Litríkar eyjur & strendur Króatíu
8. - 22. maí 2025 (15 dagar)
Í þessari glæsilegu ferð um Króatíu upplifum við einstaka fegurð landsins. Hér fara saman undurfagrar sandstrendur, kristaltær sjór og einstök náttúrufegurð. Ævintýrið byrjar í strandbænum Vodice, einhverjum vinsælasta baðstrandarbæ Dalmatíustrandarinnar og þar leikur við okkur suðrænn blær. Fegurðin er engu lík í gömlu borgunum, Trogir, sem er staðsett á eyju tengdri meginlandinu, og Split með Diokletian höllinni frægu. Báðar þessar borgir eru sem lifandi útisafn og komnar á heimsminjaskrá UNESCO. Farið verður í stórglæsilega siglingu að Krka þjóðgarðinum og frægu Krka fossunum sjö. Hvarvetna blasir við ólýsanleg fegurð þar sem fossar, stallar og árhylir mynda saman stórkostlegt náttúrusjónarspil. Glæsileg er líka Šibenik, elsta borgin við Adríahafið. Makarska í Króatíu bíður eftir okkur en hún er einn af hápunktum Dalmatíustrandarinnar og býr yfir einu fallegasta strandsvæði Adríahafsins. Einnig verður siglt yfir til Hvar sem er fjórða stærsta eyja Króatíu og oft talin með fallegustu eyjum heims. Það er engin furða miðað við þá hápunkta sem eyjan býður upp á, kristaltæran sjó, fagurgrænt landslag og dásamlegar strendur. Það er ævintýri líkast að sigla yfir á eyjuna Brač þar sem náttúrufegurðin lætur engan ósnortinn. Bærinn Bol á eyjunni Brač er frægur fyrir sínar fallegu vínekrur og ströndina Zlatni Rat eða Gullna hornið. Í þessari glæsilegu ferð upplifum við skemmtilegt samspil töfrandi skoðunarferða, slökunar og rólegheita en hún endar á siglingu frá Split yfir til Ancona á Ítalíu. Við toppum þessa ferð í Veróna, einni fallegustu og elstu borg Norður-Ítalíu.