Töfrar Marokkó

Ævintýraleg ferð til konungsríkisins Marokkó, sem kynnir okkur hrífandi sögu og töfrandi menningarheim landsins. Við upplifum miklar andstæður, fagrar strendur, pálmatré, eyðimerkur og stórbrotin fјöll og heimsækjum heillandi borgir og bæi þar sem hægt er að fá innsýn inn í daglegt líf heimamanna, þeirra undursamlega menningararf og húsgerðarlist. Marrakech er afar töfrandi borg, þar er engu líkara en við séum stödd í ævintýrum Þúsund og einnar nætur. Hún byggðist upp í eyðimörk og rauðleitu leirhúsin í borginni eru til vitnis um það. Margir þekkja Casablanca sem er litrík, fjölþjóðleg og skemmtileg borg. Við förum einnig til grænu borgarinnar Rabat, höfuðborgar landsins. Við skoðum m.a. fornminjar rómversku borgarinnar Volubilis, sem komnar eru á heimsminjaskrá UNESCO. Stöldrum við í gömlu höfuðborginni Meknes, sem eitt sinn var kölluð Versalir Marokkó. Við skoðum konungsborgina Fes sem er heillandi, gömul og rík af andalúsískri-márískri byggingarlist. Við kynnumst töfrum sandsins í Merzouga sandöldunum við rætur Sahara eyðimerkurinnar, njótum þess að fylgjast með sólsetrinu í úlfaldaferð og gistum í tjaldi í eyðumerkunóttinni. Við förum um Dal rósanna, Kelaa M‘gouna, og um Todra gljúfrið. Við kynnumst einnig Hollywood Marokkó, borginni Ouarzazate, þar sem margar merkar kvikmyndir hafa orðið til. Í þessari frábæru ferð er margt er að sjá, skoða og upplifa í þessu fjölbreytilega og dásamlega landi.

Verð á mann í tvíbýli 489.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 110.000 kr.

 
Innifalið

  • Áætlunarflug með Play til og frá Marrakech og flugvallaskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 4* og 5* hótelum skv. landsmælikvarða.
  • Gisting í eina nótt í lúxus tjöldum með baði í eyðimörkinni. 
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
    (M = morgunverður, H = hádegisverður, K = kvöldverður).
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Aðgangur inn í kastala, kirkjur, fornminjar og söfn skv. ferðalýsingu.
  • Jeppasafarí í eyðimörkinni. 
  • Úlfaldaferð í eyðimörkinni við sólarlag.
  • Innlend staðarleiðsögn í Marokkó.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

  • Þær máltíðir sem ekki eru taldar upp í innifalið, drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
  • Þjórfé fyrir erlendan staðarleiðsögumann og rútubílstjóra. 
  • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Hótel

2 nætur - Kenzi Rose Garden Hotel Marrakech

1 nótt - Kaan Hotel Casablanca

1 nótt - NJ Hotel Rabat

2 nætur - Fes Heritage Boutique Hotel Fes

1 nótt Xaluca Deluxe Camp lúxustjaldgisting

1 nótt - Karam Palace Hotel Ouarzazate

2 nætur - Kenzi Rose Garden Hotel Marrakech

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

10. apríl | Flug með Play til Marrakech

Brottför frá Keflavík kl. 09:00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Marrakech kl. 14:55 að staðartíma. Haldið á vel staðsett 5* hótel í Marrakech þar sem gist verður í eina nótt. 

  • Kvöldverður

11. apríl | Marrakech, perla suðursins

Hvergi í Marokkó eru eins mikil áhrif frá afrískri og austurlenskri menningu og í Marrakech. Þessi næst elsta keisaraborg landsins er litrík, heillandi og iðar af mannlífi. Um 100.000 pálmatré umlykja virkisveggi borgarinnar og setja fagran svip á umhverfið. Marrakech byggðist upp í eyðimörk, eins og sést á rauðleitum leirhúsunum, og var stofnuð á 11. öld. Merkasti listaarfur hennar er spænsk-máríski arkitektúrinn. Dagurinn framundan verður viðburðaríkur en við sjáum meðal annars Koutoubia moskuna sem er sú stærsta í borginni og skoðum nánar tvö helstu kennileiti borgarinnar, Bahia höllina og fyrrum lærdómssetrið Medersa Ben Youssef. Bahia þýðir ljómi eða fegurð á arabísku og höllin endurspeglar svo sannarlega það heiti en hún var byggð seint á 19. öld og er frábært dæmi um marokkóska byggingarlist sem blandast saman við íslamíska. Þar er áherslan lögð á margbrotið mynstur flísa, veggskreytingar með gifsi og viðarskreytingar en þessi hönnun endurspeglar stíl yfirstéttar þessa tíma. Byggingarnar og garðarnir ná yfir 8 hektara og þar eru appelsínutré, ilmandi gróður og gosbrunnar sem skapa friðsælt andrúmsloft. Medersa Ben Youssef skólinn var stofnaður á 14. öld og var á sínum tíma einn stærsti skóli íslamskra fræða í Norður-Afríku, en er í dag safn. Hann er algert meistaraverk íslamskrar byggingarlistar. Hádegisverður er á eigin vegum en seinni part dags röltum við um hlykkjóttar götur borgarinnar og lítum við á Djemaâ El Fna markaðinum. Hann iðar af mannlífi, tónlistarmenn spila og slöngutemjarar og eldgleypar sýna listir sínar. 

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

12. apríl | Hvíta borgin Casablanca

Eftir morgunverð ökum við af stað til Casablanca sem er stærsta borg Marokkó. Nafn hennar kemur úr spænsku og þýðir „hvíta húsið“, enda voru hús með hvítum kölkuðum veggjum áberandi á nýlendutímanum. Casablanca er ein helsta viðskipta- og iðnaðarborg Marokkó og þar er stærsta höfn Norður-Afríku. Hér er suðupottur menningar og þjóðerna. Við skoðum meðal annars Hassan II moskuna sem er ein af stærstu og glæsilegustu moskum í heimi, byggð á árunum 1986-1993. Hún er ein fárra þar sem aðrir en múslimar eru velkomnir sem gestir. Inni í moskunni og í húsagarði hennar geta 105.000 manns komið saman. Bænaturninn sjálfur er 210 metar og er sá hæsti sinnar tegundar í heiminum. Hér sjáum við blöndu hefbundinnar marrokkóskar byggingarlistar og art deco stíls, margslungna flísagerðarlist, marmaralögð gólf og opnanlegt þak. Í hjarta borgarinnar sjáum við Torg hinna sameinuðu þjóða (Place des Nations Unies). Við torgið er mikið um að vera, úrval verslana og kaffihúsa og þar standa mörg af hótelum borgarinnar. Þaðan er einnig gengið inn í gömlu borgina (medina) í Casablanca. Við komum að Mohammed V torginu sem er miðstöð stjórnsýslu og menningar. Hér er skemmtileg blanda franskrar og maraokkóskrar byggingarlistar. Sama má segja um Habbous hverfið sem er byggt í anda gömlu borgarinnar en með skipulag evrópskra borga í huga. Hér eru margar verslanir, bókabúðir, bókasöfn og hefðbundir markaðir (souk) þar sem fást marokkóskar vörur, krydd og matur. Hér eru líka færir handverksmenn að selja vörur sínar úr leðri, keramík og málmum. Við förum í eitt elsta, auðugasta og virtasta hverfi borgarinnar, Anfa. Talið er að hér eigi borgin uppruna sinn allt aftur til 9. aldar. Í dag er hér að finna glæsilegustu heimili borgarinnar og víða eru fallegir garðar og gróskumikill trjágróður. Við röltum að lokum meðfram Aïn Diab ströndinni, sem er ein sú vinsælasta í borginni, stundum kölluð franska rívíera Casablanca. Þar er líflegt andrúmsloft, fjöldi vandaðra veitingastaða og skemmtistaða, fallegt útsýni út á Atlantshafið og ströndin sjálf er þekkt fyrir falleg sólsetur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður
Opna allt

13. apríl | Rabat - Borg garðanna

Í dag er ferð okkar heitið til höfuðborgarinnar Rabat. Hún var stofnuð á 12. öld og er þekkt fyrir ríka sögu, fjölbreytta menningu, hrífandi byggingarlist og fjölda grænna svæða og garða. Við förum í skoðunarferð um borgina en við elsta hluta hennar eru ævintýralegir virkisveggir. Við sjáum m.a. konungshöllina að utan, Kasbah of the Oudayas virkið og hálfbyggðan Hassan turninn. Einnig förum við að Mohamed V Mausoleum minnismerkinu þar sem finna má grafhýsi marokkóskra konunga en hönnun minnismerkisins er gott dæmi um hefðbundna marokkóska list. Við gistum á góðu 4* hóteli þar sem við snæðum kvöldverð.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

14. apríl | Borgirnar Meknes, Volubilis & Fez

Eftir morgunverð höldum við af stað áleiðis til Fez. Á leiðinni skoðum við minjar um hina fornu, rómversku borg Volubilis en þær fóru á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Byggingar Volubilis eru frægar fyrir stórbrotin mósaíkgólf og hefur þetta svæði verið vandlega varðveitt. Við stöldrum við í borginni Meknes sem er oft kölluð Versalir Marokkó og snæðum þar hádegisverð. Við skoðum einnig Bab Mansour hliðið og gömlu borgina í Meknes. Loks verður ekið til borgarinnar Fez þar sem við gistum í tvær nætur á vel staðsettu 5* hóteli.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

15. apríl | Skoðunarferð um konungsborgina Fez

Dagurinn er tileinkaður skoðunarferð um borgina Fez, elstu menningarborgar Marokkó sem stundum er sögð konungsborgin. Við förum inn í medina hverfið sem er frá miðöldum en hér er m.a. mikilvægur Kóran skóli, Medersa Bouanania, sem kominn er á heimsminjaskrá UNESCO og háskólinn, Al Quaraouiyine, frá 9. öld sem talinn er vera sá elsti í heimi. Við sjáum einnig hinn fallega Nejjarine gosbrunn sem endurspeglar mikilvægi vatnsins í íslamskri menningu. Lífið í gamla bænum, Fes el-Bali, með óteljandi litlum verslunum er hrífandi og þar finnum við líka fjölmörg lítil, áhugaverð verkstæði þar sem handverksmenn vinna enn eftir forn austurlenskum aðferðum. Hér er mögulega hægt að sjá trésmiði, málara, fatahönnuði og koparsmiði að ógleymdri leðurvinnslu.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

16. apríl | Ifrane, Midelt & dagur & nótt í eyðimörkinni

Nú er spennandi dagur framundan. Við kveðjum Fez eftir góða daga og höldum til bæjarins Ifrane sem liggur í Mið-Atlasfjöllum Marokkó. Hann er gjarnan kallaður Sviss Marokkós, enda þekktur fyrir snyrtilegar götur, gróðursæld, byggingarlist í alpastíl og nærliggjandi skíðabrekkur og skóga. Hann er því harla ólíkur þeirri eyðimerkurmenningu sem einkennir Marokkó. Loftslagið er kaldara en víða annars staðar í landinu og þar snjóar gjarnan á veturnar. Við stoppum næst í bænum Midelt en oft er talað um hann sem hlið að hæsta hluta Atlasfjalla og einnig til Sahara eyðimerkurinnar. Við snæðum þar hádegisverð áður en ekið verður áfram til litla bæjarins Erfoud sem stendur við útjaðar Sahara eyðimerkurinnar. Þaðan höldum við áfram á fjórhjóladrifnum ökutækjum út í eyðimörkina að Merzouga sandöldunum, en þær eru þær hæstu í eyðimörkinni og síkvikar. Við gistum hér eina nótt í lúxustjaldi, ríðum á kameldýrum inn í sólsetrið og snæðum kvöldverð í tjaldinu.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

17. apríl | Todra gljúfrið, Kelaa M‘gouna & Ourzazate

Eftir morgunverð höldum við aftur til Erfoud en þaðan er stefnan tekin á Berbabæinn Tinghir sem liggur við rætur Mið-Atlasfjalla. Frá Tinghir höldum við að skoða stórkostlegt landslag Todra (Todgha) gljúfursins sem varð til þegar áin Todra skar sig öldum saman í gegnum kalksteininn. Gilið lítur næstum því forsögulega út með allt að 400 m háum gljúfurveggjum. Einnig verður áð í borginni Kelaa M‘gouna (Kalaat M'Gouna) sem stundum er kölluð Rósardalurinn en árlega er þar haldinn sérstök rósahátíð. Ouarzazate tekur svo á móti okkur en við dveljum þar í eina nótt á vel staðsettu 4* hóteli.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

18. apríl | Ourzazate - Hollywood Marokkó & Marrakech

Í dag förum við í skoðunarferð um Ouarzazate en það er oft kallað Hollywood Marokkó, enda eru þar fjölmörg kvikmyndaver og þar hafa margar þekktar kvikmyndir verið gerðar svo sem Lawrence of Arabia, Gladiator, The Mummy og Babel. Við skoðum einnig Ksar of Aït Benhaddou en það er á minjaskrá UNESCO og hefur verið í forgrunni margra kvikmynda. Við snæðum hádegisverð í Ouarzazate. Eftir hádegi er ferðinni haldið til Marrakech í gegnum Há-Atlasfjöllin og Tizi-n-Tichka fjallskarðið sem er í 2260 m hæð og býður okkur upp á frábært útsýni. Komum til Marrakech þar sem við gistum í tvær nætur á sama hóteli og í upphafi ferðar. 

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

19. apríl | Frjáls dagur í Marrakech

Nú er komið að því að slaka á eftir annasama daga og njóta þess að skoða Marrakech á eigin vegum. Það er gaman að rölta um borgina og einnig er hægt að slaka á og nýta sér aðstöðuna á hótelinu en þar er m.a. heilsulind og útisundlaug þar sem gott er að hvíla lúin bein. Um kvöldið komum við öll saman í kveðjukvöldverð á veitingastað í borginni. 

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

20. apríl | Heimferð

Nú er komið að því að halda heim á leið en brottför frá flugvellinum í Marrakech er kl. 15:55 og lending í Keflavík kl. 20:30 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

  • Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir yfir 40 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti