Páskar í Loire dalnum & París
17.- 25. apríl 2025 (9 dagar)
Í þessari glæsilegu ferð verður farið um eitt undursamlegasta svæði Frakklands, Loire dalinn, en hann heitir eftir lengstu á landsins. Dalurinn er rómaður fyrir fegurð, frjósaman jarðveg og milt veðurfar og er gjarnan kallaður Garður Frakklands. Flogið er til Parísar en þaðan verður haldið til fallegu borgarinnar Blois við Loire ánna. Þó Loire dalurinn sé þekktastur fyrir stórkostlegar hallir, kastala og listigarða, sem voru leiksvið konunganna í margar aldir, hefur hann líka upp á ýmislegt annað að bjóða eins og vínekrur, afurðir ýmiskonar nytjaræktar og ljúffenga matargerðarlist. Frá Blois verður farið í skoðunarferðir, m.a. skoðum við okkur um í Chambord hölinni sem Franz I lét reisa á 16. öld en hún er ein af stærstu og þekktustu höllum Frakklands. Við komum til fræga litla bæjarins Amboise en þar dvaldi Leonardo da Vinci sín síðustu ár í Amboise höllinni. Borgin Tours, höfuðborg héraðsins Indre-et-Loire, verður einnig heimsótt. Farið verður í Villandry hallargarðinn sem er sérlega fallegur. Við kynnumst Þyrnirósar kastalanum Ussé og förum við í skemmtilega vínsmökkun. Seinni hluta ferðar höldum við aftur til lista- og menningarborgarinnar París. Á leiðinni þangað verður glæsilega höllin og hallargarðurinn í Versölum skoðaður. Hin dásamlega París við ánna Signu er heillandi og við njótum þess að fara um borgina og skoða helstu kennileiti. Við stöldrum m.a. við hjá Eiffelturninum, Louvre safninu, Champs-Elysées, Notre Dame, og Sacre Cæur. Einnig verður farið í gönguferð um hið sögufræga Montmartre listamannahverfi sem iðar af lífi með sínum litlu götum, sjarmerandi kaffihúsum og listamönnum sem setja svip sinn á umhverfið.