Alpadýrð Königssee & Innsbruck

Alpafјöllin skarta sínu fegursta í glæsilegri ferð um Berchtesgadenerland í Þýskalandi, Salzburgerland og Tíról í Austurríki sem eru heillandi á þessum árstíma þar sem allt er í blóma. Ferðin byrjar í Bad Reichenhall sem er yndislegur Alpabær en hann var einmitt valinn Alpabær ársins árið 2001. Þaðan verður farið í ævintýralegar ferðir, t.d. að Arnarhreiðri Hitlers og að Königssee, einu fegursta vatni Þýskalands. Þar verður farið í töfrandi siglingu út að St. Bartholoma kapellunni frá 12. öld. Við eigum góðan dag í Salzburg, fæðingarborg Mozarts, einni af perlum Austurríkis. Á leið okkar inn í Tíról verður stoppað í Zell am See, eins af eftirsóttustu ferðamannabæjum Salzburgerlands en þaðan verður ekið yfir Gerlosskarðið inn í dalinn Zillertal. Á leiðinni verður stoppað við glæsilegustu fossa austur Alpanna, tignarlegu Krimmlerfossanna sem falla milli háu Tauernfjallanna og Kitzbühel Alpanna. Við komum í fallega bæinn Mayrhofen í Zillertal sem er kallaður dalur söngsins, því þar er bæði jóðlað og sungið. Höfuðborg Tíróls, Innsbruck, er yndisleg og heillandi. Þar njótum við dýrðar Alpafjalla og förum með kláfi upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze, en þaðan er stórglæsilegt útsýni. Á leiðinni þaðan verður komið við í bænum Mittenwald, sem á sér engan líka með litlum myndskreyttum húsum og skemmtilegum verslunum. Við eigum góðar stundir í fallegu borginni Innsbruck og hverjum og einum gefst færi á að skoða sig betur um og njóta þess sem borgin hefur upp á bjóða.

Verð á mann 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 87.300 kr.


Innifalið

  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Sex kvöldverðir á hótelum.
  • Tírólakvöld með tónlist og söng.
  • Lyfta og aðgangur að Arnarhreiðrinu.
  • Sigling á Königssee.
  • Aðgangur að Krimmlerfossunum.
  • Kláfur upp á Zugspitze.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Tveir kvöldverðir.
  • Vínsmökkun.
  • Þjórfé.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

9. ágúst | Flug til München & Bad Reichenhall

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá München verður ekið til Bad Reichenhall í Berchtesgadenerland í Þýskalandi. Bad Reichenhall er yndislegur Alpabær með 850 ára sögu, en hann var valinn Alpabær ársins árið 2001. Við gistum hér í fjórar nætur.

10. ágúst | Königssee & Arnarhreiðrið

Á þessum fallega degi byrjum við á að skoða Berghof, Arnarhreiður Hitlers, sem er staðsett í Bæversku ölpunum. Bormann, einn nánasti samstarfsmaður hans, lét byggja það á einstökum stað, tindinum Kehlstein sem stendur í 1.834 m hæð. Hitler fékk húsið að gjöf frá ríkinu á 50 ára afmæli sínu. Það er sérstök upplifun að skoða Arnarhreiðrið og útsýnið er stórkostlegt, hægt er að njóta ólýsanlegar náttúrufegurðar yfir Berchtesgade fjöllin og yfir að Köningssee vatni. Þessi staður er líka áminning um djúpið í ómannúðlegri einræðisstjórn nasista, hér fór fram mikið af hugmyndavinnu, skipulagi og mikilvægum fundum í vegferð Hitlers. Næst verður ekið að Königssee vatninu sem er eitt fallegasta vatn landsins og umvafið mikilli fjalladýrð. Þar förum við í skemmtilega siglingu út að St. Bartholoma kapellunni fallegu en hún er frá 12. öld. Upplagt er að fá sér hádegishressingu við vatnið, líta inn til kaupmanna í bænum Schönau og njóta dýrðarinnar við vatnið.

11. ágúst | Tónlistarborgin Salzburg & Mozart

Í dag ætlum við að heimsækja hina undurfögru Salzburg en hún er þekktust sem fæðingarborg Mozarts og fyrir hrífandi byggingar í barokkstíl. Við hefjum daginn á stuttri skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse en hún er með elstu og þekktustu götum borgarinnar. Þar er að finna mjög áhugavert Mozartsafn. Í góðu veðri er gaman að koma upp í kastalann Hohensalzburg en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music tekinn upp. Héðan er fallegt útsýni yfir borgina, Salzburgerland og stórfenglegt umhverfi Alpanna í kring sem eru aðdráttarafl fjölda ferðamanna ár hvert. Síðdegis gefst hverjum og einum tími til að kanna mannlíf borgarinnar á eigin vegum.

Opna allt

12. ágúst | Dagur í Bad Reichenhall

Bærinn Bad Reichenhall er í dag þekktastur sem heilsubær og þá einkum vegna saltsins sem þar finnst en fyrr á öldum var hann mikilvægur saltnámubær. Fundist hafa merki um saltvinnslu allt frá tímum Rómverja og fyrr og til eru heimildir allt frá 12. öld sem vitna til saltsins sem hvíta gullsins enda var það ein verðmætasta vara sem völ var á. Við förum í skemmtilega skoðunarferð um áhugaverðustu staði bæjarins og eftir það verður frjáls tími til að njóta dagsins á þessum fagra stað. Hér er skemmtileg göngugata með verslunum en bærinn hefur verið að þróast mikið eftir því sem fleiri gestir koma og sækja í heilsulindirnar og hér má nú finna skemmilegar sérverslanir, gallerí, fataverslanir, veitingastaði, kaffihús og fleira. Heimafjöll bæjarins eru Hochstaufen (1771 m) og Predigstuhl (1613 m) en frá bænum er hægt að fara með kláf upp á Predigstuhl fjallið.

13. ágúst | Gerlosskarð, Zillertal, Mayrhofen & Innsbruck

Við kveðjum þennan yndislega stað eftir góða daga en nú verður ekið í átt að Zell am See vatninu þar sem fegurðin lætur ekki á sér standa og við stoppum og njótum dýrðarinnar. Ferð okkar heldur áfram og nú verður ekið yfir Gerlosskarðið inn í dalinn Zillertal. Á leiðinni verður stoppað við glæsilegustu fossa austur Alpanna en tignarlegir Krimmlerfossarnir í Salzachdalnum falla milli háu Tauernfjallanna og Kitzbühel Alpanna. Eftir gott stopp þar verður ekið til bæjarins Mayrhofen í Zillertal en dalurinn sem er við jöklasvæði Zillertal Alpanna er oftast kallaður dalur söngsins, því þar er bæði jóðlað og sungið. Upplagt er að fá sér hressingu og njóta dýrðar dalsins. Við ökum að lokum til Innsbruck, höfuðborgar Tíról í Austurríki sem hvílir hér í fjalladýrðinni í Inndalnum. Hér verður gist í fjórar nætur.

14. ágúst | Skoðunarferð um Innsbruck, frjáls tími & Tírólakvöld

Miðaldahluti Innsbruck er sérstaklega heillandi en hún var ein af borgum Habsborgaranna. Habsborgara keisaraættin var ein mikilvægasta konungsætt Evrópu og var blómatími borgarinnar á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg. Hann lét byggja húsið með gullþakinu sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról og vekur jafnan mikla athygli. Borgin var á þeim tíma ein af menningar- og listaborgum landsins. Hér höldum við í stutta skoðunarferð en eftir hana verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria Theresien Straße og setjast inn á skemmtileg kaffi- eða veitingahús. Um kvöldið verður farið á Tírólakvöld hjá Gundolf fjölskyldunni

15. ágúst | Zugspitze & Mittenwald

Í dag verður farið með lest og kláfi upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze, sem er í 2.963 m hæð. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir þýsku og austurrísku Alpana. Á leiðinni til baka verður komið við í bænum Mittenwald, sem á sér engan líka með litlum myndskreyttum húsum og skemmtilegum verslunum. Bærinn er frægur fyrir smíði strengja- og plokkhljóðfæra og þar stendur minnisvarði af Matthias Klotz, upphafsmanni fiðlusmíði í Mittenwald, fyrir utan fiðlusafn bæjarins.

16. ágúst | Dásemdar dagur í Innsbruck

Nú er frjáls dagur á eigin vegum og upplagt að skoða Innsbruck betur, rölta um og njóta fjallafegurðar borgarinnar. Það er hægt að fara í Hop-on Hop-off strætó til að fá betri yfirsýn yfir borgina og nágrenni. Í slíkri strætóferð eru áhugaverð stopp fyrir utan miðborgina sem er tilvalið að sjá með þessum hætti án þess að þurfa að ganga. Strætóinn gengur að Bergisel skíðastökkpallinum, Tíról Panorama safninu með hinu fræga risastóra hringlaga málverki og að Ambras kastala sem stendur í hlíðunum fyrir ofan borgina. Hægt er að taka Hungerburgkláfinn sem liggur frá miðborginni og upp í fjallið Hafelekarspitze. Þaðan er glæsilegt útsýni yfir borgina og Inndalinn. Einnig er hægt að njóta þess að sitja á skemmtilegu kaffi- eða veitingahúsi við fallegasta torgið í Tíról og horfa á mannlífið eða líta inn til kaupmanna borgarinnar sem eru ófáir.

17. ágúst | Heimferð frá München

Nú er komið að því að kveðja eftir ljúfa daga. Ekið verður til München en brottför er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Hótel

  • 4 nætur - Bad Reichenhall - Amber Hotel Bavaria

  • 4 nætur - Innsbruck - Hotel Das Innsbruck

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet er mikil útivistarmanneskja, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað sem markaðsstjóri ýmissa fyrirtækja stærstan hluta síns vinnuferils. Hún bjó í Þýskalandi um árabil ásamt fjölskyldu sinni og ferðaðist víða um Evrópu meðan á dvölinni stóð. Hún, ásamt manni sínum Aðalsteini Jónssyni sem einnig er fararstjóri, hefur tekið þátt í fjölda ferða á vegum Bændaferða við góðan orðstír. Elísabet hefur m.a. látið til sín taka í góðgerðarmálum og stofnaði ásamt vinkonum sínum Á allra vörum, sem margir þekkja.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti