Gengið um vatnahérað Norður-Englands
18. - 25. maí 2025 (8 dagar)
Vatnahéraðið (Lake District) í Norður-Englandi er einna mest heillandi og vinsælasta útivistarsvæðið í gervöllu Bretlandi og þar er stærsti þjóðgarður landsins. Rómantísku skáldin löðuðust að dramatískri fegurð og kyrrsæld svæðisins og það veitti þeim ómældan innblástur. Örnefni á svæðinu bera þess merki að þar hafi norrænir menn dvalið og finna má urmul fallegra og stórra stöðuvatna, sem sum hver standa undir bröttum og tilkomumiklum hlíðum og fjöllum. Hér er fornt skóglendi sem einkennist meðal annars af aldagömlum eikartrjám og silfurbirki. Víða sjást langar aflíðandi grösugar brekkur og mikilfenglegir dalir sorfnir af jöklum, kallaðir dales af heimamönnum. Hér er hæsta fjall Bretlands en örnefni þess ber merki norrænnar tungu, Scafell Pike, sem gæti útlaggst á íslensku máli sem Skallafell. Við komum að hinu gríðarstóra og fagra Windemere vatni og göngum frá bænum Bowness fallegan hring við vatnið. Við göngum meðfram Hadríanusarmúrnum sem Rómverjar byggðu til að verjast árásum Skota inn í Britanniu, förum í gegnum Sycamore skarðið og endum við Steel Rigg hamarinn. Skoðum Croooklands skipaskurðinn sem var eitt sinn mikil lífæð svæðisins og komum við í smáþorpunum Endmor og Stainton. Við heimsækjum Íslandsvin í Lancaster en hann á merkilegt safn Landrover bifreiða og hefur ferðast á þessari merku bifreið um íslenskt hálendi. Við njótum þess að ganga strandleiðina frá strandbænum Blackpool til Fleetwood og förum í siglingu á hinu ægifagra Ullswater vatni. Einnig verður staldrað við í fallegu þorpunum Hawkshead og Grasmere. Í þessari skemmtilegu ferð njótum við alls hins besta sem svæðið bíður upp á fyrir göngufólk og náttúruunnendur. Göngur um fornar slóðir norrænna manna og Rómverja, strandir Írlandshafs, fallegir bæir við kyrrláta skipaskurði, skógi vaxin heiðarlönd, grænar sléttur og hlíðar, jökuldalir og vatnaveröld rómantísku skáldanna.