22. - 29. maí 2025 (8 dagar)
Gardavatn hefur lengi verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga og nú bjóðum við upp á hjólaferð við vatnið. Hið sægræna Gardavatn er stærsta stöðuvatn Ítalíu eða um 370 km2 og það er umvafið ægifögrum fjallgörðum. Þetta er einstakur staður þar sem gestir geta notið stórkostlegrar náttúrufegurðar í bland hreyfingu og afslöppun. Á hjólunum kynnumst við þessu hrífandi svæði á þægilegum hraða en hjólað verður í gegnum friðsæl þorp á borð við Valeggio og Borghetto. Við komum við í einum aðalvínræktar- og baðstrandarbæ Gardavatns, Bardolino, en á leiðinni þangað verða á vegi okkar frjósamar vínekrur og falleg ólífutré hvert sem litið er. Við hjólum til Veróna og förum í skoðunarferð um miðborgina. Suma daga verður siglt eða farið með rútu aðra leiðina. Gist verður á 4* hóteli í útjaðri bæjarins Garda. Hótelið er með sundlaugargarði og sólbaðsaðstöðu, ásamt dásamlegri heilsulind þar sem gott er að láta líða úr sér eftir góðan hjóladag.