Hjólað um Champagne hérað í Frakklandi
22. - 27. ágúst 2025 (6 dagar)
Við förum í einstaka hjólaferð um hið dásamlega kampavínshérð Frakklands, Champagne, þar sem smjörið drýpur af hverju strái. Við njótum þess að hjóla um einar fegurstu sveitir Frakklands þar sem vínekrurnar líða um hæðir og dali og heimsækjum fjölmörg heillandi þorp og bæi þar sem allt snýst um kampavín og framleiðslu þess. Við hefjum ferðina í Reims þar sem konungar Frakklands hafa verið krýndir í gegnum aldirnar en borgin er einnig mikilvæg í sögu kampavínsframleiðslu. Undir henni er að finna kalksteinshella þar sem vínið fær að þroskast við kjöraðstæður. Við ferðumst í gegnum Montagne de Reims þjóðgarðinn og í gegnum skóglendið í Domaniale de Verzy þar sem er að finna bar uppi í trjákrónunum. Gist verður í þrjár nætur í nágrenni Épernay í Mutigny og farið þaðan í skemmtilegar dagsferðir. Við hjólum skemmtilega hjólaleið, Route de Champagne í Marne dalnum og komum við í þorpunum Venteuil og Reuil. Við heimsækjum höfuðborg kampavínshéraðsins, Épernay, og skoðum Avenue de Champagne, en þar eiga þekktustu framleiðendur kampavíns á heimsvísu sín kampavínshús. Í Épernay varð kampavínið að þeirri lúxusvöru sem það er í dag. Leið okkar liggur til Hautervillers, fæðingarstaðs kampavínsins en þar fullkomnaði munkurinn Dom Pérignon aðferðina við að freyða vínið. Í þessari ógleymanlegu ferð gefst færi á að njóta fallegrar náttúru í frönskum sveitum, þar sem víðáttumiklar vínekrur, friðsæl þorp og grónar hæðir marka landslagið. Við hjólum um mikilvægustu borgir héraðsins, meðfram gróðursælum árbökkum og víða gefst færi á að njóta lystisemdanna sem ræktaðar eru á svæðinu í mat og drykk.