura & Oiso

Í dag er mikilvægt að pakka niður í tösku til einnar nætur, því að farangurinn okkar verður fluttur á undan okkur til Kyoto, en við höfum næturstað í millitíðinni í Oiso. Við höldum í suðurátt til Kamakura sem var aðsetur fyrstu herstjóra Japans á 12. öld. Þar skoðum við Hase-dera hofið sem er ákaflega fallegt og þekkt fyrir blómgaða garða og stóra styttu af Kannon, sem er gyðja í Búddatrú. Við skoðum einnig yfir 13 metra háa styttu af Búdda í Kōtoku-in hofinu sem er ein af þjóðargersemum Japans. Staldrað verður einnig í Komachi-dori verslunargötunni. Þar er úrval verslana, kaffihúsa og veitingastaða og við tökum hér hádegishlé. Fyrir áhugasama mun gefast tími til þess að rölta um og skoða umhverfið og í verslanir. Síðdegis skoðum við Tsurugaoka Hachimangu, sem er einn helgasti dómur Shinto trúarinnar. Við höldum síðan áfram ferð okkar til borgarinnar Oiso í Kanagawa héraði, en hún var eitt sinn vinsæll baðstrandarbær yfirstéttarinnar í Japan. Þar gistum við á góðu 4* hóteli.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

11. apríl | Hakone, Fuji & háhraðalest til Kyoto

Framundan er viðburðaríkur dagur. Eftir morgunverðinn tekur við skoðunarferð til Hakone og eldfjallsins Fuji. Fuji er hæsta fjall Japans og er af mörgum talin vera ein fallegasta eldkeila veraldar. Eldfjallið, sem hefur ekki verið virkt í yfir 250 ár, myndar nánast fullkominn hring og er breidd þess um 35-40 km frá vestri til austurs. Ef veður og aðstæður leyfa, förum við með rútu upp að fimmtu stöð eldfjallsins. Frá Fuji eldfjallinu höldum við áfram til Hakone sem er á meðal vinsælustu hverasvæða Japans. Farið verður með kláf um eldfjalladalinn Owakudani en þaðan er stórkostlegt útsýni í heiðskýru veðri yfir Fuji fjallið, Ashi stöðuvatnið og Futago fjallið. Þessu næst förum við í hið frábæra Hakone útisafn sem er skemmtileg blanda listar, náttúru og friðsemdar en það er staðsett í fallegu umhverfi Hakone fjallanna. Hér eru yfir 100 höggmyndir eftir innlenda og erlenda listamenn og slökunarsvæði þar sem hægt er að komast í heitt fótabað. Eitt af merkilegustu svæðum safnsins er laufskáli sem helgaður er verkum Picasso, hér er að finna málverk, höggmyndir, leirmuni og fleira. Við snæðum hádegisverð á veitingahúsi og höldum síðan á Odawara lestarstöðina þar sem við tökum háhraðalest til Kyoto, en þar gistum næstu fimm næturnar.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

12. apríl | Kyoto - Kiyomizo hofið & Nijo kastali

Kyoto var höfuðborg Japans í yfir 10 aldir, frá 794 til 1868. Í Kyoto er að finna yfir 1600 Búddahof og 270 shinto-helgidóma. Þrátt fyrir að borgin hafi þróast í gegnum aldirnar þá hefur hún viðhaldið andrúmslofti gamla heimsins og svífur andi gamla Japans þar yfir vötnum. Við skoðum Kiyomizu hofið en þaðan er dásamlegt útsýni yfir borgina og náttúruna í kring. Á þessum tíma eru kirsuberjatrén gjarnan í blóma en sá tími stendur yfir frá seinni hluta marsmánaðar og fram í byrjun apríl. Við skoðum Nijo kastala frá tíma herstjórnarinnar í Japan en hann var byggður á öndverðri 17. öld. Byggingar kastalans eru einstaklega vandaðar og þar má víða sjá falleg veggjalistaverk. Næturgalagólf finnst í hluta bygginganna en gólfið er sett saman á þann hátt að það marrar í því þegar stigið er á það. Launmorðingjar gátu því ekki nálgast íbúa kastalans án þess að til þeirra heyrðist. Hér umhverfis eru virkisveggir og síki en einnig glæsilegir garðar eins og Shinzou-no-Mor. Í útjaðri borgarinnar er að finna hið fræga Gullhof, Kinkaku-ji, sem er frá Muromacchi tímabilinu (1336-1573). Tvær efstu hæðir þess eru lagðar gulli og glitra fallega þegar sólin skín og á þakinu er að finna fönix úr bronsi. Hofið hefur verið á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna frá 1994. Við endum daginn á einfaldri teathöfn (Matcha Experience) sem er hversdagslegri og snýst aðallega um að útbúa teið og njóta þess.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

13. apríl | Hefðbundin teathöfn & Kimono – frjáls tími

Við hefjum daginn á að taka þátt í hefðbundinni japanskri teathöfn (sadō). Hún fer fram í þar til gerðu te-herbergi eða húsi og notuð eru sérstök áhöld til þess að útbúa hið græna te, Matcha. Hér er um að ræða hátíðlega athöfn þar sem gildi búddatrúarinnar endurspeglast í núvitund, mikilli nákvæmni í öllum smáatriðum og fagurfræðilegri nálgun á einfaldleika augnabliksins. Við kynnum okkur einnig hinn gullfallega kimono búning Japana sem á sér yfir 1000 ára sögu. Í fyrstu voru það hirðdömur sem klæddust þessari einstöku flík, síðar bættust við auðugir samúræjar og aðalsfólk, en á tímum hershöfðingjanna, hinu svokallaða Edo tímabili, fékk búningurinn sína núverandi mynd og notkun hans varð almennari bæði meðal karla og kvenna. Hádegisverður á eigin vegum og frjáls tími það sem eftir lifir dags. Fyrir áhugasama er nóg af skemmtilegum verslunum sem gaman er að skoða. Kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður

14. apríl | Kyoto - frjáls dagur

Í dag er tilvalið að heimsækja Arashiyama hverfið sem liggur undir rótum fjallanna vestast í Kyoto. Þar er mikil náttúrufegurð og margt að skoða. Hér má meðal annars finna hofið Tenryu-ji sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og er frægt fyrir sína fallegu zen-garða frá 14. öld. Það er mikið af fallegum gönguleiðum um fagurgróin svæði, meðfram ám og lækjum með fjöllin í baksýn. Þar má helst nefna hina fallegu bambuslundi, einkum Sagano lundinn, þar sem bambustré skaga 10-20 metra upp í loft. Efst mynda laufin þak sem sólin brýst í gegn um og það er yndislegt að labba um göngustíganna milli trjánna og upplifa hið töfrandi og róandi andrúmsloft ljóss og skugga.

  • Morgunverður

15. apríl | Nara, Kasuga helgidómurinn & Osaka

Við höldum af stað í skoðunarferð til litlu borgarinnar Nara sem stendur rétt sunnan við Kyoto. Hún var höfuðborg Japans frá árinu 710 til ársins 784 og var á þeim tíma vagga japanskrar listar, handverks og bókmennta. Við skoðum Todai-ji hofið sem er stærsta, forna trébygging veraldar en lokið var við byggingu þess árið 752. Við sjáum einnig Kasuga helgidóminn sem er einn af elstu og mikilvægustu shinto-helgidómum landins. Hann er staðsettur í garði þar sem hin gæfu sika dádýr ganga laus en þau eru talin heilög vegna tengsla sinna við gyðju Kasuga Taisha helgidómsins í Nara. Garðurinn sjálfur er á heimsminjaskrá UNESCO, en innan hans má einmitt finna þær byggingar sem við höfum nú þegar skoðað, Toda-ji hofið og Kasuga helgidóminn. Við ferðumst áfram til borgarinnar Osaka sem er önnur stærsta borg Japans og miðstöð verslunar í vesturhluta landsins. Við skoðum Namba Dotonbori hverfið en það eitt af helstu kennileitum Osaka. Þar er að finna ýmsa afþreyingu og fjölda veitingastaða sem staðsettir er á suðurbökkum Dotonbori síkisins. Hádegisverður á eigin vegum. Við skoðum einnig Osaka kastalann sem byggður var á 16. öld. Kastalinn átti á sínum tíma að vera best byggði og fallegasti kastali Japans en í áranna rás hafa stríð og eldsvoðar sett mark sitt á hann. Eftir viðburðaríkan dag í Nara og Osaka höldum við aftur til Kyoto og komum þangað síðdegis. Kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður 

16. apríl | Eyjan Miyajima & Hiroshimaflói

Í dag tökum við háhraðalestina frá Kyoto til Hiroshima, við pökkum til einnar nætur í tösku, þar sem farangurinn okkar mun verða sendur á undan okkur til borgarinnar Kobe, en við höfum næturstað í millitíðinni í Hiroshima. Við byrjum á því að fá okkur hádegisverð á veitingastað í bænum Miyajimaguchi sem stendur við Hiroshimaflóa en þaðan siglum við til að skoða eyjuna Miyajima eða Itsukushima. Miyajima er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð, sögulegt mikilvægi og menningararf. Þar finnum við Itsukushima helgidóminn en hann er byggður á sjónum við ströndina. Byggingarnar eru tengdar saman með göngubrúm eða bryggjum, enda er helgidómurinn tileinkaður goðum sem tengjast sjónum og storminum. Þar er eitt mest ljósmyndaðasta tori hlið Japans en það stendur í vatninu. Það rís um 16 metra fyrir ofan sjávarmál og stendur á stöplum sem hafa grafist niður í sjávarbotninn. Á háflóði lítur út fyrir að bæði helgidómurinn og torii hliðið fljóti á sjónum sem skapar heillandi sýn. Víða um eyjuna má sjá hin heilögu dádýr á vappi. Ferskar ostrur frá Miyajima þykja algert lostæti og vinsæll minjagripur er Momiji Manju, lauflaga kaka með hinum ýmsu gerðum af fyllingu. Við siglum aftur til baka og komum til Hiroshima síðdegis þar sem við gistum eina nótt. Kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

17. apríl | Hiroshima & Kobe

Hiroshima borg er þekkt um allan heim, en þann 6. ágúst 1945 var hún lögð í rúst og yfir 100.000 manneskjur létust þegar heimurinn varð vitni að fyrstu kjarnorkusprengjuárás í veraldarsögunni. Í dag stendur eftir fábrotin byggingarrúst með hvolfþaki (The Atomic Bomb Dome) sem minning um hina gríðarlegu eyðileggingu sem sprengingin orsakaði og munum við skoða þessa byggingu. Nærri henni er að finna Friðargarðinn en þar er friðarloginn sem verður fyrst slökktur þegar síðasta kjarnorkuvopninu á jörðinni hefur verið eytt. Hann er tileinkaður fórnarlömbum sprengingarinnar. Við heimsækjum garðinn og Friðarsafnið sem á áhrifamikinn hátt sýnir sögu Hiroshima fyrir kjarnorkusprengjuna, áhrif hennar á borgina og uppbyggingu borgarinnar eftir sprenginguna. Tilgangur safnisins er vekja athygli á eyðileggingarmætti kjarnorkuvopna og styðja við frið í heiminum. Hádegisverður á veitingastað. Laust eftir hádegið tökum við aftur háhraðalestina áfram til hafnarborgarinnar Kobe og komum þangað síðdegis. Borgin liggur milli Rokko fjallgarðsins og Osaka flóa, hér er fjölbreytt mannlíf, arkitektúr og matarmenning. Héðan er hið frábæra Kobe nautakjöt og Nada héraðið sem borgin stendur í er leiðandi í gerð hrísgrjónavíns (sake).

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

18. apríl | Frjáls tími í Osaka og heimferð

Eftir morgunverð höldum við aftur til Osaka en þar er margt skemmtilegt að skoða og nú gefst hverjum og einum tækifæri til að kanna borgina á sinn hátt. Upplagt er að fara upp í hæstu byggingu Osaka, Abeno Harukas skýjakljúfinn, en þaðan er við stórkostlegt útsýni yfir Osaka og nágrenni. Örskammt frá er hægt að finna Nýju veröldina, eða Shinsekai hverfið. Það er um margt einstakt en því var komið á fót snemma á 20. öld í þeim tilgangi að skapa lista- og skemmtanahverfi og var innblásturinn sóttur til Parísar og Coney Island í New York. Það er eins og að koma aftur í tímann að sækja hverfið heim þar sem andi þess og yfirbragð hefur haldist nokkuð óbreytt. Það er mikil litagleði, fjörmikið götulíf og margt skemmtilegt að sjá og heyra. Hér er úrval veitingastaða og hefðbundinna japanskra bara (izakayas) sem bera fram mat og drykk. Klukkan 18:00 höldum við af stað út á Kansai flugvöllinn en næturflugið okkar þaðan og til Helsinki er kl 22:25 að staðartíma. Áætluð lending í Helsinki er klukkan 05:30 og tengiflug okkar áfram heim til Íslands er klukkan 07:15. Áætluð heimkoma til Íslands er klukkan 08:00 að staðartíma að morgni næsta dags, 19. apríl. 

  • Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Ingadóttir

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Japan, Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti