Páskar í Lissabon

Í þessari stórglæsilegu ferð til Portúgal höldum við til litríku borgarinnar Lissabon og förum þaðan í dagsferðir til tilkomumikilla áfangastaða í þessu dásamlega landi. Lissabon er oft kölluð hvíta borgin á sjö hæðum og er sannkölluð paradís ferðalangsins. Við gefum okkur góðan tíma til þess að kanna borgina og það sem hún hefur upp á bjóða, skoðum kennileiti, njótum góðs útsýnis og þræðum litríkar götur Alfama hverfisins. Við kynnum okkur einnig Fadó tónlist Portúgala. Það gefst gott tækifæri til að kanna borgina á eigin vegum, fara með sporvagni, næla sér í sætabrauð heimamanna, pastel de nata, eða sopa af góðu púrtvíni, skoða í verslanir og kaffihús eða njóta líðandi stundar og horfa á mannlífið. Við heimsækjum ævintýrabæinn Sintra og að sjálfsögðu vestasta punkt meginlands Evrópu, Cabo da Roca. Við skoðum hafnarborgina Setúbal, þaðan sem margir sjókönnunarleiðangrar Portúgala fyrr á öldum hófust. Við kynnum okkur líka litskrúðugt mannlíf og merka staði í pílagrímsbænum Fatíma, sjávarþorpinu Nazaré, þar sem stærstu öldur heims falla að landi, og fallega þorpinu Óbídos sem er einna best varðveitta miðaldaþorp Evrópu. Í þessari ferð kynnumst við heimsborginni Lissabon og fjölmörgum áhugaverðum stöðum um miðbik Portúgal þar sem fara saman rík hefð og tenging við sjó og sjávarnytjar, gullöld landkönnunar, menning og mannvirki miðalda og mikil náttúrufegurð. 

Verð á mann 385.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 105.700 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 4* hóteli.
  • Morgun- og kvöldverður á hóteli.
  • Portúgölsk Fadó tónlistarsýning.
  • Aðgangur inn í kastala, kirkjur og söfn skv. ferðalýsingu.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur aðrar en þær sem eru innfaldar. 
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

14. apríl | Flug til Lissabon

Brottför frá Keflavík kl. 15:10 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Lissabon kl. 20:40 að staðartíma. Gist í sjö nætur á góðu hóteli í Lissabon.

15. apríl| Lissabon

Dagurinn í dag er tileinkaður höfuðborg Portúgals, Lissabon. Hún er stærsta borg landsins og er réttilega lýst sem einni af fallegustu stórborgum Evrópu. Við förum í skoðunarferð með rútu og sjáum helstu kennileiti og merka minnisvarða borgarinnar. Þar má meðal annars nefna 15. aldar turninn Torre de Belém sem er eitt frægasta kennileiti Lissabon. Einnig glæsilegt minnismerki um landvinninga Portúgals, Padrão dos Descobrimentos. Við keyrum rauðu 25. apríl brúnna sem liggur yfir Tagus ánna og skoðum hina gríðarstóru Kristsstyttu sem þar stendur, þaðan er líka glæsilegt útsýni yfir borgina. Við höldum áfram með fram höfninni til Praça do Comércio en þar stóð konungshöllin fram að jarðskjálfta sem varð neðansjávar árið 1755. Við göngum um litríka Alfama hverfið sem tekur á móti okkur með sínum heillandi, hlykkjóttu götum og litlu torgum þar sem tíminn virðist hafa staðið í stað, enda er þetta eitt elsta hverfi Lissabon. Komum einnig að dómkirkjunni, Sé Patriarcal, sem er elsta kirkja borgarinnar. Um kvöldið fáum við svo að njóta klassískrar portúgalskrar fadó tónlistar.

16. apríl | Sintra, Cabo da Roca & Estoril

Í dag er ferðinni haldið til ævintýrabæjarins Sintra sem er einn fallegasti bær Portúgals, þekktur fyrir glæsilegar hallir og milt loftslag. Bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Í gönguferð um miðbæinn heimsækjum við þjóðarhöllina, Palácio Nacional de Sintra, sem reist var í upphafi 16. aldar og þjónaði sem sumarbústaður portúgölsku konunganna fram á 21. öldina. Höllin er áhugaverð fyrir þær sakir að hún sýnir hvernig portúgalskur stíll hefur þróast í gegnum aldirnar og undirstrikar sérstaklega þróun flísalistarinnar. Á leiðinni til baka til Lissabon verður farið fram hjá Cabo da Roca, vestasta punkti meginlands Evrópu, en frá klettum þess er tilkomumikið útsýni yfir Atlantshafið. Portúgalska þjóðskáldið Luís de Camões lýsti einmitt staðnum með eftirfarandi orðum: „Hér… þar sem jörðin endar og hafið byrjar.“ Við komum einnig við í smábænum Estoril, sem hefur alla tíð verið athvarf auðugrar yfirstéttarinnar við sjávarsíðuna. Íbúar Estoril lifðu lengi vel á fiskveiðum en nú er þetta mikill ferðamannabær. 

Opna allt

17. apríl | Frjáls dagur í Lissabon

Það er kærkomið að fá frjálsan dag og kynnast þessari fallegu borg betur á eigin vegum. Upplagt er að taka sporvagninn gula, sem er eitt af helstu táknum Lissabon, og fara um hæðir borgarinnar og skoða gamla miðbæinn. Eins er áhugavert að heimsækja National Pantheon, sem var frá 16. öld hefðbundin kirkja en var árið 1916 breytt í undurfagurt hvelft grafhýsi, sem margir telja fallegustu byggingu Portúgals. Sá sem heimsækir Lissabon má alls ekki fara þaðan án þess að smakka pastel de nata, litlu eggjakremstartaletturnar sem má segja að sé þjóðareftirréttur Portúgala. Í miðbænum má finna hið fræga bakarí, Pasteis de Belem frá árinu 1837, en það þykir eitt besta pastel de nata bakaríið í Lissabon.

18. apríl | Setúbal

Í dag höldum við til bæjarins Setúbal sem hefur allt frá miðöldum verið mikilvæg saltverslunarmiðstöð. Í Setúbal er líka merkileg höfn en hér hófust sjókönnunarleiðangrar Portúgala sem leiddu af sér fjölmargar siglingaleiðir og landsvæði og færðu Portúgölum mikinn auð. Við göngum um þennan fallega bæ, sem frá 17. öld var staður aðalsmanna í Lissabon sem létu reisa hér stórhýsi og hallir, og sjáum meðal annars klaustrið Convento de Jesus og São Filipe kastalann. Á aðaltorgi bæjarins, Praça do Bocage, stendur São Juliao kirkjan en hún er frá því fyrir neðansjávarjarðskjálftann mikla.  Á bakaleiðinni verður komið við í einu elsta vínhúsi Portúgals þar sem við fáum vínkynningu og brögðum á afurðum þeirra.

19. apríl | Frjáls dagur Lissabon

Nú er komið að frjálsum degi og um að gera að kíkja í verslanir, kaffihús eða bara njóta og slaka á við hótelið. Fyrir þá sem vilja kynna sér áhugaverðar byggingar og komast í hreyfingu þá bendum við á São Jorge kastalann í Alfama hverfinu en hann stendur á hæð þar sem er fallegt útsýni yfir borgina og Tagus ánna. Márar byggðu kastalann á 10. öld en hann gengdi lykilhlutverki í vörnum Lissabon og var heimili konunga allt fram á 16. öld. Fyrir áhugasama þá bendum við á eina af perlum Lissabon, Híerónýmusarklaustrið, sem byggt var við upphaf landafundanna á 15. öld. Klaustrið er eitt af merkustu helgu mannvirkjum í heiminum og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1983. Byggingin er fagurskreytt, einstaklega falleg og ber skýr merki þeirrar gullaldar sem ríkti þegar hún var reist. Skammt frá klaustrinu er að finna Siglingasafn Lissabon, sem er eitt af þeim bestu sinnar tegundar í Evrópu, Museu de Marinha. Þar er hægt að fræðast um siglingasögu Portúgals og sjá marga fallega og merka muni.

20. apríl | Fatíma, fiskimannaþorpið Nazaré & miðaldaþorpið Óbídos

Í dag, páskadag, ætlum við að að skoða einn heilagasta pílagrímsstað landsins í Fatíma en þar á María mey að hafa birst og sagt fyrir um kraftaverk þar sem sólin dansaði á himninum. Við heimsækjum einnig fallega fiskimannaþorpið Nazaré þar sem sjá má einar stærstu öldur heims falla að ströndinni, enda er staðurinn heimsþekktur fyrir tilkomumikið brim og þangað sækja færustu sjóbrettakappar heims. Í Nazaré er gaman að fylgjast með skrautlegu mannlífinu og njóta útsýnis yfir víðáttumikið Atlantshafið. Við skoðum einnig fallega miðaldaþorpið Óbídos sem er eitt það best varðveittasta í Evrópu og eins og að ganga um í lifandi safni miðaldanna. Heillandi þröngar og steinilagðar götur, hvítkölkuð hús með rauðlitum þakstein og skreytt litríkum blómum, kastali sem gnæfir yfir byggðina og virkisveggir sem umlykja þorpið en á þeim er hægt að ganga og njóta útsýnis yfir þorpið og sveitirnar um kring. 

21. apríl | Heimferð

Það er komið að kveðjustund eftir ljúfa og skemmtilega ferð en þar sem flugið er ekki fyrr en í kvöld er tilvalið að nýta daginn og skoða sig enn betur um í hinni fallegu Lissabon. Upplagt er að fá sér kvöldverð inni í borg áður en lagt verður af stað út á flugvöll. Brottför þaðan er kl. 21:40 og lending í Keflavík kl. 01:10 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn

Hótel

  • 7 nætur – Lissabon - Hotel Figueira

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti