Hjólað um tindrandi Tíról

Í þessari skemmtilegu hjólaferð verður hjólað um eitt af fallegustu svæðum Tíról. Leiðin liggur mestmegnis eftir sléttum vegum meðfram fögrum dölum og vötnum. Fjallasalir Zillertal dals, Keisarafjöllin (Kaisergebirge) og Kitzbühler alpahryggurinn mynda glæsilegan bakgrunn í náttúrunni þegar við hjólum með fram hinni tæru á Inn sem stundum er kölluð lífæð Tíról. Eftir flug til München verður haldið til bæjarins Fügen í Zillertal og gist þar á 4* austurrísku hóteli allan tímann. Þar er boðið upp á fjölbreyttan matseðil og góða heilsulind. Frá bænum Fügen förum við í fjölbreyttar dagsferðir m.a. til Mayrhofen og Innsbruck en á leiðinni skoðum við Swarovski kristalsafnið í Wattens. Við förum líka til Kufstein, þar sem við förum upp að kastala bæjarins og njótum þaðan stórkostlegs útsýnis yfir nærliggjandi sveitir. Í þessari ferð fer saman útivist og hreyfing í heillandi umhverfi. 

Verð á mann 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 56.300 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Fügen.
  • Gisting í tveggja manna herbergi í 7 nætur á 4* hóteli í Fügen.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Síðdegishressing með kökuhlaðborði á hótelinu (án drykkja).
  • Aðgangur að heilsulind hótelsins sem býður m.a. upp á mismunandi gufuböð.
  • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Leiga á 24 gíra hjóli eða rafhjóli í 6 daga 56.900 kr. 
  • Leiga á full dempuðu rafhjóli í 6 daga 87.200 kr.
  • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. 
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Leigubílaakstur, strætó eða lestarferðir.
  • Hádegisverður. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 50-60 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Tillaga að dagleiðum

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

26. ágúst │ Keflavík – Fügen

Flogið frá Keflavík með Icelandair kl. 07:20. Mæting um 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Farið með rútu frá flugvelli beint á hótel í Fügen.

Opna allt

27. ágúst │ Zillertal - Mayrhofen

Við byrjum hjólaferðina á að kynnast Zillertal dalnum og hjólum frá Fügen til Mayerhofen. Þessi dalur er einn af fallegustu dölum Tírols og hann er gjarnan nefndur dalur söngsins. Hjólaleiðin liggur aðeins upp á við og fyrir þá sem vilja fara lengra inn dalinn er upplagt að hjóla lengri leið og taka kláf upp á Zillertal Arena svæðið. Þar eru þekkt skíðasvæði á veturna eins og Gerlos, Zell am Ziller, Königsleiten og Gerlosplatte. Margar skemmtilegar leiðir eru í boði til að hjóla niður á við, til baka á hótelið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 50 km.

28. ágúst │ Kramsach – Krummsee - Reintalersee

Leið dagsins liggur um hluta af hinni þekktu Inn hjólaleið. Áin Inn rennur í gegnum fallega fjalladali frá Maloja í Sviss í gegnum Innsbruck og niður til Passau í Þýskalandi.
Frá Fügen er hjólað með fram ánni til bæjarins Kramsbach við Krummsee og áfram til Raintalersee. Á leiðinni til baka er komið við í bænum Rattenberg en bærinn telst vera minnsti og jafnframt elsti bær Austurríkis. Hann er þekktur fyrir glerframleiðslu og því upplagt að stoppa og gefa sér tíma til að skoða þennan sjarmerandi gamla bæ.

  • Vegalengd: u.þ.b. 50 km.

29. ágúst │ Innsbruck & Inntal

Í dag liggur leið okkar aftur eftir hinni þekktu Inn hjólaleið en nú í átt að Innsbruck. Í bænum Wattens munum við gefa okkur tíma til að skoða hið fræga Swarovski kristalsafn. Leið okkar liggur svo áfram til Hall í Tírol, þar sem finna má gamlar saltnámur og hinn þekkta Münzturm turn, sem er tákn bæjarins og var byggður um 1300. Leiðin liggur svo áfram til Innsbruck eða „brúin yfir Inn“ eins og orðið merkir en hún er höfuðstaður Tírols, umvafinn fjöllum og náttúrufegurðin er mikil, jafnt sumar sem vetur. Miðaldahluti borgarinnar er einstaklega heillandi en Innsbruck var ein af borgum Habsborgaraættarinnar, einnar mikilvægustu konungsættar Evrópu. Seinnipartinn er svo tekin lest með hjólin til baka á hótelið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 60 km.

30. ágúst │ Frídagur í Fügen

Slökun og rólegheit í dag. Upplagt að nota aðstöðuna á hótelinu, fara í sund, gufu, heitan pott og einnig er hægt að láta dekra við sig í heilsulindinni því margt er í boði. Fegurðin er mikil inn á milli fjallanna í Tírol. Margar stuttar og fallegar hjólaleiðir eru í boði frá hótelinu og einnig er möguleiki á að fara í létta göngu og heimsækja fjallasel. Eins er bærinn Fügen mjög fallegur.

31. ágúst │ Schwaz, Wolfsklamm og Tratzberg kastali

Eftir góðan hvíldardag erum við tilbúin til að hjóla nýja og spennandi hjólaleið meðfram ánni Inn til vesturs. Í bænum Schwaz verður áð til að skoða þekktar silfurnámur og í bænum Stans göngum við 354 tröppur að Wolfklamm gjánni þar sem við njótum einstakrar náttúru. Á heimleiðinni skoðum við Tratzberg kastala en elsti hluti hans er frá 13. öld. Sögur herma að Maximilian I keisari Bæjaralands hafi notað þennan kastala sem veiðihús vegna góðra veiðilanda í kring.

  • Vegalengd: u.þ.b. 55 km.

1. september │ Fügen - Kufstein

Eftir morgunverð er ferðinni heitið til Kufstein, einnar af mörgum perlum sem liggja meðfram ánni Inn. Við förum í skoðunarferð og upp að kastalanum en þaðan er undurfagurt útsýni yfir bæinn og nærliggjandi sveitir. Þar er einnig hægt að heyra í orgelinu sem er í turni kastalans en bærinn er einmitt þekktur fyrir þetta fallega orgel. Seinnipartinn tökum við lest með hjólin til Jenbach þaðan sem við hjólum svo til baka á hótelið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 60 km.

2. september │ Heimferð

Nú verður haldið aftur á heim á leið. Brottför frá flugvellinum í München kl. 16:55 og lending í Keflavík kl. 18:50 á staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er ekki fæddur á hjóli en hefur samt farið yfir 40 hjólferðir erlendis , mestmegnis með gesti Bændaferða. Bjarni er menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur og hefur frá 2011 verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi. Bjarni hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og útiveru, en hann hefur m.a. verið formaður Íþróttafélagsins Gróttu í 6 ár auk þess að vera virkur í margskonar öðru félagsstarfi. Hann hefur þjálfað unglinga bæði í knattspyrnu og handknattleik og auk þess farið margar ferðir sem farastjóri með íþróttahópa erlendis. Bjarni er giftur 4 barna faðir og á auk þess 5 barnabörn.

Hótel

Gardenhotel Crystal

Gist verður í 7 nætur á 4* hótelinu Gardenhotel Crystal í bænum Fügen í Zillertal. Herbergin eru öll með baði/sturtu, hárþurrku, sjónvarpi, Wi-Fi og öryggishólfi. Það er heilsulind á hótelinu með gufubaði, innilaug, heitum potti og útilaug. Boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti