14. - 21. apríl 2025 (8 dagar)
Í þessari stórglæsilegu ferð til Portúgal höldum við til litríku borgarinnar Lissabon og förum þaðan í dagsferðir til tilkomumikilla áfangastaða í þessu dásamlega landi. Lissabon er oft kölluð hvíta borgin á sjö hæðum og er sannkölluð paradís ferðalangsins. Við gefum okkur góðan tíma til þess að kanna borgina og það sem hún hefur upp á bjóða, skoðum kennileiti, njótum góðs útsýnis og þræðum litríkar götur Alfama hverfisins. Við kynnum okkur einnig Fadó tónlist Portúgala. Það gefst gott tækifæri til að kanna borgina á eigin vegum, fara með sporvagni, næla sér í sætabrauð heimamanna, pastel de nata, eða sopa af góðu púrtvíni, skoða í verslanir og kaffihús eða njóta líðandi stundar og horfa á mannlífið. Við heimsækjum ævintýrabæinn Sintra og að sjálfsögðu vestasta punkt meginlands Evrópu, Cabo da Roca. Við skoðum hafnarborgina Setúbal, þaðan sem margir sjókönnunarleiðangrar Portúgala fyrr á öldum hófust. Við kynnum okkur líka litskrúðugt mannlíf og merka staði í pílagrímsbænum Fatíma, sjávarþorpinu Nazaré, þar sem stærstu öldur heims falla að landi, og fallega þorpinu Óbídos sem er einna best varðveitta miðaldaþorp Evrópu. Í þessari ferð kynnumst við heimsborginni Lissabon og fjölmörgum áhugaverðum stöðum um miðbik Portúgal þar sem fara saman rík hefð og tenging við sjó og sjávarnytjar, gullöld landkönnunar, menning og mannvirki miðalda og mikil náttúrufegurð.