Aðventuveisla í Washington

Spennandi ferð til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, þar sem við kynnumst áhugaverðri sögu og njótum þess að skoða okkur um í jólaljósum borgarinnar. Washington var stofnuð árið 1790 og stendur á bökkum ánna Potomac og Anacostia. Hún er nefnd eftir einum stofnanda hennar, George Washington, sem valdi henni einnig stað. Við skoðum þjóðardómkirkjuna sem er sjötta stærsta dómkirkja í heiminum og kynnumst einum elsta hluta borgarinnar, Georgetown. Þar er mikil saga sem nær aftur fyrir stofnun höfuðborgarinnar sjálfrar og þar hafa margar merkar persónur búið. Í Georgetown er iðandi mannlíf og mikið úrval verslana. Þar er einnig skemmtilegt hafnarsvæði og almenningsgarður. Við erum einstaklega vel staðsett í nágrenni Hvíta hússins, bústað forseta Bandaríkjanna, og munum virða það fyrir okkur bæði frá Lafayette torgi sem og frá syðri enda forsetagarðsins þar sem jólatré Washington búa stendur einnig í Ellipse garði. Hér munum við njóta jólaljósa borgarinnar og þess anda sem þar ríkir í aðdraganda jóla. Við skoðum helstu mannvirki borgarinnar sem reist hafa verið í minningu einstaklinga og atburða sem hafa haft áhrif á sögu landsins. Komum við í nýju og fallegu bryggjuhverfi við bakka Potomac, The Wharf, þar sem gaman er að staldra við og njóta góðra veitinga og fallegs umhverfis.

Verð á mann í tvíbýli 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 80.900 kr. 

 
Innifalið

  • 5 daga ferð
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hóteli.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Aðgangseyrir í Dómkirkjuna u.þ.b. $8

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. desember | Flug til Washington

Brottför frá Keflavík kl. 16:50 Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Washington kl. 18:15 að staðartíma. Við keyrum inn í miðborgina að hótelinu okkar sem stendur skammt frá Hvíta húsinu. Höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, var stofnuð 1790 samkvæmt stjórnaskrá landsins sem tók gildi 1789. Fylkin Maryland og Virginía gáfu eftir land svo borgin mætti rísa á bökkum ánna Potomac og Anacostia. Washington átti að vera sjálfstætt umdæmi fyrir utan önnur fylki landsins og er nefnd eftir einum stofnanda hennar, George Washington, sem valdi henni stað. Arkitektinn Pierre L’Enfant’s lagði grunn að skipulagi borgarinnar 1791. Washington er merkileg fyrir sitt sögulega og menningarlega gildi, þar eru mörg af þekktustu kennileitum landsins sem tengjast sögu þess og menningu, þar má finna helstu stofnanir landsins og þar er miðstöð stjórnmálanna. Það er mikið um græn svæði í Washington borg, húsin eru lágreist miðað við aðrar borgir landsins og mannlífið er fjölbreytt og alþjóðlegt.

5. desember | Þjóðardómkirkjan & Georgetown

Við hefjum daginn á ferð að þjóðardómkirkjunni í Washington sem er sjötta stærsta dómkirkja í heimi. Kirkjan er tengd ýmsum stórviðburðum og þar hafa farið fram útfarir þekktra einstaklinga. Dr. Martin Luther King flutti sína síðustu sunnudagsmessu úr predikunarstól kirkjunnar og þar hafa verið haldnar messur við vígslur forseta landsins og útfarir. Stór jarðskjálfti í ágúst árið 2011 olli talsverðum skemmdum á kirkjunni, það þurfti meðal annars að endurbyggja hluta hennar og stendur það ferli enn. Fallegir garðar umlykja kirkjuna. Næst er ferð okkar heitið í einn elsta hluta borgarinnar, Georgetown, þar sem við skiljum við rútuna. Upprunalega var bærinn stofnaður 1751 til þess að taka á móti skipum sem fluttu tóbak eftir Potomac ánni og staðurinn á sér merka sögu sem miðstöð verslunar, iðnaðar og vöruflutninga. Við röltum saman og skoðum ýmis önnur merk hús í hverfinu þar sem ýmsir af mektarborgurum Washington hafa búið, meðal annarra forsetahjónin John F. og Jacqueline Kennedy og leikkonan Elisabeth Taylor. Við göngum eftir Chesapeake og Ohio síkinu sem liggur samsíða Potomac ánni og skoðum m.a. elsta upprunalega hús Washington borgar, Old Stone House, en það er frá nýlendutímanum og í georgískum stíl. Nú er upplagt að skoða Georgetown nánar á eigin vegum, þar er úrval verslana og veitingastaða og litskrúðugt mannlíf. Þar gefur einnig að líta árlega ljóslistasýningu, Glow, sem er komið upp víða um bæinn. M Street er aðalgata Georgetown og hún er einnig helsta verslunargata Washington. Hægt er ganga meðfram Potomacánni í garði sem er við bakkann og þar er útsýni að Key Bridge brúnni og Kennedy Center þar sem Sinfóníuhljómsveit landsins og Þjóðaróperan hafa aðsetur sitt. Yfir vetrarmánuðina er mikið líf við höfnina í Georgetown (Washington Harbour), í aðdraganda jólanna má þar finna skautasvell undir berum himni. 

6. desember | Hvíta húsið & helstu kennileiti Washington

Þar sem við erum einstaklega vel staðsett í nágrenni Hvíta hússins þá byrjum við daginn á léttri göngu að Lafayette torgi sem stendur norðan við bústað forseta Bandaríkjanna. Þar blasir við kunnuglegt sjónarhorn af húsinu. Eftir stutt stopp förum við með rútu sem flytur okkur að syðri enda forsetagarðsins. Þar virðum við fyrir okkur aðra þekkta hlið Hvíta hússins og jólatré Washington búa sem stendur í hinum svo kallaða Ellipse garði, sunnan við girðingar Hvíta hússins. Þessu næst munum við skoða önnur helstu kennileiti í nágrenninu, minnismerki um George Washington, Thomas Jefferson, Martin Luther King Jr. og Abraham Lincoln. Við stoppum í Wharf þar sem er tilvalið að fá sér hádegisverð. Wharf er skemmtilega hannað bryggjuhverfi þar sem er urmull veitingastaða, kaffihúsa og verslana. Við viljum benda á að það er skemmtileg upplifun að fara í skoðunarferð um Washington á siglingu á Potomac ánni og er til að mynda hægt að fara í siglingu þar sem kvöldverður er innifalinn. Siglt er frá Wharf bryggjuhverfinu.

Opna allt

7. desember | Frjáls dagur

Fyrir þá sem hafa hug á því að versla þá bendum við á að stuttur gangur er í Mc Pherson Squeare lestarstöðina þar sem hægt er að taka silfurlínuna beint í verslunarmiðstöðina Tysons corner. Hér er einnig kjörið tækifæri til þess að heimsækja Smithsonian söfnin við National Mall garðinn, flest þeirra eru með frían aðgang en það þarf að panta sér tíma á
þeim vinsælustu svo sem Flug- og geimsafninu (Air and Space Museum). Við austurenda garðsins stendur þinghús Bandaríkjanna (Capitol Building). Hægt er að skoða helsta jólamarkað borgarinnar Downtown Holiday market í Penn Quarter hverfinu en hann er staðsettur skammt frá Ford leikhúsinu þar sem Abraham Lincoln var ráðinn af dögum árið 1865. Kínahverfi borgarinnar er einnig skammt undan og fleiri söfn svo sem National Portrait Gallery.

8. desember | Heimferð

Nú er komið að heimferð eftir dýrðardaga en hver og einn getur þó nýtt fyrripart dags til að skoða sig betur um á eigin vegum, kíkja í búðir eða njóta þess að eiga rólegan tíma. Lagt verður af stað frá hótelinu kl 16:00 og ekið til Dulles flugvallar. Brottför þaðan kl. 19:35 (næturflug).

9. desember | Heimkoma til Íslands

Lending í Keflavík kl. 06:25 að morgni.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Hótel

Hyatt place White House - Washington DC

Við gistum í fjórar nætur á góðu 4* hóteli, Hyatt place Washington DC - White house, sem er staðsett í miðborginni. Hótelið stendur skammt frá Hvíta húsinu, þaðan er stutt í The National Mall þar sem finna má söfn Smithsonian stofnunarinnar og mörg af helstu kennileitum borgarinnar. Fyrir þau sem kjósa að nýta lestarsamgöngur þá er McPherson Square stöðin staðsett í göngufjarlægð frá gististaðnum. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti