Hjólað um tindrandi Tíról
26. ágúst - 2. september 2025 (8 dagar)
Í þessari skemmtilegu hjólaferð verður hjólað um eitt af fallegustu svæðum Tíról. Leiðin liggur mestmegnis eftir sléttum vegum meðfram fögrum dölum og vötnum. Fjallasalir Zillertal dals, Keisarafjöllin (Kaisergebirge) og Kitzbühler alpahryggurinn mynda glæsilegan bakgrunn í náttúrunni þegar við hjólum með fram hinni tæru á Inn sem stundum er kölluð lífæð Tíról. Eftir flug til München verður haldið til bæjarins Fügen í Zillertal og gist þar á 4* austurrísku hóteli allan tímann. Þar er boðið upp á fjölbreyttan matseðil og góða heilsulind. Frá bænum Fügen förum við í fjölbreyttar dagsferðir m.a. til Mayrhofen og Innsbruck en á leiðinni skoðum við Swarovski kristalsafnið í Wattens. Við förum líka til Kufstein, þar sem við förum upp að kastala bæjarins og njótum þaðan stórkostlegs útsýnis yfir nærliggjandi sveitir. Í þessari ferð fer saman útivist og hreyfing í heillandi umhverfi.