Wales - Land rauða drekans

Stórfenglegt landslag og keltnesk menning eru aðaleinkenni áfangastaðar okkar, Wales. Velska er eitt elsta tungumál heims og Wales búum er umhugað um að viðhalda henni enda er hún vel sýnileg í daglegu lífi. Hér eru fleiri kastalar á hvern ferkílómetra en nokkurs staðar í heiminum. Margir þeirra voru reistir til þess að treysta ensk yfirráð á svæðinu á 13. öld. Velska strandlengjan telur um 1400 kílómetra og víða meðfram henni eru tilkomumiklar strandir, klettar og skemmtilegir bæir. Flogið verður til Manchester og ekið þaðan til borgarinnar Chester þar sem gist verður fyrri hluta ferðarinnar. Chester stendur við ána Dee, austan við landamæri Wales. Í borginni eru merkilegar minjar frá tímum Rómverja, ásamt fornfrægum miðaldabyggingum. Snowdonia þjóðgarðurinn er einstök náttúruperla. Þar eru falleg fjöll, fjölmargir fossar, yfir 100 stöðuvötn, fagurgrænir dalir og aldnir skógar. Við komum við í Ruthin sem er einn sögufægasti bær í Norður-Wales. Þar stendur kastali Edwards I frá 13. öld en hann kom við sögu í rósastríðunum frægu. Leið okkar liggur einnig til Betws-y-Coed sem stendur við útjaðar Snowdonia þjóðgarðsins en þar er mikil náttúrfegurð, þéttir skógar, beljandi ár og falleg fjallasýn. Við förum um fallegan Dee dalinn, um Skeifuskarð, stöldrum við í bænum Llangollen en hann stendur við bakka Dee árinnar með fjallahrygginn Clwydian í bakgrunni. Við komum einnig í borgina Wrexham sem er sú fjölmennasta í Norður-Wales. Viktoríski strandbærinn Llandudno verður einnig á vegi okkar og einn best varðveittasti miðaldabær Bretlands, Conway, en þar er að finna minnsta hús Bretlands. Ferðin endar í Liverpool, borg Bítlanna, þar sem farið verður á ýmsa staði tengda þessari heimsfrægu hljómsveit. Einnig mun gefast frjáls tími til að skoða borgina á eigin vegum. Í þessari frábæru ferð njótum við okkar í fallegri náttúru, skoðum áhugaverða staði, fallega bæi og skemmilegar borgir.

Verð á mann 289.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 114.200 kr.


Innifalið

  • 7 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Tveir kvöldverðir á hóteli í Chester.
  • Einn kvöldverður á hóteli í Liverpool.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • High tea (síðdegiste) í Chester.
  • Hádegisverðir.
  • Tveir kvöldverðir í Chester.
  • Einn kvöldverður í Liverpool.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Chester Cathedral ca £ 5
  • Grasagarður ca £ 15.
  • Great Orme (ef verður leyfir) ca £ 9.
  • Bítlasafnið í Liverpool ca £ 15.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

13. ágúst | Flug til Manchester & Chester

Flogið er til Manchester með Icelandair. Brottför er frá Keflavík kl. 8:00 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Við lendum í Manchester kl.11:40 og ökum rúmlega klukkustundar leið til Chester. Við komum við í ferðamannabænum Blakemere Village en þar má finna smáverslanir, matsölustaði, handverk, ránfuglasýningu o.fl. Þaðan ökum við á hótel í Chester þar sem gist verður í fjórar nætur. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu. 

14. ágúst | Dagur í Chester

Að loknum morgunverði verður haldið í gönguferð um Chester. Í þessari tæplega 80 þúsund manna borg er fjöldi bygginga frá miðöldum og borgarmúrarnir þar eru sennilega þeir best varðveittu í Englandi. Við kíkjum á þessa aldagömlu borgarmúra og sjáum hinn merkilega svart-hvíta arkitektúr sem prýðir mörg hús í miðbænnum. Við heimsækjum dómkirkjuna, Chester Cathedral, einstaka byggingu sem upphaflega var byggð sem klaustur árið 1092. Seinna reis svo kirkja í rómönskum stíl en frá 1250 tók við merkilegt 250 ára tímabil þegar sú magnaða bygging í gotneska stílnum sem við skoðum reis. Eftir hádegi gefst hverjum og einum tími til að skoða borgina á eigin vegum. Kvöldverður á eigin vegum.

15. ágúst | Snowdonia þjóðgarðurinn

Áfangastaður dagsins er Snowdonia þjóðgarðurinn en hann dregur nafn sitt af Snowdon fjallinu sem er hæsta fjall Wales (1085 m). Þjóðsagan segir að riddarar Arthúrs konungs hvíli undir fjallinu og að sverð hans liggi í vatninu, Llyn Llydaw, sem er nálægt toppi þess. Háir fjallgarðar eru áberandi í þjóðgarðinum en þar má líka finna straumharðar ár, fossa, skóga og stöðuvötn. Að loknum góðum morgunverði í Chester er ekið til Ruthin og þar verður áð um hríð, hægt að fá sér kaffi, rölta um bæinn og skoða mannlífið. Nafn bæjarins kemur úr velsku en rhudd merkir rauður og din er virki. Kastali sem hér var byggður á árunum 1277-84 stendur einmitt á rauðum sandsteini. Við ökum áfram um landbúnaðarhéruð og komum næst í umræddan þjóðgarð þar sem margt er að sjá. Við förum um smáþorp og náttúru sem sums staðar svipar til Íslands. Við ökum um smábæinn Bala og komum í gamlan námubæ, Blaenau Ffestiniog, þar sem sjá má ummerki eftir sögulega námuvinnslu á flögubergi. Áfram er haldið og enn um skemmtileg svæði, fjöll og firnindi uns komið er í bæinn Betws-y-Coed. Þar fáum við okkur hádegishressingu og skoðum okkur um. Umhverfi bæjarins er einstaklega fallegt, stutt er í vinsæl útivistarsvæði þar sem göngusvæðin eru afar vel nýtt. Á leiðinni frá Betws-y-Coed til Chester er ekið um þrönga dali framhjá fjallinu Snowdonia, en síðan taka við fallegar sveitir síðasta spottann. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

Opna allt

16. ágúst | Dee dalurinn, Llangollen og Wrexham

Nú liggur leiðin í Dee dalinn, hvar er eitt tilkomumesta landslag Wales. Við ökum meðfram  Clwydian fjallgarðinum en svæðið er rómað fyrir náttúrufegurð. Við förum um Skeifuskarð (Horseshoe Pass) og þaðan ökum við að Klaustri Dala krossins (Valle Crucis Abbey). Við göngum síðasta spölinn að klaustrinu og þar verður áð um stund. Klaustrið var reist árið 1201 af Madog ap Gruffydd Maelor sem var prins af Powys. Klaustrið er nú rústir einar en engu að síður vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Næst komum við til Llangollen sem er myndrænn og fallegur bær við ána Dee. Í Llangollen hefur verið byggð frá því á 8. öld og þar er margt að sjá, sögufrægar byggingar og náttúrufegurð. Þar eru margar áhugaverðar verslanir og íbúarnir hafa orð á sér fyrir gestrisni. Við stöldrum einnig við í Wrexham, hinni fornfrægu borg við landamæri Englands og Wales. Þar hafa fundist minjar um búsetu frá því á bronsöld. Við höldum ferð okkar áfram til Chester og þar gefst færi á að fá sér High tea (síðdegiste) í lok ferðar. Afternoon tea og High tea eru þekktur breskur siður sem Walesverjar kunna vel. 

17. ágúst | Grasagarður, Conwy og Llandudno

Í dag verður haldið í skoðunarferð til Norður-Wales. Fyrir hádegi heimsækjum við afar fallegan grasa- og útivistargarð í Norður Wales, Bodnant Garden. Síðan ökum við áfram til Conwy þar sem gengið verður um gamla miðaldakjarna bæjarins og litið á minnsta hús Bretlands. Við ökum síðan sem leið liggur til Llandudno en hann er fallegur strandbær sem hefur ekki að ástæðulausu hlotið nafngiftina drottning velskra sumarleyfisstaða. Í Llandudno verður ekið að kalksteinshöfða sem rís 207 m beint upp úr sjónum. Ef veður leyfir verður farið upp á höfðann með sporvagni. Þaðan er stórkostlegt útsýni og ekki síður áhugavert dýra- og plöntulíf en við gætum m.a. rekist á hinn einstaka Kashmiri geitastofn sem fluttur var til Englands sem gjöf frá persneska konunginum til Viktoríu drottningar á krýningarathöfn hennar árið 1837. Við höldum ferð okkar áfram um fallegar sveitir alla leið til Liverpool þar sem við gistum næstu tvær nætur. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

18. ágúst | Á slóðir Bítlanna - Liverpool

Í dag ætlum við að skoða okkur um í Bítlaborginni. Við fetum í spor þeirra Paul, George, John og Ringo og röltum um hina sögufrægu tónlistargötu Mathew Street. Lítum inn í Dómkirkjuna í Liverpool og förum síðan að rústum kirkju heilags Lúkasar. Hún var eyðilögð í loftárás í maí 1941 en veggir hennar standa enn. Við endum gönguna við Bítlasafnið þar sem áhugasamir geta skoðað sig um. Kvöldverður á eigin vegum.

19. ágúst | Heimferðardagur

Hópurinn fer með rútu út á flugvöll. Brottför frá Manchester kl. 13:05 og lending er áætluð í Keflavík kl. 14:50 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 13. - 17. ágúst - Chester - Hotel Crowne Plaza
  • 17. - 19. ágúst - Liverpool - Hotel Crowne Plaza City Centre

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti