Aðventugleði í Tallinn & Helsinki

Þessi einstaka jólaferð hefst með flugi til Helsinki, þar sem boðið verður upp á skoðunarferð um borgina. Þaðan verður siglt yfir til Tallinn, höfuðborgar Eistlands en þar munum við dvelja næstu 3 nætur. Þessi rómantíska og fallega miðaldaborg á sér um 800 ára gamla sögu en þar er að finna einstaklega vel varðveittar miðaldakirkjur, virkisturna og hús byggð í stíl Hansakaupmanna. Á aðventunni svífur yndislegur jólaandi yfir borginni og þess má geta að jólamarkaðurinn í Tallinn var árið 2018 valinn sá fallegasti í Evrópu af gestum vítt og breitt um heiminn. Gamli miðbærinn í Tallinn, með sínar þröngu, steinlögðu götur, er ævintýri líkastur enda er hann skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Þessi best varðveitta miðaldaborg í Norður-Evrópu heillar alla sem þangað koma. Í lok ferðar förum við yfir til Helsinki þar sem við gistum í eina nótt. 

Verð á mann 179.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 27.800 kr.


Innifalið

  • 5 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Einn kvöldverður í Tallinn.
  • Ferja til og frá Tallinn.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þrír kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

28. nóvember | Flug til Helsinki

Brottför frá Keflavík kl. 7:30 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Helsinki kl. 13:00 að staðartíma þar sem við förum í skemmtilega skoðunarferð um miðborg Helsinki og skoðum m.a. Sibelius garðinn og Klettakirkjuna. Um kvöldið er siglt frá Helsinki til Tallinn. Ferjan leggur af stað úr höfn frá Helsinki klukkan 19:30 og komutími í Tallinn er 21:30. Það er upplagt að snæða kvöldmat á einum af nokkrum veitingastöðum sem eru um borð í ferjunni. Gist verður í 3 nætur á vel staðsettu 4* hóteli í Tallinn.

29. nóvember | Tallinn

Dagurinn hefst á skoðunarferð með rútu um Tallinn. Við skoðum það helsta sem borgin hefur upp á að bjóða eins og Dómkirkjuhæðina (Toompea) og Kadriorg höllina, sem Pétur mikli lét útbúa fyrir eiginkonu sína Katrínu árið 1718. Rútan mun skilja hópinn eftir í gamla bænum og við förum saman í gönguferð um bæinn. Gamli hluti borgarinnar þykir einkar fallegur fyrir sínar gömlu og vel varðveittu byggingar í bland við gömul sovésk verksmiðjuhús sem hafa öðlast nýtt líf. Upplýstar byggingarnar setja einstaklega fallegan blæ á borgina. Gönguferðin endar á ráðhústorginu og þar á eftir gefst frjáls tími til að kanna umhverfið og njóta lífsins. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli. 

30. desember | Frjáls dagur í Tallinn

Þessi fallega borg hefur upp á ótrúlega margt að bjóða, fallegar gamlar byggingar, söfn, hallir, kirkjur, lítil sæt kaffihús á hverju horni og nóg er af góðum veitingahúsum. Fyrir þá sem hafa áhuga á arkitektúr þá er afar áhugavert að heimsækja Rotermann Quarter í miðbæ Tallinn, milli gamla miðbæjarins og hafnarinnar. Þetta svæði var áður fyrr verksmiðjuhverfi í niðurníðslu og einkennist í dag af skemmtilegum nútímaarkitektúr. Það er um að gera að að njóta þessarar töfrandi borgar, kíkja í verslanir, á söfnin eða setjast á notalegt kaffihús og fylgjast með mannlífinu, dagurinn er í ykkar höndum.

Opna allt

1. desember | Haldið til Helsinki

Í dag kveðjum við Tallinn og höldum aftur til Helsinki. Ferjan leggur af stað úr höfn frá Tallinn klukkan 10:30 og komutími í Helsinki er 12:30. Við tékkum okkur inn á á 4* hótel í miðbæ Helsinki. Þaðan er stutt í helstu kennileiti, verslanir og úrval góðra kaffi- og veitingahúsa.

2. desember | Heimferð

Nú er komið að heimferð eftir yndislega og ljúfa ferð. Brottför frá Helsinki er kl. 14:00. Lending í Keflavík kl. 15:55 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Hótel

Í Tallinn verður gist í þrjár nætur á 4* hóteli, Park Inn Radisson Central Tallinn, sem er einstaklega vel staðsett í miðborg Tallinnn. Það er skammt frá gamla bænum, helstu kennileitum, verslunum og veitingastöðum.
Við gistum seinustu nóttina á 4* hóteli í Helsinki, Solo Sokos Hotel, en það er staðsett í miðbæ Helsinki. Þar er aðgangur að heilsulind og gufubaði. Stutt er í helstu kennileiti borgarinnar og fjölbreytt úrval góðra kaffi- og veitingahúsa. Aðalverslunargata borgarinnar, Aleksanterinkatu, er einnig í þægilegri göngufjarlægð frá hótelinu. Þetta er lífleg verslunargata, þar sem er breitt úrval verslana, veitingahúsa og menningar.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Gyða Gunnlaugsdóttir

Eyrún Gyða er fædd og uppalin á sveitabæ á Snæfellsnesinu, sem og í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún er náttúrufræðingur og leiðsögukona að mennt og hefur starfað sem leiðsögukona á Íslandi og Grænlandi síðan 2013, einnig sem landvörður í Snæfellsjökulsþjóðgarði og skálavörður á hálendinu. Árið 2021 fluttist hún búferlum til Finnlands þar sem hún átti einungis að vera í eitt ár í námi, en hún féll fyrir landi og þjóð er þar enn.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti