Hjólað á Grikklandi

Hjólaferð í Grikklandi er einstök upplifun sem sameinar stórbrotna náttúru, menningararf Grikkja og frískandi útivist. Í ferðinni gefst tækifæri til að hjóla um litríka bæi og fagurt fjalllendi en jafnframt verða á dagskrá skoðunarferðir þar sem hjólin verða skilin eftir til að mynda á Mamma Mia eyjunni Skopelos og í höfuðborginni Aþenu. Flogið verður til Aþenu og ekið þaðan út á Pelionskagann sem er einstaklega náttúrufagur og býður upp á fjölmargar hjólaleiðir þar sem hjólað er í gegnum trjálundi, akra og á milli þorpa. Á Pelionskaganum eru 68 lítil þorp sem hanga í hlíðunum, umlukin gróðri, en hvergi er langt í hvítu strendurnar við sjóinn. Dvalið verður í fallega bænum Portaria og hjólað þaðan meðal annars til þorpanna Kala Nera og Koropi og til Makrinitsa sem er frægt fyrir yngingarbrunn en þeir sem drekka úr honum verða að eilífu ungir. Einn daginn sækir hópurinn heim 8 þorp og 8 torg, hvert öðru indælla. Einnig verður farið að ávaxtaökrunum við þorpið Zagora en þaðan koma bestu og þekktustu epli Grikklands sem seld eru út um allan heim, þ.á m. til Íslands. Frá Zagora verður hjólað niður að strönd þar sem upplagt er að fá sér sundsprett í tærum sjónum. Skopelos tilheyrir Skrefeyjunum og er mikil paradís með blágrænum, tærum sjó og þéttum grænum furuskógi. Á eyjunni eru dásamlegar strendur og bærinn á Skopelos er lítill og sjarmerandi í hefðbundnum grískum stíl. Í dag er Skopelos fræg fyrir það að kvikmyndin Mamma Mia var að mestu leyti tekin upp á hinum ýmsu stöðum á eyjunni. Héðan verður farið í kvöldhjólatúr út fyrir bæinn á fallega útsýnisstaði þar sem við njótum sólarlagsins, náttúrunnar og hlýs haustkvöldsins. Við förum einnig að klettinum Agios Jannis þar sem brúðkaupssenan í Mamma Mia var kvikmynduð. Síðustu tvær næturnar verður dvalið í Aþenu og farið þaðan í skoðunarferð m.a. að Kallimarmaro leikvanginum sem var byggður fyrir fyrstu Ólympíuleika okkar tíma, að hofi Seifs og að sjálfsögðu upp á Akrópólishæðina. Við göngum líka um Plakahverfið sem er elsta hverfi Aþenu og er eins og eyland inni í miðri borginni með sjarmerandi verslunum, kaffihúsum og veitingastöðum.

Verð á mann 679.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 168.500 kr.


Innifalið

  • 12 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í Aþenu og hótelsins.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á hótelum.
  • Morgunverðir allan tímann á hótelum.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Tveir hádegisverðir.
  • Leiga á fjallahjóli eða rafhjóli í 6 daga.
  • Hjóladagskrá í 4 daga.
  • Trússbíll sem fylgir hópnum í hjólaferðum.
  • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt hjólaprógrammi.
  • Ferjur og bátsferðir samkvæmt hjólaprógrammi. 
  • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
  • Hádegis- og kvöldverðir aðrir en taldir eru undir innifalið. 
  • Kvöldhjólatúr á Skopelos – valkvætt.
  • Matreiðslunámskeið á sveitabæ í nágrenni við Portaria – valkvætt. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 20-35 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Tillögur að dagleiðum

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Einnig mun trússbíll fylgja hópnum allan tímann. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir hjóladagana sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við stöðum.

19. september | Flug til Aþenu

Flogið verður með Play til Aþenu. Brottför frá Keflavík kl. 06:45 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending kl. 15:35 að staðartíma. Við gistum á góðu hóteli í miðborg Aþenu í eina nótt. Um eftirmiðdaginn verður farið í stuttan göngutúr að lítilli tavernu (grískur veitingastaður) í Plaka þar sem borinn verður fram kvöldverður.

Opna allt

20. september | Pelionskagi & bærinn Portaria

Um það bil 250 km norður af Aþenu gengur skagi út í Eyjahafið sem heitir Pelionskaginn. Þessi skagi er einstaklega náttúrufagur þar sem skiptast á fjöll og djúpir dalir. Út um allan skagann eru hjólaleiðir þar sem hjólað er í gegnum trjálundi, akra og á milli þorpa. Náttúrufegurðin á skaganum er stórkostleg og þar eru 68 lítil þorp sem hanga í hlíðunum, umlukin gróðri, en hvergi er langt í hvítu strendurnar við sjóinn. Þarna áttu Kentárarnir sem voru hálfir hestar og hálfir menn heima á goðsögulegum tímum.
Keyrslan frá Aþenu til Pelion tekur u.þ.b. 4 klst. og þar verður dvalið í bænum Portaria í fimm nætur. Þegar hópurinn er búinn að koma sér fyrir á hótelinu kemur gríski hjólaleiðsögumaðurinn og heldur fund með hópnum. Kvöldverður á veitingastað í Portaria.

21. september | Litlu þorpin Kala Nera, Koropi & Afissou

Nú verður farið með rútu og ekið í um 40 mín. til bæjar við sjóinn sem heitir Kato Gatsea. Þaðan er hjólað til þorpanna Kala Nera og Koropi og frá Koropi er hjólað upp í fjallið á milli ólífulunda, ávaxtatrjáa og akra. Á leiðinni er stoppað og farið í stuttan göngutúr að fossi sem gaman er að sjá. Eftir göngutúrinn er haldið áfram og hjólað til litla þorpsins Afissou þar sem er hægt að setjast niður á fallegu torgi til að fá sér einhverja hressingu. Hjólað til baka eftir sama vegi.

  • Tími: u.þ.b. 4 klst. með stoppum
  • Vegalengd: u.þ.b. 24 km
  • Hækkun: u.þ.b. 200m

22 september | Portaria & Makrinitsa

Í dag er hjólað upp í fjallið fyrir ofan bæinn Portaria, fram hjá rússnesku klaustri og inn í skóginn sem er í 1300 m hæð. Þaðan er hjólað niður í þorpið Makrinitsa þar sem stoppað er á fallega torginu í miðjum bænum sem oft er kallað verönd Pelion vegna útsýnisins sem þaðan er yfir borgina Volos, flóann og meginlandið. Þorpið er frægt fyrir málverk eftir grískan málara sem er í einu af kaffihúsum bæjarins og einnig fyrir yngingarbrunninn en þeir sem drekka úr þessum brunni verða að eilífu ungir. Frá Makrinitsa er haldið áfram til Portaria þar sem ferðinni lýkur.

  • Tími: u.þ.b. 4 klst. með stoppum
  • Vegalengd: u.þ.b. 20 km
  • Hækkun: u.þ.b. 600 m

23. september | Átta þorp & átta torg

Nú verður farið með rútu að sama stað og fyrsta daginn, við þorpið Kala Nera, en þaðan verður hjólað upp í fjallið til þorpsins Milies sem er eitt af frægustu þorpunum í Pelion, þekkt fyrir 15. aldar kirkjuna sem stendur í miðju þorpinu og gömlu lestarstöðina frá 19. öld sem er enn í notkun. Hjólað er áfram í gegnum þorpin Visitsa, Pinakates og Agios Georgios og síðan fer að halla niður á við frá klaustrinu Agia Triada þaðan sem er frábært útsýni yfir Pagasitikoflóann. Túrinn endar í þorpinu Kato Gatsea og þá er hópurinn búinn að sækja heim 8 þorp og 8 torg. Rútan sækir hópinn en stoppar í bænum Volos þar sem borðaður er hádegismatur að hætti Pelionbúa með sjávarrétta smáréttum.

  • Tími: u.þ.b. 4 klst. með stoppum
  • Vegalengd: u.þ.b. 28 km
  • Hækkun: u.þ.b. 800 m

24. september | Eplaþorpið Zagora & sundsprettur á Chorefto ströndinni

Eftir morgunmat er haldið af stað á hjólunum frá hótelinu í Portaria eftir malbikuðum vegi upp í 1200 m hæð að skíðasvæðinu í Hania. Þaðan liggur vegurinn niður á við á malarvegi til þorpsins Zagora en frá ávaxtaökrunum þar í kring koma bestu og þekktustu epli Grikklands sem seld eru út um allan heim, þ.á m. til Íslands. Það er stoppað í stutta stund á torginu og síðan er hjólað áfram niður á strönd að þorpinu Chorefto þar sem er sérlega falleg strönd. Áður en haldið er af stað heim með rútunni er upplagt að fá sér sundsprett í tærum sjónum.

  • Tími: u.þ.b. 5-6 klst. með stoppum
  • Vegalengd: u.þ.b. 35 km
  • Hækkun: u.þ.b. 700 m

25. september | Mamma Mia eyjan Skopelos

Í dag kveðjum við Pelionskagann og næsta ævintýri hefst á Mamma Mia eyjunni Skopelos. Þangað er siglt frá Volos snemma morguns og siglingin tekur u.þ.b. 3 klst. Þegar komið er til Skopelos bíður rúta á höfninni sem fer með hópinn á hótel í bænum þar sem dvalið verður í þrjár nætur. Skopelos er lítil eyja sem tilheyrir Skrefeyjunum og er mikil paradís með blágrænum sjó og þéttum grænum furuskógi. Sagan segir að Stafylos (sem þýðir vínber á grísku) sonur Dyonisus og Ariadne hafi stofnað fyrstu borgina á eyjunni og það var kannski þess vegna sem vínið frá eyjunni var frægt um allt Miðjarðarhaf til forna. Á eyjunni eru dásamlegar strendur og sjórinn er ótrúlega tær. Bærinn á Skopelos er lítill og sjarmerandi í þeim gríska stíl sem tilheyrir Skrefeyjunum. Í dag er Skopelos fræg fyrir það að kvikmyndin Mamma Mia var að mestu leyti tekin upp á hinum ýmsu stöðum á eyjunni. Liðsmenn hljómsveitarinnar Abba höfðu lengi verið hrifnir af Skrefeyjunum og koma enn á hverju ári í sumarleyfi til Grikklands. Hin fræga sena þegar allir eru að fara í brúðkaupið var kvikmynduð á klettinum sem ber nafnið Agios Ioannis. Stjörnur myndarinnar dvöldu einnig lengi á eyjunni og sumar þeirra hafa heimsótt hana aftur og aftur. Í eftirmiðdaginn býður fararstjóri upp á göngutúr um bæinn og og upp í virkið sem er fyrir ofan hann. Göngutúrinn endar á kvöldverði á veitingahúsi við höfnina.

26. september | Frjáls dagur & kvöldhjólatúr í sólsetrinu

Frjáls dagur en um kvöldið geta þeir sem það vilja farið í hjólatúr sem byrjar í miðbænum kl. 19.00. Hjólað verður út fyrir bæinn á fallega útsýnisstaði, stoppað til að horfa á sólarlagið og njóta náttúrunnar og hlýs haustkvöldsins.

  • Tími: u.þ.b. 3 klst.

27. september | Mamma Mia kletturinn Agios Jannis

Morguninn verður tekinn rólega en í eftirmiðdaginn er keyrt til klettarins Agios Jannis þar sem brúðkaupssenan í Mamma Mia var kvikmynduð. Það er um að gera að ganga upp í litlu kirkjuna á klettinum en síðan verður ekið til bæjarins Glossa þar sem borðaður er kvöldverður á glæsilegum veitingastað með frábæru útsýni.

28. september | Ferja til Eviu & ekið til Aþenu

Upp úr hádegi er lagt af stað frá Skopelos og siglt yfir til Mantoudi á eyjunni Eviu og þaðan er keyrt til Aþenu þar sem dvalið verður í tvær nætur. Kvöldið er frjálst til að rölta um Aþenu á eigin vegum.

29. september | Skoðunarferð um Aþenu

Eftir morgunverð er haldið af stað með rútu í skoðunarferð um Aþenu þar sem stoppað er til að sjá skiptingu varðanna fyrir framan gömlu konungshöllina og hjá leikvangnum Kallimarmaro sem var byggður fyrir fyrstu Ólympíuleika okkar tíma árið 1896. Við sjáum einnig nýklassísku háskólabyggingarnar, hof Seifs og hlið Hadríans. Eftir hringferðina um Aþenu förum við úr rútunni við Akrópólishæðina og göngum upp á Akrópólis til að skoða hofin þrjú sem þar eru, en af þeim er Meyjarhofið frægast. Þegar við komum niður af hæðinni göngum við inn í Plakahverfið þar sem við borðum hádegismat. Eftirmiðdagurinn og kvöldið er frjálst.

30. september | Heimflug frá Aþenu

Nú er komið að ferðalokum eftir yndislega daga í Grikklandi. Snemma morguns verður ekið út á flugvöll og er brottför frá Aþenu kl. 10.20. Lending á Íslandi kl. 13:20 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er ekki fæddur á hjóli en hefur samt farið yfir 40 hjólferðir erlendis , mestmegnis með gesti Bændaferða. Bjarni er menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur og hefur frá 2011 verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi. Bjarni hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og útiveru, en hann hefur m.a. verið formaður Íþróttafélagsins Gróttu í 6 ár auk þess að vera virkur í margskonar öðru félagsstarfi. Hann hefur þjálfað unglinga bæði í knattspyrnu og handknattleik og auk þess farið margar ferðir sem farastjóri með íþróttahópa erlendis. Bjarni er giftur 4 barna faðir og á auk þess 5 barnabörn.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti