Aðventuljómi í Leipzig og Berlín
1. - 8. desember 2024 (8 dagar)
Við hefjum þessa aðventuferð í menningarborginni Leipzig, sem stundum er kölluð hin nýja Berlín. Stórskáld Þjóðverja, Johann Wolfgang von Goethe, kallaði Leipzig sína litlu París í hinum þekkta harmleik Faust. Þar átti hann við hversu framsækin Leipzig var og hversu hratt hún stefndi í átt til stórborgar strax á 19. öld. Miðborg Leipzig er einstaklega falleg og í skoðunarferð verður farið um alla helstu sögustaði borgarinnar. Við munum einnig fara í dagsferð til borgarinnar Dresden. Það telst með ólíkindum hversu vel heppnuð endurreisn Dresden var, eftir seinni heimstyrjöld, þar sem eyðileggingin var mikil. Borgin er í dag þekkt fyrir stórkostleg listasöfn, hallir og hið fræga óperuhús Semper. Seinni hluta ferðarinnar dveljum við í höfuðborginni Berlín þar sem menning og listir blómstra sem aldrei fyrr enda er borgin kraumandi suðupottur fjölmargra menningarheima. Í Berlín sjáum við ýmis kennileiti borgarinnar eins og leifar af Berlínarmúrnum, minnismerki um helförina og Brandenborgarhliðið. Við höldum í skemmtilega skoðunarferð um þessa stórbrotnu borg þar sem það markverðasta verður skoðað. Hér ríkir sannur jólaandi og það má finna jólamarkaði víðsvegar þar sem upplagt er að ylja sér með heitan drykk og njóta lífsins í sannri jólastemningu.