Haustgleði í Króatíu

Það er draumi líkast að ferðast um eyjaperlur Króatíu úti fyrir Kvarner flóa og kynna sér menningu og lifnaðarhætti eyjarskeggja. Fyrstu nóttina verður gist í Vodice í Króatíu en síðan verður ekið til bæjarperlunnar Malinska en hann er einn vinsælasti ferðamannabærinn á eyjunni Krk. Það er vel skiljanlegt, hér eru fagrar strendur, grónar hlíðar og yfir 2000 sólarstundir á ári. Hér gistum við í sex nætur við Rova ströndina. Farið verður í töfrandi dagsferðir, meðal annars heimsækjum við höfuðstað eyjunnar, virkisbæinn Krk en þessi fjölsótti bær er menningarmiðstöð eyjunnar, líflegur og skemmtilegur. Við siglum yfir til Cres, sem er næst stærsta eyja Adríahafsins á eftir Krk. Hún er tengd við eyjuna Lošinj sem er sannkölluð blóma- og furuparadís. Þar skoðum við yndislega bæinn Mali Lošinj með sínum þröngu, hlykkjóttu hliðargötum og dýrðlega útsýni. Við skoðum einnig Vrelo dropasteinshellinn og fallega strandbæinn Opatija sem stendur við Kvarner flóann. Hann var vinsæll dvalarstaður fyrirmenna á 19. öldinni og gjarnan líkt við borgina Nice, enda er hér mikil náttúrufegurð, fallegar byggingar og glæsilegir garðar. Í þessari frábæru ferð njótum við þess að ferðast um sólríkar eyjar Króatíu og nágrenni þeirra með fallegt Adríahafið í bakgrunni. Náttúrufegurð, menning og afslöppum er það sem einkennir þessa ferð. 

Verð á mann 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 46.200 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverðir á hótelum.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Heimsókn til vínbónda u.þ.b. € 16.
  • Sigling til eyjunnar Cres u.þ.b. € 8. 

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

25. september | Flug til Split & Vodice

Brottför frá Keflavík kl. 11:10 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Split kl. 17:55 að staðartíma. Ekið á hótel í Vodice sem eitt sinn var einn af gömlu rómversku bæjunum og hét þá Arausa. Bærinn er við stóra og fallega vík og þar verður gist í eina nótt. 

26. september | Malinska í Króatíu

Eftir góðan morgunverð og rólegheit í Vodice heldur ferð okkar áfram til Kvarner flóa og út í eyjuna Krk. Þar gistum við næstu sex næturnar á hóteli við Rova ströndina í bænum Malinska. Hann er einn af aðal ferðamannabæjum landsins og er mjög líflegur og skemmtilegur. Á hótelinu eru tvær sundlaugar, sólbaðsaðstaða og fallegur garður. Hótelið er í u.þ.b. 35 mín. göngufæri frá miðbænum í Malinska.

27. september | Eyjan Krk & vínbóndi

Ævintýraferð í dag um fallegu eyjuna Krk með heimamanni sem fræðir okkur um líf eyjarskeggja, menningu og listir. Eyjan er tengd meginlandinu með Krk brúnni eða svokallaðri Tito-brú eins og hún hét áður. Hún var byggð stuttu eftir lát forseta landsins árið 1980 og er nefnd eftir honum. Nú bíður höfuðstaður eyjunnar eftir okkur, gamli virkisbærinn Krk. Þessi fjölsótti bær er menningarmiðstöð eyjunnar og við upplifum hann á skemmtilegri göngu en fáum einnig frjálsan tíma til að upplifa borgina á eigin vegum. Þessi góði dagur endar á akstri til bæjarins Vrbnik þar sem vínbóndi verður heimsóttur.

Opna allt

28. september | Skoðunarferð í Malinska & Rova ströndinn

Við ætlum að taka lífinu með ró í dag og skoða umhverfið í þessum fagra bæ við Kvarner flóann. Það verður ekið inn í miðbæ Malinska en íbúarnir eru um 3.150 talsins. Bærinn er einn vinsælasti ferðamannabærinn á eyjunni með yfir 2000 sólarstundir á ári. Þetta fyrrum sjávarþorp hefur haldið sínum sjarma og yfirbragði til þessa dags. Eftir skoðunarferð með heimamanni gefst frjáls tími til að að kanna umhverfið á eigin vegum og fá sér hádegishressingu áður en ekið verður á hótelið okkar. Þá er upplagt að kanna ströndina og umhverfið eða nýta sér þá frábæru aðstöðu sem hótelið býður upp á.

29. september | Eyjarnar Cres, Lošinj & Mali Lošinj

Í dag ætlum við að fara í smá eyjahopp. Byrjum á því að aka til Valbiska á Krk þar sem við tökum ferju yfir til Merag á Cres sem er ein af landbúnaðareyjunum. Ekið verður yfir á eyjuna Lošinj sem er blóma- og furuparadís eyjanna í Króatíu. Hér er að finna suðrænan gróður, s.s. pálma- og furutré, agave plöntur, lárviðarrós, sítrónutré, salvíu og lofnarblóm. Eyjan telst til sólríkustu staða Evrópu og státar af yfir 2500 sólarstundum á ári, sem þýðir að það eru um 300 dagar sem eru nánast skýjalausir á ári hverju. Höfuðstaðurinn er Mali Lošinj en þar liggur miðbærinn upp frá smábátahöfninni með fjölmörgum, huggulegum verslunum og kaffi- og veitingahúsum sem bjóða upp á dæmigerða Miðjarðarhafsrétti. Það er gaman að ganga um þröngar, hlykkjóttar hliðargötur og fara upp að aðalkirkju bæjarins en þaðan er dýrðlegt útsýni yfir bæinn og flóann.

30. september | Vrelo hellirinn í Fužine & standbærinn Opatija

Í dag förum við upp á meginlandið og könnum Vrelo dropasteinshellinn sem stendur rétt fyrir utan litla bæinn Fužine. Hann er um 3,5 -4 milljón ára gamall og allt að 300 metra langur. Í hellinum eru fallegar dropasteinsmyndanir og í gegnum hann rennur á en flæðið í henni er mismunandi eftir regnfalli ofanjarðar. Það er frábært aðgengi í hellinn þar sem hann er allur á jafnsléttu. Gott er að hafa með sér hlýja flík því hitastigið er um 8°C allan ársins hring. Næst liggur leið okkar til strandarinnar í fallega bæinn Opatija við Kvarner flóa. Hann varð vinsæll heilsudvalarstaður hjá fyrirfólki um miðja 19. öld þegar keisaradæmið Austurríki- Ungverjaland var á sínu blómaskeiði. Stundum var talað um Opatija sem hið austurríska Nice enda eru hér voldug glæsihýsi frá tímum Habsborgara, fallegir garðar og 12 metra langur strandstígur, Lungomare. Hér er dásamlegt útsýni yfir Adríahafið, grónar hæðir og blómaskrúð. Hér eru fjölmörg kaffihús og góðir veitingastaðir sem eru þekktir fyrir sitt ferska og góða hráefni úr héraði, eins og trufflur og aspas og einnig frábæra sjávarrétti. Hér er upplagt að fá sér góða hádegishressingu og síðan gefst tími til að rölta um og skoða þennan fallega bæ eða slaka á við sjávarsíðuna. 

1. október | Frídagur í Malinska

Rólegur dagur í Malinska þar sem upplagt er að nýta sér aðstöðuna á hótelinu. Einnig er hægt að fá sér göngutúr um bæinn, skoða mannlífið, kíkja í verslanir, á kaffihús eða veitingastaði. Tilvalið er að fara í bátsferðir meðfram ströndinni eða út í nærliggjandi eyjar. 

2. október | Heimferð frá Split

Nú er komið að heimferð eftir ævintýralega og skemmtilegu ferð. Við förum frá Malinska og ökum út til Split þar sem upplagt er að fá sér hressingu áður en haldið er á flugvöllinn í Split. Brottför þaðan kl. 18:55 og lending í Keflavík kl. 21:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Hotel Vila Arausa í Vodice
  • Hotel Blue Waves Resort í Malinska á KRK

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1975 og ólst upp á sveitabæ norðan Vatnajökuls innan um kindur og hreindýr. Hún er menntuð í fjölmiðlafræði og ljósmyndun og starfaði lengi fyrir útgáfufélagið Birtíng sem blaðamaður og ljósmyndari. Hún útskrifaðist úr Leiðsöguskólanum vorið 2022 úr göngu- og almennri leiðsögn og tekur bæði að sér almenna rútuleiðsögn og fjallgöngur. Ragnhildur hefur mikinn áhuga á útivist, stundar fjallgöngur, utanvegahlaup og gönguskíði. Þá hefur áhugi hennar á jarðfræði aukist mikið á undanförnum árum og hún hefur gengið fjölda ferða að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli með erlenda ferðamenn. Að auki hefur Ragnhildur verið fararstjóri í gönguferðum bæði á Ítalíu og Tenerife. Ragnhildur býr nú í Hafnarfirði, er gift og á tvo syni, og starfar við leiðsögn, fararstjórn og ljósmyndun. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti