Litríkar eyjur & strendur Króatíu

Í þessari glæsilegu ferð um Króatíu upplifum við einstaka fegurð landsins. Hér fara saman undurfagrar sandstrendur, kristaltær sjór og einstök náttúrufegurð. Ævintýrið byrjar í strandbænum Vodice, einhverjum vinsælasta baðstrandarbæ Dalmatíustrandarinnar og þar leikur við okkur suðrænn blær. Fegurðin er engu lík í gömlu borgunum, Trogir, sem er staðsett á eyju tengdri meginlandinu, og Split með Diokletian höllinni frægu. Báðar þessar borgir eru sem lifandi útisafn og komnar á heimsminjaskrá UNESCO. Farið verður í stórglæsilega siglingu að Krka þjóðgarðinum og frægu Krka fossunum sjö. Hvarvetna blasir við ólýsanleg fegurð þar sem fossar, stallar og árhylir mynda saman stórkostlegt náttúrusjónarspil. Glæsileg er líka Šibenik, elsta borgin við Adríahafið. Makarska í Króatíu bíður eftir okkur en hún er einn af hápunktum Dalmatíustrandarinnar og býr yfir einu fallegasta strandsvæði Adríahafsins. Einnig verður siglt yfir til Hvar sem er fjórða stærsta eyja Króatíu og oft talin með fallegustu eyjum heims. Það er engin furða miðað við þá hápunkta sem eyjan býður upp á, kristaltæran sjó, fagurgrænt landslag og dásamlegar strendur. Það er ævintýri líkast að sigla yfir á eyjuna Brač þar sem náttúrufegurðin lætur engan ósnortinn. Bærinn Bol á eyjunni Brač er frægur fyrir sínar fallegu vínekrur og ströndina Zlatni Rat eða Gullna hornið. Í þessari glæsilegu ferð upplifum við skemmtilegt samspil töfrandi skoðunarferða, slökunar og rólegheita en hún endar á siglingu frá Split yfir til Ancona á Ítalíu. Við toppum þessa ferð í Veróna, einni fallegustu og elstu borg Norður-Ítalíu. 

Verð á mann 489.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 129.400 kr.


Innifalið

  • 15 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Næturferja Split - Ancona – Split.
  • Kvöld- og morgunverður á skipinu. 
  • Sigling með hádegisverði og drykkjum að Krka fossum ásamt aðgangi í þjóðgarðinn. 
  • Sigling yfir í eyjurnar Hvar og Brač.
  • Léttur hádegisverður hjá vínbónda. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir. 
  • Þjórfé.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

8. maí | Flug til Mílanó & Piacenza

Brottför frá Keflavík kl. 08:00 Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:10 að staðartíma og ekið sem leið liggur á hótel í nágrenni Piacenza þar sem gist er fyrstu nóttina.

9. maí | Ancona & sigling til Split

Dagurinn byrjar í rólegheitum á góðum morgunverði en síðan verður stefnan tekin á Ancona við Adríahaf, höfuðborg héraðsins Marche. Sögu borgarinnar má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá Sýrakúsa og settust hér að. Þeir gáfu borginni nafnið Ancona sem þýðir olnbogi. Ekin verður fögur leið suður til bæjarins Pesaro sem er best þekktur sem fæðingarstaður hins fræga tónskálds Gioachino Rossini. Að auki er hafnarborgin vinsæll ferðamannastaður þökk sé náttúrulegum sandströndum, tilkomumiklu sjávarútsýni og fjölmörgum sögulegum byggingum. Hér verður gefinn tími til að kanna líf bæjarbúa og fá sér hressingu áður en ekið verður til Ancona. Um kvöldið verður siglt frá Ancona til Split í Króatíu og bíður kvöldverður okkar um borð. Gist verður í ferjunni í tveggja manna klefum með sturtu og salerni. Siglingin tekur um 10 klst.

10. maí | Morgunverður í Split, Trogir & Vodice

Eftir komuna til Split verður stefnan tekin á glæstu borgina Trogir sem er úti á smáeyju en tengd meginlandinu. Borgin er ein af gömlu rómversku borgunum og þekkt fyrir skemmtilega blöndu af endurreisnar, barokk og rómverskum byggingum. Þessi litla borg er eitt lifandi útisafn og verður gaman að rölta um miðaldagötur bæjarins með heimamanni og þá skilst hvers vegna elsti hluti Trogir er varðveittur á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Vodice sem er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Dalmatíustrandarinnar. Þar verður gist í fimm nætur á góðu hóteli við eina af baðströndum Vodice sem er umvafin pálma- og ólífutrjám. Við hótelið er útisundlaug og fallegur garður og þaðan er u.þ.b. 10 mín. gangur í miðbæinn.

Opna allt

11. maí | Skoðunarferð í Vodice & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð og rólegheit förum við í ljúfa göngu og skoðunarferð inn í miðbæ Vodice þar sem við fræðumst um sögu, hefðir og menningu staðarins. Margt áhugavert er að sjá og skoða í þessum aldagamla bæ sem hefur verið valinn vinsælastur af ferðamönnum í Dalmatíu. Eftir skemmtilegan tíma verður hægt að njóta sín á eigin vegum, fá sér hressingu og líta í búðir en bærinn iðar af mannlífi á þessum tíma og alltaf mikið um að vera. Einnig er upplagt að nota sér aðstöðu hótelsins eða fara í göngutúr með fram ströndinni.

12. maí | Ljúfur dagur í Šibenik

Šibenik er elsta borgin við Adríahafið og er staðsett við mynni árinnar Krka. Þangað er förinni heitið í dag. Við ökum sem leið liggur frá hótelinu að borginni sem er þekkt fyrir sögulegar minjar sínar. Þetta er einstaklega glæsileg borg sem má ekki fara framhjá neinum og hér verður farið í áhugaverða skoðunarferð. Við kynnumst sögu og menningu, rekumst á gömul virki, borgarmúra, borgarhlið, fallega turna og dómkirkjuna, St. Jakov. Gengið verður um töfrandi miðaldabæinn en síðan verður gefinn tími til að fá sér hádegishressingu og njóta borgarinnar áður en ekið verður til baka. Frjáls tími í Vodice fram að kvöldverði.

13. maí | Glæsileg sigling að Krk fossum & Krk þjóðgarði

Í dag er glæsileg sigling í boði með fram Dalmatíuströndinni að sjálfum Krk þjóðgarðinum. Nafn hans er dregið af 73 km langri á en í henni eru hinir frægu Krk fossar, sjö að tölu. Þegar þangað er komið blasir við ólýsanlegt sjónarspil fossa, kletta og árhylja. Siglt verður í gegnum Sveti Ante skurðinn í átt að borginni Šibenik. Þar ber hæst virkið Sveti Nikola frá 16. öld en borgin öll er fögur á að líta. Þaðan siglum við upp Krk ána út á Prokaljsko vatnið þar sem náttúrufegurðin umleikur okkur. Við förum gangandi inn í þjóðgarðinn, skoðum þar gamla myllu og upplifum stórkostlegt útsýni yfir fossanna sjö, en hæstur þeirra er Skradinski buk. Við sjáum virkjunina Jaruga og rekumst á minjagripaverslanir og veitingastaði. Hádegisverður er snæddur í bátnum og eftir góðan tíma í landi verður siglt til baka.

14. maí | Dekurdagur í Vodice

Nú er dagur í rólegheitum og gott að dekra við sjálfan sig í Vodice, gaman er að fara í göngu með ströndinni eða líta á inn á kaupmenn bæjarins. Einnig er upplagt að nota aðstöðu hótelsins eða taka sundsprett í Adríahafi.

15. maí | Split & Makarska

Nú kveðjum við Vodice eftir yndislega daga. Byrjað verður á að aka til Split, sem er hrífandi borg. Virðulegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja prýða Split og hefur elsti hluti hennar verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Borgin er eins og lifandi safn. Við skoðum okkur um og heimsækjum Diokletian höllina, sem telst til eins merkilegasta minnisvarða byggingarlistar frá tímum Rómverja en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Eftir það verður gefinn tími til að fá sér hressingu og njóta þess að vera á þessum fagra stað. Nú verður ekið til Makarska í Króatíu sem er einn af hápunktum Dalmatíu. Öll ströndin eins og hún leggur sig er eitt fallegasta ferðamannasvæðið við Adríahafið. Það einkennist af áhrifamiklu útsýni yfir Biokovo fjöllin og töfrandi strandlandslagi en heillandi strendurnar og hinar mörgu földu víkur gera Makarska rivíeruna fullkomna fyrir sumarfrí. Hér verður gist í fjórar nætur á góðu hóteli við ströndina, þar eru útisundlaugar, líkamsækt og heilsulind.

16. maí | Sigling yfir á Hvar eyjuna

Glæsileg og óvenjuleg náttúrufegurð lætur ekki á sér standa á töfrandi Adríahafseyjunni Hvar en hún liggur í suðurhluta Króatíu, rétt við strönd Dalmatíu og er einn sólríkasti staður í Króatíu. Við siglum frá Drvenik á meginlandinu yfir til Sucuraj á austurhluta Hvar. Hvar er fjórða stærsta eyja Króatíu og er oft talin með fallegustu eyjum heims. Það er engin furða því eyjan býður upp á kristaltæran sjó, fagurgrænt landslag og dásamlegar strendur. Hún er einnig þekkt fyrir himneskan ilm frá lofnarblóms- (lavender) og rósmarínökrum. Utan við Hvar er eyjaklasi sem samanstendur af um 19 litlum eyjum og grjótrifjum. Hann heitir Paklinski otoci sem útleggst sem Helvítiseyjarnar en þrátt fyrir nafngiftina er þetta aðlaðandi staður og einn sá mest sótti frá Hvar. Við ætlum að upplifa sögu og líf eyjarskeggja á skemmtilegri ferð okkar um eyjuna. Við skoðum m.a. bæinn Hvar sem á sér langa sögu, meðal annars sem mikilvæg höfn á veldistíma Feneyinga. Þar var fyrsta opinbera leikhúsið stofnað í Evrópu. Stari Grad er einn elsti bær Evrópu, stofnaður af Grikkjum á 4 öld. Stari Grad er mjög líflegur bær og allt um kring eru gróðursælir vínakrar og ólífulundir. Hér gefst góður tími til að njóta þess að sýna sig og sjá aðra.

17. maí | Ljúfur dagur í Makarska

Nú er vel þegið að fá einn ljúfan dag í Makarska. Eftir morgunverð getum við farið í göngu saman inn í miðbæinn. Upplagt er að nota glæsilega aðstöðu hótelsins, ganga með fram ströndinni eða jafnvel fá sér sundsprett í Adríahafinu, enda eru strendur Króatíu rómaðar fyrir kristaltæran sjó. 

18. maí | Ævintýri á Brač eyjunni

Það er ævintýri líkast að sigla yfir á eyjuna Brač sem er staðsett úti fyrir miðju Dalmatíustrandarinnar í Króatíu. Siglt verður frá Makarska yfir til Sumartin á austurhluta eyjunnar. Náttúrufegurðin á leið okkar um eyjuna lætur engan ósnortinn en hæsta fjall hennar er Sveti Vid í 778 m hæð. Við upplifum sögu og menningu eyjunnar þennan dag en atvinnuvegirnir eru ferðaþjónusta, útgerð, vín og ólífuræktun. Bærinn Bol er frægur fyrir sínar fallegu vínekrur og frægu ströndina Zlatni Rat eða Gullna hornið. Vinsælustu ferðamannabæirnir eru Bol, Splitzska, Postira, Pucisca, Povlja, Skrip og Supetar. Eyjan Brač er sérstaklega fræg fyrir hvítan kalkstein en Rómverjar til forna kunnu þegar að meta gæði hans. Kalksteinninn var notaður til að byggja hringleikahús, musteri og hallir. Steinninn var til dæmis notaður við byggingu Diocletianus hallar í Split, í helgum byggingum í Sibenik og Trogir og einnig við byggingu Hvíta hússins í Washington. Hér verður verður gefinn góður tími til að njóta. Léttur hádegisverður hjá vínbónda.

19. maí | Frjáls dagur í Makarska

Nú er upplagt að njóta dagsins við eitt fallegasta strandsvæði Adríahafsins og
dekra við sjálfan sig og njóta náttúrufegurðar staðarins. Skemmtilegt er að fara gangandi eða með strætisvagni inn í Makarska. Einnig er hægt að taka því rólega og nota þessa glæsilegu aðstöðu hótelsins.

20. maí | Split & ferja til Ancona á Ítalíu

Nú er komið að því að kveðja Króatíu eftir yndislega og viðburðaríka daga. Við tökum því rólega fram að hádegi í Makarska. Þá verður stefnan tekin á borgina Split en þar gefst tími til að upplifa borgina, skoða sig betur um og njóta hennar á eigin vegum. Um kvöldið verður siglt frá Split til Ancona á Ítalíu og tekur siglingin um 10 klukkustundir. Gist verður í skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og salerni og mun kvöldverður bíða okkar um borð.

21. maí | Ancona & Veróna

Borgin Ancona tekur á móti okkur í fullum morgunskrúða þegar ferjan leggur að. Nú stefnum við á borgina Veróna sem er ein fallegsta og elsta borg Norður-Ítalíu. Veróna er borg menningar og lista en frægust er hún sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Þar verður gist í eina nótt á góðu hóteli í miðbænum.

22. maí | Heimferð frá Mílanó

Nú er komið að heimferð eftir glæsilega og viðburðaríka ferð og stefnan tekin á heimsborgina Mílanó. Brottför þaðan kl. 15:10 og lent í Keflavík kl. 17:25 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 1 nótt - Piacenza - Hotel Nord
  • 1 nótt - næturferja frá Ancona til Split
  • 5 nætur - Vodice - Hotel Miramare
  • 5 nætur - Makarska - Valamar Hotel Meteor
  • 1 nótt - næturferja frá Split til Ancona
  • 1 nótt - Veróna - Hotel Indigo Verona City

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti