Aðventugleði í Tallinn & Helsinki

29. nóvember - 3. desember 2024 (5 dagar)

Þessi einstaka jólaferð hefst með flugi til Helsinki, þaðan sem siglt verður yfir til Tallinn, höfuðborgar Eistlands. Þessi rómantíska og fallega miðaldaborg á sér um 800 ára gamla sögu en þar er að finna einstaklega vel varðveittar miðaldakirkjur, virkisturna og hús byggð í stíl Hansakaupmanna. Á aðventunni svífur yndislegur jólaandi yfir borginni og þess má geta að jólamarkaðurinn í Tallinn var árið 2018 valinn sá fallegasti í Evrópu af gestum vítt og breitt um heiminn. Gamli miðbærinn í Tallinn, með sínar þröngu, steinlögðu götur, er ævintýri líkastur enda er hann skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Þessi best varðveitta miðaldaborg í Norður-Evrópu heillar alla sem þangað koma. Gist verður á 4* hóteli í Tallinn. Í lok ferðar förum við yfir til Helsinki þar sem boðið verður upp á skoðunarferð um borgina. Gist verður í eina nótt á vel staðsettu hóteli í miðbæ Helsinki. 

Verð á mann 175.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 32.300 kr.


Innifalið

  • 5 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Einn kvöldverður í Tallinn.
  • Ferja til og frá Tallinn.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þrír kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

29. nóvember | Flug til Helsinki

Brottför frá Keflavík kl. 7:30 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Helsinki kl. 13:00 að staðartíma þar sem við förum í skemmtilega skoðunarferð um miðborg Helsinki og skoðum m.a. Sibelius garðinn og Klettakirkjuna. Um kvöldið er siglt frá Helsinki til Tallinn. Ferjan leggur af stað úr höfn frá Helsinki klukkan 19:30 og komutími í Tallinn er 21:30.  Það er upplagt að snæða kvöldmat á einum af nokkrum veitingastöðum sem eru um borð í ferjunni. Gist verður á vel staðsettu hóteli í Tallinn.

30. nóvember | Tallinn

Dagurinn hefst á skoðunarferð með rútu um Tallinn. Við skoðum það helsta sem borgin hefur upp á að bjóða eins og Dómkirkjuhæðina (Toompea) og Kadriorg höllina, sem Pétur mikli lét útbúa fyrir eiginkonu sína Katrínu árið 1718. Rútan mun skilja hópinn eftir í gamla bænum og við förum saman í gönguferð um bæinn. Gamli hluti borgarinnar þykir einkar fallegur fyrir sínar gömlu og vel varðveittu byggingar í bland við gömul sovésk verksmiðjuhús sem hafa öðlast nýtt líf. Upplýstar byggingarnar setja einstaklega fallegan blæ á borgina. Gönguferðin endar á ráðhústorginu og þar á eftir gefst frjáls tími til að kanna umhverfið og njóta lífsins.  Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

1. desember | Frjáls dagur í Tallinn

Þessi fallega borg hefur upp á ótrúlega margt að bjóða, fallegar gamlar byggingar, söfn, hallir, kirkjur, lítil sæt kaffihús á hverju horni og nóg er af góðum veitingahúsum. Fyrir þá sem hafa áhuga á arkitektúr þá er afar áhugavert að heimsækja Rotermann Quarter í miðbæ Tallinn, milli gamla miðbæjarins og hafnarinnar. Þetta svæði var áður fyrr verksmiðjuhverfi í niðurníðslu og einkennist í dag af skemmtilegum nútímaarkitektúr. Það er um að gera að að njóta þessarar töfrandi borgar, kíkja í verslanir, á söfnin eða setjast á notalegt kaffihús og fylgjast með mannlífinu, dagurinn er í ykkar höndum.

Opna allt

2. desember | Haldið til Helsinki

Í dag kveðjum við Tallinn og höldum aftur til Helsinki. Ferjan leggur af stað úr höfn frá Tallinn klukkan 10:30 og komutími í Helsinki er 12:30. Við tékkum okkur inn á vel staðsett hótel í miðbæ Helsinki þar sem stutt er í fjölbreytt úrval góðra kaffi-og veitingahúsa. Aðalverslunargata borgarinnar, Aleksanterinkatu, er einnig í þægilegri göngufjarlægð frá hótelinu. 

3. desember | Heimferð

Nú er komið að heimferð eftir yndislega og ljúfa ferð. Brottför frá Helsinki er kl. 14:05. Lending í Keflavík kl. 15:45 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Gyða

Eyrún Gyða er fædd og uppalin á sveitabæ á Snæfellsnesinu, sem og í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún er náttúrufræðingur og leiðsögukona að mennt og hefur starfað sem leiðsögukona á Íslandi og Grænlandi síðan 2013, einnig sem landvörður í Snæfellsjökulsþjóðgarði og skálavörður á hálendinu. Árið 2021 fluttist hún búferlum til Finnlands þar sem hún átti einungis að vera í eitt ár í námi, en hún féll fyrir landi og þjóð er þar enn.

Hótel

Hótel í ferðinni Aðventugleði í Tallinn & Helsinki

Í Tallinn verður gist í þrjár nætur á 4* hóteli, Park Inn Radisson Central Tallinn, sem er einstaklega vel staðsett í miðborg Tallinnn. Það er skammt frá gamla bænum, helstu kennileitum, verslunum og veitingastöðum.
Við gistum seinustu nóttina á 4* hóteli í Helsinki, Solo Sokos Hotel, en það er staðsett í miðbæ Helsinki. Þar er aðgangur að heilsulind og gufubaði. Stutt er í helstu kennileiti borgarinnar og fjölbreytt úrval góðra kaffi- og veitingahúsa. Aðalverslunargata borgarinnar, Aleksanterinkatu, er einnig í þægilegri göngufjarlægð frá hótelinu. Þetta er lífleg verslunargata, þar sem er breitt úrval verslana, veitingahúsa og menningar.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti