Leyndarmál Egyptalands & Istanbul

Egyptaland hefur að geyma marga leyndardóma úr fortíðinni. Í þessari glæsilegu ferð fáum við að kynnast mörgu því helsta sem hið stórkostlega Egyptaland hefur upp á að bjóða. Ferðin hefst í Kaíró og eftir að hafa skoðað borgina og heimsótt Egypska safnið verður haldið til hafnarborgarinnar Alexandríu sem dregur nafn sitt af Alexander mikla. Merkustu staðir borgarinnar verða skoðaðir, líkt og grafhvelfingarnar, sögufræga bókasafnið, Pompey súluna og Quait borgarvirkið. Ekið verður til flugvallar Kaíró og flogið áfram til Lúxor. Þar er farið um borð í 5* fljótaskip og siglt næstu daga eftir fljótinu Níl. Á hverjum degi er farið í áhrifaríkar skoðunarferðir út frá skipinu þar sem bæði íslenski fararstjórinn og innlendur leiðsögumaður verða með í för. Þar má nefna Konungadalinn með öllum þeim fornminjum sem þar hafa fundist, Hórusarhofið, hof drottningarinnar Hatshepsut, Abu Simbel hofin, Kom Ombo, Elephantine eyju, Philae hofið og margt fleira. Siglt er aftur til Lúxor og skoðum það markverðasta þar, eins og Lúxor og Karnak hofin, áður en flogið er aftur til Kaíró. Við munum að sjálfsögðu skoða pýramídana við Giza ásamt Sfinxinum og fara á hinn fræga Khan El Khalili markað. Á heimleiðinni verður flogið til Istanbul í Tyrklandi þar sem við dveljum í þrjár nætur. Þar verður farið í áhugaverða skoðunarferð meðal annars um Bláu moskuna, Hippodrome torgið og Topkapi höllina ásamt því að fara á Grand Bazaar markaðinn sem er einn elsti markaður heims.

Verð á mann 999.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 249.100 kr.


Innifalið

  • Áætlunarflug með Icelandair til og frá Istanbul.
  • Áætlunarflug með Turkish Airline til og frá Kaíró.
  • Innanlandsflug Kaíró – Lúxor – Kaíró. 
  • Flugvallarskattar.
  • Allar rútuferðir í nútímalegum loftkældum rútum samkvæmt ferðalýsingu.
  • Gisting í 5 nætur á 5* hótelum í Egyptalandi.
  • Gisting í 7 nætur á 5* lúxus fljótaskipi á ánni Níl með fullu fæði. 
  • Gisting í 3 nætur á 5* hóteli í Istanbul.
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Enskumælandi staðarleiðsögn. 
  • Íslensk fararstjórn.
  • Vegabréfsáritun til Egyptalands.

Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu:

  • Kaíró – aðgangur að borgarvirki Salah ad-Din, moskum Mohammed Ali, soldánsins Hassan og Al-Rifa'i og að Egypska safninu. 
  • Alexandría – aðgangur að grafhvelfingum rómverska keisaradæmisins, Pompey súlunnar, Quait Bay borgarvirkinu, fornbókasafni Alexandríu og að Wadi el Natrun klaustrunum. 
  • Þeba – með Konungadalnum, Hatshepsút hofinu og Memnonsstyttunum. 
  • Edfu – aðgangur að Hórusarhofinu. 
  • Aswan – Ókláraða broddsúlan, Aswan stíflan og sigling til Elephantine eyju. Bátsferð til Núbíuþjóðflokksins. 
  • Kom Ombo – aðgangur að hofi. 
  • Lúxor – aðgangur að Karnak hofinu og Lúxor hofinu. 
  • Kaíró – skoðunarferð um gamla hluta Kaíró. 
  • Rútuferð að pýramídum Giza. 
  • Topkapi Palace – aðgangur í höllina.
  • Bláa Moskan – aðgangur.
  • Basilica Cistern – aðgangur að neðanjarðarvatnsgeymslunni.

Ekki innifalið

  • Þær máltíðir sem ekki eru taldar upp í innifalið, drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
  • Aðgangseyrir að múmíusalnum í Egypska safninu.
  • Aðgangseyrir að Tut Ankh Amoun hvelfingunni.
  • Aðgangseyrir að Keops pýramídanum.
  • Þjórfé fyrir erlenda fararstjórann og rútubílstjóra.
  • Farangursþjónusta á hótelum.
  • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Valfrjálsar skoðunarferðir (hægt að bóka á staðnum)

  • Abu Simbel með rútu (u.þ.b. € 120 á mann).
  • Loftbelgur við sólarupprás  (u.þ.b. € 130 á mann).

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að sérferðir eru lengri ferðir á fjarlægari slóðir. Alltaf er eitthvað um göngur og mörg svæði eru bæði hæðótt og ójöfn undir fæti og aðgengi að áfangastöðum misjafnt og stundum krefjandi.
Þess ber einnig að geta að suma daga eru dagleiðir í lengra lagi til þess að unnt sé að koma hópnum á milli markverðustu staða. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

16. október | Flug til Istanbul – Kaíró

Brottför frá Íslandi með Icelandair kl. 15:25 og lent í Istanbul kl. 23:55 að staðartíma. Flug áfram til Kaíró með Turkish Airlines kl. 02:00 aðfaranótt 17. október og lent kl. 04:20 að staðartíma.

17. október | Skoðunarferð um Kaíró

Eftir komuna til Kaíró verður haldið á 5* hótel í borginni þar sem hægt verður að hvílast fram eftir morgni. Um kl. 11 skoðum við borgarvirki Salah ad-Din, hina miklu mosku Mohammed Ali og mosku soldánsins Hassan sem var á tímum Bahri Mamluk konungsveldisins eitt stærsta mannvirki í veröldinni og er það stórfenglegt á að líta. Að lokum heimsækjum við Al-Rifa'i moskuna, áhrifamikinn 19. aldar helgistað sem hýsir fjöldann allan af egypskum grafhvelfingum. Áður en haldið verður aftur á hótel, snæðum við snemmbúinn kvöldverð á veitingastað í nágrenninu.

  • Morgunverður

18. október | Egypska safnið – Alexandría

Eftir morgunverð skráum við okkur út af hótelinu og förum í skoðunarferð um hið fræga Egypska safn, stærsta safn veraldar sem geymir list Egyptalands til forna. Það er hvað þekktast fyrir að geyma fjársjóð Tútankamons (Tutankhamun) sem telur yfir 4000 einstaka hluti sem settir voru með honum í gröfina. Snæðum hádegisverð á veitingastað á svæðinu og ökum svo til hafnarborgarinnar Alexandríu sem dregur nafn sitt af Alexander mikla. Ferðin ætti að taka um 3 klst. en ekið verður beina leið á 5* hótel þar sem við snæðum kvöldverð og gistum í tvær nætur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður
Opna allt

19. október | Skoðunarferð um Alexandríu

Í dag verður farið í skoðunarferð um Alexandríu. Skoðum grafhvelfingarnar sem er stærsti grafreitur rómverska keisaradæmisins. Skoðum Pompey súluna og Quait Bay borgarvirkið. Hádegisverð snæðum við á sjávarréttastað í borginni. Eftir hádegisverð heimsækjum við bókasafn Alexandríu, stærsta og þýðingarmesta bókasafn hins forna heims.

  • Morgunverður

20. október | Wadi El Natrun dalurinn – Kaíró – flug til Lúxor

Eftir morgunverð liggur leið okkar á flugvöllinn í Kaíró með rútu. Á leiðinni ökum við um Wadi El Natrun dalinn sem er 110 km langur og hvað þekktastur fyrir klaustur sem voru þar til forna. Við sjáum Al-Sorian klaustrið og heimsækjum Sankti Beshoy klaustrið. Hádegisverður snæddur á leiðinni. Brottför okkar frá Kaíró er kl. 21:55 og lendum við í Lúxor kl. 23:35. Höldum beint í 5* lúxus fljótaskip á ánni Níl þar sem við gistum um borð næstu sjö nætur. Á skipinu eru rúmgóðar káetur sem allar eru með sér svölum, sjónvarpi, síma, míníbar, loftræstingu og hárþurrku. Um borð er sundlaug, sólarverönd með bekkjum, veitingastaður og vínveitingasalur. Kvöldverður um borð.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

21. október | Loftbelgsferð - Konungadalurinn – Memnonstytturnar

Eldsnemma þennan morgun er hægt að fara í sólarupprásar loftbelgsferð (ekki innifalið). Þar verður flogið í rólegheitunum yfir vesturbakka Luxor og stytturnar í Þebu. Eftir morgunverð höldum við að vesturbökkum Nílar til Þebu en í dag er komið að einum hápunkti ferðarinnar, Konungadalnum. Þarna eru m.a. hinar frægu Memnonstyttur, risavaxnar styttur af Amenhótep III konungi við Konungadalinn og dauðahof Hatshepsut drottningar. Við fáum okkur hádegisverð á skipinu og höldum eftir Níl um Esnu til Edfu.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

22. október | Hórusarhofið – Kom Ombo – Aswan

Í dag verður Hórusarhofið í Edfu skoðað en það er talið vera yfir 2000 ára gamalt og er nefnt eftir guðinum Hórusi. Haldið aftur til skips og siglt upp Níl til Kom Ombo, fornrar egypskrar borgar sem við sjáum meira af síðar í ferðinni. Kvöldverður og gisting um borð við borgina Aswan.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

23. október | Aswan – frjáls eftirmiðdagur

Eftir morgunverð fáum við notið skoðunarferðar um Aswan. Byrjum á að skoða stærstu (sem kunnugt er), fornu 42 m háu broddsúlu, en hún er þekkt undir heitinu Ókláraða broddsúlan. Skoðum einnig High Dam stífluna og Philae hofið. Restina af deginum er tilvalið að slaka á á skipinu. Kvöldverður og gisting um borð við borgina Aswan.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

24. október | Frjáls tími eða valfrjáls skoðunarferð til Abu Simbel

Eldsnemma um morguninn gefst tækifæri til að fara í skoðunarferð með rútu til Abu Simbel hofanna (ekki innifalið). Miklar umræður voru um Abu Simbel hofin á sjöunda áratugnum þegar Sadd el-Ali við Aswan var byggð þar sem talin var hætta á að vatn myndi flæða yfir og eyðileggja hofin. Á árunum 1963-68 voru hofin því færð lengra inn í eyðimörkina. Þeir sem kjósa að fara ekki með í skoðunarferðina geta slakað á um borð í skipinu. Síðdegis verður siglt á seglbát til Elephantine eyju og siglt í kringum grafhýsið Agha Khan. Höldum síðan aftur í skipið okkar.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

25. október | Núbíuþorpið

Eftir morgunverð förum við í heimsókn með vélbátum í þorp Núbíumanna, yfir á vesturbakka Nílar. Núbíumenn hafa búið á þessu svæði í þúsundir ára en tugir þorpa þessa fólks fóru undir vatn við byggingu Aswan stíflunnar. Fáum að kynnast náttúrulegu og einföldu lífi Núbíufólksins og förum í heimsókn í bæði skóla og híbýli þeirra. Fáum hressingu hér og ef vill gefst tækifæri til að búa til Henna tattú og kíkja á krókódílana sem hér búa. Við stoppum til að synda í Níl og jafnvel ríða á kameldýri! Hægt verður festa kaup á litríkum teppum og handunnum treflum Núbíufólksins úr fallegum efnum. Förum til baka í skipið okkar og siglum með fram Níl til hinnar fornu borgar Kom Ombo. Á leiðinni er tilvalið að slaka á og njóta hins fallega landslags. Í Kom Ombo verður farið í Sobek hofið sem stendur á hól rétt við ströndina. Frá hofinu er fallegt útsýni yfir Níl og nærliggjandi svæði. Um kvöldið verður síðan siglt áfram til Edfu. Hádegisverður, kvöldverður og gisting um borð við Edfu.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

26. október | Sigling á Níl og afslöppun

Nú siglum við frá Edfu til borgarinnar Lúxor. Síðdegis skoðum við Lúxor hofið sem er fallega upplýst. Hofið var byggt af Amenopis og hefur verið í samfelldri notkun sem tilbeiðslustaður allt fram á okkar daga. Gistum um borð við borgina Lúxor.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður
  • Kvöldverður

27. október | Karnak hofið – Kaíró – Khan El Khalili markaðurinn

Eftir morgunverð förum við yfir á austurbakkann þar sem Karnak hofið verður skoðað en það, ásamt Lúxorhofinu sem Amenopis II lét reisa, eru ein flottustu musteri og hof Egyptalands. Eftir þessa skoðunarferð verður farið kl. 16:40 með flugi frá Lúxor og lending í Kaíró kl. 17:50. Við komuna til Kaíró verður farið í gönguferð um hinn fræga Khan El Khalili markað, einn þann stærsta í Miðausturlöndum og þann þekktasta í N-Afríku. Haldið á 5* hótel þar sem gist verður í tvær nætur. Sameiginlegur kveðjukvöldverður á veitingastað.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

28. október | Pýramídarnir í Giza & flug til Istanbul

Nú er komið að því að fara á svæði pýramídanna í Giza. Höldum til Memphis sem var höfuðborg Egyptalands til forna. Þar skoðum við elsta pýramídann, svokallaðan Djoser pýramídann í Saqqara. Snæðum hádegisverð og höldum því næst til Giza sem er um 20 km norður af Memphis. Í Giza er m.a. hinn frægi Keops pýramídi, Keferan pýramídinn og hin fræga Sfinx. Eftir skoðunarferðina verður haldið á flugvöll í Kaíró en þar eigum við flug með Turkish Airlines kl. 21:50. Lending í Istanbul kl. 00:20 og haldið beint á hótel.

  • Morgunverður

29. október | Skoðunarferð um Istanbul

Í dag verður farið í spennandi skoðunarferð um Istanbul. Við förum í Bláu Moskuna sem er eitt af þekktustu kennileitum Istanbul og þekkt fyrir fallegar bláar flísar sínar. Einnig verður haldið á líflega Hippodrome torgið sem var miðstöð býsanska þjóðlífsins en hér fóru meðal annars fram kappreiðar og pólitískir viðburðir. Hér stendur enn 3500 ára gömul broddsúla sem flutt var til Istanbul frá Egyptalandi. Við förum í Hagia Sophia sem er býsönsk kirkja sem byggð var árið 537 og hefur síðan þá verið bæði moska, safn og nú aftur moska. Snæðum saman hádegisverð á veitingastað en eftir hann heldur skoðunarferð okkar áfram og nú til Topkapi hallarinnar sem í nærri 400 ár var aðsetur Ottóman konungsfjölskyldunnar. Nú er þessi glæsilega höll áhugavert safn sem ber vitnisburð um íburðarmikið líferni Ottómanveldisins. Að lokum sjáum við Basilica Cistern sem er neðanjarðarvatnsgeymsla byggð á tímum Býsansríkisins til að tryggja vatnsöryggi borgarinnar. Hér er andrúmsloftið örlítið dularfullt og rýmið mjög fallega upplýst. Um kvöldið er sameiginlegur kvöldverður á veitingastað þar sem boðið verður upp á tyrkneska danssýningu.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

30. október | Grand Bazaar markaðurinn & frjáls tími í Istanbul

Eftir morgunverð förum við saman á Grand Bazaar markaðinn en hann er einn af elstu og stærstu mörkuðum sinnar tegundar í heimi. Markaðurinn á rætur að rekja aftur til ársins 1461 og hér er hægt að gera góð kaup þegar kemur að handofnum teppum, skartgripum, kryddum, leðurvörum og leirmunum. Eftir að hafa skoðað nægju okkar á markaðinum er frjáls tími það sem eftir lifir dags til að njóta Istanbul á eigin vegum. 

  • Morgunverður

31. október | Heimferð Keflavík

Í dag verður flogið með Icelandair heim til Íslands kl. 08:05. Áætlaður lendingartími í Keflavík kl. 11:00.

  • Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet er mikil útivistarmanneskja, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað sem markaðsstjóri ýmissa fyrirtækja stærstan hluta síns vinnuferils. Hún bjó í Þýskalandi um árabil ásamt fjölskyldu sinni og ferðaðist víða um Evrópu meðan á dvölinni stóð. Hún, ásamt manni sínum Aðalsteini Jónssyni sem einnig er fararstjóri, hefur tekið þátt í fjölda ferða á vegum Bændaferða við góðan orðstír. Elísabet hefur m.a. látið til sín taka í góðgerðarmálum og stofnaði ásamt vinkonum sínum Á allra vörum, sem margir þekkja.

Skip

H/S SOLARIS II

H/S SOLARIS II er 5* lúxus fljótaskip sem siglir á ánni Níl. Á skipinu eru rúmgóð herbergi sem öll eru með sér svölum, sjónvarpi, síma, míníbar, loftræstingu og hárþurrku. Um borð er sundlaug, sólarverönd með bekkjum, veitingastaður og vínveitingasalur. 

Lesa nánar um H/S SOLARIS II.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti