Páskar í Alsace & Svartaskógi

Svartiskógur og Alsace héraðið bíða okkar í öllum sínum skrúða í þessari ljúfu ferð en það er mikið sjónarspil þegar trén byrja að blómstra á vorin og svæðið umbreytist í haf af bleikum og hvítum blómum. Oberkirch er töfrandi bær í Svartaskógi í Þýskalandi sem er þekktur fyrir sína fögru kirsuberjatrjágarða. Það var einmitt í þessu landslagi sem Grimmsævintýrin urðu til og margar aðrar sagnir og þjóðsögur í þýskri menningu. Ferðin hefst í Frankfurt og verður ekið þaðan til Oberkirch þar sem gist verður allan tímann. Farið verður í margar spennandi dagsferðir, m.a. verður ekinn hinn frægi klukkuvegur í Svartaskógi og komið við á verkstæði þar sem gauksklukkurnar eru smíðaðar. Komið verður til Freiburg sem er stundum kölluð hliðið inn í Svartaskóg. Alltaf er gaman að koma til glæstu Strassborg, höfuðborgar Alsace héraðsins í Frakklandi, og þaðan verður farið í skemmtilega bátsferð á ánni Ill. Einnig verður komið til hinnar ljúfu háskólaborgar Heidelberg og til ævintýrabæjarins Colmar sem er þekktur fyrir bindingsverkshús, kræklóttar, þröngar götur og ekki síst listamannahverfið, litlu Feneyjar, sem er eitt fallegasta hverfi bæjarins. Það er draumur að aka um vínslóðina í Alsace þar sem við þræðum ótal falleg smáþorp með heillandi bindingsverkshúsum eins og til dæmis í litla, rómantíska bænum Obernai, Barr og frá Ribeauvillé til Riquewihr sem er ævintýri líkast að koma til.

Verð á mann 292.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 26.500 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður á hótelinu.
  • Sigling á ánni Ill í Strassborg.
  • Vínsmökkun hjá vínbónda í Alsace.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. 
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Heidelberg kastali og lyfta u.þ.b. € 10.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

13. apríl | Flug til Frankfurt og ekið til Oberkirch

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 13:00 að staðartíma. Ekin verður falleg leið til Oberkirch þar sem gist verður í sjö nætur. Bærinn er afar huggulegur, staðsettur á sólríku svæði Svartaskógar og aðeins í um 20 km fjarlægð frá Strassborg.

14. apríl | Freiburg & klukkuvegurinn

Freiburg hefur verið háskólaborg frá fornu fari en þessi borg hinna frjálsu á sér langa sögu. Sögulegar miðaldabyggingar setja svip sinn á borgina og margt er að skoða og dást að. Hér má rölta um miðbæinn, drekka í sig alþjóðlegt andrúmsloft og dást að fornum byggingum. Á bakaleiðinni verður ekinn hluti af klukkuveginum en þar eru framleiddar heimsfrægar gauksklukkur. Við munum heimsækja eina smiðjuna til að sjá hvernig klukkurnar eru búnar til og heyra frásagnir af uppruna þeirra. Að því loknu er upplagt að fara á Schwarzwald Café og bragða á hinni frægu Schwartzwäldertertu.

15. apríl | Dagur í Strassborg

Strassborg er einstaklega áhugaverð borg með hrífandi gömlum húsum og vatnavegum. Þessi höfuðstaður Alsace héraðsins stendur í Frakklandi rétt við landamæri Þýskalands. Byrjað verður á að fara í skemmtilega siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina en þar sést glöggt hvernig gljáandi ný háhýsi, eins og Evrópubyggingin, kallast á við eldri hluta borgarinnar með sögulegu bindingsverkshúsunum. Að siglingunni lokinni verður farið í stutta skoðunarferð um elsta hluta borgarinnar, skoðum sögufrægu Münsterkirkjuna en inni í kirkjunni er mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Frjáls tími gefst síðan fyrir hvern og einn til að fá sér hressingu, líta inn til kaupmanna eða ganga um hverfið Litla Frakkland.

Opna allt

16. apríl | Heidelberg

Við hefjum daginn á ferð til dásamlegu borgarinnar Heidelberg sem er svo sannarlega ein af fallegustu borgum Þýskalands. Þessi borg á bökkum árinnar Neckar er ein elsta háskólaborg landsins og ber miðbærinn þess glöggt merki með sögulegum byggingum, mikilfenglegri dómkirkju og Heidelberg höllinni sem gnæfir tignarlega yfir borgina. Eftir að hafa skoðað nægju okkar af markverðustu stöðunum gefst tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum áður en haldið verður aftur til Oberkirch.

17. apríl | Ævintýrabærinn Colmar

Glæsilegur dagur í Colmar en þessi einstaklega fallegi bær er þekktur fyrir bindingsverkshús, kræklóttar, þröngar götur og ekki síst listamannahverfið, litlu Feneyjar. Það er eitt fallegasta hverfi bæjarins og upplifunin er ævintýri líkust. Auðvitað verður gefinn tími eftir ljúfa skoðunarferð til að líta inn í skemmtilegar, litlar verslanir og setjast inn á notaleg kaffi- eða veitingahús í gamla bænum.

18. apríl | Frjáls dagur í Oberkirch

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri til að haga deginum að vild. Oberkirch er lítill og huggulegur bær en áin Rench rennur í gegnum hann. Hér á einu sólríkasta svæði Svartaskógar er mikil ávaxta- og vínrækt umhverfis bæinn. Það er einstaklega notalegt að rölta um í rólegheitunum og njóta þess að vera í þessu fagra umhverfi. Einnig mætti kíkja á kaupmenn eða skoða mannlífið á einu af kaffihúsum bæjarins.

19. apríl | Vínslóðin til Riquewihr

Að loknum morgunverði munum við aka eftir vínslóðinni í Alsace, einu þekktasta vínhéraði heims. Við þræðum ótal falleg smáþorp með heillandi bindingsverkshúsum, eins og Barr og Ribeauvillé og heimsækjum fallega og rómantíska bæinn Obernai, sem ákaflega gaman er að staldra við í og kynna sér nánar. Að sama skapi látum við hrífast af einstökum ævintýrablæ bæjarins Riquewihr, sem er með vinsælli ferðamannabæ jum svæðisins. Bærinn er staðsettur í hjarta héraðsins, býr yfir einstökum arkitektúr og hefur staðið í nánast óbreyttri mynd síðan á 16. öld. Á svæðinu fer fram háklassa vínrækt svo afurðin drýpur af hverju strái. Því er upplagt að enda góðan dag á heimsókn í vel valin vínkjallara og bragða á framúrskarandi afurð svæðisins.

20. apríl | Heimferðardagur

Nú kveðjum við Svartaskóg og Alsace héraðið eftir góða daga. Að morgunverði loknum verður lagt af stað út á flugvöll og flogið heim kl. 14:00. Lending í Keflavík er kl. 15:45 að staðartíma.


Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 7 nætur – Oberkirch - Hotel Renchtalblick

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti