Algarve & Torremolinos

Upplifum stórbrotna náttúrufegurð á merkum söguslóðum í þessari glæsilegu ferð um Algarve svæðið í Portúgal og Málaga héraðið í Andalúsíu á Spáni. Í Algarve sjáum við stórbrotna kletta, leyndar víkur og gullnar strendur sem sumar teljast með þeim fallegustu í Evrópu og Málaga héraðið hrífur okkur með dásamlegum borgum, fjallaþorpum og töfrandi náttúrufegurð. Ævintýrið byrjar í Tavira í Algarve héraðinu sem er rómað fyrir fegurð en hér upplifum við portúgalska töfra með hvítkölkuðum húsum með fallegum flísamyndum, steinilögðum götum og skemmtilegum verslunum en maurískur innblástur einkennir allt þetta svæði. Stórbrotnar klettastrendur taka á móti okkur í Carvoeiro sem er eitt fallegasta þorpið á Algarve og við höldum einnig til Lagos sem á sér langa sögu meðal sjófarenda. Farið verður í töfrandi bátsferð til að upplifa perlur Lagos strandarinnar frá sjónum. Fyrrum sjávarþorpið Albufeira með sínum litlu töfrandi götum og hvítu húsum bíður okkar en austan við Albufeira liggur hin fallega strönd Praia de Falésia með ryðrauða kletta í baksýn. Næsti áfangastaður er Torremolinos við Costa de Sol ströndina í Málaga héraði en á leið okkar þangað verður áð í höfuðborg Andalúsíu á Spáni, Seville, sem státar sig af Real Alcazar höllinni og Barrio de Santa Cruz hverfinu. Ronda er einn fallegasti bær Andalúsíu en bæjarstæðið er einstakt þar sem hann stendur á gilbrúnum Guadelvin árinnar, hér mætast stórbrotið landslag, saga og kjarni spænskrar menningar. Líflega menningarborgin Málaga kemur okkur á óvart og einnig tekur vinsæla borgina Marbella á móti okkur með náttúrutöfrum, gylltri strandlengju, lystisnekkjuhöfn og fjallafegurð. Í þessari glæsilegu ferð verður góður tími til að njóta náttúrufegurðar, menningar og skemmtilegra samverustunda.

Verð á mann 565.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 167.900 kr.


Innifalið

  • 12 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hótelum.
  • Hádegisverður í Albufeira.
  • Bátsferð frá Lagos.
  • Heimsókn til vínbónda með léttum hádegisverði.
  • Aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu:
    • Dómkirkjan í Seville.
    • Kastalinn í Málaga.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í hallir, kirkjur og söfn, að undanskildum þeim sem eru undir innfalið.
  • Hádegisverðir, að undanskildum þeim sem eru undir innfalið.
  • Þjórfé.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

20. ágúst | Flug til Faro & Tavira í Algarve

Brottför frá Keflavík kl. 15:00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Faro kl. 20:45 að staðartíma. Ekið verður til bæjarins Tavira í Algarve héraðinu í Portúgal sem er rómað fyrir fegurð en þar gistum við fimm nætur í miðbænum við bakka árinnar Ria Formosa. Það er mikil náttúrufegurð meðfram ströndinni og hér má finna eitt mikilvægasta votlendi í Evrópu. Hér eru lón, sandöldur, klettar og eyjar og athvarf margra fugla og annarra dýra. Á hótelinu okkar eru öll herbergi með svölum og þar má einnig finna útisundlaug, upphitaða innsundlaug, gufubað, sauna, tyrkneskt bað, líkamsrækt og heilsulind.

21. ágúst | Gönguferð í Tavira & frjáls tími til að njóta

Þessi dagur byrjar á skemmtilegri göngu um Tavira sem er af mörgum talin einn fallegasti bær Portúgals. Hann er litríkur og skemmtilegur með töfrandi leifum fornra landnámsmanna og Rómverja, miðaldarústum, gotneskum kirkjum og flísalögðum húsum en maurískur innblástur einkennir borgarmyndina. Rómverska brúin yfir ánna Gilão er mjög merkileg, en hér eru líka fallegir kastalaveggir og aðrar glæstar byggingar sem prýða borgina. Í Tavira er markaðshöll með vörum úr héraðinu og það er yndislegt að koma við í garðinum Jardim Público. Eftir skemmtilega skoðunarferð verður frjáls tími til að njóta þess að vera á þessum fallega stað, fá sér hressingu, skoða sig betur um eða nota glæsilega aðstöðu hótelsins. Einnig er möguleiki að sigla frá miðbænum til eyjunnar fallegu Ilha de Tavira þar sem hægt er að upplifa fallega baðströnd og náttúrufegurð strandarinnar á siglingu.

22. ágúst | Fallegur dagur í Carvoeiro, Lagos & bátsferð

Það er ekkert leyndarmál að Carvoeiro er eitt fallegasta þorpið á Algarve en við ströndina eru brattir klettar í sjó fram, fagrar strendur og hellar. Eitt sinn var hér friðsælt fiskiþorp en með tímanum hefur það orðið vinsæll áfangastaður, einkum út frá einstaklega skemmtilegri staðsetningu. Hér er strandgata með útsýni yfir kletta og friðsælar víkur en hún endar í Algar Seco. Þar eru fallegar myndanir í berginu og í því er að finna hella og gatkletta þar sem sjórinn þeytist upp í gegn. Hér er einnig hægt að sjá dúkkuhöfuðið eða A Boneca en það er klettur þar sem hægt er að ganga inn og njóta fallegs útsýnis yfir Atlantshafið. Við höldum áfram ferð okkar til borgarinnar Lagos en hún á sér langa sögu meðal sjófarenda. Í dag er Lagos vinsæll áfangastaður enda minnir borgin um margt á lítið þorp. Í gamla miðbænum eru litlar steinilagðar götur þar sem hægt er að dást að calçada skreytilistinni og fallegum flísalögðum húsum. Hér eru margar skemmtilegar verslanir, veitingastaðir og fallegar byggingar. Það eru mjög fallegar strendur við borgina eins og do Camilo, Dona Ana og dos Estudantes. Einnig eru fallegar hellamyndanir við Ponta da Piedade. Farið verður í töfrandi bátsferð til að upplifa perlur Lagos strandarinnar frá sjónum.

Opna allt

23. ágúst | Skemmtilegur dagur í Albufeira

Fyrrum sjávarþorpið Albufeira með sínum litlu töfrandi götum og hvítu húsum bíður okkar en gamli bærinn í Albufeira er tvímælalaust með fallegustu stöðum Algarve og einn þekktasti ferðamannabær héraðsins. Suðurhluti Portúgals er einn af aðlaðandi orlofsstöðum Evrópu og býður upp á milt loftslag allt árið um kring, leyndar víkur, stórbrotna kletta og heillandi þorp. Austan við Albufeira liggur hin fallega strönd Praia de Falésia með ryðrauða kletta í baksýn. Hér ætlum við að njóta lífsins og rölta um og skoða það sem bærinn býður upp á. Möguleiki er að fara í stutta siglingu eða setjast á skemmtileg kaffi- eða veitingahús sem sum bjóða upp á frábært útsýni yfir ströndina Praia dos Pescadores og hafið. Áhugavert fornleifasafn er í borginni þar sem skoða má minjar frá tímabilinu milli forsögu og miðalda, með áherslu á rómverska- og mára tímabilið. Hér verður frjáls tími til að njóta á eigin vegum og upplagt að taka með sér strandföt.

24. ágúst | Dekurdagur í Tavira á eigin vegum

Dekurdagur og rólegheit, hér getur hver og einn notið þess að skoða sig um á þessum skemmtilega stað eða nýtt aðstöðuna á hótelinu. Hér eru hvítkölkuð hús með fallegum flísamyndum, steinilagðar götur og skemmtilegar verslanir. Á aðaltorgi bæjarins, Praça da República, er ánægjulegt að setjast á kaffihús og fylgjast með mannlífinu. 

25. ágúst | Seville í Andalúsíu & Torremolinos á Spáni

Nú er komið að því að kveðja Travira og Portúgal eftir yndislega daga. Stefnan verður tekin á Torremolinos en á leiðinni þangað verður áð í höfuðborg Andalúsíuhéraðs á Spáni, Seville, þar sem farið verður í ljúfa skoðunarferð um borgina. Seville blómstraði eftir landafundina í Ameríku og efnaðist mjög á nýlendutímum Spánverja. Kristófer Kólumbus mun einnig hafa skipulagt sjóferð sína til að finna Ameríku frá Seville. Hér er margt fallegt að sjá, dómkirkja borgarinnar La Giralda er sú stærsta á Spáni og með þeim stærstu í heimi en úr klukkuturninum er hægt að njóta útsýnis yfir alla borgina. Það er töfrandi að rölta um fyrrum gyðingahverfið Barrio de Santa Cruz þar sem finna má fallegar hallir, m.a. fallegustu höll Andalúsíu, Real Alcázar frá tímum Máranna, íburðarmikil heimili og glæsileg torg. Parque Maria Luisa garðurinn er yndislegur og má segja að þetta fallega græna svæði sé lunga borgarinnar en það geymir eitt fallegasta torg hennar, Plaza España. Seville er einnig sögusvið frægu óperunnar Carmen. Eftir góðan tíma í þessari fallegu borg heldur ferð okkar áfram til Torremolinos við Costa de Sol ströndina þar sem við dveljum næstu sex nætur. Á hótelinu okkar eru tvær sundlaugar, líkamsrækt, heilsulind og baðströnd. 

26. ágúst | Frjáls dagur í Torremolinos

Í dag er frjáls tími til að njóta lífsins í bænum Torremolinos sem er staðsettur á hinni dásamlegu sólarströnd Spánar, Costa del Sol. Hér er tilvalið að kanna fallegar strandir, sóla sig, fá sér sundsprett eða ganga meðfram standgötunni Paseo Marítimo en þar er urmull kaffihúsa og veitingastaða. Einnig er hægt að kíkja í verslanir, til dæmis á aðalverslunargötu bæjarins Calle San Miguel. 

27. ágúst | Ronda í Andalúsíu & hádegishressing hjá vínbónda

Í dag sækjum við heim einn fallegasta bæinn í Andalúsíu, Ronda, en þar búa um 37.000 manns. Bæjarstæðið er einstakt þar sem bærinn stendur á gilbrúnum Guadelvin árinnar, hér mætast stórbrotið landslag, saga og kjarni spænskrar menningar. Yfir gilið liggur hin fallega brú, Puente Nuevo, en hún tengir saman eldri og yngri hluta bæjarins. Beggja vegna brúarinnar er dásamlegt útsýni yfir bæinn, djúpt gilið og dalinn fyrir neðan. Gamli bærinn, La Ciudad, er fylltur mjóum steinilögðum götum með fallegum torgum og byggingum. Í Ronda voru háðir miklir bardagar í spænsku borgarastyrjöldinni 1936-1939 og einnig er frægt atriði í skáldsögu Ernest Hemingways, Hverjum klukkan glymur, sagt vera innblásið af raunverulegum atburðum héðan. Ronda er þekkt sem upphafsstaður nútíma nautaats og þar er að finna einn elsta nautaatsvöll Spánar, Plaza de Toros. Eftir skoðunarferð ætlum við að kynna okkur vínframleiðslu á svæðinu og fá að smakka á afurðum heimamanna ásamt léttum hádegisverði. 

28. ágúst | Ljúfur dagur í Málaga

Nú liggur leið okkar til Málaga en hún hefur umbreyst mikið á seinustu 15 árum. Hér hefur verið ráðist í miklar endurbætur á miðbænum, strandgötunni og höfninni. Málaga er lífleg borg og þar er skemmtileg blanda, menningar og sögu. Hér er að finna Alcazaba, gamalt virki Mára sem byggt var á 11. öld, þar eru fallegir garðar og tilkomumikið útsýni yfir borgina. Frá Gibralfaro kastala sem situr á hæð fyrir ofan borgina er fallegt útsýni og mikil fjallasýn. Eftir skemmtilega skoðunarferð verður gefin frjáls tími til að upplifa borgina, líta inn á kaupmenn borgarinnar og fá sér hressingu áður en ekið verður á hótel. 

29. ágúst | Spænska borgin Marbella

Hin vinsæla suður spænska borg Marbella höfðar til næstum allra með fjölbreyttum náttúrutöfrum sínum, fallegri strandlengju, lystisnekkjuhöfn og fjallafegurð. Virkar eins og friðsælt sjávarþorp með sínum eigin sjarma og glitrandi hvítu byggingum.Fjölmargir listamenn og virkilega vel stætt fólk frá öllum heimshornum laðast eins og segull að borginni á hverju ári og orðatiltækið „Marbella er hreinn lífsstíll“ hefur orðið til. Borgin á sína sögu og yfirbragð sem er skemmtilegt að upplifa í völundarhúsi gamla bæjarins með sínum sögulegu byggingum og dæmigerðu litlu veitingahúsum þar sem boðið er upp á tapas og aðra staðbundna rétti. Hér gefum við okkur góðan tíma til að njóta og kanna líf bæjarbúa sem er fjölbreytilegt og litríkt. Upplagt er að fá sér hressingu áður en ekið verður til baka.

30. ágúst | Dýrðardagur í Torremolinos

Við höldum áfram að njóta okkar í Torremolinos og nú er frjáls tími. Upplagt er að skoða La Carihuela hverfið þar sem miðbærinn er. Það er í suðvestari enda bæjarins og íbúar þar lifðu mikið á sjávarnytjum á árum áður. Í dag eru hér bestu sjávarréttarstaðirnir í Torremolinos og víða eru skemmtilegar litlar götur með hvítkölkuðum húsum sem eru blómum skrýdd. Hér ríkir afslappað andrúmsloft. Fyrir þá sem vilja er gaman að fara í gönguferð, kíkja í verslanir eða fá sér tapasrétti á einum af fjölmörgum stöðum bæjarins.

31. ágúst | Heimferð frá Málaga

Eftir glæsilega og skemmtilega ferð verður ekið út á flugvöll í Málaga. Brottför þaðan kl. 22:40 og lending í Keflavík kl. 01:30 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 20. - 25. ágúst - Tavira - Hotel Vila Gale Tavira
  • 25. -31 ágúst  - Torremolinos - Hotel Melia Torremolinos

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti