Nashville, Graceland & New Orleans

Rokk, Elvis, djass, fljótabátar, plantekrur og kántrí í þessari spennandi ferð um mið- og suðurríki Bandaríkjanna. Flogið verður til höfuðborgar Tennessee ríkis, Nashville. Tónlistarborgin Nashville er hinn eini sanni Kántríbær Bandaríkjanna. Það sést vel í tónlistarhverfinu Music Row þar sem er að finna allt sem tengist þessum iðnaði. Við kynnnumst Opry tónleikahúsinu en þaðan er sendur út elsti útvarpsþáttur Bandaríkjanna, Grand Ole Opry. Þar hafa komið fram stjörnur eins og Johnny Cash, Dolly Parton, Hank Williams, Loretta Lynn, Willie Nelson, Patsy Cline, Kris Kristofferson og Tammy Wynette. Memphis er ekki langt undan og þar er margt að skoða. Hún var mikið aðdráttarafl ungra tónlistarmanna og lagahöfunda um miðbik 20. aldar því um þær mundir var í fæðingu nýr taktur dægurtónlistar, rokkið. Ein merkilegasta gata borgarinnar er Beale stræti þar sem söfn, plötuverslanir, klúbbar og auðvitað tónlistin minna á liðna tíð. Við skoðum Sun Studio þar sem Elvis hljóðritaði sína fyrstu plötu og einnig heimili hans Graceland. Við heimsækjum plantekru í Louisiana og gistum í Lafayette sem stundum er kölluð hamingjusamasta borg Bandaríkjanna en þar er menningin ekki síður áhugaverð undir áhrifum Cajun. Haldið verður á vit ævintýranna á fenjasvæðum Louisiana og við kynnum okkur framleiðslu á heimsfrægum afurðum suðurríkjanna, eins og Tabasco sósunni sem er framleidd á Avery eyju og Jack Daniels viský í bænum Lynchburg. New Orleans er fæðingarstaður jazztónlistarinnar og hún lifir þar góðu lífi enn í dag. Kreólamenningin, afslappað andrúmsloft, umburðarlyndi og tónlistin gefa samfélaginu töfrandi blæ sem kallaður er The Big Easy. Við siglum á dæmigerðum fljótabát á Mississippi og könnum Franska hverfið sem er það elsta í borginni, þar finnum við einnig líflegustu götu New Orleans, Bourbon Street. Frá ströndum Mexíkóflóa keyrum við í norður í gegnum bómullarakra Alabama, komum við í borginni Mobile og höldum síðan til Montgomery sem kom mikið við sögu í borgarastyrjöld Bandaríkjanna á sínum tíma. Í þessari ferð gefst einstakt tækifæri til þess að upplifa menningu, sögu, matarlist og litskrúðugt mannlíf suðurríkja Bandaríkjanna.

Verð á mann 689.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 193.300 kr.


Innifalið

  • 10 daga ferð.
  • Flug með Icelandair, Keflavík – Nashville – Keflavík.
  • Flugvallarskattar fyrir alla ferðina.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar.
    (M = morgunverður, H = hádegisverður,
    K = kvöldverður).
  • Allar skoðunarferðir með loftkældri rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu (Opry tónlistarhús, Sun Studio, Graceland, OAK Plantationand Museum).
  • Fenjasigling í Louisiana.
  • Heimsókn og vískí smökkun hjá Jack Daniel´s í Tennessee.
  • Heimsókn í Tabasco verksmiðjunna á Avery eyju.
  • Enskumælandi staðarleiðsögn í Nashville, Memphis og New Orleans.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
  • Þjórfé fyrir erlenda staðarleiðsögumenn og rútubílstjóra.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að gæði bandarískra langferðabíla eru ekki sambærileg við þau sem tíðkast í Evrópu, inngangur er yfirleitt aðeins fremst, það er ekki salernisaðstaða og ekki net eða borð aftan á sætum.  Þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Þess ber einnig að geta að suma daga eru dagleiðir í lengra lagi til þess að unnt sé að koma hópnum á milli markverðustu staða. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

17. október | Flug til Nashville

Brottför frá Keflavík kl. 17:10 Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Nashville kl. 19:30 að staðartíma. Eftir útlendingaeftirlit og tollskoðun er haldið á hótel í Nashville, höfuðborgar Tennessee ríkis og miðstöðvar sveitatónlistar í Bandaríkjunum. Kvöldverður á eigin vegum.

18. október | Skoðunarferð um Nashville

Í dag förum við í skoðunarferð um Nashville með heimamanni. Saga borgarinnar nær aftur til ársins 1779 þegar fremur lítill hópur manna nýtti sér landshætti og nam land við Cumberland ána. Ein hetja sjálfstæðisbyltingarinnar var Francis Nash og er staðurinn nefndur eftir honum. Landnámið stækkaði hratt og árið 1806 varð til borg en árið 1843 varð Nashville að höfuðborg Tennessee fylkis. Hún er fyrst og fremst þekkt fyrir að vera mekka sveitatónlistar í Bandaríkjunum. Við förum í Music Row, tónlistarhverfi borgarinnar, þar sem margt er að sjá. Hér eru ótal hljóðver, söfn, tónleikastaðir, verslanir, útvarpsstöðvar ‒ nánast allt sem tengist þessum mikla iðnaði. Hér gefst frjáls tími fyrir hádegishressingu og að skoða sig um í þessu líflega hverfi. Seinni hluta dags sækir rútan okkur og þá gefst færi á að skoða Opry tónleikahúsið en upphaf þess má rekja aftur til fyrri hluta 20. aldar. Grand Ole Opry tónlistarþátturinn var vettvangur, sveita-, blue grass- , þjóðlaga- og gospeltónlistar og nýtur enn mikilla vinælda, en hann er sendur út vikulega. Enginn annar tónlistarþáttur í Bandaríkjunum á sér jafnlanga sögu og 1974 eignaðist hann sitt eigið hús, þar sem tónleikum fyrir framan áhorfendur er útvarpað. Þekktustu stjörnur Bandaríkjanna í sveitatónlist hafa komið fram undir merkjum Opry og einn mesti heiður sem tónlistarmanni getur hlotnast er að vera tekinn inn í hóp Opry meðlima.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

19. október | Menningarborgin Memphis & Sun Studio

Að loknum morgunverði kveðjum við Nashville og ökum af stað til Memphis í Tennessee en hún er sennilega mesta menningarborg suðurríkjanna. Íbúar eru yfir 600 þúsund og hér er sagan mögnuð. Tala fólks af afrískum uppruna er hæst í Tennessee en þegar Þrælastríðinu lauk óx borgin hraðar en nokkur önnur í Bandaríkjunum og varð miðstöð bómullariðnaðarins. Við fáum okkur hádegisverð við komuna til Memphis en eftir hann slæst heimamaður með í hópinn en hann kemur til með að sýna okkur það markverðasta í þessari skemmtilegu borg, t.a.m. Victorian Village, sem er einstakt hverfi sögufrægra bygginga frá 19. öld. Við ökum hjá B. B. King Blues Club, mannréttindasafni landsins, og einu sögufrægasta og glæsilegasta hóteli landsins, Peabody Memphis. Á Beale stræti urðu merk tíðindi í tónlistarsögunni, hér fæddist blúsinn og hér komu fram stjörnur eins og B.B. King, W.C. Handy og Howlin’ Wolf. Á þessari götu er hjarta menningarinnar í Memphis, hér var dægurtónlist að þróast um miðja 20. öld og hingað streymdu tónlistarmenn og lagahöfundar víðsvegar að úr Bandaríkjunum og komu sér og sinni músík á framfæri. Strætið ómar enn í dag því hér eru ótal klúbbar, krár og almenningsgarðar þar sem tónlistarmenn syngja og spila. Við heimsækjum einnig eitt frægasta hljóðver heims, Sun Studio, þar sem fjölmargir tónlistarmenn eins og Elvis Presley, Roy Orbison, Johnny Cash og Jerry Lee Lewis hljóðrituðu mörg sinna frægustu laga.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
Opna allt

