Vordagar í Madríd & Valencia

Í þessari fróðlegu og skemmtilegu ferð heimsækjum við glæsilegar og einstaklega áhugaverðar spænskar borgir, heimsborgina Madríd og hina undurfögru Valencia. Við förum einnig í skemmtilegar dagsferðir á áhugaverða staði í nágrenni Valencia. För okkar hefst í höfuðborginni Madríd sem tekur á móti okkur með sínum grænu görðum og margbreytilegri menningu. Hún er heimsborg en hefur samt skemmtilegan þorpssjarma með litlum snotrum kaffihúsum, menningarminjum og miðborgarkjarna. Við skoðum okkur um í borginni og lítum á helstu kennileiti. Á leið til Valencia verður komið við í fornu borginni Toledo en hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin Valencia er ein fegursta borg Spánar, borg paellunnar, þekktasta rétts spænskrar matargerðar. Við förum í siglingu um náttúruþjóðgarðinn Albufera og skoðum bæinn Sagunto þar sem áhrifa gætir frá Íberíumönnum og Rómverjum. Við förum einnig í magnaða siglingu í San Josep hellinum þar sem við ferðumst eftir neðanjarðará og upplifum ævaforn hellamálverk í bland við dropasteina. Ekki má svo gleyma heimsókn í fjallaþorpið Guadalest sem stofnað var af Márum á 8. öld. Við stöldrum einnig við í einu af þekktustu vínhéruðum landsins þar sem við fræðumst um vínrækt og smökkum afurðirnar. 

Verð á mann í tvíbýli 369.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 93.400 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hótelum.
  • Sex kvöldverðir, þar af einn léttur/kaldur fyrsta kvöldið.
  • Tapas réttir og vínsmökkun hjá vínbónda í Valencia.
  • Albufere náttúruþjóðgarðurinn og bátsferð.
  • Hellirinn Coves de Sant Josep og bátsferð.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Tveir kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. apríl | Flug til Madríd

Brottför frá Keflavík kl. 15:00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Madríd kl. 21:25 að staðartíma. Gist verður í þrjár nætur á góðu 4* hóteli í Madríd.

5. apríl | Heimsborgin Madríd

Í dag ætlum við að kynnast betur heimsborginni Madríd sem er þekkt fyrir sín fjölmörgu grænu svæði. Falleg breiðstræti þar sem gróðursæl tré skýla fyrir sólinni, snotur kaffihús og lítil smáhverfi innan stórborgarinnar minna frekar á þorpsstemningu heldur en stórborg. Á leið okkar um eldri hluta borgarinnar verður m.a. á vegi okkar egypska musterið Debod og Spænska torgið, eða Plaza Españja, þar sem finna má minnisvarða um rithöfundinn Miguel de Cervantes sem ritaði skáldsöguna frægu um Don Kíkóta. Við röltum einnig að hinni glæsilegu konungshöll borgarinnar, þeirri stærstu í Evrópu, sem hefur að geyma yfir 3000 herbergi og er nýtt af konungsfjöldunni fyrir opinbera viðburði. Fyrir marga listunnendur er Prado safnið eitt merkilegasta listagallerí í heimi enda hefur það að geyma mörg fræg listaverk spænsku meistaranna eins og Velázquez, Goya, Zurbarán, Ribera og Murillo. Fyrir þau sem vilja njóta borgarinnar á eigin vegum eftir gönguna er tilvalið að rölta um El Retiro garðinn og listunnendur ættu að kíkja á listaverkasafnið Thyssen-Bornemisza, sem er eitt verðmætasta einkasafn í heimi.

6. apríl | Frjáls dagur í Madríd

Í dag gefst hverjum og einum færi á að kanna Madríd upp á eigin spýtur. Upplagt er nýta tækifærið og skoða nánar eitthvað af því sem bar fyrir augu í skoðunarferð gærdagsins, njóta sín á grænum svæðum borgarinnar, fá sér platta af Tapas í La Latino eða Malasaña hverfunum, kíkja í verslanir og njóta líðandi stundar.

Opna allt

7. apríl | Toledo & Valencia

Eftir áhugaverða og skemmtilega daga í Madríd höldum við áleiðis til Valencia. Á leiðinni stoppum við í hinni fornu borg Toledo sem stendur við bakka Tagus árinnar sem er sú lengsta á Íberíuskaganum. Borgin er í sjálfstjórnarhéraðinu Castilla-La Mancha en þetta landbúnaðarsvæði er fámennasta svæði Spánar með innan við tvær milljónir íbúa. Hálendi þessa svæðis var einmitt sögusvið skáldsögunnar um riddaraævintýri Don Kíkóta frá La-Mancha. Borgin Toledo, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, liggur í 450 metra hæð og er m.a. þekkt fyrir arabíska og kristna minnisvarða frá miðöldum. Útsýnið frá efsta hluta borgarinnar yfir hlykkjótta Tagus ána er mikilfenglegt. Þetta svæði blómstraði á tímum Rómverja og á vegi okkar verður hin forna Alcántara brú en hún var byggð yfir Tagus ána á tímum Rómverja. Við komum til Valencia þar sem gist verður í fimm nætur. Kvöldverður á hóteli.

8. apríl | Skoðunarferð um Valencia

Dagurinn hefst á því að kynnast þessari yndislegu borg, Valencia, sem oft er kölluð borg paellunnar, en paella er einn af þekktustu réttum spænskrar matargerðar. Við byrjum á þægilegri rútuferð þar sem við fræðumst um sögu þessarar lista- og vísindaborgar. Hér sjáum við heillandi byggingar frá gotneska- og barrokktímabilinu í bland við módernískar. Við förum einnig í gönguferð um gamla bæinn þar sem við skoðum meðal annars Dómkirkju hins heilaga kaleiks. Eftir það gefst frjáls tími til að skoða sig betur um og þá er tilvalið að fara að gömlu silkikauphöllinni, La Lonja, sem er frá 15. öld og skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Einnig er hægt að skoða enn betur fallega miðbæjarkjarnann sem á sér meira en 2000 ára sögu, áhugaverð söfnin eða útivistarsvæðið Río Turia með margverðlaunuðu sjávarlífssafninu. Fyrir áhugasama er upplagt að kanna úrval paellu á veitingastöðum borgarinnar. Kvöldverður á eigin vegum.

9. apríl | Albufera, bátsferð, vínsmökkun & tapas

Eftir góðan morgunverð höldum við í náttúruþjóðgarðinn Albufera, sem er um 2.800 hektara ferskvatnssvæði, það stærsta á Spáni. Hér eiga yfir 300 fuglategundir athvarf allt árið um kring og þá sérstaklega vatnafuglar, þeirra á meðal flamingó fuglinn. Til að upplifa þessa miklu vatnaperlu og komast örlítið nær fuglalífinu förum við í bátsferð og njótum ógleymanlegrar náttúrufegurðar. Eftir bátsferðina höldum við í heimsókn til eins af þekktustu vínsvæðum héraðsins þar sem við fræðumst um tegundir vínberjanna og sögu vínræktunarinnar. Hápunkturinn verður að sjálfsögðu smökkun á afurðunum ásamt dæmigerðum tapasréttum. Kvöldverður á hóteli.

10. apríl | Sagunto, San Josep hellirinn & þjóðgarðurinn Sierra Calderona

Í dag heimsækjum við Sagunto sveitarfélagið sem er staðsett norður af Valencia, nálægt Costa del Azahar við Miðjarðarhafið. Sagunto er m.a. þekkt fyrir rómverska leikhúsið frá 50 e. Kr. en gamli bærinn, með sínum litlu og þröngu hliðargötum, og gyðingahverfið, sem staðsett er í elsta hlutanum, eru einkar sjarmerandi. Hver gatan á fætur annarri er þrungin sögu. Hér hafa Íberíumenn og Rómverjar komið við og bærinn var á landamærum kristinna manna og múslima á tímum miðalda. Kastalinn sem gnæfir yfir bænum er vitni um hernaðarlegt mikilvægi svæðiðsins og þaðan er gott útsýni yfir Miðjarðarhafið. Við höldum síðan áfram að hellinum Coves de Sant Josep og förum þar í siglingu á neðanjarðará þar sem við dáumst að tilkomumiklum hellamálverkum og dropasteinshellum. Á leiðinni til baka heimsækjum við hinn fallega náttúrugarð Sierra Calderona þar sem gefur að líta stórkostlegt landslag, hrjóstrug fjöll, djúpa dali, þétta skóga og fjölskrúðugt dýralíf. Kvöldverður á hóteli.

11. apríl | Guadalest

Fjallaþorpið Guadalest er undurfagurt og stendur á fjalli með óborganlegu útsýni yfir fjöllin í kring, Guadalest dalinn fyrir neðan og fagurblátt uppistöðulónið sem þar stendur. Efst í þorpinu trónir kastali sem byggður var af Márum á 11. öld, en skipulag þorpsins er í dæmigerðum stíl Mára með sínum mjóu hlykkjóttu götum. Í gamla bænum eru göturnar steini lagðar, húsin kalkborin og lítil torg inn á milli. Í Guadalest eru lítil áhugaverð söfn og verslanir með handverki og matvöru. Hægt er að fara í stutta gönguferð í þjóðgarðinum eða einfaldlega njóta staðar og stundar í þessum fallega bæ. Kvöldverður á eigin vegum.

12. apríl | Heimferð

Nú er yndisleg ferð senn á enda. Við höldum til Alicante og fljúgum þaðan heim til Keflavíkur. Áætluð brottför frá Alicante er kl. 17:35 og áætluð lending í Keflavík er kl. 20:20 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 3 nætur - Madríd - Novotel Madrid Center
  • 5 nætur - Valencia - Senator Parque Central Hotel

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín.

Magnús R. Einarsson

Magnús R. Einarsson er Reykvíkingur sem ólst upp á Seyðisfirði. Hann stundaði nám í tónlist hér heima og svo seinna á Englandi og Ítalíu. Eftir tónlistarnámið lagðist hann í ferðalög um Asíu og Eyjaálfu í hartnær tvö ár. Eftir heimkomuna 1984 gerðist hann dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu á Rás 1. Hann hefur jafnframt ætíð starfað sem tónlistarmaður og leikið með ýmsum hljómsveitum og söngvurum. Hann hefur undanfarin ár búið bæði í París og Alicante og sent þaðan reglulega pistla í Mannlega þáttinn á Rás 1. Magnús er núna búsettur í Vestmannaeyjum.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti