Perlur Króatíu - Split & Dubrovnik

Króatía er gjarnan kölluð land hinna þúsund eyja. Strandlengjan meðfram kristaltæru Adríahafinu spannar yfir 1600 kílómetra og heillandi eyjarnar meðfram ströndinni eru yfir 1200 talsins. Náttúrufegurðin er ólýsanleg og miðjarðarhafsloftslagið ríkjandi. Menningararfur Króatíu er ríkulegur og um landið eru fjölmörg svæði á heimsminjaskrá UNESCO. Hér má segja að sameinist það besta í menningu Miðjarðarhafsins og Mið-Evrópu. Í þessari ferð munum við njóta suðurhluta Króatíu og eyjanna við strandlengjuna. Við hefjum ferðina í stærstu borg svæðisins, Split, þar sem finna má Diokletian höllina frægu en borgin er sannarlega eins og lifandi safn. Við höldum einnig í siglingu til eyjunnar Brač þar sem fallegar strendur, ólífulundir og vínekrur taka á móti okkur. Leið okkar liggur áfram til Dubrovnik, Perlu Adríahafsins, sem er ein aðal menningar- og listaborg landsins og iðar af mannlífi. Á leiðinni þangað verður ekið um Neretva dalinn sem er einstakur vegna frjósemi, náttúrufegurðar og líffræðilegs fjölbreytileika. Farið verður í skemmtilega siglingu á Neretva ánni. Einnig verður ekið um Pelješac skagann og siglt yfir til eyjunnar Korcula þar sem við skoðum líflegan og skemmtilegan samnefndna miðaldabæinn. Njóttu ljúfra daga við strendur Króatíu í fallegu borgunum Split og Dubrovnik.

Verð á mann 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 146.100 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Sigling út á eyjuna Brač.
  • Sigling á Neretva ánni.
  • Sigling út á eyjuna Korcula.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. 
  • Aðrar siglingar og ferjur en nefndar í innifalið.
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Virkisveggir í Dubrovnik u.þ.b. € 35. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. júní | Flug til Split

Brottför frá Keflavík kl. 10:45 og er mæting í Leifsstöð 2 klst. fyrir brottför. Lending í Split kl. 17:30 að staðartíma. Þar verður gist á góðu hóteli með sundlaug og heilsulind við ströndina í þrjár nætur.

3. júní | Skoðunarferð um Split

Split telst með fegurri borgum Króatíu. Virðulegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja prýða borgina og hefur elsti hluti hennar verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Segja má að Split sé eins og lifandi útisafn. Við heimsækjum Diokletian höllina, sem telst til eins merkilegasta minnisvarða byggingarlistar frá tímum Rómverja en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Seinni part dags njótum við að vera á þessum fagra stað. 

4. júní | Sigling til eyjunnar Brač

Eftir morgunverð siglum við út í eyjuna Brač. Mikil fegurð tekur á móti okkar þar, fallegar strendur, ólífulundir og vínekrur. Hér er heimasvæði hvíta kalksteinsins sem líkist marmara. Steinn frá Brač hefur verið notaður í margar heimsþekktar byggingar, meðal annars Diokletian höllina, þinghúsið í Berlín, höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York og í Hvíta húsið í Washington. Farið verður um eyjuna og stoppað í helstu bæjum. Við stöldrum við Gullna hornið þaðan sem útsýnið er aðdáunarvert. Þar er upplagt að skella sér stutt í sjóinn eða fara í gönguferð meðfram fallegri ströndinni.

Opna allt

5. júní | Sigling á Neretva ánni & Dubrovnik

Eftir góðan tíma í Split og nágrenni tökum við daginn snemma og höldum ferð okkar áfram til Dubrovnik, þar sem gist verður í fjórar nætur á góðu hóteli. Á leiðinni verður ekið um Neretva dalinn þar sem Neretva áin rennur en dalurinn er stundum kallaður Flórída Króatíu, enda er loftslagið ekki ósvipað og þar eru góð skilyrði til sítrusræktar. Förum í siglingu á Neretva ánni og fáum létta hádegishressingu.

6. júní | Dagur í Dubrovnik

Dubrovnik er borg menningar og lista. Við förum í skemmtilega skoðunarferð um þessa líflegu og sögufrægu borg, sem hefur að geyma fjölmargar glæstar byggingar frá endurreisnar- og barokktímanum. Dubrovnik iðar af mannlífi og hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða. Gengið verður um gömlu virkisveggi borgarinnar sem ná utan um elsta hluta hennar. Einnig verður gefin tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum.

7. júní | Peljesac skaginn & sigling yfir á Korcula eyju

Peljesac skaginn og Korcula eyjan eru á dagskrá okkar í dag. Ekið verður um skagann sem er annar stærsti skagi landsins. Náttúran er sérlegt augnayndi, t.d. má sjá ólífu-, fíkju- og sítrónurækt og hér er einnig að finna þekktustu vínhéruð landsins. Við siglum út í eyjuna Korcula sem er ein af perlum Adríahafsstrandarinnar. Farið verður í skoðunarferð um bæinn Korcula sem er líflegur og skemmtilegur miðaldabær. 

8. júní | Frjáls dagur í Dubrovnik

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri á að kanna borgina Dubrovnik á eigin spýtur. Upplagt er að taka strætisvagn inn í gamla bæinn en einnig er að sjálfsögðu hægt að slaka á og njóta aðstöðunnar á hótelinu.  

9. júní | Heimferð frá Split

Það er komið að heimferð eftir yndislega daga og stefnan er tekin á Split. Brottför er þaðan kl. 18:30 og lending í Keflavík kl. 21:35 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn

Hótel

2. - 5. júní = Split = Hotel Amphora
5. - 9. júní = Dubrovnik = Valamar

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Unnur Jensdóttir

Unnur Jensdóttir hefur undanfarin 30 ár starfað sem tónlistarkennari á veturna og leiðsögumaður á sumrin. Hún er fædd og uppalin á Íslandi en er færeysk í móðurætt, talar færeysku og lítur á Færeyjar sem sitt annað heimaland. Unnur er einnig frönskumælandi og hefur dvalið langdvölum bæði í Frakklandi og Sviss.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti