19. - 30. september 2025 (12 dagar)
Hjólaferð í Grikklandi er einstök upplifun sem sameinar stórbrotna náttúru, menningararf Grikkja og frískandi útivist. Í ferðinni gefst tækifæri til að hjóla um litríka bæi og fagurt fjalllendi en jafnframt verða á dagskrá skoðunarferðir þar sem hjólin verða skilin eftir til að mynda á Mamma Mia eyjunni Skopelos og í höfuðborginni Aþenu. Flogið verður til Aþenu og ekið þaðan út á Pelionskagann sem er einstaklega náttúrufagur og býður upp á fjölmargar hjólaleiðir þar sem hjólað er í gegnum trjálundi, akra og á milli þorpa. Á Pelionskaganum eru 68 lítil þorp sem hanga í hlíðunum, umlukin gróðri, en hvergi er langt í hvítu strendurnar við sjóinn. Dvalið verður í fallega bænum Portaria og hjólað þaðan meðal annars til þorpanna Kala Nera og Koropi og til Makrinitsa sem er frægt fyrir yngingarbrunn en þeir sem drekka úr honum verða að eilífu ungir. Einn daginn sækir hópurinn heim 8 þorp og 8 torg, hvert öðru indælla. Einnig verður farið að ávaxtaökrunum við þorpið Zagora en þaðan koma bestu og þekktustu epli Grikklands sem seld eru út um allan heim, þ.á m. til Íslands. Frá Zagora verður hjólað niður að strönd þar sem upplagt er að fá sér sundsprett í tærum sjónum. Skopelos tilheyrir Skrefeyjunum og er mikil paradís með blágrænum, tærum sjó og þéttum grænum furuskógi. Á eyjunni eru dásamlegar strendur og bærinn á Skopelos er lítill og sjarmerandi í hefðbundnum grískum stíl. Í dag er Skopelos fræg fyrir það að kvikmyndin Mamma Mia var að mestu leyti tekin upp á hinum ýmsu stöðum á eyjunni. Héðan verður farið í kvöldhjólatúr út fyrir bæinn á fallega útsýnisstaði þar sem við njótum sólarlagsins, náttúrunnar og hlýs haustkvöldsins. Við förum einnig að klettinum Agios Jannis þar sem brúðkaupssenan í Mamma Mia var kvikmynduð. Síðustu tvær næturnar verður dvalið í Aþenu og farið þaðan í skoðunarferð m.a. að Kallimarmaro leikvanginum sem var byggður fyrir fyrstu Ólympíuleika okkar tíma, að hofi Seifs og að sjálfsögðu upp á Akrópólishæðina. Við göngum líka um Plakahverfið sem er elsta hverfi Aþenu og er eins og eyland inni í miðri borginni með sjarmerandi verslunum, kaffihúsum og veitingastöðum.