Costa del Azahar & Valencia
7. – 18. júní 2025 (12 dagar)
Ævintýraleg ferð til Costa del Azahar á Spáni eða hinnar svokölluðu Appelsínustrandar. Þessi glæsilega ferð hefst í Barcelona, höfuðborg Katalóníu. Þar eigum við saman góða daga og skoðum þekktustu kennileiti borgarinnar áður en stefnan verður tekin á Costa del Azahar ströndina sem er pálmum prýdd. Castell Papa Luna kastalinn stendur tignarlega uppi á háum kletti í hinum söguríka bæ Peñíscola sem verður okkar aðaldvalarstaður. Á leiðinni þangað verður staldrað við í borginni Tarragona á Costa Dorada en rómversk saga er alltumlykjandi í þessari fallegu héraðshöfuðborg. Peniscola, þessi rómantíski miðaldabær sem er á lista yfir fallegustu bæi Spánar, er sögulegt verndarsvæði en stórbrotið landslagið hefur þjónað sem umgjörð í ótal kvikmyndum. Við hverfum aftur til miðalda í Morella en hún tilheyrir takmörkuðum fjölda borga um allan heim sem hafa varðveist nánast fullkomlega sem sögulegt útisafn. Við kynnumst einnig ólífurækt í heimsókn til stórbónda og upplifum heillandi heim svæðisins á siglingu um Ebro Delta að ósum hennar þar sem eyjarnar Buda og Sant Antoni liggja. Þarna eru víðáttumiklar sléttur og svæðið er þýðingarmesta vistkerfi vestanverðs Miðjarðarhafsins. Sögufræga borgin Valencia er dásamleg og tímalaus fegurð hennar heillar. Þjóðgarðurinn Sierra de Espadán tekur á móti okkur og farið verður í ævintýralegri siglingu á ánni San José og um neðanjarðarhella hennar en hún er lengsta neðanjarðará í Evrópu. Einnig verður komið til Vilafamés sem talinn er með fallegustu smábæjum Spánar.