Gengið um Dalmatíuströndina & á eyjunni Brač

Í þessari einstöku göngferð um nágrenni Split og á eyjunni Brač kynnumst við skemmtilegum gönguleiðum við Dalmatíuströnd Króatíu. Við hefjum ævintýrið með göngu um borgina Split þar sem við skoðum helstu mannvirki, meðal annars Diokletianhöllina frá tímum Rómverja. Við komum í eitt elsta hverfið, Varos, göngum upp á Marjan hæð og náum hæsta toppnum Telelgrin þar sem víðsýnt er yfir Adríahafið og borgina. Leið okkar liggur einnig í dreifbýlið fyrir utan Split þar sem við göngum á Mosor fjallahrygginn en í kring um hann á útivistarmenning Króatíubúa sér djúpar rætur. Þar náum við toppnum Vickov Stup og hæsta tindinum Veliki Kaba. Við förum einnig í Biokovo þjóðgarðinn en þar er að finna hæsta fjall Króatíu og tilkomumikinn útsýnispall sem stendur í um 1200 metra hæð. Við náum toppnum Sveti Jure og njótum stórkostlegst útsýnis. Siglt verður frá bænum Makarska yfir á eyjuna Brač og dveljum við þar í fallega bænum Bol. Við njótum þess að slaka á í þessu fallega umhverfi en skyggnumst einnig inn í fortíð eyjunnar og forna bústaði í Blaca eyðimörkinni og í hellunum við Murvica. Að sjálfsögðu verður gengið á hæsta punkt eyjunnar, Vidova Gora, en þaðan sem er frábært útsýni yfir bæinn Bol og hina skemmtilegu strönd Zlatni Rat. Hér njótum við alls hins besta fyrir göngumanninn í Króatíu. Göngur um fornar borgir, fjalllendi, eyjar og fallegar strendur við blágrænt Adríahafið. 

Verð á mann 449.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 72.400 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallaskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í Split og hótela.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverðir allan tímann á hótelum.
  • Þrír léttir hádegisverðir. 
  • Sex kvöldverðir.
  • Akstur í gönguferðum þar sem við á.
  • Ferjur og bátsferðir samkvæmt göngudagskrá.
  • Göngudagskrá í 5 daga. 
  • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn á söfn, hallir og kirkjur. 
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Vínsmökkun.
  • Hádegis- og kvöldverðir aðrir en taldir eru undir innifalið. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. reglulega upp að Steini í Esjunni. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Gönguferðirnar

Farið verður í skipulagðar gönguferðir með staðarleiðsögumanni en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Hér fyrir neðan eru dæmi um mögulegar dagleiðir en teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða taka það rólega á hótelinu og njóta þess sem nágrennið hefur upp á að bjóða.

18. september | Flug til Split

Flogið verður með Play til Split þann 18. september. Brottför frá Keflavík kl. 10:15 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Króatíu kl. 17:00 að staðartíma. Við gistum á góðu 4*hóteli í Split næstu þrjár nætur.

Opna allt

19. september | Gengið um Split og Marjan hæð

Í dag skoðum við gamla bæinn og fræðumst um sögu hans og þá sérstaklega um Diokletianhöllina sem er einn af merkilegustu minnisvörðum byggingarlistar frá tímum Rómverja. Höllin er líflegur staður og oft er talað um hana sem hjarta borgarinnar en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Borgina prýða margar aðrar virðulegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja. Elsti hluti hennar hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Frá gamla miðbænum göngum við í gegnum Varos hverfið sem er einn elsti hluti borgarinnar. Þar er hægt að sjá anda miðalda í Split, hlykkjótt steinilögð stræti, lítil torg, kalksteinshús og gamlar kirkjur. Við höldum ofar upp á Marjan hæðina sem er vinsælt útivistarsvæði meðal heimamanna. Hér getum við notið fallegrar sjávarsýnar í skugga furutrjáa. Héðan höldum við áfram á toppinn, Telegrin, þar sem er dásamlegt útsýni yfir strönd Adríahafsins, Split og fjöllin í fjarska. Á leið okkar aftur niður komum við að Šantine Stine klettunum þar sem hægt er að sjá mannnvistarleyfar frá fyrri öldum. Við endum á einni af fáfarnari ströndunum við Split þar sem hægt er að skoða sig um, láta líða úr sér og jafnvel fá sér sundsprett í kristaltærum sjónum eða láta sólina baka sig um stund. Við göngum síðan aftur í gamla miðbæinn í rólegheitum og þaðan á hótelið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 5 km
  • Hækkun: u.þ.b. 190 m

20. september | Mosor fjallahryggurinn

Í dag tökum við stefnuna á dreifbýlið undir rótum Mosor fjalls og ökum til þorpsins Sitno Gornje. Við hefjum gönguna þaðan en á uppleiðinni sjáum við niður til Split, Adríahafsins og eyjanna úti fyrir ströndinni. Á gönguleiðinni sjáum við grónar hæðir, greniskóga, villiblóm, fagurgrænan sjóinn, miðjarðarhafsgróður og hrjóstrugar hlíðar inn á milli. Fyrsta stoppið er við fjallaskála Umberto Girometta en hann er nefndur eftir ítölskum fjallgöngumanni sem kom á fót göngumenningu í Mosor fjöllum. Hér fáum við innsýn inn í þessa útivistarmenningu Króatíumanna og njótum þess að teyga að okkur ferskt fjallaloftið. Við tökum okkur hlé frá göngunni og nærum okkur. Næst tökum við stefnuna á tindinn Vickov Stup en hann stendur í 1325 m hæð og þar trónir fagurrauður turn úr járni. Héðan er útsýnið stórkostlegt yfir Dalmatíuströndina, eyjarnar og fjallahryggina í fjarska. Við höldum göngu okkar áfram upp á hæsta tind Mosor fjalla, Veliki Kaba, en hann stendur í 1339 m. Hér er aðeins hrjóstrugra um að litast og háfjallagróðurinn ríkjandi en auðvelt að njóta fjallakyrrðarinnar, náttúruhljóðanna og andvarans um kring þegar við stöldrum við á toppnum. Nú liggur leið okkar aftur niður í móti að fjallaskála Umberto Girometta og þaðan til Sitno Gornje þaðan sem við tökum rútu aftur til Split. 

  • Vegalengd: u.þ.b. 7 km
  • Hækkun: u.þ.b. 100 m

21. september | Biokovo fjall & Brač eyja

Eftir morgunverð leggjum við upp í ferð í þjóðgarðinn í kring um Biokovo sem er næst hæsta fjall Króatíu. Í þessari göngu förum við í gegnum fjölbreytileg belti vistkerfa. Landslagið einkennist af karsti, veðruðum kalksteini, sem hefur ummyndast í fallega toppa, hella og kletta. Við keyrum sem leið liggur frá Split að garðinum og hefjum uppgönguna á Biokovo fjall eftir bugðóttum vegaslóðum. Neðan til er meira um gróður sem þrífst vel við miðjarðarhafið eins og lofnarblóm, rósmarín, einir og eikartré. Þegar ofar dregur er aðeins svalara og við tekur fjallendið og gróður sem dafnar í meiri hæð eins og beiki, hlynur, linditré, fura og svarta dalmatíufuran. Hér er stórkostlegt útsýni yfir Adríahafið en hægt er að njóta þess enn betur á glerbrú sem búið er að reisa út fyrir klettana í um 1200 metra hæð (Biokovo Skywalk). Við stöldrum við Vošac fjallaskálann en þaðan sést vel yfir eyjarnar við ströndina og Makarska rívíeruna, hér er hægt að sjá einkennisblóm þjóðgarðsins, Biokova bláklukkuna og önnur háfjallablóm sem eru algeng á þessu svæði. Á leið okkar verður annar fjallakofi, Slobodan Ravlic, þar sem áð verður um stund, hér er friðsælt og gott útsýni yfir hásléttuna og dalina fyrir neðan. Við höldum ferð okkar áfram og stefnum á toppinn, Sveti Jure sem er 1762 metrar. Í góðu skyggni er hægt að sjá fjallatoppa í Bosníu- Herzegoviníu og aðra fjallahryggi inn til landsins. Við lok göngunnar fáum við far til bæjarins Makarska en þaðan tökum við ferju yfir til bæjarins Bol, á fallegu eyjunni Brač, þar sem við gistum næstu fjórar nætur. 

  • Vegalengd: u.þ.b. 6,5 km
  • Hækkun: u.þ.b. 400 m

22. september | Frídagur í bænum Bol

Í dag er frjáls dagur sem hver og einn getur nýtt eins og honum líkar best. Bol er einn fallegasti bærinn á Brač og þar er að finna hina heimsþekktu og fallegu strönd Zlatni Rat. Hún er einskonar sandtunga úr smáum ljósum steinvölum sem liggur út í tært Adríahafið. Þessi sandtunga skiptir aðeins um lögun eftir straumum og vindum. Höfnin í Bol er einstaklega falleg með ljósum steinhúsum og líflegum kaffihúsum og veitingastöðum. Í Dominican klaustrinu er fallegt safn þar sem hægt er að sjá marga fagra gripi sem endurspegla líf eyjarskeggja fyrr á öldum. Þar er yndislegt að ganga um friðsæla garða og njóta útsýnis yfir hafið. Hér er mikið um vínekrur og héðan er hið bragðmikla Plavac Mali vín, einnig Posip og Tribidrag sem hægt er að smakka hjá víngerðum eins og Stina, sem er þekktasta víngerð Bol og stendur alveg við sjávarbakkann. Á þessum frídegi í Bol getum við notið andrúmslofts Dalmatíustrandarinnar til fulls. Kvöldverður á eigin vegum.

23. september | Blaca & Murvica

Í dag skyggnumst við inn í fortíð Brač eyjar og njótum einstakrar, óspilltrar náttúrufegurðar. Við keyrum frá Bol að upphafstað göngunnar fyrir ofan það sem kallað er Blaca eyðimörkin. Blaca er ekki eiginleg eyðimörk, heldur hrjóstrugur dalur úr alfaraleið en þar er mikil saga. Hér bjuggu eitt sinn Glagolitic munkar en þeir reistu klaustrið sem þarna stendur á 16. öld. Munkarnir sinntu ýmsum öðrum hugðarefnum en trúnni, þeir komu sér upp stjörnuathugunarstöð, bókasafni, prentsmiðju og fengust við ýmis önnur vísindi. Í dag er safn í gamla klaustrinu þar sem hægt er að sjá ýmsa merka muni, smíðagripi, handrit og bókasafn þar sem menningar- og vísindaarfi Króatíu eru gerð góð skil. Við höldum áfram ferð okkar að Blaca flóa þar sem tær og fallegur sjórinn fellur að klettóttri ströndinni. Hér stöldrum við um stund, hægt er að fá sér sundsprett eða slaka á áður en við höldum áfram til Farskaflóa. Á leiðinni er fallegt útsýni yfir Adríahafið og eyjarnar í kring, við göngum innan um miðjarðarhafsgróður, ólífutré og framhjá víkum og vogum, hér er mikil náttúrfegurð og friðsæld. Við komum að fornum hellum nálægt Murvica þar sem forsögulegir menn höfðust við og skyldu meðal annars eftir sig verkfæri, dýrabein, kol og smíðagripi. Einnig eru merki um mannvist á síðari tímum, þar má meðal annars sjá áhrif frá Rómaveldi og Býsansmönnum og Glagolitic munkum á miðöldum. 

  • Vegalengd: u.þ.b. 7,5 km
  • Hækkun: u.þ.b. 120 m

24. september | Ganga á Vidova Gora

Í Bol eru fallegar gönguleiðir, meðal annars á hæsta tind Brač eyju, Vidova Gora. Stígurinn leiðir okkur í gegnum gróskumikla furuskóga, ilmandi miðjarðarhafsgróður og víða má sjá falleg villiblóm. Við sjáum vel út til Adríahafsins og eyjunnar Hvar. Þegar ofar dregur tekur við ræktarland og þar fáum við innsýn inn í daglegt líf bændanna og arfleið þeirra sem rækta jörðina hér um slóðir. Tindur Vidova Gora stendur í 778 metra hæð, í góðu skyggni sést vel til eyjanna í fjarska, Hvar, Korcula, Vis og hæstu tinda á meginlandinu. Einnig er fallegt útsýni yfir bæinn Bol og hina einsöku Zlatni Rat strönd. Á toppnum stendur gamall fjallakofi og við stöldrum hér við, fáum okkur bita, hvílumst og njótum náttúrufegurðarinnar, staðar og stundar. Á leiðinni niður fáum við annað sjónarhorn og enn betra tækifæri til þess að skoða gróður og dýralíf. 

  • Vegalengd: u.þ.b. 6 km
  • Hækkun: u.þ.b. 230 m eða 750 m (val) 

25. september | Heimferð frá Split

Nú er komið að ferðalokum eftir yndislega daga í paradís Dalmatíustrandarinnar. Við fáum okkur góðan morgunverð og hægt er að njóta góðs kaffibolla á einu af kaffihúsum Bol eða ganga eftir ströndinni áður en haldið verður af stað. Um hádegi verður siglt yfir sundið til Split. Flogið verður heim með Play frá Split kl. 18:00. Lending á Íslandi kl. 21:05 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

3 nætur á Atrium Hotel í Split
4 nætur á Bluesun Hotel í Bol

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1975 og ólst upp á sveitabæ norðan Vatnajökuls innan um kindur og hreindýr. Hún er menntuð í fjölmiðlafræði og ljósmyndun og starfaði lengi fyrir útgáfufélagið Birtíng sem blaðamaður og ljósmyndari. Hún útskrifaðist úr Leiðsöguskólanum vorið 2022 úr göngu- og almennri leiðsögn og tekur bæði að sér almenna rútuleiðsögn og fjallgöngur. Ragnhildur hefur mikinn áhuga á útivist, stundar fjallgöngur, utanvegahlaup og gönguskíði. Þá hefur áhugi hennar á jarðfræði aukist mikið á undanförnum árum og hún hefur gengið fjölda ferða að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli með erlenda ferðamenn. Að auki hefur Ragnhildur verið fararstjóri í gönguferðum bæði á Ítalíu og Tenerife. Ragnhildur býr nú í Hafnarfirði, er gift og á tvo syni, og starfar við leiðsögn, fararstjórn og ljósmyndun. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti