22. október – 6. nóvember 2025 (16 dagar)
Japan er fornfrægt menningarríki þar sem hefðir, tækni og náttúrufegurð sameinast í einstakri blöndu. Við fljúgum til höfuðborgarinnar Tókyó og könnum gömul og söguleg hverfi sem finna má í iðu stórborgarinnar. Svo verður haldið til Kamakura þar sem ein af þjóðargersemum Japans er staðsett, gistum í borginni Oiso og förum svo í Hakone þjóðgarðinn sem er við rætur eldfjallsins Fuji. Næst er ferðinni heitið með háhraðalest til Kyoto sem í dag er sannkölluð höfuðborg menningar í Japan. Þar kynnum við okkur hefðbundna teathöfn og Kimono búning innfæddra. Við komum einnig til borgarinnar Osaka sem er ein mikilvægasta hafnar- og iðnaðarborg landsins og skoðum Nara sem eitt sinn var vagga lista, handverks og bókmennta. Við heimsækjum hið heimsfræga friðarsafn um afleiðingar kjarnorkusprengja í Hiroshima og siglum til Miyajima þar sem helgidómurinn Itsukushima er byggður í flæðarmálinu og eitt þekktasta tori hlið Japans er staðsett.
Suður-Kórea býður upp á blöndu af ævagamalli menningu og nútímavæddu hátæknisamfélagi, stórbrotinni náttúru og einstakri gestrisni þjóðar sem á sér 5000 ára sögu. Við dveljum í Seúl, hinni gríðarstóru höfuðborg með háum skýjakljúfum, hátækni neðanjarðarlestarkerfi og poppmenningu. Borgin er einnig ákaflega hefðbundin og þar er að finna búddamusterið Jogyesa, Gyeongbokgung höllina og Bukchon Hanok þorpið, sem á sér um 600 ára sögu. Við förum í dagsferð að landamærum Suður- og Norður Kóreu, skoðum Imjingak friðargarðinn og Dorasan járnbrautarstöðina sem áður tengdi nágrannalöndin saman.
Á ferð okkar um Japan og Suður Kóreu munum við upplifa fјölbreytt mannlíf, iðandi borgir, framandi siði, matarhefð og menningu, nútímalega hátækni, fögur hof og náttúru. Hér blandast fornar hefðir og nútíminn á skemmtilegan hátt og skapa einstaka menningarheima.