4. - 19. október 2025 (16 dagar)
Það er draumi líkast að ferðast til Brasilíu og Argentínu. Þessi ævintýraferð er blanda af stórfenglegri náttúru, mikilfenglegum fossum og tveimur af fallegustu borgum veraldar. Buenos Aires er fyrsti áfangastaðurinn en þar svífur andi sögunnar yfir vötnum. Við skoðum Casa Rosada, þar sem Eva Perón, betur þekkt sem Evita, talaði til tryggra stuðningsmanna sinna. Við förum á tangósýningu í þessum heimabæ dansins sem með sinni fáguðu blöndu af drama, glæsileika og munúð hefur heillað fólk allt frá 19. öld. Skemmtileg sigling á fljótabáti um óshólma fljótsins Paraná bíður okkar auk spennandi dagsferðar til bæjarins Colonia del Sacramento í Úrúgvæ. Í Iguazú þjóðgarðinum upplifum við eitt stórbrotnasta landslag veraldar með breiðasta fossi jarðar ásamt hinum stórfenglega fossi Garganta del Diablo eða Gini djöfulsins. Í Rio de Janeiro skoðum við eitt af sjö nýju undrum veraldar, hina þekktu Kristsstyttu, ásamt því að fara með kláfi upp á Sykurtoppinn sem er eitt helsta kennileiti Rio. Borgin er afar falleg og iðar af lífi en einnig verður farið í dagsferð til keisaraborgarinnar Petrópolis. Hér er um að ræða ógleymanlega ferð sem skilur eftir ljúfar og litskrúðugar minningar.