Litríkt landslag & menning á Grænlandi

Í þessari einstöku ferð kynnumst við stórbrotinni náttúru Grænlands, íbúum þess og menningu að fornu og nýju. Suður-Grænland býður upp á undurfagurt og ósnortið landslag, jökulheima, heiðalönd, firði og fjörur. Við gistum tvær nætur í bænum Narsaq en hann stendur undir bæjarfjallinu Qaqqarsuaq. Hér er loftslagið milt á grænlenskan mælikvarða og þetta er því einn af fáum stöðum þar sem aðstæður eru til jarðyrkju og sauðfjárræktar. Við munum kynnast bænum Narsaq vel og hvernig menning Grænlendinga hefur þróast frá fornu fari til vorra daga. Á þessu svæði eru einnig helstu minjar um búsetu norrænna manna á Grænlandi. Miklir skriðjöklar ganga út úr Grænlandsjökli fram í sjó og við munum sigla um Qalerallit fjörð á milli tignarlegra ísjaka. Það er mikilfenglegt þegar eyru og augu verða vitni að því þegar bláir jakarnir brotna af jöklinum og steypast niður í sjó með braki og brestum. Við komum í Hvalseyrarfjörð þar sem finnast rústir af byggingu sem reistar voru af norrænum mönnum en það er kirkjan að Hvalseyri. Við dveljum á Görðum og sjáum minjar gamla biskupssetursins. Við skoðum einnig  Bröttuhlíð við Eiríksfjörð, þar sem þau Eiríkur rauði, Þjóðhildur kona hans, Leifur heppni og fleiri afkomendur þeirra hjóna bjuggu. Í þessari ferð fléttast saman saga, menning og náttúra í mögnuðu mannlífi og landslagi Grænlands.

Verð á mann 359.900 kr.

Í tvíbýli, 4 nætur á gistiheimilum með sameiginlegu baðherbergi.

Aukagjald fyrir einbýli 39.600 kr.

Verð á mann 384.800 kr.

Í tvíbýli, 4 nætur á hótelum með sér baðherbergi.

Ekki er hægt að bóka einbýli á hótelum.

Innifalið

  • 5 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting skv. ferðalýsingu.
  • Ferðir til og frá flugvelli.
  • Morgunverður allan tímann.
  • Allar skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Bátsferðir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Fjórir hádegisverðir.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Aðgangur inn á söfn og kirkjur.
  • Aðgangur og leiðsögn um bruggverksmiðju í Narsaq.
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

10. júní | Flug til Narsarsuaq & Narsaq

Brottför frá Keflavík kl. 17:30 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Narsarsuaq kl. 19:30 að staðartíma. Siglum til bæjarins Narsaq þar sem við gistum næstu tvær nætur. Narsaq er næst fjölmennasti bær Suður-Grænlands með 1500 íbúa. Þar er fjöldi litríkra húsa undir bæjarfjallinu Qaqqarsuaq og aðeins fjær er Kvanefjeld sem hefur verið lýst sem einu dýrasta fjalli í heimi vegna möguleika í námuvinnslu.

11. júní | Dagur í Narsaq

Eftir morgunverð verður farið í siglingu til Qalerallit fjarðar þar sem við förum í land við skriðjökul. Þegar farið er aftur um borð í bátinn siglum við í námunda við einn skriðjökulinn og skoðum í návígi þar sem hann skríður fram í sjó. Eftir að komið er aftur til  Narsaq heimsækjum við byggðasafnið í Narsaq og fræðumst um sögu svæðisins. Eftir það er bruggverksmiðjan Qajaq heimsótt en þar er bruggaður bjór úr allt að 4000 ára gömlu leysingarvatni úr nálægum jöklum.

12. júní | Hvalseyjarfjörður & Qaqortoq

Í dag verður siglt í Hvalseyjarfjörð með viðkomu í Qaqortoq þar sem litríkar byggingar og staðbundið líf bæjarins taka á móti okkur. Ef við erum heppin fáum við á siglingunni útsýni yfir snævi þakta fjallstinda og glitrandi ísfláka. Í Hvalseyjarfirði standa enn kirkjurústir frá miðöldum og munum við skoða þessar fornu leifar. Héðan höldum við til Igaliku þar sem gist verður í tvær nætur.

Opna allt

13. júní | Igaliku (Garðar)

Eftir góðan morgunverð munum við skoða okkur betur um í Igaliku sem er eitt fallegasta þorp Grænlands. Í Igaliku var aðalkirkjustaður og biskupssetur Grænlendinga til forna. Nú eru hér skóli, kirkja og verslun en glöggt má sjá að íbúar stunda sauðfjárrækt. Húsin eru máluð í margvíslegum litum, fagurgrænt undirlendi er milli þorps og fjöru og síðan tekur fagurblár sjórinn við. Handan fjarðarins gnæfir fjallið Illerfissalik með hvítum kolli. 

14. júní | Heimferð

Eftir góðan morgunverð í Igaliku göngum við um 4 km leið yfir til Itelleq. Því næst höldum við í stutta siglingu yfir til Quassiarsuk, sem áður hét Brattahlíð. Þetta er landnám Eiríks rauða og þarna má finna ótal mannvistarleifar sem vert er að skoða m.a. rústir af bæ Eiríks rauða. Það er gaman til þess að hugsa að sauðfjárbændur í héraðinu heyja í dag á sama svæði og menn Eiríks gerðu fyrir meira en þúsund árum. Svo er siglt yfir til Narsarsuaq og við höldum á flugvöllinn, þaðan sem flogið verður heim kl. 20:15. Lent í Keflavík kl. 00:15 að íslenskum tíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Guðrún Þorkelsdóttir

Guðrún Þorkelsdóttir er fædd á Akureyri en ólst upp í miðbæ Reykjavíkur. Hún er enskukennari að mennt og útskrifaðist síðan sem leiðsögumaður frá MK árið 2009. Hún leiðsegir bæði á Íslandi og Grænlandi. Guðrún fór með hóp ferðamanna til Grænlands í fyrsta skiptið árið 2012 og það má segja að hún hafi gjörsamlega fallið í stafi yfir fegurð Grænlands, sögu, menning og mannlífi. Síðan 2012 hefur Guðrún farið nokkrum sinnum á hverju sumri með ferðamenn til Grænlands. Í dag starfar Guðrún aðallega við leiðsögn en einnig sem stundakennari við leiðsöguskólann í MK og sem forfallakennari.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti