Páskar í Róm & á Amalfíströndinni

Róm, Sorrento, Amalfíströndin og eyjan Caprí eru sannkallaðar draumaperlur Ítalíu en kyngimögnuð fegurð þessara staða umvefur okkur í þessari glæsilegu ferð. Hún hefst í hinni einstöku Róm sem var fyrsta borg heimsins til að ná einni milljón íbúa. Engin borg í heiminum er eins rík af fornminjum og Róm og hér verða margir áhugaverðir staðir skoðaðir, m.a. Kapítólhæðin, Forum Romanum, Pantheon og Colosseum. Við upplifum iðandi mannlíf Rómarbúa hjá Trevi gosbrunninum, við Spænsku tröppurnar og Piazza Navona torgið og sækjum Vatíkanið og Péturskirkjuna heim. Því næst bíður hinn dásamlegi Napólíflói sem er einn fallegasti flói landsins og þar er einnig Sorrento, eftirsóttasti ferðamannabær hans, þar sem við njótum ljúfra daga. Boðið verður upp siglingu til sæbrattrar klettaeyjunnar Caprí þar sem siglt verður fram hjá Bláa hellinum og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar, Monte Solaro. Komið verður í hrífandi gömlu konungsborgina Napólí sem er höfuðborg Campania héraðs við Napólíflóa. Við siglum bæði og ökum með Amalfíströndinni, sem er ein fallegasta strönd Ítalíu, með viðkomu í bæjunum Amalfí og Positano. Við skoðum okkur einnig um í Pompei þar sem finna má eina af frægustu fornminjum veraldar. 

Verð á mann 596.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 198.400 kr.


Innifalið

  • 13 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Níu kvöldverðir á hótelum.
  • Ferja til og frá Caprí.
  • Sigling og ferð með smárútum meðfram Amalfíströndinni. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. 
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Aðgangur að fornminjum í Pompei u.þ.b. € 20.
  • Sigling um eyjuna Caprí u.þ.b. € 23. 
  • Stólalyfta upp á Monte Solaro fjallið á Caprí u.þ.b. € 14. 

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

13. apríl | Flug til Rómar

Brottför frá Keflavík kl. 07:50, mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Róm kl. 14:25 að staðartíma. Róm er einstök, hún var byggð á sjö hæðum og var á blómaskeiði sínu fyrsta borg heims til að ná einni milljón íbúa. Gist verður í fjórar nætur, á vel staðsettu hóteli í þessari sögufrægu borg. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu okkar.

14. apríl | Skoðunarferð um Rómaborg

Á dagskránni í dag er fróðleg skoðunarferð um borgina eilífu, Róm, og munum við staldra við helstu staði borgarinnar. Þar má nefna Piazza Venezia, Kapítólhæð, Forum Romanum, Palatínhæð, Pantheon sem er best varðveitta fornbygging Rómar og stendur við Piazza della Rotonda torgið, Colosseum hringleikahúsið og Spænsku tröppurnar þar sem eitt helsta Maríulíkneski Rómar trónir hátt upp á kórintískri súlu. Við komum að fegursta torgi Rómar, Piazza Navona, en það er byggt á gömlum íþróttaleikvangi Rómverja. Við höfum nú frjálsan tíma til að kynnast borginni og mannlífinu eins og hvern og einn lystir. Kvöldverður á eigin vegum.

15. apríl | Péturskirkjan & frjáls tími

Eftir morgunverð verður haldið að Vatíkaninu og Péturskirkjunni, meistaraverkum síns tíma. Þeir sem vilja geta farið upp í kúpul kirkjunnar. Frjáls tími verður eftir hádegi og verður þá hægt að skoða safn Vatíkansins og Sixtínsku kapelluna á eigin vegum. Best er að panta aðgang í safn Vatíkansins og Sixtínsku kapelluna fyrirfram á netinu. Árið 2025 er heilaga árið í Róm og eru einkennisorð ársins „vonir pílagríma“. Frans páfi hefur ákveðið að heilaga árið hefjist með opnun heilagrar dyra á jólanótt í Péturskirkjunni þann 24. desember 2024. Þau sem vilja það frekar geta litið í verslanir, fengið sér ítalskan hádegisverð á einhverjum veitingastaðnum og notið enn frekar þess sem Róm hefur upp á að bjóða. Kvöldverður á eigin vegum. 

Opna allt

16. apríl | Frjáls dagur í Róm

Sagan býr við hvert fótmál og ariktektúr borgarinnar spannar yfir 2500 ár. Við nýtum þennan frjálsa dag til þess að kanna Róm á eigin spýtur. Fyrir utan fornar byggingar má sjá kirkjur og kapellur, hallir, leikhús, torg og skúlptúra byggð með einkennandi stíl endurreisnartímans og barrokktímabilsins. Hægt er að skoða nánar þær perlur sem við höfum kynnst nú þegar eða rölta um og njóta líðandi stundar. Kaupmenn finnast víða í borginni, fínar verslanir eru við Spænsku tröppurnar en aðalverslunargöturnar eru Via del Corso og Via dei Condotti. Einnig er hægt að fara inn í Colosseum hringleikahúsið, Pantheon, ganga um Forum Romana eða upp á minnisvarðann sem var byggður til heiðurs Viktorio Emanuele ll konungi. Eins er heillandi að koma inn í Castel Sant´Angelo grafhýsi Hadrianusar keisara svo eitthvað sé nefnt. Athugið að best er að panta aðgang fyrirfram á netinu til að komast í Collosseum og Pantheon. Kvöldverður á eigin vegum.

17. apríl | Sorrento við Napólíflóa

Nú kveðjum við Róm eftir dásamlega daga og ökum til Sorrento við Napólíflóa, eins fallegasta flóa landsins. Sorrento er hrífandi bær í bröttum hlíðum en þar vaxa ólífu-, appelsínu- og sítrónutré og þess má geta að Limoncello líkjörinn frægi kemur frá þessu svæði. Á þessum yndislega stað verður gist í átta nætur á góðu hóteli. Kvöldverður öll kvöldin á hóteli.

18. apríl | Skoðunarferð í Sorrento & frjáls tími

Við ætlum að eiga skemmtilegan dag í Sorrento en eftir góðan morgunverð býður fararstjórinn upp á skoðunarferð um bæinn og eftir það er upplagt að kanna dásamlegt umhverfið í Sorrento, eins eftirsóttasta ferðamannabæjarins á Sorrento skaganum. Í bænum er fjöldinn allur af einstaklega heillandi, þröngum, gömlum götum, fögrum kirkjum og glæstum byggingum. Eftir það er frjáls tími til að kanna iðandi mannlíf bæjarins.

19. apríl | Sigling til Caprí

Nú höldum við í siglingu til Caprí, perlu Napólíflóans. Við skoðum fallegu eyjuna, siglum hjá Bláa hellinum, Grotta Azzurra, og förum upp til Caprí og Anacapri þar sem við njótum stórfenglegs útsýnis. Áhugasömum gefst tækifæri til að fara með stólalyftu upp á fjallið Monte Solaro. Jafnframt verður hægt að fá sér hressingu og skoða alls kyns handunnar vefnaðarvörur eins og kniplinga, dúka, klæði og fatnað. 

20. apríl | Fornminjar í Pompei

Í dag höldum við til Pompei þar sem skoðaðar verða einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar og við fræðumst um sögu svæðisins. Eftir það verður gefinn frjáls tími til að slaka á og fá sér hressingu áður en haldið verður aftur til Sorrento. 

21. apríl | Rólegheit og slökun í Sorrento

Dagurinn er tilvalinn til afslöppunar. Skemmtilegt er að upplifa bæinn og hinar gróðursælu ólífu-, appelsínu-, og sítrónuhæðir fyrir ofan hann með því að taka litla lest sem gengur þangað. Einnig er tilvalið að kíkja í verslanir og á kaffi- og veitingahús. Eftir hádegi er upplagt er að nota aðstöðuna við hótelið eða fara niður að bátahöfninni en þar er úrval góðra veitingastaða. Svo er líka hægt að fara á fallegu baðströndinna og fá sér sundsprett

22. apríl | Dagur í Napólí

Á þessum ljúfa degi verður ekið til hrífandi konungsborgarinnar Napólí og farið í skemmtilega skoðunarferð um þessa glæstu borg á suðausturströnd Ítalíuskagans. Gamli miðbærinn í borginni var stofnaður á bronsöld en hann er á heimsminjaskrá UNESCO og hefur töluverðan sjarma sem umvefur okkur á göngu um hann. Skoðum það helsta í borginni en hana prýða glæstar byggingar og konungleg torg. Eftir skoðunarferð verður tími til að njóta lífsins í þessu einstaka umhverfi og fá sér hressingu, eins og t.d. hina dæmigerðu Pizza Napoletana sem er afar ljúfeng.

23. apríl | Sigling & rúta með Amalfíströndinni

Haldið verður í töfrandi dagsferð um Amalfíströndina þar sem fegurðin er svo sannarlega einstök. Við hefjum daginn á ferð með smárútum með fram ströndinni og hvarvetna gefur að líta dásamlegt landslag á þessari fallegu leið til bæjarins Amalfí, þar sem við stoppum og skoðum okkur um. Á rölti um bæinn sjáum við fallega dómkirkju frá 10. öld, lífleg veitinga- og kaffihús og litlar verslanir sem gaman er að kíkja inn í. Því næst verður farið í hrífandi siglingu með Amalfíströndinni til Sorrento en þaðan gefur að líta ægifagurt útsýni yfir fallegustu strandlengju Ítalíu og sjáum við þar litskrúðug hús, hótel og smábæi sem hanga utan í klettabrúninni. Á þessari ljúfu siglingu verður áð í Positano, einum þekktasta og vinsælasta ferðamannabæ Amalfístrandarinnar áður en siglt verður til Sorrento. Við mælum eindregið með því að gestir gæði sér á grilluðum sjávarréttum í hádeginu en þeir eru einn helsti sérréttur svæðisins.

24. apríl | Rólegheit & slökun

Þennan dag gefst heill dagur til þess að slaka á og njóta þess að vera á þessum yndislega stað. Sorrento er líflegur og skemmtilegur bær, þar er margt að skoða og tilvalið að kíkja í verslanir eða á kaffi- eða veitingahús. Einnig er hægt að slaka á við sundlaug hótelsins eða ganga niður að strandlengjunni.

25. apríl | Heimflug frá Róm

Nú er komið að heimferð eftir glæsilega og viðburðaríka ferð. Við tökum daginn snemma og ökum aftur til Rómar. Brottför er þaðan kl. 15:25. Áætluð lending í Keflavík kl. 18:15 að staðartíma.


Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 4 nætur – Róm - Hotel Orazio Palace
  • 8 nætur – Sorrento - Hotel Vesuvio

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Guðrún Sigurðardóttir

Guðrún Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Hlíðunum, Reykjavík. Hún kom fyrst til Ítalíu árið 1980 í framhaldsnám og hefur verið þar að mestu leyti síðan, bjó í næstum þrjá áratugi við Como vatn og býr nú til skiptis á Ítalíu og á Íslandi. Hún hefur verið fararstjóri með Íslendinga víðs vegar um Ítalíu og víðar í fjölda ára. Einnig hefur hún unnið sem leiðsögumaður með Ítali á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti