27. apríl - 8. maí 2025 (12 dagar)
Upplifðu Flórens, Gardavatn, Feneyjar og Veróna í þessari glæsilegu ferð en þetta eru sannkallaðar perlur Norður-Ítalíu. Ferðin byrjar í hinni fögru borg Flórens, eða La Bella eins og hún er oft nefnd, sem er ein glæsilegasta lista- og menningarborg Ítalíu. Þar upplifum við skemmtilega daga á meðan við fræðumst um sögu, listir og mannlíf borgarinnar. Flórens er einstök og hreint ótrúlegt að slíkur fjöldi listaverka sé varðveittur á einum og sama staðnum. Verk listamanna á borð við Leonardo da Vinci og Michelangelo, auk margra annarra, gæða borgina slíkum töfrum að enginn fer héðan ósnortinn. Gardavatn hefur verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga til margra ára, enda er það meðal allra fegurstu staða á Ítalíu. Sjálfur Goethe líkti staðnum við himnaríki og skal engan undra. Ekið verður til bæjarins Riva del Garda sem tekur á móti okkur við hið sægræna Gardavatn. Bærinn stendur á fallegum stað við vatnið í skjóli fjalla og er einn vinsælasti ferðamannastaður svæðisins. Við munum fara í áhugaverðar skoðunarferðir, m.a. til Feneyja sem löngum hefur verið kölluð drottning Adríahafsins, í yndislega siglingu á Gardavatni til bæjanna Limone og Malcesine, heimsækjum Veróna, eina elstu og fallegustu borg Norður-Ítalíu, og skoðum hina dulúðlegu pílagrímskirkju Madonna della Corona. Í þessari ljúfu ferð ætlum við að njóta samverunnar í undurfögru umhverfi á Ítalíu.