Hjólað við Gardavatn

Gardavatn hefur lengi verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga og nú bjóðum við upp á hjólaferð við vatnið. Hið sægræna Gardavatn er stærsta stöðuvatn Ítalíu eða um 370 km2 og það er umvafið ægifögrum fjallgörðum. Þetta er einstakur staður þar sem gestir geta notið stórkostlegrar náttúrufegurðar í bland hreyfingu og afslöppun. Á hjólunum kynnumst við þessu hrífandi svæði á þægilegum hraða en hjólað verður í gegnum friðsæl þorp á borð við Valeggio og Borghetto. Við komum við í einum aðalvínræktar- og baðstrandarbæ Gardavatns, Bardolino, en á leiðinni þangað verða á vegi okkar frjósamar vínekrur og falleg ólífutré hvert sem litið er. Við hjólum til Veróna og förum í skoðunarferð um miðborgina. Suma daga verður siglt eða farið með rútu aðra leiðina. Gist verður á 4* hóteli í útjaðri bæjarins Garda. Hótelið er með sundlaugargarði og sólbaðsaðstöðu, ásamt dásamlegri heilsulind þar sem gott er að láta líða úr sér eftir góðan hjóladag.

Verð á mann 429.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 43.100 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Ferðir á milli flugvallar í Mílanó og hótelsins við Gardavatn. 
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hótelinu.
  • Sex kvöldverðir á hótelinu. 
  • Hjóladagskrá í 5 daga.
  • Leiga á rafhjóli í 6 daga.
  • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt hjólaprógrammi.
  • Vínsmökkun.
  • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Leiga á hjólatösku 5.200 kr. í 6 daga.
  • Leiga á hjálm 3.900 kr. í 6 daga.
  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatrygging.

Hótel

  • Hotel Poiano í Garda

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 22. maí. Brottför frá Keflavík kl. 08:00 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:10 að staðartíma. Frá flugvelli að hóteli er um 200 km. Þann 29. maí ferjar rúta okkur til Mílanó en þaðan verður flogið kl. 15:10. Lending á Íslandi kl. 17:25 að staðartíma.

Svæðið

Gardavatnið eða Lago di Garda á móðurmálinu er stærsta stöðuvatn Ítalíu og liggur í skjóli Alpanna fyrir norðan og Pósléttunnar fyrir sunnan. Norðurbakkinn er umlukinn 2000 metra háum fjöllum, líkt og Monte Baldo fjallgarðinum á meðan lágsléttan við suðurbakkann tekur við. Gardavatnið er vinsæll ferðamannastaður og er norðurhlutinn einkar vinsæll á meðal klifur-, hjólreiða- og göngufólks. Í nágrenni vatnsins er ýmiskonar ræktun, m.a. ólífur og sítrónur við austur- og suðurbakkann og vín við norðurbakkann, en á meðal þekktra vínhéraða má nefna Bardolino og Valpolicella. Loftslagið við vatnið er miðjarðarhafsloftslag. 

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 35 - 45 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Opna allt

Tillögur að dagleiðum

Halldóra Gyða fararstjóri er reyndur hjólari og mun hún skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

1. Hjólað við Mincio ánna og um suðurhéruð Gardavatns

Minicio áin fellur úr Gardavatni og til suðurs. Við höldum í suðurátt í sveitirnar sunnan við vatnið og förum í gegnum nokkur dásamleg lítil þorp en þar má nefna Borghetto og Valeggio sem liggja á bökkum Mincio árinnar. Borghetto er lítill ævintýralegur bær þar sem meðal annars má finna hina sögufrægu Visconti brú. Hún var byggð árið 1393 af hertoganum af Mílanó, líklega til að beina ánni Mincio í aðra átt og leggja þannig undir sig borgina Mantua. Brúin var byggð á aðeins tveimur árum en hún var tengd við best varðveitta kastala Ítalíu, Scaliger kastalann, og varð þá hluti af virkisvegg þorpsins. Í júní ár hvert bjóða þorpsbúar allt að 4000 manns til kvöldverðar á brúnni. Þorpið Valeggio er frægt fyrir heimagert tortellini og því sjálfsagt að nota tækifærið og bragða á því. Við hjólum einnig í Lombardy og Veneto hérðunum um fallegu miðaldaþorpin Solferino, Castellaro Lagusello og San Martina della Battaglia. Við gefum okkur tíma til að kanna þessa friðsælu smábæi og hjólum síðan aftur til baka í gegnum vínekrurnar til Peschiera del Garda. Við tökum rútu þaðan aftur til baka á hótelið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
  • Hækkun: u.þ.b. 230 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

2. Veróna

Í dag verður hjólað til Veróna, elstu borgar Norður-Ítalíu þar sem farið verður í skoðunarferð með innlendan leiðsögumann í fararbroddi. Veróna er borg menningar og lista en frægust er hún sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Ekki missa af þriðja stærsta hringleikahúsi veraldar eða torginu Piazza delle Erbe með sínum fögru byggingum og minnisvörðum. Allur miðbær Veróna er skráður á heimsminjaskrá UNESCO og ekki að ástæðulausu. Farið verður með rútu frá Veróna aftur til Gardavatns.

  • Vegalengd: u.þ.b. 40 km
  • Hækkun: u.þ.b. 180 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

3. Vínekrurnar við Bardolino

Notalegur hjólatúr um vínekrurnar sem umlykja Gardavatnið og Bardolino. Svæðið er frægt fyrir vínframleiðslu sína og fallegu ólífutrén sem finna má allt í kring. Við þræðum litla bæi á leið okkar til Bardolino, svo sem Costermano, Caprino og Calmasino. Bardolino var eitt sinn fiskibær en er nú einn aðal vínræktar- og baðstrandarbær Gardavatns og er bæði líflegur og skemmtilegur heim að sækja.

  • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
  • Hækkun: u.þ.b. 500 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

4. Vestari hluti Gardavatnsins & vínsmökkun

Í dag liggur leið okkar í hjólaferð sem býður okkur upp á frábært útsýni, frá syðri enda vatnsins og yfir til vesturs í gegnum sveitirnar í Lombardy og Veneto. Fagri bærinn Sirmione er einn af vinsælustu áningarstöðunum við Gardavatn. Þar má meðal annars finna glæsilegan kastala sem byggður var á 13. öld en Sirmione hefur verið í byggð síðan á steinöld. Á skaganum þar sem Sirmione stendur er 13. aldar kastalinn Scaliger sem er eitt helsta kennileitið við Gardavatn. Héðan er víðsýnt yfir vatnið. San Martino della Battaglia og Soleferino eru þekkt fyrir tengsl sín við ítalska sjálfstæðisbaráttu og þar er gnægð vínekra og Lugana vínþrúgan í öndvegi. Hér eru friðsælar sveitir og grasi vaxnar hæðir til allra átta. Í Lonato ber hæst Rocca Viscontea virkið en þaðan sést yfir vatnið og sveitirnar í kring. Við endum ferðina okkar í Calvagese þar sem er mjög gróðursælt, vínekrur, ólífulundir og þétt vaxnar hlíðar, hér sjáum við hið dæmigerða landslag ítölsku sveitarinnar. Hér er gjarnan rólegra en í mest sóttu bæjunum í kring um vatnið og hér er gaman að eiga góða stund og smakka á afurðum héraðsins í vínsmökkun.

  • Vegalengd: u.þ.b. 35 km
  • Hækkun: u.þ.b. 640 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið til erfið

5. Valpolicella hæðirnar

Farið verður með rútu til San Pietro í Cariano, sögufrægs þorps í hjarta Valpolicella þar sem finna má leifar frá rómverskum tímum. Þaðan verður hjóluð falleg leið yfir hæðir Valpolicella en búið hefur verið á þessu svæði frá því á forsögulegum tímum. Mikið af fornmunum hafa fundist á svæðinu og eru margir þeirra varðveittir á safninu Museo Lapidario Maffeiano í Veróna, elsta almenningsbókasafni í Evrópu. Á svæðinu eru mörg heillandi, lítil þorp og má þar m.a. nefna Arbizzano, Parona og Valgatara.

  • Vegalengd: u.þ.b. 35 km
  • Hækkun: u.þ.b. 570 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið til erfið

Frídagur

Þennan dag er tilvalið að láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér og njóta þess sem heilsulind hótelsins hefur upp á að bjóða, slappa af við sundlaugina eða kynna sér nágrenni Gardavatns á eigin vegum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé er viðskiptafræðingur og starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún hefur verið þjálfari hjá Náttúruhlaupum frá 2014 og var þjálfari hjá Hlaupahópi Stjörnunnar frá 2018-2022. Hún hefur mikinn áhuga á hreyfingu og útivist og elskar að leiðbeina fólki að stíga sín fyrstu skref í hreyfingu. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti