Konungleg sigling á Signu
25. júní - 2. júlí 2025 (8 dagar)
Hér bjóðum við upp á konunglega siglingu á Signu um Normandí í Frakklandi frá París, borg ástarinnar, að Ermarsundi og til baka. Þetta er leiðin sem vígbúnir víkingar sigldu forðum. Mögnuð saga mannlífs við ána fylgir okkur, sagnir af stoltum riddurum, konungum og örlögum Jóhönnu af Örk. Flogið er til Parísar og þar stigið um borð í MS Renoir sem léttir akkerum og líður af stað. Á meðan á siglingunni stendur verður farið í skoðunarferðir í landi t.d. að Versölum, einni af dýrlegustu höllum veraldar sem Louis XIV lét reisa á sínum tíma. Þar verður boðið upp á að skoða hallargarðinn sem er eitt stórt listaverk með styttum og skúlptúrum, innblásnum úr grísku og rómversku goðafræðinni. Siglt verður til Rouen þar sem bálför Jóhönnu af Örk fór fram og þaðan til Honfleur sem er einstaklega litríkur og skemmtilegur bær á Côte de Grâce ströndinni. Nokkrir áhugaverðir staðir við Ermarsund verða á vegi okkar og má nefna Le Havre sem iðulega er talin ein af heimsborgum Evrópu og Étretat sem einkum er kunn fyrir einstaka krítarkletta á ströndinni. Á siglingunni til baka njótum við friðsældar Normandí með eplatrjám, ökrum, fornum klaustrum, kirkjum og aldagömlum bæjum. Við komum við í Giverny, heimabæ meistara Claude Monet, þar sem finna má eina frægustu vatnaliljutjörn í heimi. Glæsilegt ferðalag endar svo í heimsborginni París.