1. – 8. júní 2025 (8 dagar)
Í þessari töfrandi ferð verður gengið um Toskanahéraðið á Ítalíu sem svo marga dreymir um að heimsækja. Við skoðum einnig mikilvægustu borgir héraðsins, Flórens sem er ein glæsilegasta lista- og menningarborg Ítalíu og Siena þar sem hefðirnar eiga sér djúpar rætur. Á vegi okkar verða gróskumiklir vínakrar, heiðgrænir ólífulundir og önnur dásamleg gróðursæld innan um heillandi bæi og glæsilegar byggingar. Við komum okkur fyrir í sveitasælunni í Chianti héraðinu og förum þaðan í fjölbreyttar dagsferðir en njótum þess líka að staldra við í núinu á sveitahótelinu okkar, stundum jóga og lærum að útbúa hefðbundna ítalska rétti. Við göngum um Chianti classico vínræktarsvæðið og komum í fallega virkisþorpið Volpaia og miðaldaldaþorpið Radda. Við förum í dagsferð til Flórens og skoðum Vecchio brúna, förum í eitt elsta hverfi borgarinnar og vindum okkur upp eftir bröttu götunni Cosa San Giorgio að Belvedere virkinu þar sem útsýnið yfir Flórens er stórkostlegt. Við munum ganga eftir gamla pílagrímsveginum milli Kantaborgar og Rómar, Via Francigena, og komum meðal annars í fallega miðaldaþorpið San Gimignao þar sem háa turna ber við himinn. Þorpið er einnig þekkt fyrir einstaklega gott hvítvín sem við gæðum okkur á. Við förum í skemmtilega göngu um fallegu borgina Siena, kynnum okkur einstaka menningu sem tengist hverfunum í borginni og skoðum áhugaverð kennileiti. Við göngum einnig um skóglendi Toskana að Sant´Antimo klaustrinu og í Montalcino brögðum við á afurðum svæðisins. Markmið ferðarinnar er að njóta útivistar, matar og jóga í góðum félagsskap á spennandi og fallegum slóðum og upplifa fagurt landslagið með öllum skilningarvitum.