Ljósadýrð á Rín

Í þessari frábæru ferð um Rínar- og Mósel dalina njótum við einstakrar náttúrfegurðar, frábærs útsýnis og heillandi bæja. Við gistum í Tríer, elstu borg Þýskalands en þar er að finna merkilegar minjar frá tímum Rómverja. Við komum í einn fallegasta bæinn við ánna Mósel, Cochem. Frá vínbænum Bernkastel-Kues förum við í siglingu um Móseldalinn. Við gistum einnig í bænum Bingen sem er í Rínardalnum en dalurinn sjálfur er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar þykir einstaklega fallegt, blómstrandi vínekrur og útsýni yfir Rín. Hápunktur ferðarinnar verður án efa Rhein in Flammen eða Ljósadýrð á Rín, en þá verður farið í kvöldverðarsiglingu á Rín undir stórkostlegri flugeldasýningu. Kastalar og virki svæðisins verða lýst upp með logandi blysum á meðan við líðum eftir ánni framhjá bæjum sem standa við bakkann. Leið okkar liggur einnig til Rüdesheim, eins vinsælasta ferðamannabæjarins við ána. Við skoðum meðal annars fallegu borgina Koblenz og hið svonefnda Deutsches Eck, þar sem árnar Mósel og Rín mætast. Við gæðum okkur að sjálfsögðu á framleiðslu heimamanna í þessu merkilega og einu þekktasta vínræktarhéraði Þýskalands. Í þessari skemmtilegu ferð njótum við þess að líða áfram í siglingu um fagrar ár Þýskalands, fara um búsældarleg héruð og heimsækja skemmtilegar borgir og bæi. Við njótum lystisemda náttúrunnar, útsýnisins og drekkum í okkur menningu og sögu í þessum fögru dölum Þýskalands. 

Verð á mann 334.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 76.600 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður á hótelum. 
  • Ljósahátíðin á Rín, sigling, kvöldverður og flugeldasýning.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. 
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar, aðrar en tekið er fram undir innifalið. 
  • Hádegisverðir.
  • Vínsmökkun.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Svifkláfur í Rüdesheim u.þ.b. € 10. 
  • Vínsmökkun u.þ.b. € 25.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

16. september | Flug til Frankfurt & Tríer

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið til Tríer, elstu borgar Þýskalands þar sem gist verður í fjórar nætur á góðu hóteli.

17. september | Skoðunarferð um Tríer & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð skoðum við þessa elstu borg Þýskalands. Þar er að finna mjög merkilegar minjar frá tímum Rómverja en þeir stofnuðu borg sem þeir nefndu Augusta Trevrorum árið 18-17 f. Kr. Hér er margt að sjá, töfrandi kirkjur, glæstar barokkbyggingar og ekki má gleyma borgarhliðinu, Porta Nigra frá 17 e. Kr. sem er tákn borgarinnar. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími til að skoða borgina á eigin vegum, rölta um og líta inn til kaupmanna borgarinnar.

18. september | Cochem, Bernkastel Kues & sigling á Mósel

Rómantíkin og náttúrufegurðin láta engan ósnortinn í Móseldalnum. Við hefjum ferð dagsins með akstri til Cochem sem er með fallegri bæjum við ána. Allmikil hæð rís í miðjum bæ og á toppi hennar stendur glæsilegur kastali sem setur mikinn svip á staðinn. Við gefum okkur góðan tíma í bænum til að skoða en kveðjum svo og höldum til perlu Móseldalsins, Bernkastel-Kues sem er rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og töfrandi blæ miðaldanna. Bærinn stendur í hlíðum sitt hvoru megin árinnar og þar er skemmtilegt markaðstorg sem á sér langa sögu. Héðan verður farið í töfrandi siglingu á Mósel.

Opna allt

19. september | Frídagur í Tríer

Í þessari merku borg er margt að sjá og upplagt að nota daginn til þess að skoða hana nánar. Hér eru leyfar af rómverskum böðum og hringleikahúsi, einnig elsta dómkirkja Þýskalands og basilika frá 4. öld en þar er stærsti salur sem varðveist hefur frá fornöld. Við hlið basilikunnar stendur hin fallega og bleiklitaða Kjörfurstahöll. Í miðbæ Tríer er að finna Hauptmarkt, aðalmarkaðstorg borgarinnar. Þar standa fallegar byggingar, gosbrunnar og skemmtileg kaffihús og hér er gott að setjast niður og virða fyrir sér mannlífið. Þess má geta að þekktasti borgari Tríer í nútímasögu er Karl Marx en æskuheimili hans stendur á Brückenstrasse skammt frá Hauptmarkt og í dag hefur það verið gert að safni. Það er einnig tilvalið að rölta um og skoða í verslanir borgarinnar til dæmis á Simeonstrasse og Fleischstrasse.

20. september | Bingen & ljósadýrð á Rín

Í dag verður haldið til Bingen þar sem gist verður í þrjár nætur á hóteli við Rínarfljótið. Nú verður byrjað á að fara í skemmtilega skoðunarferð um elsta hluta bæjarins. Bingen var einn af virkisbæjum Rínardalsins og er enn hægt að sjá leifar frá þeim tíma. Bærinn er líflegur og skemmtilegur með fallegum torgum og það er sérstaklega gaman að skoða saltstrætin með sínum sögufrægu byggingum en áður fyrr bjuggu hér ríkir saltkaupmenn. Á aðaltorgi bæjarins er matarmarkaður og kirkja heilags St. Martin. Eftir skoðunarferð verður frjáls tími fram að brottför frá hótelinu okkar til Sankt Goar þar sem fljótabátur bíður okkar. Við siglum eftir ánni Rín í átt að hinum fræga Loreley kletti, fram hjá köstulum, virkjum og bæjum upplýstum með logandi blysum. Á leiðinni njótum við stórkostlegrar flugeldasýningar sem heimamenn kalla „Rhein in Flammen“ eða ljósadýrð á Rín og gæðum við okkur á kvöldverði um borð.

21. september | Dásemdardagur í Rüdesheim & stutt ferjusigling

Í dag bíður okkar dásemdardagur við ána Rín en nú verður siglt frá Bingen yfir til Rüdesheim. Við eigum ljúfan dag í þessum yndislega bæ sem þekktur er fyrir fallegu gömlu bindingsverkshúsin sín og líflegu skemmtigötuna Drosselgasse. Þessi gata er heimsfræg fyrir einstakt andrúmsloft sem skapast þegar flutningur tónlistarmanna ómar frá fjölmörgum veitingahúsum götunnar. Fyrir áhugasama gefst tækifæri til að fara með svifkláfi upp í vínhæðirnar fyrir ofan bæinn. Þar stendur minnisvarði sem byggður var seint á 19. öld til minningar um fyrri sameiningu Þýskalands en þaðan er glæsilegt útsýni yfir Rínardalinn og bæjarstæðin við ána. Farið verður í stutt rölt um Rüdesheim en eftir það er frjáls tími. Við gefum okkur góðan tíma í þessum skemmtilega bæ því margt er að skoða og upplifa inni á milli fallegu bindingsverkshúsanna áður en siglt verður til baka.

22. september | Töfrandi dagur í Koblenz & vínsmökkun

Nú verður ekið til Koblenz sem stendur við ármót Mósel og Rín en þær mætast við hið svokallaða Deutsches Eck og það er oft nefnt eitt fallegasta horn Þýskalands. Hér förum við í skoðunarferð um þessa sögufrægu borg sem er rúmlega 2000 ára gömul. Það er gaman að skoða gamla miðaldabæinn en hann prýða glæstar byggingar, fallegar kirkjur, þröngar litlar götur og gömul bindingsverkshús. Eftir það verður gefinn frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum. Við endum svo daginn með trompi hjá einum vínbónda Móseldalsins.

23. september | Heimferð frá Frankfurt

Nú er komið að heimferð eftir dásamlega daga. Eftir morgunverð verður ekið til Frankfurt. Flug þaðan er kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:45 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Park Plaza í Trier

HH Hotel í Bingen

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalsteinn Jónsson

Ég heiti Aðalsteinn Jónsson, kvæntur og þriggja sona faðir sem allir eru á kafi í fótbolta og fleiri íþróttum. Ég er lærður íþróttakennari og starfa við það í dag.

Ég starfaði í 10 ár sem fararstjóri, m.a. í Kempervennen Hollandi þar sem stílað var inn fjölbreytta afþreyingu fyrir barnafjölskyldur. Mikið var lagt upp úr alhliða hreyfingu - göngu- og hjólaferðir fyrir alla aldurshópa.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti