Aðventuævintýri í Alsace

Aðventuævintýrið byrjar í borginni Obernai í Alsace héraði þar sem fallegustu aðventumarkaðir Frakklands finnast. Nú skarta borgir og bæir sínu fegursta hvert sem farið er og ilmur frá jólaglöggi og kastaníuhnetum svífur yfir. Í Obernai er dásamlegt á þessum árstíma, borgin er þekkt fyrir haganlega gerð bindingsverkshús og sérlega notalegt andrúmsloft, ljósadýrðin er mikil og þar er fallegur jólamarkaður. Við förum í skemmtilegar dagsferðir m.a. til Strassburg, höfuðborgar Alsace héraðsins, sem er sérstaklega glæsileg á aðventunni. Colmar er einnig falleg og hrífandi borg á þessum árstíma og þekkt fyrir listileg bindingsverkshús og krókóttar þröngar götur sem eru einstaklega töfrandi. Í Colmar má finna listamannahverfið Litlu Feneyjar og þar eru lítil falleg síki sem gleðja augað. Það er alltaf gaman að heimsækja Freiburg í Svartaskógi en hún er borg skógarins, gotneskrar listar og víns. Aðventublærinn fylgir okkur um vínslóðina í Alsace þegar við kveðjum Obernai á leið okkar að Bodensee vatninu í Þýskalandi. Á leiðinni þangað verður áð í bæjarperlunni Riquewihr og þar upplifum við áhrifamikla jólastemmningu inn á milli gömlu bindingsverkshúsanna. Við endum ævintýrið á ljúfri samveru í fallegu borginni Konstanz við Bodensee vatnið sem er einstaklega heillandi á aðventunni.

Verð á mann 339.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 86.700 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Þrír kvöldverðir.
  • Vínsmökkun Eugisheim.
  • Sigling í Strassburg. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
  • Siglingar.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

  • Lest inn í Strassburg til og frá rútubílastæði u.þ.b € 8.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

26. nóvember | Flug til Zürich & Obernai í Alsace

Brottför verður frá Keflavík kl. 07:20, mæting er í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lent verður í Zürich kl. 12:05 að staðartíma. Ekin verður falleg leið inn í Alsace héraðið til bæjarins Obernai þar sem gist verður í fimm nætur á góðu hóteli við aðaltorg bæjarins.
Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

27. nóvember | Dagur í Obernai & frjáls tími

Obernai er yndislegur bær með sínum ævintýralegu bindiverkshúsum og ekki síst á aðventunni þegar hann er fagurlega skreyttur. Við byrjum daginn á að fara í stutta göngu saman og kynna okkur sögu og mannlíf bæjarins. Eftir það verður frjáls tími á eigin vegum til að kanna líf bæjarbúa og njóta alls þess sem bærinn hefur upp á að bjóða. Upplagt er að skoða jólamarkaðinn sem er mjög fallegur. Þar gefur að líta úrval af sælkeravöru og handverki og mikið er af huggulegum kaffi- og veitingahúsum þar sem hægt er að staldra við. Kvöldverður á eigin vegum.

28. nóvember | Jóladýrð í Strassborg & sigling á Ill

Strassborg, höfuðborg Alsace héraðsins, skartar sínu fegursta á aðventunni og jóladýrðin þar er engri lík. Við byrjum á að fara í siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina. Af ánni má sjá margar af tignarlegum glæsibyggingum borgarinnar, þar á meðal aðsetur Evrópuþingsins sem siglt er að. Borgin býr yfir miklum sjarma sem við kynnumst á göngu um fallegar götur hennar. Við skoðum bindingsverkshúsin og kíkjum á jólamarkaðinn sem er einn sá elsti í Evrópu. Að auki komum við að Müsterkirkjunni sem er stolt Strassborgarbúa, þar er varðveitt mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Hverjum og einum gefst tækifæri á að upplifa borgina á eigin vegum og njóta aðventustemmningar borgarinnar. Þá er gaman að rölta um listamannahverfið, Petite France eða litla Frakkland. Kvöldverður á eigin vegum.

Opna allt

29. nóvember | Ljósadýrð í Freiburg í Svartaskógi

Freiburg er staðsett í suðurhluta Svartaskógar milli landamæra Frakklands og Sviss. Hennar er oft getið sem höfuðborgar skógarins. Við lítum við í Freiburger Münster dómkirkjunni en hún er eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingalistar og helsta kennileiti borgarinnar. Í nágrenni kirkjunnar er skemmtilegur jólamarkaður og þar má meðal annars finna afar fallegt handverk og ýmislegt áhugavert fyrir sælkera. Hér verður gefinn frjáls tími til að upplifa hina líflegu Freiburg. Hún er alltaf heimsóknarinnar virði, sér í lagi á aðventunni. Tækifæri gefst til að líta inn til kaupmanna borgarinnar og njóta sín á einhverjum hinna fimm aðventumarkaða sem eru dreifðir um borgina. Kvöldverður á eigin vegum.

30. nóvember | Aðventuævintýri í Colmar & vínbóndi í Eugisheim

Colmar er hrífandi borg. Hér fara saman listilega gerð bindingsverkshús og þröngar, dulúðlegar götur. Listamannahverfið, litlu Feneyjar, er eitt fallegasta hverfið í borginni og þar er líkt og komið sé inn í ævintýri. Hér verður farið í fróðlega skoðunarferð um borgina en eftir það verður dagurinn í ykkar höndum. Nú er að njóta aðventutöfra bæjarins, líta inn í skemmtilegar litlar verslanir og setjast inn á notaleg kaffi- eða veitingahús í gamla bænum. Við endum daginn á að heimsækja vínbónda í Eguisheim sem er með fallegri bæjum Alsache héraðsins. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

1.desember | Vínslóðin til Riquewihr & Konstanz

Við kveðjum við Obernai eftir yndislega daga og nú verður ekin Vínslóðin svonefnda í Alsace. Hún liggur frá Obernai en þaðan þræðum við ótal snotur smáþorp og gefum okkur góðan tíma til að stoppa í Riquewihr. Bærinn er ein af perlum Alsace héraðsins og er listilega skreyttur á aðventunni. Í nánast öðru hverju húsi bæjarins má finna vínkjallara með afurðum af svæðinu og víða er hægt að líta inn og smakka á framleiðslunni. Hér er þekkt jólabúð sem vert er heimsækja og hefðbundinn jólamarkaður. Þessu næst verður ekið sem leið liggur að Bodensee vatni sem er þriðja stærsta stöðuvatn í Evrópu og á landamæri að Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Ferðinni er heitið í borgina Konstanz sem stendur við vesturenda Bodensee. Þar verður gist í tvær nætur á góðu hóteli í miðbænum. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

2. desember | Hrífandi jólastemmning í Konstanz

Lista- og menningarborgin Konstanz er fallegasta borgin við Bodensee vatnið. Við byrjum morguninn á stuttu rölti þar sem við kynnumst sögu og menningu borgarinnar. Við munum að sjálfsögðu njóta aðventustemmningar á jólamarkaði borgarinnar en eftir það er upplagt að kíkja á hvað kaupmenn staðarins hafa upp á að bjóða. Hótelið er vel staðsett í miðbænum svo hér gefst gott tækifæri til að nota daginn eins og hver og einn vill. Það er til dæmis hægt að fara í siglingu á vatninu og koma við í nágrannabæjunum. Einnig er mikið af notalegum kaffi- og veitingahúsum sem upplagt er að líta inn á. Kvöldverður á eigin vegum.

3. desember | Heimflug frá Zürich

Nú kveðjum við Konstanz við Bodensee eftir ljúfa daga. Að morgunverði loknum verður lagt af stað út á flugvöll í Zürick og flogið heim kl. 13:05. Lending í Keflavík er kl. 15:55 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Hótel

Hótel í ferðinni Aðventuævintýri í Alsace

Gist verður fyrstu fimm næturnar á A la Cour d´Alsace, 4* hóteli sem stendur við aðaltorgið í Alsace. Byggingin sjálf á sér langa sögu, hún er upprunalega frá 16. öld en hefur verið uppgerð og breytt í fallegt lúxushótel. Þar er heilsulind með innilaug og gufuböðum. Seinustu tvær næturnar munum við dvelja í annarri 4* gistingu, Hotel Constantia í hjarta Konstanz, skammt frá gamla bænum og Bodensee vatninu. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti