Suður-Afríka

Fjölbreytt dýralíf, stórbrotin náttúrufegurð og áhugaverðar borgir einkenna þessa ferð til Suður-Afríku. Við hefјum leikinn í Jóhannesarborg en höldum svo í ævintýralega tveggja daga safaríferð um friðland þar sem á vegi okkar verða margar dýrategundir, m.a. ljón, hlébarðar, nashyrningar og fílar. Flogið verður til hinnar fallegu borgar Port Elizabeth, sem stendur við ylríkt Indlandshafið. Við ökum til borgarinnar Knysna, sem stendur við töfrandi Knysna lónið. Farið verður í gegnum hið stórbrotna Quteniqua skarð á leið okkar til Oudtshoorn, stærsta bæjar Litla Karoo en þar heimsækjum við strútabúgarð. Í Höfðaborg munum við fara í góða skoðunarferð og kynna okkur allt það markverðasta sem gerir hana að einni fegurstu borg í heimi. Ekið verður um vínhéruð í nágrenni Höfðaborgar og þar munum við heimsækja bæinn Stellenbosch, sem er næstelsti bær Suður-Afríku og þekktur fyrir byggingar frá tímum hollensku landnemanna og risastór eikartré. Við komum einnig við í heillandi bænum Franschhoek sem gjarnan er kallaður sælkerahöfuðborg Suður-Afríku. Við ökum undurfagra leið eftir bröttum hlíðum út á Góðrarvonarhöfða, þar sem áður var talið að hið hlýja Indlandshaf og kalda Atlantshaf mættust en þar gefur að líta stórkostlegt útsýni á haf út. Við komum að verndaðri mörgæsabyggð og fylgjumst með hundruðum mörgæsa spígspora um. Ekið verður um litla fiskimannabæi, iðandi af lífi, og fallegar víkur og firði. Suður-Afríka er af mörgum talið eitt fegursta land í heimi með fјölbreytt og litríkt landslag og einstaklega gott veðurfar. 

Verð á mann 879.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 129.300 kr.


Innifalið

  • Áætlunarflug með British Airways: Keflavík –
    London – Jóhannesarborg.
  • Áætlunarflug með British Airways: Höfðaborg – London – Keflavík.
  • Innanlandsflug: Jóhannesarborg – Port Elizabeth.
  • Flugvallaskattar fyrir alla ferðina.
  • Akstur til og frá flugvelli í Jóhannesarborg, Port Elizabeth og Höfðaborg.
  • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu í loftkældri rútu.
  • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Jeppasafarí í Honeyguide Mantobeni friðlandinu.
  • Gisting í 13 nætur í tveggja manna herbergjum á góðum 4* hótelum, miðað við landsmælikvarða.
  • Gisting í 2 nætur í tveggja manna nútímalegum safarítjöldum (Lodges) vegna dvalar í Honeyguide Mantobeni friðlandinu.
  • Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar
    (M = morgunverður, H = hádegisverður, K = kvöldverður).
  • Töskuburður – eitt stk. á mann.
  • Enskumælandi staðarleiðsögn.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

  • Þjórfé fyrir erlendan staðarleiðsögumann og rútubílstjóra.
  • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
  • Skoðunarferð út í Robben Island eyjuna. 
  • Skoðunarferð með kláfi upp á Table Mountain.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að sérferðir eru lengri ferðir á fjarlægari slóðir. Alltaf er eitthvað um göngur og mörg svæði eru bæði hæðótt og ójöfn undir fæti og aðgengi að áfangastöðum misjafnt og stundum krefjandi.
Þess ber einnig að geta að suma daga eru dagleiðir í lengra lagi til þess að unnt sé að koma hópnum á milli markverðustu staða. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. október | Flug til Jóhannesarborgar

Flogið verður með British Airways í gegnum London til Jóhannesarborgar. Brottför frá Keflavík kl. 10:35 og lending á London Heathrow kl. 14:40 að staðartíma. Þaðan verður flogið til Jóhannesarborgar í næturflugi, brottför kl. 19:05 og lending í Jóhannesarborg kl. 07:00 að staðartíma þann 3. október. Næturflugið tekur 11 klst.

3. október | Jóhannesarborg – Pretoria

Lent verður í Jóhannesarborg að morgni dags. Við skoðum Union Buildings og Voortrekker minnismerkið í Pretoria. Síðan verður haldið á fyrsta gististaðinn þar sem hægt verður að slaka á og safna kröftum fyrir ævintýri komandi daga. Gist verður á Zebra Country Lodge eina nótt.

  • Kvöldverður

4. október | Panoramaleiðin – Blyde River gljúfrið

Eftir morgunmatinn stefnum við í austurátt. Við ökum Panoramaleiðina sem er sögð vera eitt fallegasta svæði Suður-Afríku. Við stoppum við God‘s window en þaðan er frábært útsýni yfir Lowveld svæðið sem er heitemprað, gróskumikið og ríkt af dýralífi. Einnig sjáum við Bourke‘s Luck Potholes skessukatlana, djúpar og sívalningslaga holur í berginu sem mynduðust vegna árrofs, og hið stórbrotna gljúfur Blyde River Canyon sem er 33 km langt og talið eitt mesta náttúruundur landsins. Gist verður næstu þrjár nætur í Honeyguide Mantobeni friðlandinu sem liggur að hinum þekkta Kruger þjóðgarði. Gisting okkar mun bera keim af dæmigerðum óbyggðablæ þótt gist verði í nútímalegum safarítjöldum með baði. Okkur gefst þannig kostur á að upplifa hljóð og lykt þjóðgarðsins á einstakan hátt.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður
Opna allt

5. október | Safarídagur

Nú verður farið í safaríferð um garðinn sem er þekktur fyrir vistfræði sína og verndun villtra dýra. Ferðast verður um í opnum jeppum og ef heppnin er með okkur munum við sjá dýr á borð við ljón, hlébarða, vísunda, antilópur, gíraffa, sebrahesta, nashyrninga, fíla, hýenur og bavíana í sínu náttúrulega umhverfi. Í gegnum árin hafa villt dýrin vanist bílaumferðinni um garðinn og má því jafnvel sjá fíla, gíraffa eða antilópur á beit í námunda við kyrrstæða bíla. Það getur jafnvel komið fyrir að hópur ljóna eða blettatígrar standi í vegi bílanna og hindri för þeirra eftir veginum. Við vöknum snemma við trommuslátt og njótum þess að drekka te eða kaffi í tjaldinu áður en haldið verður af stað í fyrstu safaríferð dagsins. Allar máltíðir verða bornar fram við tjaldbúðirnar. Einnig býðst að fara gangandi í skoðunarferð um svæðið með landverði og komast þannig enn betur í snertingu við friðlandið. Ef veður leyfir snæðum við saman kvöldverð undir afrískum himni.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

6. október | Safarídagur

Safaríferðinni verður haldið áfram þar sem frá var horfið í gær. Reynt verður að komast til einhverra þeirra svæða sem ekki hefur náðst að skoða. Áfangastaðurinn er háður tilmælum landvarðanna, þar sem aðgangur að ákveðnum svæðum gæti verið takmarkaður vegna verndunar dýranna. Ef veður leyfir snæða allir kvöldverð saman undir afrískum himni..

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

7. október | Port Elizabeth

 Eftir morgunverðinn yfirgefum við Honeyguide Mantobeni friðlandið og ökum til baka í áttina að Jóhannesarborg. Frá flugvelli Jóhannesarborgar fljúgum við til fallega strandbæjarins Port Elizabeth sem stendur við ylvolgt Indlandshafið. Hér verður gist eina nótt. 

  • Morgunverður

8. október | Tsitsikamma þjóðgarðurinn – Knysna

Í dag verður ekin verður fögur leið til Tsitsikamma þjóðgarðsins sem er þekktur fyrir fjölbreytt fuglalíf, fágætar plöntur, tré og heillandi klettaströnd. Eftir stutta gönguferð, þar sem m.a. verður gengið yfir ævintýralegu hengibrúna sem liggur yfir ána Storms River, verður ekin svonefnd Blómaleið til Knysna. Gist tvær nætur á hóteli í Knysna. 

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

9. október | Sigling á Knysna lóninu

Um morguninn gefst tækifæri til að skoða sig lítillega um í Knysna á eigin vegum áður en við förum í vistvæna siglingu á Knysna lóninu til Western Head. Þar verður ekið upp nesið og stoppað á stórkostlegum útsýnisstöðum í friðlandinu þar sem við fræðumst um sögu, dýralíf og gróður svæðisins. Þeir sem vilja geta farið í gönguferð með leiðsögn í gegnum strandskóga og inn í forna sjávarhella. Boðið verður upp á hádegishlaðborð á útiveitingastað.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

10. október | Strútabúgarður í Oudtshoorn – Cango Caves

Að loknum morgunverði er ekið í gegnum hið stórbrotna Quteniqua skarð á leið okkar til Oudtshoorn, stærsta bæjar Litla Karoo og aðalmiðstöðvar strútaræktunar. Þar heimsækjum við strútabúgarð og fræðumst um strúta. Eftir hádegi höldum við til norðurs og skoðum heimsþekktu dropasteinshellana Cango Caves áður en haldið er á hótel þar sem gist verður eina nótt.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

11. október | Höfðaborg

Haldið verður í vesturátt gegnum bæinn Swellendam sem stendur við rætur Langeberg fjallanna en hann er talinn vera þriðji elsti bærinn í Suður-Afríku. Hér borðum við hádegisverð. Síðdegis verður komið til Höfðaborgar og strax haldið í skoðunarferð um borgina. Ekið verður í gegnum elstu borgarhlutana, frá Góðrarvonarkastala eftir Heerengracht og Adderley stræti, fram hjá Groote Kerk kirkjunni og Menningarsafninu. Gist fimm nætur á hóteli í Höfðaborg. 

  • Morgunverður

12. október | Frjáls dagur í Höfðaborg

Í dag gefst tími til þess að slaka á og njóta dvalarinnar í Höfðaborg. Mögulegt er að bæta við skoðunarferðum t.d. til Robben eyjunnar. Þar má m.a. finna fangelsið þar sem Nelson Mandela var fangi megnið af þeim 27 árum sem hann var fangelsaður fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni. Ef veðrið og útsýnið er gott er tilvalið að fara í ferð með kláfi upp á Borðfjallið (Table Mountain). Fjallið er aðalkennileiti Höfðaborgar og þegar himinn er heiður er frábært útsýni þaðan yfir borgina og út á haf.

  • Morgunverður

13. október | Góðrarvonarhöfði

Eftir morgunverðinn höldum við í dagsferð að Góðrarvonarhöfða (Cape of Good Hope). Ekið verður eftir ströndinni í gegnum úthverfin Clifton, Camps Bay, Llandudno og Hout Bay sem er miðstöð fiskiðnaðar á svæðinu. Leiðin liggur eftir Chapman‘s Peak Drive með fallegu útsýni út yfir Atlantshafið. Við höfðann gefst kostur á að ganga upp að vitanum og njóta stórkostlegrar sýnar yfir hafið þar sem áður var talið að ylvolgt Indlandshafið og ískalt Atlantshafið mættust. Þetta svæði hefur verið svikulur staður fyrir mörg skipin sem hafa sokkið hér. Ferðin að Góðrarvonarhöfða mun seint gleymast en náttúrufegurð hvítra stranda Atlantshafsins láta engan ósnortinn. Við höldum áfram til Simon‘s town og snæðum hádegisverð í þessu fallega sjávarþorpi. Einnig verður áð í mörgæsanýlendu á Boulders Beach þar sem finna má hundruð mörgæsa.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

14. október | Stellenbosch – vínræktarhéruð

Nú liggur leið okkar í dagsferð um hjarta vínræktar við Höfðaborg þar sem ekið verður í gegnum stórbrotna fjallgarða og vínekrur. Við höldum til næstelstu borgar landsins, Stellenbosch, en hún er þekkt fyrir byggingar frá tímum hollensku landnemanna og risastór eikartré. Bærinn var stofnaður árið 1679 og vínhefð svæðisins er nánast jafngömul. Við höldum leið okkar áfram yfir Helshoogte skarðið til bæjarins Franschhoek en saga hans nær aftur til 18. aldar þegar franskir húgenettar mættu á svæðið með sína þekkingu á vínrækt. Hér erum við á einum fallegasta stað landsins, tignarleg fjöll og gróðursælar vínekrur sem eiga sér langa sögu. Franschhoek er heillandi bær og er gjarnan kallaður sælkerahöfuðborg Suður-Afríku, enda eru hér einna bestu veitingastaðir landsins og mikil áhersla lögð á hráefni úr héraði. Við njótum þess að fara í vínsmökkun og hádegisverð á þessum yndislega stað. Seinni part dags höldum við aftur til Höfðaborgar. 

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

15. október | Frjáls dagur í Höfðaborg

Í dag er frjáls dagur til að slaka á og njóta þess sem hótelið hefur upp á að bjóða. Fyrir þá sem vilja skoða sig betur um í borginni þá er mikið líf og fallegt um að litast á Victoria & Alfred Waterfront hafnarsvæðinu. Hér er úrval verslana, safna, götulistamanna og fjölmargra skemmtilegra veitingastaða. Fyrir áhugasama gefst annað tækifæri til að fara á Table Mountain, ef veðurskilyrði voru ekki hentug. Í austurhlíðum Table Mountain er að finna Kirstenbosch grasagarðinn sem er einn af þeim áhugaverðari sem finnast í heiminum. Fyrir þá sem hafa áhuga á ströndinni þá er Clifton svæði kjörið, fjórar strendur sem eru aðskildar með granítdröngum. Þær eru fallega hvítar, þaðan er frábært útsýni og sjórinn er fallega grænblár en í kaldara lagi fyrir sundsprett. Þetta er líflegt svæði þar sem fólk nýtur sólar og tekur gjarnan með sér nesti. Það er viðbúið að það þurfi að labba niður brattar tröppur til að komast niður á strendurnar. Um köldið njótum við þess að borða saman
kveðjukvöldverð á skemmtilegum afrískum veitingastað þar sem við fáum innsýn inn í menningu heimamanna.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

16. október | Heimferð frá Höfðaborg

Frjáls tími fram eftir degi. Síðdegis verður haldið á flugvöllinn í Höfðaborg. Brottför með næturflugi til London kl. 18:55 að staðartíma. Flugið til London tekur rúmar 12 klst.

17. október | Heimferð frá London

Lent í London kl. 5:35 um morguninn. næsta dag, 17. október. Haldið áfram til Keflavíkur með Icelandair kl 07:40 og ráðgert er að lenda í Keflavík 09:45 að morgni 17. október.


Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Björk Håkansson

Björk Håkansson er fædd á Íslandi um hásumar árið 1967 og hefur alla sína ævi verið á faraldsfæti, fyrst með foreldrum sínum og síðar á eigin vegum, svo ekki sér fyrir endann á.

Fyrir rúmum þrjátíu árum fór Björk fyrst til Mið-Austurlanda og settist á skólabekk í Amman í Jórdaníu. Þar með voru línurnar lagðar hvað varðar reglulega búsetu, samskipti og samstarf við arabaheiminn.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti