Flórens & Gardavatn

Upplifðu Flórens, Gardavatn, Feneyjar og Veróna í þessari glæsilegu ferð en þetta eru sannkallaðar perlur Norður-Ítalíu. Ferðin byrjar í hinni fögru borg Flórens, eða La Bella eins og hún er oft nefnd, sem er ein glæsilegasta lista- og menningarborg Ítalíu. Þar upplifum við skemmtilega daga á meðan við fræðumst um sögu, listir og mannlíf borgarinnar. Flórens er einstök og hreint ótrúlegt að slíkur fjöldi listaverka sé varðveittur á einum og sama staðnum. Verk listamanna á borð við Leonardo da Vinci og Michelangelo, auk margra annarra, gæða borgina slíkum töfrum að enginn fer héðan ósnortinn. Gardavatn hefur verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga til margra ára, enda er það meðal allra fegurstu staða á Ítalíu. Sjálfur Goethe líkti staðnum við himnaríki og skal engan undra. Ekið verður til bæjarins Riva del Garda sem tekur á móti okkur við hið sægræna Gardavatn. Bærinn stendur á fallegum stað við vatnið í skjóli fjalla og er einn vinsælasti ferðamannastaður svæðisins. Við munum fara í áhugaverðar skoðunarferðir, m.a. til Feneyja sem löngum hefur verið kölluð drottning Adríahafsins, í yndislega siglingu á Gardavatni til bæjanna Limone og Malcesine, heimsækjum Veróna, eina elstu og fallegustu borg Norður-Ítalíu, og skoðum hina dulúðlegu pílagrímskirkju Madonna della Corona. Í þessari ljúfu ferð ætlum við að njóta samverunnar í undurfögru umhverfi á Ítalíu.

Verð á mann 495.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 122.200 kr.


Innifalið

  • 12 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Tíu kvöldverðir á hótelum.
  • Aðgangur að hringleikahúsinu í Veróna.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. 
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar og vínsmökkun.
  • Einn kvöldverður í Flórens.
  • Hádegisverðir. 
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling í Feneyjum u.þ.b. € 20. 
  • Sigling á Gardavatni u.þ.b. € 23.
  • Kláfur frá Malcesine upp á Monte Baldo u.þ.b. € 2.
  • Galleria deglia Uffezi listasafnið u.þ.b. € 33,00

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

27. apríl | Flug til Rómar & Flórens

Brottför frá Keflavík kl. 7:50 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Róm kl. 14:25 að staðartíma. Þaðan liggur leið okkar norður á bóginn til borgarinnar Flórens í hinu víðfræga Toskana héraði. Þar gistum við í þrjár nætur á góðu 4* hóteli. Kvöldverður á eigin vegum.

28. apríl | Flórens

Flórens, fæðingarstaður endurreisnarinnar, er með glæsilegustu lista- og menningarborgum Ítalíu og er ein sú fjölsóttasta í veröldinni. Lega hennar er með eindæmum fögur en borgin stendur beggja vegna Arno fljótsins. Við hefjum daginn á fróðlegri skoðunarferð þar sem við fræðumst um sögu og mannlíf borgarinnar. Fáar borgir komast í hálfkvisti við Flórens en ótrúlegt er að slíkur fjöldi fágætra listaverka finnist á jafn litlu svæði. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna umhverfið betur á eigin vegum og fá sér hressingu. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

29. apríl | Frjáls dagur í Flórens

Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli? Allir mörkuðu þeir sín spor í menningar- og listasögu Flórens. Í dag er upplagt að skoða sig betur um í þessari heillandi borg. Hægt er að verja drjúgum tíma á Galleria deglia Uffezi listasafninu, sem er eitt það glæsilegasta á Ítalíu. Það var áður stjórnsýsluhús en er nú málverkasafn með 4.500 myndum sem sýna þróun menningar í Flórens og málaralistar í Feneyjum. Ekki má gleyma Signorira torginu þar sem sjá má eftirgerð styttunnar af Davíð eftir Michelangelo og glæsilegustu höll borgarinnar, Palazzo Pitti, og yndislegan garð hennar. Einnig er hægt að kíkja við á San Lorenzo markaðinum og rölta um miðborgina eða á Ponte Vecchio brúnna, þar sem hægt er að dást að útsýninu yfir Arno ánna og skoða skartgripaverslanir. Ennfremur er tilvalið að setjast inn á kaffihús eða veitingastað, skoða mannlífið og njóta líðandi stundar. Kaupmenn borgarinnar eru á sínum stað og bjóða ýmsan varning til sölu. Fyrir þá sem vilja fara í lengri göngu í hæðóttu landslagi er hægt að fara handan við ánna og skoða hina fallegu og víðáttumikla Boboli garða. Kvöldverður á hóteli.

Opna allt

30. apríl | Riva del Garda við Gardavatnið

Eftir góðan morgunverð kveðjum við borgina Flórens eftir yndislega dvöl og höldum á aðaláfangastað ferðarinnar, bæinn Riva del Garda, sem tekur á móti okkur við hið sægræna Gardavatn. Bærinn stendur á fallegum stað í skjóli fjalla við vatnið og er einn vinsælasti ferðamannastaður svæðisins. Þarna munum við gista í átta nætur á góðu hóteli í miðbænum. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

1. maí | Frjáls dagur í Riva del Garda & stutt skoðunarferð

Dagurinn verður rólegur en að loknum morgunverði förum við fótgangandi í stutta skoðunarferð um bæinn Riva del Garda. Að henni lokinni er frjáls tími til að skoða sig um í þessum snotra bæ, ganga um litlar og þröngar götur hans, staldra við í verslunum, rölta undir pálmatrjám með fram ströndinni eða upp að Bastillione virkinu en þar er einstakt útsýni yfir vatnið. Einnig er kjörið að njóta aðstöðunnar á hótelinu, annaðhvort í garðinum við sundlaugina eða í heilsulindinni. Kvöldverður á hóteli.

2. maí | Dagsferð til Veróna

Nú verður ekið til Veróna, elstu borgar Norður-Ítalíu, og er þetta einn hápunktur ferðarinnar. Veróna er borg menningar og lista en frægust er hún sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Farið verður í skoðunarferð um borgina og staldrað við helstu staði þessarar merku borgar. Þar má nefna þriðja stærsta hringleikahús veraldar, Arena, og Kryddtorgið en þar stendur fjöldi fagurra bygginga og minnisvarða. Allur miðbær borgarinnar eins og hann leggur sig er skráður á heimsminjaskrá UNESCO og ekki að ástæðulausu. Eftir skoðunarferðina um borgina verður gefin frjáls tími til að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

3. maí | Bærinn Garda & pílagrímskirkjan Madonna della Corona

Yndislegur dagur sem byrjar á að ekið verður suður með vatninun í gegnum fjölmarga litla bæi til Garda sem er litríkur og skemmtilegur bær. Þar gefst tími til að fá sér hressingu og skoða sig um í fallegu umhverfi en einnig eru skemmtilegar litlar verslanir sem gaman er að kíkja í. Eftir það verður ekið upp í hæðir Monte Baldo fjallsins til Spiazzi. Þaðan förum við í stutta og rólega göngu að Pílagrímskirkjunni, Madonna della Corona, sem er byggð í 774 m hæð, ekki er hægt að segja annað en að mikil dulúð hvíli yfir þessum helga stað. Eitt af sérkennum kirkjunnar er staðsetning hennar og arkitektúr og ekki síst að hún var að hluta til byggð beint inn í klettinn. Stórkostlegt og magnað útsýni er yfir Adige ána og dalinn. Kvöldverður á hóteli.

4. maí | Rólegheit og slökun í Riva del Garda

Dagur í rólegheitum í Riva del Garda, upplagt er að nota aðstöðuna við hótelið. Einnig er hægt að skoða sig betur um í þessum töfrandi bæ, fá sér göngutúr með ströndinni eða bara njóta þess að vera á þessum yndislega stað þar sem náttúrufegurðin umleikur okkur. Kvöldverður á hóteli.

5. maí | Dagsferð til Feneyja

Fyrir höndum er yndislegur og stórskemmtilegur dagur. Við leggjum snemma af stað og ökum til Feneyja. Við byrjum á ljúfri siglingu inn í borgina frá bílastæðinu. Auður og íburður blasir hvarvetna við í borginni og á vegi okkar verða stórfenglegar sögulegar byggingar eins og hertogahöllin sem er ein glæsilegasta bygging borgarinnar. Við skoðum líka Markúsartorgið þar sem Markúsarkirkjan stendur. Hún er ein merkilegasta kirkjubygging veraldar, reist í austrænum stíl og minnir á höllina úr ævintýrinu 1001 nótt. Við komum að hinni frægu Rialto brú sem liggur yfir Canal Grande skurðinn en hann mun vera 3,8 km langur og 900 m breiður og við hann standa hvorki fleiri né færri en 200 hallir. Síðdegis mun hverjum og einum gefast tími til þess að skoða þessa fallegu borg betur, njóta mannlífsins og jafnvel líta inn á söfn. Við endum daginn með trompi með því að sigla til baka með leigubátum um Canal Grande skurðinn og upplifum allar glæsilegustu hallir borgarinnar. Komið verður aftur á hótel undir kvöld. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

6. maí | Sigling á Gardavatni, Limone & Malcesine

Farið verður í ljúfa siglingu á Gardavatni. Haldið verður til Limone, eins fallegasta bæjarins við vatnið og staldrað við dágóða stund. Þaðan verður siglt yfir sægrænt Gardavatnið yfir til Malcesine sem er sögufrægur ferðamannabær við austurströnd vatnsins. Í Malcesine gefum við okkur góðan tíma, fáum okkur hressingu og skoðum okkur um í bænum. Áhugasamir geta farið með kláfi upp á Monte Baldo, hæsta fjallið við Gardavatn, en aðrir geta litið inn í mjög áhugaverðan gamlan kastala sem er að finna í bænum. Siglt til baka til Riva del Garda. Kvöldverður á hóteli.

7. maí | Frjáls dagur í Riva del Garda

Dagur í slökun og rólegheitum. Upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða skoða sig betur um í þessum heillandi bæ. Einnig er hægt að fara í skemmtilega göngu með ströndinni til næsta bæjar, Torbole, sem er enn einn hrífandi bærinn við vatnið. Þeir hressustu geta gengið upp í Santa Barbara kapelluna sem er í 625 m hæð yfir bænum. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

8. maí | Heimferð frá Mílanó

Eftir þessa ljúfu og viðburðarríku daga verður ekið út á Malpensa flugvöll í Mílanó. Brottför þaðan kl. 15:10 og lending í Keflavík kl. 17:25 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 3 nætur - Flórens - Grand Hotel Adriatico
  • 8 nætur - Riva del Garda - Hotel Villa Nicolli

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet er mikil útivistarmanneskja, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað sem markaðsstjóri ýmissa fyrirtækja stærstan hluta síns vinnuferils. Hún bjó í Þýskalandi um árabil ásamt fjölskyldu sinni og ferðaðist víða um Evrópu meðan á dvölinni stóð. Hún, ásamt manni sínum Aðalsteini Jónssyni sem einnig er fararstjóri, hefur tekið þátt í fjölda ferða á vegum Bændaferða við góðan orðstír. Elísabet hefur m.a. látið til sín taka í góðgerðarmálum og stofnaði ásamt vinkonum sínum Á allra vörum, sem margir þekkja.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti