3. - 13. apríl 2025 (11 dagar)
Töfrandi blær Toskana héraðsins og yndislegt andrúmsloft rivíerunnar við Miðjarðarhafið, með blaktandi pálmatrjám og hrífandi ströndum, leika við okkur í þessari ferð. Á leið okkar um hina undurfögru Versilíaströnd látum við fara vel um okkur í Forte dei Marmi sem er með þekktustu ferðamannabæjum strandarinnar. Á leiðinni þangað verður siglt frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Farið verður í ævintýralegar ferðir þar sem við kynnumst menningu og listum landsins. Við siglum úti fyrir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í þorpunum Vernazza, Monterosso og Portovenere og upplifum einstaka fegurð Ítalíu. Við komum til Lucca, sem er ein af gömlu virkisborgunum og eigum góða stund hjá vínbónda í nágrenninu. Einnig heimsækjum við Flórens, eina glæsilegustu lista- og menningarborg landsins. Við stöldrum við í Pisa þar sem við skoðum skakka turninn, basilíkukirkjuna og skírnarkapelluna. Við dveljum einnig í miðaldavirkisborginni Assisi sem tekur á móti okkur í allri sinni dýrð og skoðum þar kirkjurnar San Francesco og Santa Chiara. Á rölti um Assisi njótum við friðsæls andrúmslofts og byggingarlistar frá miðöldum. Í þessari töfrandi og skemmtilegu ferð verður jafnframt hægt að slaka á og njóta þessa heillandi svæðis við Miðjarðarhafið.