Á Inkaslóðum í Perú

Ferðalag til Perú er mikið ævintýri, hér blandast saman á heillandi hátt hin forna og merkilega Inkamenning landsins, litskrúðugir íbúar og minjar frá nýlendutíma Spánverja. Hin stórbrotna menning Inkanna sem átti upphaf sitt í Andesfjöllum náði hápunkti á 15. öld og í upphafi þeirrar 16. Hún er vitnisburður um hugvit, listfengi og andlega dýpt. Glæsileiki nýlenduborganna endurspeglar ríkidæmi síns tíma og sýnir hversu mikil áhrif það tímabil hafði í sögu landsins. Ferðin hefst í höfuðborginni Lima sem geymir margar fornar gersemar í bland við praktískan byggingarstíl nútímans. Þaðan höldum við til Cusco, hinnar fornu höfuðborgar Inkaveldisins, en hún var miðpunkturinn í ríki Inkanna sem náði yfir stóran hluta Suður-Ameríku. Hér kynnumst við lífinu í fjöllunum, ferðumst um hinn Heilaga dal, skoðum merkar minjar og upplifum að sjálfsögðu frægasta áfangastað Perú, týndu borgina Machu Picchu, í stórbrotnu landslagi á hásléttum Andesfjalla. Við heimsækjum Puno við Titicaca vatn en öldum saman bjuggu ólíkir ættbálkar víðs vegar að við þetta mikla vatn. Við munum sigla út til fljótandi Uros-eyjanna við landamæri Bólivíu. Þar býr fámennur hópur Urofólks en talið er að þeir séu einn elsti þjóðflokkur í Perú. Einnig munu íbúar Quechua samfélagsins, Taquileños, taka á móti okkur á eyjunni merkilegu Taquile. Hér er ógleymanleg ferð í gegnum sögu, menningu og fallega náttúru þessa merkilega lands.

Verð á mann 999.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 172.700 kr.


Innifalið

  • 17 daga ferð.
  • Flug með Icelandair Keflavík – Toronto – Keflavík.
  •  Áætlunarflug með Air Transat á almennu farrými Toronto – Lima – Toronto.
  • Flugvallarskattar fyrir ofangreind flug.
  • Innanlandsflug í Perú frá Lima til Cusco.
  • Innanlandsflug í Perú frá Juliaca til Lima.
  • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Lestarferðir í Urubamba dalnum samkvæmt ferðalýsingu.
  • Bátsferðir á Titicaca vatni samkvæmt ferðalýsingu.
  • Bátsferð út í eyjuna Ballestas.
  • Útsýnisflug yfir Nazca Lines.
  • Gisting í 14 nætur á 4* og 5* hótelum í Perú samkvæmt landsmælikvarða.
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
    (M = morgunv. H = hádegisv. K = kvöldv.)
  • Enskumælandi staðarleiðsögn í Perú.
  •  Íslensk fararstjórn.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

  • Máltíðir og drykkir annað en það sem tilgreint er í ferðalýsingu.
  • ETA heimild til Canada ca $ 7.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að sérferðir eru lengri ferðir á fjarlægari slóðir. Alltaf er eitthvað um göngur og mörg svæði eru bæði hæðótt og ójöfn undir fæti og aðgengi að áfangastöðum misjafnt og stundum krefjandi.
Þess ber einnig að geta að suma daga eru dagleiðir í lengra lagi til þess að unnt sé að koma hópnum á milli markverðustu staða. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Hafa ber í huga að Machu Picchu er staðsett í um 2400 metra hæð og Sólarhliðið í um 2700 metra hæð og þegar svona hátt er komið er minna súrefni í loftinu en á lágsléttu. Þrekið er hugsanlega minna og fólk gæti verið andstyttra en venjulega. Það er mikilvægt að vera vel skóaður og undirbúa sig fyrir ójafna stíga og tröppur til að komast um svæðið.

Ganga að Sólarhliðinu frá Machu Picchu og til baka tekur um 2 tíma og er um 4 kílómetra löng, upphækkun er um 290 metrar. Leiðin er nokkuð aflíðandi upp í móti en seinustu 15 mínúturnar má búast við meiri bratta. Miðlugserfið ganga. Mikilvægt að hafa vatn meðferðis. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

1. október | Keflavík − Toronto – Lima

Flug með Icelandair frá Keflavík kl. 17:05. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Toronto kl. 19:10 að staðartíma en flugið tekur um 6 klst. Kl. 23:00 er flogið áfram til Lima. Flugið tekur um 8 klukkustundir og er næturflug. 

2. október | Hvíld fyrir hádegi – skoðunarferð um Lima eftir hádegi

Við lendum að morgni 2. október kl. 06:00 í Lima og förum beint á hótel okkar þar sem við fáum morgunverð og jöfnum okkur eftir flugið. Í eftirmiðdaginn verður haldið í skoðunarferð um borgina. Lima er höfuðborg Perú og liggur fyrir miðju á Kyrrahafsströnd landsins. Hún er kölluð borg konunganna, þrátt fyrir að konungur hafi aldrei ríkt þar í raun, en heitið vísar til hlutverks borgarinnar á nýlendutímanum þegar Spánverjar réðu lögum og lofum. Í Lima er að finna skemmtilega blöndu af hraða nútímans og fornum listrænum gersemum. Nútímaleg íbúðahverfi í praktískum byggingarstíl eru rétt við gamlar kirkjur og villur í skrautlegum nýlendustíl sem býr til hrópandi ósamræmi í umhverfinu – en þetta er Lima í hnotskurn! Farið verður í skoðunarferð sem hefst á Plaza de Armas þar sem við sjáum m.a. stjórnarhöllina, dómkirkjuna og San Francisco klaustrið. Eftir heimsókn í gamla bæinn er haldið áfram í viðskiptahverfin Miraflores og San Isidro þar sem er stórkostlegt útsýni yfir hafið. Kvöldverður á veitingastað í nálægð við ströndina

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

3. október | Dagur í Lima

Um morguninn skoðum við Larco safnið en það er hýst í fallegu hefðarsetri frá nýlendutímanum. Rafael Larco Hoyle helgaði líf sitt rannsóknum á Perú til forna og kom safninu á fót árið 1926. Með hjálp föðurs síns, Rafael Larco Herrera, safnaði hann tugum þúsunda gripa sem mynda safnið í dag. Hér er einstakt úrval muna sem sýna fram á hæfni gull- og silfursmiða Perú til forna og aðrir handunnir gripir sem tengjast sögu og menningu landsins fyrir daga Kólumbusar í Ameríku. Einnig er hér umtalsvert magn keramikgripa en sumir þeirra eru þekktir fyrir erótískan undirtón. Við sjáum textílvefnað, ýmsa skartgripi og útskorna steina. Eftir að hafa skoðað þetta merkilega safn, borðum við saman hádegismat á veitingastað safnsins. Síðdegis verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

Opna allt

4. október | Flug til Cusco – Pisac & Hinn heilagi dalur Inkanna

Flogið verður frá Lima snemma dags og lent um einum og hálfum tíma síðar í bænum Cusco á hásléttum Andesfjalla. Þaðan liggur leið okkar í átt að hinum Heilaga dal Inkanna, Valle Sagrado. Næst komum við í fagra bæinn Pisac, þar sem rótgróin menning Inka og nýlenduáhrif hafa náð góðu jafnvægi og lifnaðarhættir íbúanna bera þess merki, enda er andrúmsloftið einstakt á þessum stað. Hér er mikil áhersla á hið andlega og trúarlega í menningu Andesfjalla enda þykir staðurinn búa yfir mikilli orku. Íbúarnir stunda margir hverjir hefðbundna akuryrkju, vefnað og leirkeralist. Við kynnumst fornum aðferðum við litun og vefnað og listaverkum úr ull af dýrum sem eiga uppruna sinn í Andesfjöllunum. Þau eru af kameldýraætt, svo sem lama- og alpacadýr, vicuñas og guanacos. Pisac er einnig mikilvægt svæði út frá fornleifum, hér eru rústir frá tímum Inka, fornir akrar, hof og virki. Okkur gefst færi á að kanna bæinn, sem er frægur fyrir markað með listrænt handverk, eins og vefnað, skartgripi, keramik og vefnaðarvöru. Gist í tvær nætur á hóteli í Heilaga dalnum, Valle Sagrado.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

5. október | Heilagi dalur Inkanna & Inkaþorpið Ollantaytambo

Í dag skoðum við ýmsa staði í hinum Heilaga dal Inkanna. Fyrsti viðkomustaður okkar eru fornleifarnar í Moray en þær samanstanda af hringlaga syllum sem eru byggðar inn í landslagið. Það eru allt að 30 metar frá botni upp að brún á þeim dýpstu. Mönnum hefur lengi verið ráðgáta í hvaða tilgangi þessi fyrirbæri voru byggð en við heyrum um líklegustu tilgátuna. Við heimsækjum saltnámur í Maras þar sem við kynnum okkur forna hætti og vinnulag Inka, enda hafa þessar námur verið í notkun frá þeirra tíma. Eftir góðan hádegismat heldur leið okkar áfram til Ollantaytambo, eina þorps Inkamenningarinnar sem enn er í byggð, en með því er átt við að íbúarnir eru ennþá að nota það sem Inkarnir byggðu á sínum tíma, skipulag bæjarins hefur haldið sér, áveitukerfi og ræktarsillur. Fyrir ofan þorpið gnæfa rústir stallaðs virkis sem eitt sinn varði borgina og veitti henni vernd gegn óvinum.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

6. október | Machu Picchu

Dagurinn hefst á lestarferð til Aguas Calientes, sem er við rætur fjallsins sem Machu Picchu stendur á. Strax eftir komuna í bæinn höldum við upp til Machu Picchu, sem stundum hefur verið kallað eitt af sjö undrum veraldar. Borgin er á stórkostlegum fjallstoppi hátt yfir Rio Urubamba-gilinu. Hvöss strýta fjallsins Huayna Picchu gnæfir yfir og allt er umlukið háum fjallgarði sem gjarnan er hulinn þoku. Farið verður með rútu upp að sjálfri Inkaborginni og þaðan haldið í skoðunarferð um rústirnar en þar bjuggu eitt sinn um 15.000 íbúar. Þessi týnda borg, bókstaflega grafin í skógarkjarr, fannst ekki aftur fyrr en árið 1911. Í skoðunarferð um borgina sjáum við hvernig ýmsar gerðir húsa voru byggðar af einstakri nákvæmni. Gistum í eina nótt á hóteli í Aguas Calientes við rætur Machu Picchu.

*Hafa ber í huga að Machu Picchu er staðsett í um 2400 metra hæð og Sólarhliðið í um 2700 metra hæð og þegar svona hátt er komið er minna súrefni í loftinu en á lágsléttu. Þrekið er hugsanlega minna og fólk gæti verið andstyttra en venjulega. Það er mikilvægt að vera vel skóaður og undirbúa sig fyrir ójafna stíga og tröppur til að komast um svæðið. 

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

7. október | Machu Picchu & Sólhliðið

Í dag skoðum við Sólhliðið, innganginn inn í Machu Picchu fyrir þá sem ferðuðust eftir Inkaslóðanum. Hliðið sjálft á sér mikilvægara hlutverk þar sem því var valin staður þar sem fyrstu geislar sólar brjótast í gegn um vetrarsólstöður. Það var álitið meira en hlið inn í borgina, menn trúðu að það væri dyr inn í vídd sólarguðsins Inti. Héðan er stórkostlegt útsýni yfir Machu Picchu*. Fyrir þá sem kjósa heldur að skoða Machu Picchu nánar þá gefst tækifæri til að skoða ýmis svæði borgarinnar betur og upplifa þennan einstaka stað. Hér eru leyfar af ræktarsyllum, heimilum, verkstæðum og geymslum almúgafólks í borginni, einnig er hægt að sjá hvar Sólarhof guðsins Inti stóð, Heilaga torgið, aðalhof borgarinnar, Hof hinna þriggja glugga og fleira. Eftir góðan tíma í Machu Picchu tökum við svo lestina til baka og verðum komin um kvöldmatarleytið til Cusco þar sem við gistum í tvær nætur.

*Ganga að Sólarhliðinu frá Machu Picchu og til baka tekur um 2 tíma og er um 4 kílómetra löng, upphækkun er um 290 metrar. Leiðin er nokkuð aflíðandi upp í móti en seinustu 15 mínúturnar má búast við meiri bratta. Miðlungserfið ganga. Mikilvægt að hafa vatn meðferðis.

  • Morgunverður
  • HádegisverðurMachu Picchu, 08680, Perú

8. október | Skoðunarferð í Cusco

Frjáls tími um morguninn til að hvíla sig og safna kröftum. Eftir hádegi verður farið í skoðunarferð um Cusco og nágrenni. Rétt fyrir utan borgina er steinavirkið Sacsayhuamán en það gengdi stóru trúarlegu hlutverki á sínum tíma, helgað þrumuguðinum Illapa. Við komu Spánverja var það hernaðarlega mikilvægt fyrir Inkana. Aðeins fjær sjáum við völundarhúsið Q’enqo sem einnig er mikilvægt svæði, þar voru færðar fórnir og lík smurð til varðveislu. Hér er steinaltari í formi fjallaljóns, hringleikahús, útskornir steindrangar og net ganga neðanjarðar. Rauða virkið Puca-Pucara hefur líklega verið útvörður Cusco eða athvarf ferðalanga á leið sinni til borgarinnar. Í Tambomachay hefur vatnið verið í hávegum haft enda hefur verið vísað til þessa staðar sem baða Inkanna. Hér eru vatnsveitustokkar út steini, áveitur til að beina vatni með skipulögðum hætti á ræktunarsyllur og haganlega gerðir gosbrunnar. Við skoðum nánar fyrrum höfuðborg Inkaríkisins, Cusco, og þar sjáum við ýmislegt forvitnilegt. Dómkirkjuna á Plaza de Armas torginu, Sólarhofið eða Koricancha einn mikilvægasta stað Inkaríkisins, en St. Domingo-kirkjan var byggð ofan á hana. Korikancha var á sínum tíma skreytt með 18k gulli, sem Spánverjar rændu. Við fáum frjálsan tíma síðdegis en endum síðan frábæran dag á að borða góðan kvöldmat með þjóðlegum skemmtiatriðum.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

9. október | Frjáls dagur í Cusco

Í dag getur hver og einn skipulagt daginn eftir eigin hentisemi. Upplagt er að taka það rólega og njóta aðstöðu hótelsins. Athygli er vakin á því að hæðaveiki gæti hrjáð mannskapinn og því gott að fara sér hægt. Ef áhugi er fyrir léttri gönguferð þá er hægt að glöggva sig betur á borginni Cusco en hótelið er vel staðsett í gamla bænum. Í Cusco er að finna vandað handverk og frábæra veitingastaði.

  • Morgunverður

10. október | Andahuaylillas & Puno

Í dag er langur ferðadagur. Að loknum morgunverði kveðjum við borgina Cusco og tökum stefnuna á Puno. Á leiðinni heimsækjum við bæinn Andahuaylillas sem stendur í 3.198 m hæð yfir sjávarmáli. Þar er að finna merkilega kirkju frá árinu 1580. Í fyrstu virðist hún einstaklega látlaus en þegar inn er komið blasir við sjón sem minnir á kviksjá. Litrík málverk þekja alla veggi, freskur í loftum og stórbrotið gyllt altari prýðir þessa stórfenglegu kirkju sem hefur verið nefnd sixtínska kapella Andesfjalla. Þegar við höfum skoðað okkur um í þessum fallega bæ höldum við leið okkar áfram um Andesfjöllin. Við fræðumst um og skoðum einstaklega merkar minjar frá tímum Inkanna s.s. hofið Raqchi og borgina Pucará sem talin er vera allt frá árinu 1800 fyrir Krist. Þegar við komum til borgarinnar Puno verður okkur ekið beint á hótel þar sem við gistum í tvær nætur.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

11. október | Uros & Taquile á Titicaca vatni

Að loknum morgunverði höldum við í ógleymanlega siglingu á hinu töfrandi Titicaca vatni, einu af undrum Perú. Vatnið er það stærsta í Suður-Ameríku og er hæsta skipgenga vatn í heimi, í 3.812 metra hæð. Við stöldrum fyrst við fljótandi eyjarnar Uros og kynnumst menningu Uros þjóðflokksins sem byggir þessar stórmerkilegu eyjar. Eyjarnar eru um 40 talsins og eru búnar til úr um 30-40 sentímetra þunnu sefi og fljóta á vatninu. Við höldum í stutta gönguferð um eyjarnar og kynnumst glaðlegum íbúum og lifnaðarháttum þeirra. Að því loknu verður haldið til Taquile eyju en þar heilsa íbúar Quechua samfélagsins, Taquileños, upp á gesti og gangandi í litríkum þjóðbúningnum og sýna eyjuna með stolti. Þar verður snæddur hádegisverður að hætti heimamanna. Á eyjunni búa um 2.200 manns og hún er sérstaklega þekkt fyrir fallegan og litríkan skrautvefnað kvennanna og prjónaskap karlanna. Þessi einstaka menningararfleið er á heimsminjaskrá UNESCO um menningarverðmæti sem ber að varðveita.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

12. október | Sillustani – flug frá Juliaca til Lima – Paracas

Við hefjum daginn á að heimsækja Sillustani, einstaklega merkileg grafhýsi. Þar sjáum við svonefnda Chullpas turna frá 14. öld sem eru um 90 talsins. Auk þeirra er að finna þar sérstakan fórnarstað, hinn svokallaða Sólarhring, sem er umgirtur kransi úr tilhöggnum steinum. Við göngum í um klukkustund í einstöku landslagi og njótum útsýnisins við Umayo vatn sem tengist þessum stað órjúfanlegum böndum. Skömmu eftir hádegi förum við í flug til Lima og lendum þar um einum og hálfum tíma síðar. Þaðan verður ekið til borgarinnar Paracas þar sem gist verður í tvær nætur. 

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

13. október | Ballestas eyjarnar & flug yfir Nazca línurnar

Í dag tökum við daginn snemma og höldum í einstaka skoðunarferð til Ballestas eyjanna sem oft eru nefndar litlu Galapagos. Við verðum vitni að einstöku dýralífi eyjanna, fjölskrúðugu fuglalífi og dásamlegu sjónarspili náttúrunnar. Ef verður leyfir höldum við í útsýnisflug yfir eitt af áhugaverðustu fyrirbærum Perú, hinar dularfullu Nazca línur. Hér er um að ræða einstaklega undarlegar en magnaðar myndir sem merktar hafa verið í jarðveginn fyrir um 2.000 árum og hafa enn ekki máðst út. Umfang þeirra er einungis hægt að sjá úr lofti. Síðdegið er frjálst í Paracas.

  • Morgunverður

14. október | Tacama víngerðin í Ica & frjáls eftirmiðdagur í Paracas

Fyrir hádegið höldum við í Ica dalinn en þar eru fyrsta flokks skilyrði fyrir vínrækt. Þar er að finna elsta víngerðarhús Perú, Tacama. Rætur þess er að rekja til nýlendutímans en það var spænskur aðalsmaður, Don Juan de la Riva, sem kom því á fót. Hér eru framleidd heimskunn eðalvín þar á meðal Pisco sem er margverðlaunað koníak heimamanna. Við kynnum okkur framleiðsluna og smökkum á afurðunum. Farþegar hafa frjálsan tíma seinni hluta dags til að slaka á á hótelinu sem er vel útbúið og skemmtilega staðsett við Paracas flóann. Einnig er hægt að kynna sér Paracas nánar á eigin vegum.

  • Morgunverður

15. október | Lima

Eftir morgunmat höldum við af stað til Lima með rútu en reiknað er með að ferðin taki um 4 tíma. Þegar við komum til Lima skráum við okkur aftur inn á sama hótel og í upphafi ferðar og eftirmiðdagurinn er frjáls. Við snæðum saman kveðjukvöldverð á veitingastað í Miraflores hverfi Lima en hann stendur við rústir Huaca Pucllana pýramídans. 

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

16. október | Heimferð – Lima - Toronto – Keflavík

Við tökum daginn í dag snemma. Brottför flugs frá Lima til Toronto er kl. 08:00. Lent verður í Toronto kl. 16:55 að staðartíma eftir um 7,5 tíma flug. Ferðin heldur áfram til Íslands sama dag eða kl. 20:50. 

  • Morgunverður

17. október | Lending í Keflavík

Áætluð lending á Íslandi er kl. 06:20 morguninn eftir eða þann 17. október, eftir um 5,5 tíma flug.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir yfir 40 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti