Páskar í Alsace & Svartaskógi
13. - 20. apríl 2025 (8 dagar)
Svartiskógur og Alsace héraðið bíða okkar í öllum sínum skrúða í þessari ljúfu ferð en það er mikið sjónarspil þegar trén byrja að blómstra á vorin og svæðið umbreytist í haf af bleikum og hvítum blómum. Oberkirch er töfrandi bær í Svartaskógi í Þýskalandi sem er þekktur fyrir sína fögru kirsuberjatrjágarða. Það var einmitt í þessu landslagi sem Grimmsævintýrin urðu til og margar aðrar sagnir og þjóðsögur í þýskri menningu. Ferðin hefst í Frankfurt og verður ekið þaðan til Oberkirch þar sem gist verður allan tímann. Farið verður í margar spennandi dagsferðir, m.a. verður ekinn hinn frægi klukkuvegur í Svartaskógi og komið við á verkstæði þar sem gauksklukkurnar eru smíðaðar. Komið verður til Freiburg sem er stundum kölluð hliðið inn í Svartaskóg. Alltaf er gaman að koma til glæstu Strassborg, höfuðborgar Alsace héraðsins í Frakklandi, og þaðan verður farið í skemmtilega bátsferð á ánni Ill. Einnig verður komið til hinnar ljúfu háskólaborgar Heidelberg og til ævintýrabæjarins Colmar sem er þekktur fyrir bindingsverkshús, kræklóttar, þröngar götur og ekki síst listamannahverfið, litlu Feneyjar, sem er eitt fallegasta hverfi bæjarins. Það er draumur að aka um vínslóðina í Alsace þar sem við þræðum ótal falleg smáþorp með heillandi bindingsverkshúsum eins og til dæmis í litla, rómantíska bænum Obernai, Barr og frá Ribeauvillé til Riquewihr sem er ævintýri líkast að koma til.