Gengið um vatnahérað Norður-Englands

Vatnahéraðið (Lake District) í Norður-Englandi er einna mest heillandi og vinsælasta útivistarsvæðið í gervöllu Bretlandi og þar er stærsti þjóðgarður landsins. Rómantísku skáldin löðuðust að dramatískri fegurð og kyrrsæld svæðisins og það veitti þeim ómældan innblástur. Örnefni á svæðinu bera þess merki að þar hafi norrænir menn dvalið og finna má urmul fallegra og stórra stöðuvatna, sem sum hver standa undir bröttum og tilkomumiklum hlíðum og fjöllum. Hér er fornt skóglendi sem einkennist meðal annars af aldagömlum eikartrjám og silfurbirki. Víða sjást langar aflíðandi grösugar brekkur og mikilfenglegir dalir sorfnir af jöklum, kallaðir dales af heimamönnum. Hér er hæsta fjall Bretlands en örnefni þess ber merki norrænnar tungu, Scafell Pike, sem gæti útlaggst á íslensku máli sem Skallafell. Við komum að hinu gríðarstóra og fagra Windemere vatni og göngum frá bænum Bowness fallegan hring við vatnið. Við göngum meðfram Hadríanusarmúrnum sem Rómverjar byggðu til að verjast árásum Skota inn í Britanniu, förum í gegnum Sycamore skarðið og endum við Steel Rigg hamarinn. Skoðum Croooklands skipaskurðinn sem var eitt sinn mikil lífæð svæðisins og komum við í smáþorpunum Endmor og Stainton. Við heimsækjum Íslandsvin í Lancaster en hann á merkilegt safn Landrover bifreiða og hefur ferðast á þessari merku bifreið um íslenskt hálendi. Við njótum þess að ganga strandleiðina frá strandbænum Blackpool til Fleetwood og förum í siglingu á hinu ægifagra Ullswater vatni. Einnig verður staldrað við í fallegu þorpunum Hawkshead og Grasmere. Í þessari skemmtilegu ferð njótum við alls hins besta sem svæðið bíður upp á fyrir göngufólk og náttúruunnendur. Göngur um fornar slóðir norrænna manna og Rómverja, strandir Írlandshafs, fallegir bæir við kyrrláta skipaskurði, skógi vaxin heiðarlönd, grænar sléttur og hlíðar, jökuldalir og vatnaveröld rómantísku skáldanna.

Verð á mann í tvíbýli 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 47.500 kr. 


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair til Manchester og flugvallarskattar.
  • Gisting í 7 nætur í 2ja manna herbergi með baði. 
  • Ferðir á milli flugvallar og hótels.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
  • Akstur í gönguferðum þar sem við á.
  • Göngudagskrá.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.
  • Þjórfé.

Hótel

  • Crooksland hotel

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur & erfiðleikastig

Göngur ferðarinnar eru miðlungs til léttar að erfiðleikastigi. Það er ekki mikil hækkun í neinni þeirra og oftast er gengið á malar- og moldarstígum. Göngurnar eru í meðallagi langar og ættu að vera við hæfi flestra sem undirbúa sig og ganga reglulega fyrir ferð. Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara reglulega t.d. upp að Steini í Esjunni Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Gönguferðirnar

Hér fyrir neðan eru dæmi um mögulegar dagleiðir en teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða taka það rólega á hótelinu og njóta þess sem nágrennið hefur upp á að bjóða.

18. maí | Flug með Icelandair til Manchester

Brottför með Icelandair frá Keflavík kl. 08:00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Manchester kl. 11:40 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Crooklands þar sem gist verður á hóteli í 7 nætur.

Opna allt

19. maí | Bowness hringurinn við Windermere vatn

Fyrsti göngudagurinn okkar hefst með rútuferð til bæjarins Bowness sem stendur við Windermere vatnið og er einn vinsælasti áfangastaðurinn í Vatnahéraðinu. Windermere er stærsta náttúrulega stöðuvatn Englands og á því eru 18 eyjar. Við stoppum við útjaðar Bowness þar sem hópurinn gengur af stað í gegnum huggulegan bæinn og upp á hæð þar sem er fallegt útsýni yfir vatnið. Við höldum áfram skemmtilega leið að vatninu. Á ferð okkar sjást hin ýmsu kennileiti sem eiga sér norrænar rætur svo sem Brantfell og Orrest Head

20. maí | Hadríanusarmúrinn milli Chollerford & Steel Rigg

Eftir góðan morgunverð er ferð okkar heitið að Hadríanusarmúrnum sem stendur nálægt mörkum Englands og Skotlands. Hann er um 117 km að lengd og var á sínum tíma um 4 og hálfur metri á hæð. Við göngum meðfram múrnum sem var byggður af Rómverjum á 2. öld, meðal annars til að verjast árásum Pikta eða Skota og annarra þjóðflokka frá Skotlandi. Múrinn var einnig ætlaður til að stjórna fólksflutningum og verslun og marka nyrsta hluta rómversks landsvæðis á Bretlandi. Mannvirkið er á heimsminjaskrá UNESCO og enn má sjá leyfar af virkjum, smáturnum og hofum en uppgröftur fornleifa á svæðinu hefur gefið innsýn í umsvif Rómverja á Bretlandi, líf hermanna, byggingartækni þess tíma og hvernig samskiptum Rómverja var háttað við heimamenn. Við hefjum gönguna við Housteads gestastofuna og göngum framhjá virkisrústum frá tímum Rómverja. Við sjáum tré Hróa hattar og förum gegnum Sycamore skarðið þar sem elsti garðahlynur Bretlands stóð þar til árið 2023 en felling hans og skemmdir á veggnum var álitið mikið skemmdarverk og varð fréttaefni víða um heim. Við komum síðan að Steel Ridge og förum svo til baka að til Housteads eftir gömlum hermannavegi.

21. maí | Crooklands skipaskurðurinn

Nú verður genginn skemmtilegur hringur sem hefst við Crooklands hótelið og fylgir Crooklands skipaskurðinum. Hann er hluti af stærri skipaskurði, Lancaster, sem var grafinn á 18. öld og var aðalflutningsæðin frá svæðinu, meðal annars fyrir kol og kalkstein til útflutnings. Fuglalífið við skurðinn er mjög fjölbreytilegt og söngur er víða í lofti. Enn má sjá leyfar bygginga sem reistar voru við skurðinn, t.d. vöruhús, myllur og bryggjur, sumar þessara bygginga hafa öðlast nýtt hlutverk og eru enn í notkun. Við göngum meðfram Peasey gilinu en vatnið sem þar flæðir kemur frá Lambrigg Fell sem liggur norðan við Crookslands. Við gilið má sjá rústir púðurverksmiðju en afurðir hennar voru mikilvægar fyrir námugröft, grjótnám og hernað. Við göngum meðal annars í gegnum litlu þorpin Endmor og Stainton og njótum fallegs útsýnis af hæðunum í kring.

22. maí | Landrover & Lancaster

Í dag er ferðinni heitið til Lancaster. Þar hittum við Landrover sérfræðinginn og Íslandsvininn Emrys Kirby og skoðum Landroversafn hans og verkstæði. Hann var aðeins 2 ára gamall þegar hann ferðaðist með fjölskyldu sinni á Landrover um hálendi Íslands. Eftir heimsóknina förum við í stutta göngu um Lancaster, síðan er frjáls tími til að skoða sig um, hér er úrval verslana, kaffihúsa og veitingastaða. Hægt er að kíkja á söfn, skoða Lancaster kastala og önnur kennileiti eða fara í siglingu á skipaskurði svo fátt eitt sé nefnt.

23. maí | Standgatan frá Blackpool til Fleetwood

Í dag ökum við til strandbæjarins Blackpool á norðvesturströnd Englands. Hann var eitt sinn agnarlítið þorp en tók að vaxa um miðja 18. öldina þegar sjóböð til heilsubóta komust í tísku, þá varð hann einn vinsælasti strandbær landsins. Frá miðbæ Blackpool göngum við eftir Fylde ströndinni til miðbæjar Fleetwood en þaðan er frábært útsýni út á Írlandshafið. Fleetwood er einn af fáum bæjum á Bretlandi sem var skipulagður frá grunni og þar er að sjá mörg hús í viktorískum stíl. Hér var eitt sinn ein mikilvægasta fiskihöfn landsins.

24. maí | Sigling á hinu ægifagra Ullswater vatni

Í dag förum við í skemmtilega siglingu á næststærsta stöðuvatninu í Vatnahéraði Englands, Ullswater. Það er rómað fyrir náttúrufegurð og friðsæld. Ullswater myndaðist út frá skriðjökli á ísöld og í kring um það eru fallegar aflíðandi hlíðar, gróðursælir dalir, skóglendi og falleg fjallasýn. Á leið okkar til baka verður staldrað við í tveimur af fallegustu þorpum Vatnahérðasþjóðgarðsins, Hawkshead og Grasmere.

25. maí | Heimflug með Icelandair frá Manchester

Nú er komið að heimferð eftir viðburðarríka daga. Við keyrum á flugvöllinn í Manchester. Brottför með Icelandair er kl. 13:05 og er áætluð lending í Keflavík kl. 14:50 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti