Gran Canaria, Fuerteventura & Tenerife
25. febrúar - 13. mars 2025 (17 dagar)
Kanaríeyjar eru mörgum Íslendingum kunnugar en þrátt fyrir það eru margir sem ekki hafa upplifað allt það stórkostlega sem eyjarnar hafa upp á að bjóða. Þar má helst nefna fjölbreytta og gullfallega náttúru, girnilega matargerðarlist og áhugaverða sögu og menningu. Í þessari ljúfu ferð munum við njóta þess að blanda saman fjölbreyttum skoðunarferðum og afslöppun í sólinni á þremur stærstu Kanaríeyjunum, Gran Canaria, Fuerteventura og Tenerife. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyra þessar spænsku eldfjallaeyjur Afríku, enda liggja þær aðeins 100 km frá Marokkó þar sem styst er á milli. Við hefjum ferð okkar á Gran Canaria þar við skoðum m.a. höfuðborgina Las Palmas, hið undraverða friðland á Maspalomas ströndinni, sjarmerandi sjávarþorpið Mogán, litríka bæinn Agüimes og frumbyggjadalinn Guayadeque. Við fræðumst um kanaríska rommframleiðslu, skoðum okkur um í vatnabænum fræga Firgas og í dalnum Los Berrazales. Á Fuerteventura förum við í skoðunarferð um eyjuna þar sem við sjáum strendur og eldfjöll, heimsækjum áhugaverðar borgir og njótum fallegs landslags. Við förum í heimsókn á aloe vera býli, smökkum geitaost sem íbúar eyjunnar eru afar stoltir af og sækjum heim bæinn Betancuria sem er umkringdur fjallafegurð. Við dveljum lengst á stærstu Kanaríeyjunni, Tenerife. Eldfjallið Teide blasir víða við enda hæsta fjall Spánar en við munum taka kláf upp á Teide og njóta þaðan stórkostlegs útsýnis. Við förum í skoðunarferðir um bæði norður- og vesturhluta Tenerife og sjáum þar stórbrotna náttúru og mörg hrífandi þorp á borð við Candelaria, La Laguna, El Sauzal og Masca sem situr á einum toppi Teno-fjalla. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir Kanaríeyjar ákjósanlegan áfangastað og þarna munum við svo sannarlega njóta þess að dvelja, slaka á og njóta ómældrar náttúrufegurðar.