Gengið í fjallasölum Madonna
24. - 31. ágúst 2025 (8 dagar)
Trentino hérað á Ítalíu er paradís göngumannsins. Fyrir þau sem vilja njóta alpafegurðar að sumarlagi er hér af nægu að taka en svæðið er þekkt skíðasvæði á veturnar. Útsýnið er heillandi yfir úfna jökla og tinda, fjallavötn, gróna dali, græn engi með litskrúðugum villiblómum, hlíðar með stöku fjallakofum, þétta greniskóga og skoppandi læki og ár. Við gistum í bænum Madonna di Campiglio sem stendur í Rendena dalnum, milli Brenta Dólómítafjallanna og Adamello-Presanella Alpanna. Á sumrin breytist þetta þekkta skíðasvæði í yndislega náttúruperlu. Það eru um 400 kílómetrar af merktum gönguleiðum í Rendena dalnum og við munum svo sannarlega nýta okkur þær allra áhugaverðustu í þessari skemmtilegu ferð. Við göngum um dal fossana, Genova, í Adamello-Brenta þjóðgarðinum og sjáum Nardis fossana sem renna úr Presanell jöklinum. Við komum að fjallavatninu Malghette sem stendur mitt í náttúrufegurð Brenta Dólómítanna. Við ferðumst með kláfi upp á tindinn Grostè þar sem er stórkostlegt útsýni yfir fjallahringinn um kring. Vallesinella fossarnir verða á vegi okkar og Vötnin fimm, Ritorto, Lambin, Serodoli, Gelato og Nambino. Við förum í dagsferð í Nambrone dalinn og göngum hringleið á einu fallegasta svæði Presanella fjallgarðsins en á henni sjáum við hin fögru Cornisello vötn sem mynduðust við framskrið jökla á svæðinu. Í þessari yndislegu ferð göngum við í stórkostlegu umhverfi ítölsku Alpanna, öndum að okkur ferska fjallaloftinu og njótum staðar og stundar.