20. október | Graceland & Jackson

Eftir morgunverð ökum við áleiðis til Jackson. Við komum við í einu þekktasta húsi Tennessee, sveitasetrinu Graceland, heimili rokkkóngsins Elvis Presley. Þetta er sannarlega eins og eyland í miðri mörkinni, einstaklega glæsilegar byggingar og öll umgerð utanhúss sem innan sannkallað listaverk. Hér gefst góður tími til að skoða enda er hér margt að sjá. Bílafloti kóngsins, flugvélar, hljóðfæri, skrautlegustu búningarnir sem hann klæddist sín síðustu ár á hljómleikum í Las Vegas og margt fleira. Það nálgast hádegi svo við meltum upplifun morgunsins með hádegisverði á svæðinu áður en við höldum áfram ferð okkar til Jackson. Á leiðinni verður áð til gefa fólki færi á að teygja úr sér og fá sér hressingu, en þegar komið verður til Jackson er farið á náttstað þar sem gist verður eina nótt.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 160 km

21. október | Baton Rouge, plantekra & Lafayette

Að loknum morgunverði er ekið til suðurs og smám saman taka við plantekrur og búgarðar. Við komum til höfuðborgar Louisiana, Baton Rouge en hún er mikil iðnaðar-, mennta- og vísindaborg. Frá Baton Rouge er heilmikill útflutningur en Mississippi áin rennur hér um og er skipgeng stórum flutningaskipum, enda er hér tíunda stærsta útflutningshöfn Bandaríkjanna. Í Baton Rouge gefst tími til að fá sér hádegishressingu áður en við höldum áfram til Lafayette. Á leið okkar skoðum við eina af plantekrum Louisiana. Borgin Lafayette er stundum kölluð hamingjusamasta borg Bandaríkjanna en hún er þekkt fyrir mikla samheldni og náin tengsl íbúa. Þeir eiga sitt eigið tungumál, tónlist og einstaka matargerðarlist sem tengja þá saman. Lafayette var stofnuð af frönskum landnemum sem kallaðir voru Akadíumenn. Cajun menning þeirra er undir áhrifum frá Frakklandi, Spáni, Afríku og frumbyggjum Ameríku og þar er lögð áhersla á samveru og hlýtt samfélag. Hér gistum við í eina nótt.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 370 km

22. október | Tabasco, fenjatúr & New Orleans

Í dag liggur leið okkar til Jassborgarinnar New Orleans. Við stoppum á Avery eyju sem stendur upp úr fenjum og votlendi Louisiana. Eyjan er í raun svokölluð saltbunga sem er jarðfræðileg myndun úr salti sem hefur brotist upp í yfirliggjandi setlög. Á þessari fallegu saltbungu hefur McIlhenny fjölskyldan framleitt hina frægu Tabasco sósu í fimm kynslóðir. Hráefnið er cayenne pipar sem er ræktaður í frjórri jörð eyjunnar, salt úr námunum og edik. Á eyjunni er Jungle Gardens sem er athvarf ýmissa fuglategunda, dýra og framandi plantna. Við höldum áfram ferð okkar og stöldrum við í litla bænum Thibodaux þar sem færi gefst á að fá sér hádegishressingu. Eftir hádegið höldum við á vit ævintýranna í fenjunum Louisiana og kynnum okkur náttúru og dýralíf í bátsferð um þetta áhugaverða vistkerfi. Við endum viðburðarríkan dag á kvöldverði í New Orleans þar sem við gistum næstu tvær nætur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 270 km

23. október | Skoðunarferð um New Orleans

Við erum við stödd í einni merkilegustu borg Bandaríkjanna og hér er margt að sjá. New Orleans er líflegur bræðslupottur menningar frá Frakklandi, Spáni, Afríku og Karabíska hafinu. Kreólamenningin ber merki þessarar blöndu í tungumáli, matarmenningu, listum, tónlist og hefðum. Jazzinn er sprottinn úr þessum jarðvegi en New Orleans er eimnmitt þekkt sem fæðingarstaður hans. Við hefjum daginn á göngu- og skoðunarferð um borgina í fylgd með heimamanni. Einn þekktasti og elsti hluti New Orleans er Franska hverfið, enginn fer í skoðunarferð um borgina án þess að fara um þetta hverfi og á strætið sem aldrei sefur, Bourbon Street. Hér er gjarnan líf og fjör og tónlist sem ómar á hverju horni, skemmtiegar verslanir og veitingastaðir. Jackson Square er skemmtilegur lystigarður sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Hér standa St. Louis dómkirkjan, Cabildo sem áður hýsti frönsku nýlendustjórnina og Presbytère sem er í dag hýsir skemmtilegt safn. Við getum einnig séð elstu fjölbýlishús Bandaríkjanna við torgið, Pontalba. Skammt frá torginu er hægt að njóta útsýnis yfir Mississipppi fljótið. Nú gefst frjáls tími til að skoða sig betur um á eigin  vegum og fá sér hádegisverð. Undir kvöld fer hópurinn um borð í hjólaskip á Mississippi, hlustar á jazz og borðar kvöldverð. 

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

24. október | Mobile & Montgomery í Alabama

Landið og loftslagið í þessu ríki henta einstaklega vel fyrir akuryrkju. Vísbendingar hafa fundist um að frumbyggjar hafi hoggið og brennt skóga til að geta sáð í akra. Á landnámstíð unnu innflytjendur landið næst ánum til að eiga greiða leið á markað. Bómull varð snemma vinsælust og var Alabama stundum kallað „The Cotton State“ eða Bómullarríkið. Við ökum í austur meðfram strönd Mexíkóflóa, en það er merkilegt til þess að hugsa að straumar úr þessum sjó skuli ná til Íslandsstranda og valda því að hjá okkur er byggilegra en á Grænlandi. Við komum í borgina Mobile og skoðum þar merkan stríðsminjagarð, The USS Alabama Battleship Memorial Park. Við snæðum hádegisverð í borginni en þaðan verður svo stefnan sett á sögufrægan stað, borgina Montgomery. Við förum í stutta skoðunarferð um borgina og sjáum merkar byggingar eins og þinghúsið og umdeildan minnisvarða, Confederate Memorial Monument. Heimsækjum borgararéttindasafn, Civil Rights Memorial Center og endum hjá styttu Hank Williams, tónlistarmanns. Gistum eina nótt í borginni.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 500 km

25. október | Lynchburg & Nashville

Við kveðjum Alabama og ferðumst til bæjarins Lynchburg í Tennessee. Við snæðum hádegismat í húsi Miss Mary Bobo og þar komumst við áreiðanlega að því hver hún var þessi dularfulla kona. Þaðan verður farið í elstu og þekktustu whiskey verksmiðju Bandaríkjanna, Jack Daniel´s Distillery en hún hefur verið rekin í Lynchburg síðan 1866. Lynchburg er staðsett í Moore sýslu þar sem ríkir strangt áfengisbann en það vill svo til að Jack Daniel´s Distillery hefur undanþágu til að leyfa gestum sínum að smakka á afurðunum og kaupa þær sem minjagripi. Frá Lynchburg er ekið til Nashville þar sem gist verður um nóttina. 

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 510 km

26. október | Heimferðardagur

Dagur heimferðar rennur upp, við gefum okkur góðan tíma yfir morgunverði og slökum á. Þeir sem vilja geta komið töskum sínum fyrir í læstri geymslu hótels og notað hluta dags til að versla eða skoða sig betur um. Hópurinn verður fluttur á flugvöll en flug heim er kl. 20:55.

  • Morgunverður

27. október | Heimkoma

Áætlað er að flugvél Icelandair lendir í Keflavík að morgni 27. október kl. 08:40
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Nashville: Tru By Hilton Nashville Downtown Convention Center
  • Memphis: SpringHill Suites Memphis Downtown
  • Jackson: Best Western Plus Jackson Downtown Coliseum
  • Lafayette: Drury Inn & Suites Lafayette
  • New Orleans: Holiday Inn New Orleans-Downtown Superdome
  • Montgomery:  SpringHill Suites by Marriott

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti