Páskar í Loire dalnum & París

Í þessari glæsilegu ferð verður farið um eitt undursamlegasta svæði Frakklands, Loire dalinn, en hann heitir eftir lengstu á landsins. Dalurinn er rómaður fyrir fegurð, frjósaman jarðveg og milt veðurfar og er gjarnan kallaður Garður Frakklands. Flogið er til Parísar en þaðan verður haldið til fallegu borgarinnar Blois við Loire ánna. Þó Loire dalurinn sé þekktastur fyrir stórkostlegar hallir, kastala og listigarða, sem voru leiksvið konunganna í margar aldir, hefur hann líka upp á ýmislegt annað að bjóða eins og vínekrur, afurðir ýmiskonar nytjaræktar og ljúffenga matargerðarlist. Frá Blois verður farið í skoðunarferðir, m.a. skoðum við okkur um í Chambord hölinni sem Franz I lét reisa á 16. öld en hún er ein af stærstu og þekktustu höllum Frakklands. Við komum til fræga litla bæjarins Amboise en þar dvaldi Leonardo da Vinci sín síðustu ár í Amboise höllinni. Borgin Tours, höfuðborg héraðsins Indre-et-Loire, verður einnig heimsótt. Farið verður í Villandry hallargarðinn sem er sérlega fallegur. Við kynnumst Þyrnirósar kastalanum Ussé og förum við í skemmtilega vínsmökkun. Seinni hluta ferðar höldum við aftur til lista- og menningarborgarinnar París. Á leiðinni þangað verður glæsilega höllin og hallargarðurinn í Versölum skoðaður. Hin dásamlega París við ánna Signu er heillandi og við njótum þess að fara um borgina og skoða helstu kennileiti. Við stöldrum m.a. við hjá Eiffelturninum, Louvre safninu, Champs-Elysées, Notre Dame, og Sacre Cæur. Einnig verður farið í gönguferð um hið sögufræga Montmartre listamannahverfi sem iðar af lífi með sínum litlu götum, sjarmerandi kaffihúsum og listamönnum sem setja svip sinn á umhverfið.

Verð á mann 396.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 122.700 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Aðgangur að Chambord höllinni.
  • Aðgangur að Versala höllinni. 
  • Vínsmökkun í Tours. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Garðurinn við Villandry höllina u.þ.b. € 15.
  • Aðgangur í Ussé höllina u.þ.b. € 15. 

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

17. apríl | Flug til Parísar

Brottför frá Keflavík kl. 7:35. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í París kl. 13:00 að staðartíma. Haldið verður til fallegu borgarinnar Blois við ánna Loire í Loire dalnum þar sem gist verður í fjórar nætur.

18. apríl | Chambord & Amboise

Við skoðum höfðingjasetur Loire dalsins í dag og byrjum á því að fara í hina stórkostlegu Chambord höll sem er sú næst stærsta í Frakklandi á eftir Versölum. Hún er frábært dæmi um byggingarlist frönsku endurreisnarinnar og hefur sinn undraverða sjarma með ævintýralegum fjölda af turnum, strompum og kvistum. Farið verður í skemmtilega skoðunarferð um höllina og fallega garðinn. Að lokum höldum við til Amboise, sem var í miklu uppáhaldi hjá frönsku hirðinni, meðal annars Karli VIII og Frans I sem bauð Leonardo da Vinci til starfa og seinustu þrjú æviárin starfaði þessi mæti maður við hirðina í Amboise að ýmsum verkefnum. Leonardo kom meðal annars með málverkið af Monu Lisu með sér og það tilheyrði listasafni konunga Frakklands eftir hans dauðadag þar til því var fundinn staður í Louvre safninu. Talið er Leonardo hvíli sín bein í hallargarði Amboise. Gefum okkur góðan tíma til að fá okkur hressingu og njóta fegurðar staðarins.

19. apríl | Tours, Villandry garðurinn & vínsmökkun

Í dag verður ekið til Tours, höfuðborgar Touraine héraðsins við ána Loire. Tours er borg heilags Martins sem var uppi á fjórðu öld en hann var tekinn í dýrlingatölu og varð borgin vinsæll pílagrímsstaður eftir andlát hans. Borgin var einnig þekkt fyrir silkivefnað á 15. og 16. öld en þá voru þar um 800 vefstólar og 20 þúsund vefarar. Farið verður í skoðunarferð um borgina og upplagt að fá sér hádegishressingu þar. Seinni partinn lítum við á garðinn við Villandry höllina, sem er einstakur, og skoðum Ussé, rómantíska og ævintýralega kastalann við Loire, sem sagt er að hafi gefið rithöfundinum Charles Perrault hugmyndina að ævintýrinu um Þyrnirós. Við endum á því að fara í vínsmökkun áður en haldið er aftur til Blois.

Opna allt

20. apríl | Dagur í Blois

Í dag verður farið í skemmtilega skoðunarferð um litríku og skemmtilegu borgina Blois. Við förum í gönguferð um elsta hluta bæjarins, skoðum einnig stórglæsilega kastalann að utan sem var uppáhaldsbústaður Lúðvíks XII og frænda hanns Franz I sem tók við af honum en kastalagarðurinn þykir einnig mjög fallegur. Á 15. og 16. öld var borgin hallarborg en þaðan stjórnuðu konungarnir landinu en borgin er einnig einn mikilvægasti verslunarstaður héraðsins. Eftir hádegi verður frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum og líta inn til kaupmanna borgarinnar.

21. apríl | Versalir & París

Nú kveðjum við Loire dalinn og ökum til Parísar þar sem gist verður í fjórar nætur. Á leið okkar þangað verður farið að Versölum sem er glæsilegasta og stærsta höll landsins. Við munum skyggnast inn í heim Sólkonungsins Loðvík 14. og arftaka hans með því að skoða stóru konungs- og drottningaríbúðina, speglasalinn og hinn undursamlega hallargarð sem þykir einn af þeim fegurstu í heimi. 

22. apríl | Skoðunarferð um París

Í dag skoðum við okkur um í höfuðborg Frakklands en hún er sannkölluð háborg lista og menningar. Við sjáum m.a. Eiffelturninn, Louvre safnið, Sigurbogann, Champs-Elysées, Notre Dame kirkjuna og Concorde-torgið svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður gefinn tími til að njóta lífsins og fá sér hressingu eftir skoðunarferðina.

23. apríl | Montmartre & Sacré-Coeur kirkjan

Í dag ætlum við að fara í Montmartre, gamla listamannahverfið sem er staðsett í 101 metra hæð yfir Signu. Þaðan er mjög fallegt útsýni yfir borgina og uppi á hæðinni er að finna hina hvítu sandsteinsbasiliku, Sacré Coeur. Á 19. öld var Montmartre kyrlátt þorp í útjaðri Parísar, þar til listamenn alls staðar að úr heiminum fóru að flykkjast þangað og setjast þar að. Picasso dvaldi þar fyrstu ár sín í París og málaði þar eitt frægasta verk sitt, „Ungfrúrnar frá Avignon”. Renoir gerði hverfið ódauðlegt í verkinu „Dansleikur á Moulin de la Galette”, og Toulouse Lautrec varð einskonar goðsögn Montmartre í lifanda lífi, enda hefur hann tjáð sál og andrúmsloft svæðisins betur en nokkur annar. Meðal annarra þekktra listamanna sem bjuggu um lengri eða skemmri tíma í Montmartre má nefna hinn hollenska Vincent Van Gogh, Degas, Matisse og Renoir. Við upplifum andrúmsloft hverfisins og förum á Place du Tertre torgið, þar sem portrett listamenn eru enn að störfum. Í þessu sama hverfi er að finna Rauðu mylluna, einn þekktasta kabarett stað heims. Eftir gönguferðina gefst frjáls tími til að spóka sig um í borginni, fá sér hressingu og jafnvel fá götumálara til að rissa af sér mynd. 

24. apríl | Frjáls dagur í París

Í dag fær hver og einn tækifæri til að kanna borgina á eigin vegum. Það er yndislegt að ganga um París, meðfram Signubökkum, í fallegum görðum borgarinnar eða um fjölbreytileg hverfi sem öll hafa sinn sjarma. Upplagt er að kanna listasöfnin nánar, kíkja í verslanir, bakarí, osta- eða súkkulaðibúðir sem bjóða upp á girnilegt góðgæti eða setjast á götukaffihús og virða fyrir sér mannlífið. 

25. apríl | Heimferð

Að loknum morgunverði höldum við út á flugvöll og er brottför frá Parísarflugvelli kl. 14:00. Lending í Keflavík kl. 15:35 að staðartíma.


Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 4 nætur – Blois - Mercure Blois Centre
  • 4 nætur – Paris- Courtyard by Marriott Paris Gare de Lyon

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Björk Håkansson

Björk Håkansson er fædd á Íslandi um hásumar árið 1967 og hefur alla sína ævi verið á faraldsfæti, fyrst með foreldrum sínum og síðar á eigin vegum, svo ekki sér fyrir endann á.

Fyrir rúmum þrjátíu árum fór Björk fyrst til Mið-Austurlanda og settist á skólabekk í Amman í Jórdaníu. Þar með voru línurnar lagðar hvað varðar reglulega búsetu, samskipti og samstarf við arabaheiminn.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti