Hjólað við strendur Króatíu

Í þessari frábæru hjólaferð njótum við heillandi stranda Adríahafsins með kristaltærum sjó, fjölbreytilegs landslags og ríkrar menningarhefðar og sögu. Við könnum umhverfi strandborgarinnar Split, þar á meðal Marjanhæð, Telegrin fjallstoppinn og hinn fagra miðbæ sem er á heimsminjaskrá UNESCO en helsta kennileiti hans er hvíta Diokletianhöllina frá tímum Rómverja. Við höldum upp í hæðirnar fyrir ofan Split, í dreifbýlið undir rótum Mosor fjalls, þar sem við hjólum meðal annars í gegnum þorpin Dubrva og Gata. Við ferðumst einnig í gegnum Cetina gljúfur og niður að ármynni Cetina við bæinn Omiš. Gefum okkur góðan tíma til að hjóla um eyjuna Brač og dveljum í fallega bænum Bol. Hjólað verður vítt og breitt um eyjuna, í gegnum bæi, við strendurnar og upp til sveita. Við komum meðal annars til elsta bæjar eyjunnar Škrip, en saga hans spannar yfir 3000 ár, og fallega fiskiþorpsins Postira. Hér er rík hefð fyrir steinsmíði og margar fagrar byggingar í heiminum skarta kalksteinum úr námunum á Brač. Víða má sjá vínekrur, ólífulundi, fíkjutré og furuskóga. Við endum ferðina okkar á góðum hjólatúr á eyjunni Hvar sem er sólríkasti staður Adríahafsins. Þar fetum við í fótspor fornra þjóða í litlum sveitaþorpum í hlíðum Hvar og niðri á sléttunni Stari Grad en þar hefur skipulag ræktarlands Forngrikkja haldið sér í gegnum árþúsundir. Í þessari ferð er boðið upp á einstaka hjólaupplifun sem mun án efa skilja eftir sig góðar minningar.

Verð á mann 598.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 71.900 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hótelum.
  • Morgunverðir allan tímann á hótelum.
  • Fimm kvöldverðir.
  • Fjórir hádegisverðir/nestispakkar.
  • Leiga á hybrid hjóli með bögglabera í 6 daga.
  • Hjóladagskrá í 5 daga.
  • Trússbíll sem fylgir hópnum í hjólaferðum.
  • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt hjólaprógrammi.
  • Ferjur og bátsferðir samkvæmt hjólaprógrammi. 
  • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 14-38 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum. 

Tillögur að dagleiðum

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Einnig mun trússbíll fylgja hópnum allan tímann. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir hjóladagana sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. 

8. maí | Flug til Split

Flogið verður með Play til Split þann 8. maí. Brottför frá Keflavík kl. 09:35 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Króatíu kl. 16:20 að staðartíma. Við gistum á góðu hóteli í miðbæ Split næstu þrjár nætur.

Opna allt

9. maí | Split og Marjanhæð

Við hitum upp í dag með því að hjóla inn í miðbæ Split. Við skoðum gamla bæinn og fræðumst um sögu hans og þá sérstaklega um Diokletianhöllina, sem er einn af merkilegustu minnisvörðum byggingarlistar frá tímum Rómverja. Höllin er líflegur staður og er oft talað um hana sem hjarta borgarinnar en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Borgina prýða margar aðrar virðulegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja. Elsti hluti hennar hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Við hjólum meðfram helstu göngugötunni og virðum fyrir okkur mannlífið. Við komum einnig í Varso hverfið þar sem við hjólum eftir þröngum götum og dáumst að fallegum húsum úr Dalmatíusteini. Við endum á Marjan hæðinni sem er vinsælt útivistarsvæði meðal heimamanna. Hér getum við notið fallegrar sjávarsýnar í skugga furutrjáa. Við förum einnig yfir á suðurströndina á Šantine Stine, þar sem hægt er að sjá leyfar mannnvista í klettunum. Héðan höldum við áfram á toppinn, Telegrin, þar sem er dásamlegt útsýni yfir strönd Adríahafsins, Split og fjöllin í fjarska. Í bakaleiðinni stöldrum við meðal annars við í Sustipan garðinum sem liggur á tanga úr frá höfninni í Split. Kvöldverður á hóteli.

  • Vegalengd: u.þ.b. 14 km
  • Hækkun: u.þ.b. +200 m/-200 m

10. maí | Mosor fjall & Cetina árgljúfrið

Í dag tökum við stefnuna á dreifbýlið undir rótum Mosor fjalls og verður okkur ekið til þorpsins Dubrva. Þaðan sjáum við niður til Split, Adríahafsins og eyjanna úti fyrir ströndinni. Í fyrstu hjólum við niður á við, milli tveggja fjallahryggja, til þorpsins Gata. Þar er lífið með öðrum hætti en í borginni en þar gefur að líta hefðbundinn steinhús og ræktarlendur. Við njótum útsýnis frá Mila Gojsalic minnismerkinu, þar sem sést vel yfir Cetina gljúfrið, klettana í kring og ármynnið við bæinn Omiš. Frá Gata hjólum við upp eftir gljúfrinu og förum síðan niður að ánni og yfir Pavica steinbrúnna. Eftir að hjólatúrnum líkur gefst færi á að skoða Omiš betur. Þar er rík saga um sjóræningja og virki til varnar þeim í hömrunum fyrir ofan bæinn. Við förum aftur með rútu til Split. Kvöldverður á hóteli.

  • Vegalengd: u.þ.b. 38 km
  • Hækkun: u.þ.b. 170 m/-600 m

11. maí | Eyjan Brač

Nú liggur leið okkar til eyjunnar Brač. Við siglum yfir með ferju og komum í land í bænum Supetar. Við hjólum í fyrstu eftir stíg við ströndina en höldum síðan í vesturátt meðfram ströndinni til bæjarins Sutivan. Á leiðinni verður staldrað við í friðsæla bænum Ložišća sem er þekktur fyrir einstaka byggingarlist og margslungna steinsmíði, sem nýtur sín vel í þessum fallega bæ sem stendur á hæð á vesturhluta eyjunnar. Við höldum áfram ferð okkar um hljóðláta stíga í innsveitum eyjunnar, gegnum þorpin Donji Humac og Nerezisca, framhjá ólífulundum, vínekrum og steinveggjum sem bændur eyjunnar hafa byggt í aldanna rás. Við stoppum í elsta þorpi eyjunnar, Škrip, en saga þess spannar yfir um 3000 ár. Hér gefst tækifæri til að kanna safn bæjarins sem staðsett er í Radojković turninum. Þar er saga eyjunnar rakin og hér er marga merkilega muni að sjá, meðal annars frá tímum Illyríu og Rómaveldis. Frá Škrip hjólum við niður á við og förum fallegan strandstíg til fiskiþorpsins Postira á norðurhluta eyjunnar. Hér líkur hjólaferð dagsins og við fáum far með rútu til bæjarins Bol þar sem við gistum næstu daga.

  • Vegalengd: u.þ.b. 35 km
  • Hækkun: u.þ.b. +690 m/-690 m

12. maí | Frídagur í bænum Bol

Í dag er frjáls dagur sem hver og einn getur nýtt eins og honum líkar best. Bol er einn fallegasti bærinn á Brač og þar er að finna hina heimsþekktu og fallegu strönd Zlatni Rat. Hún er einskonar sandtunga úr smáum ljósum steinvölum sem liggur út í tært Adríahafið. Þessi sandtunga skiptir aðeins um lögun eftir straumum og vindum. Höfnin í Bol er einstaklega falleg með ljósum steinhúsum og líflegum kaffihúsum og veitingastöðum. Í Dominican klaustrinu er fallegt safn þar sem hægt er að sjá marga fagra gripi sem endurspegla líf eyjarskeggja fyrr á öldum. Þar er yndislegt að ganga um friðsæla garða og njóta útsýnis yfir hafið. Hér er mikið um vínekrur og héðan er hið bragðmikla Plavac Mali vín, einnig Posip og Tribidrag sem hægt er að smakka hjá víngerðum eins og Stina, sem er þekktasta víngerð Bol og stendur alveg við sjávarbakkann. Í Bol er mikil hefð fyrir ýmisskonar vatnasporti og þaðan eru fallegar gönguleiðir meðal annars á hæsta tind Brač eyju, Vidova Gora. Á þessum frídegi í Bol getum við notið andrúmslofts Dalmatíustrandarinnar til fulls. Kvöldverður á hóteli.

13. maí | Austur og noðurhluti Brač eyjar

Í dag höldum við aftur upp í sveitir Brač með rútu. Við hjólum í gegnum þorpin Gornji, Humac og Praznica. Síðan liggur leið okkar niður hlíðarnar að norðurströnd eyjunnar þar sem hápunktur þessa dags bíður okkar, kyrrláti strandbærinn Pučišća sem stendur við djúpan og fagran vog. Hér er mjög falleg og skjólsæl höfn með kristaltærum sjó. Bærinn er einna þekktastur fyrir sinn hvíta kalkstein og ríka hefð steinsmíði og höggmyndalistar sem á hér djúpar rætur. Hér er einn elsti og virtasti skóli steinsmíðar í heiminum. Úr námunum héðan hefur steinn farið í þekktar byggingar eins og Hvíta húsið í Washington, Diokletianhöllin í Split og þinghúsin í Berlín, Vín og Búdpest svo eitthvað sé nefnt. Frá Pučišća ferðumst við eftir bugðóttum strandvegi framhjá ólífulundum, með útsýni yfir hafið til fjalla meginlandsins. Næsti viðkomustaður er eitt elsta þorp eyjunnar, Dol, en þar er lögð áhersla á sjálfbærni í ferðaþjónustu og lífræna ræktun. Hér er landslagið klettótt og finna má talsvert af hellum í kring en hér er meðal annars ræktaður vínviður, ólífur og fíkjur. Hér líkur ferð dagsins og við fáum far með rútunni aftur til Bol.

  • Vegalengd: u.þ.b. 35 km
  • Hækkun: u.þ.b. +360 m/-750 m

14. maí | Perlan Hvar

Í dag njótum við okkar á fallegu eyjunni Hvar sem er einn eftirsóttasti og þekktasti áfangastaðurinn í gjörvallri Króatíu. Enda má hér finna skemmtilega blöndu náttúrfegurðar, sögu, menningar og iðandi mannlífs. Hvergi annars staðar í Adríahafinu eru fleiri sólarstundir og hér mætist kristaltær sjórinn og fallegar ljósar smávölustrendur. Hér má víða líta ilmandi og fjólubláa lofnarblómsakra að sumri, enda er eyjan gjarnan kölluð Lofnarblómseyjan. Við förum með hraðbát að bænum Vrboska en þar gætir áhrifa Feneyinga í skipulagi. Hér eru falleg síki og brýr og hægt að dást að endurreisnar- og barrokkstíl bygginga þegar við hefjum ferð okkar út úr bænum. Við hjólum í gegnum voldugan furuskóg á leið okkar til Jelsa en þar er mikil vínræktarhefð og gaman að ganga eftir sjávarbakkanum þar sem finna má fjölda kaffihúsa og veitingastaða. Við höldum áfram ferð okkar í gegnum þorpin Pitve, Vrisnik, Svirče, Vrbanj og Dol. Hvert þessara litlu þorpa er skemmtileg blanda menningararfleifðar, náttúrufegurðar og ræktunar, aldnar, þröngar og steinilagðar götur og vínekrur og ólífulundir allt um kring. Bærinn Stari Grad, er einn sá elsti í Evrópu þar sem byggð hefur haldist frá upphafi, þar eru mannvistarleyfar allt frá 384 fyrir okkar tímatal. Hér ber af 16. aldar virkið Tvrdalj og gaman er að rölta um sérkennileg sund og göngugötur sem gjarnan eru prýdd fallegum blómum. Við bæinn liggur Stari Grad sléttan þar sem landskipulag Forngrikkja hefur haldið sér og þar standa enn veggirnir sem þeir reistu til að afmarka ræktarland. Bændur nútímans nýta sér svæðið með sama hætti og Grikkir til forna og vegna þessarar sérstöðu er sléttan á heimsminjaskrá UNESCO. Við ferðumst síðan aftur til Bol með hraðbát í lok dags. Kvöldverður á hóteli.

  • Vegalengd: u.þ.b. 35 km
  • Hækkun: u.þ.b. +400 m/-400 m

15. maí | Heimflug frá Split

Nú er komið að ferðalokum eftir yndislega daga í paradís Dalmatíustrandarinnar. Við fáum okkur góðan morgunverð og hægt er að njóta góðs kaffibolla á einum að kaffihúsum Bol eða ganga eftir ströndinni áður en haldið verður af stað. Um hádegi verður siglt yfir sundið til Split. Flogið verður heim með Play frá Split kl. 17:20. Lending á Íslandi kl. 20:25 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti