Frændþjóðin Færeyjar

Í þessari frábæru ferð um nágrannaland okkar Færeyjar munum við fá góða yfirsýn yfir eyjarnar og allt það helsta sem þar er að sjá. Gist verður í Þórshöfn á Straumey á góðu hóteli. Við skoðum litla bæi, fallegar hafnir og njótum einstaks landslags eyjanna. Farið verður til Saksunar. Þar heimsækjum við bóndabýlið Dúvugarð og skoðum gamla bæinn sem nú er minjasafn. Við dáumst að náttúrufegurð og fræðumst um húsakynnin en margar nýbyggingar á eyjunum skarta hlýlegu torfþaki. Vinalega þorpið Tjörnuvík bíður okkar en þaðan er útsýni yfir til Risans og Kellingarinnar sem eru tveir drangar yst á flóanum milli Austureyjar og Straumeyjar. Við heimsækjum Klakksvík á Borðey sem var einkar afskekkt áður en Norðureyjagöngin komu til sögunnar. Á Austurey höldum við á slóðir Þrándar í Götu sem er ein aðalpersónan í Færeyingasögu. Síðast en ekki síst förum við til Kirkjubæjar, helsta sögustaðar eyjanna með sínum fornfrægu kirkjum og íbúðarhúsi kóngsbændanna og á Tinganesi kynnum við okkur 1100 ára gamlan þingstað Færeyinga. 

Verð á mann í tvíbýli 275.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 56.000 kr. 


Innifalið

  • 5 daga ferð
  • Flug með Atlantic Airways til Færeyja.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hótelinu.
  • Þrír kvöldverðir.
  • Einn hádegisverður í Gjárgarði.
  • Aðgangur að Dúvugarði.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir aðrir en í Gjárgarði.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Nánari upplýsingar

Við viljum benda farþegum sérstaklega á þrjár áhugaverðar bækur um Færeyjar:

  • Eyjarnar átján, dagbók úr Færeyjarferð 1965 eftir Hannes Pétursson. Menningarsjóður 1965.
  • Lönd og lýðir eftir Gils Guðmundsson. Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1968.
  • Færeyjar út úr þokunni eftir Þorgrím Gestsson. Óðinsauga, 2017.

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

26. maí | Flug til Færeyja & ekið til Þórshafnar

Brottför frá Keflavíkurflugvelli kl. 11:45. Mæting u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Vágum kl. 14:10 að staðartíma. Á leið okkar frá flugvellinum til Þórhafnar tökum við á okkur krók og skoðum byggðina í Gásadal og fáum okkur hressingu í Bøur.

27. maí | Straumey & Austurey

Þórshöfn, höfuðstaður Færeyja, er á Straumey en Straumey og Austurey teljast vera meginland Færeyja. Í dag heimsækjum við nyrstu byggðir eyjanna. Við ökum til Saksun en þar var áður fyrr góð höfn með þrönga aðkomu milli ægifagurra, þverhníptra fjalla. Í Saksun munum við skoða gamla bæinn á bóndabýlinu Dúvugarði sem nú er minjasafn. Að loknum góðum tíma þar höldum við yfir til Tjörnuvíkur. Á góðum degi er þaðan einstakt útsýni til Risans og Kellingarinnar, dranganna tveggja sem rísa hátt upp úr sjónum yst á flóanum milli Austureyjar og Straumeyjar. Um þau er til skemmtileg þjóðsaga sem tengist Íslandi. Við höldum áfram yfir Sundini um Eiði til Gjógv sem er lítil byggð nyrst á Austurey. Þar snæðum við hádegisverð í Gjárgarði sem er afar fallegt hótel með torfþaki eins og margar nútímabyggingar í Færeyjum. Höfnin og umhverfið allt er rómað fyrir náttúrufegurð. Á leið okkar aftur til Þórshafnar verður ekið um Funningsfjörð. Áhugasömum gefst færi síðdegis á að skoða mannlífið í bænum og um kvöldið velja gestir sér einhvern af hinum fjölmörgu spennandi veitingastöðum í Þórshöfn.

28.maí | Borðey, Klakksvík, Viðey & Viðareiði

Í dag förum við til Klakksvíkur á Borðey, næststærsta bæjar Færeyja, sem stendur á mjóu eiði milli tveggja víka. Árið 2006 voru Norðureyjagöngin opnuð en þau eru tæpir 6 km að lengd og tengja Borðey við Austurey. Við skoðum okkur um í gamla bænum og lítum m.a. inn í Christianskirkju sem var vígð árið 1963 og þykir ein glæsilegasta kirkja Færeyja. Við ökum lengra norður til Viðeyjar en þar er nyrsta byggð eyjanna, Viðareiði. Á leiðinni til Þórshafnar heimsækjum við Götu en Þrándur í Götu, ein aðalpersóna Færeyingasögu, bjó hér árið 1000.

Opna allt

29. maí | Kirkjubær og Tinganes

Ekið verður til Kirkjubæjar sem er merkasti sögustaður eyjanna og verða miðaldakirkjurnar tvær, Magnúsarkirkja og Ólavskirkja, skoðaðar. Litið verður á Reykstovuna sem er í grunninn elsta timburhús í heimi sem enn er búið í. Eftir hádegi skoðum við okkur um á þeim sögufræga stað Tinganesi þar sem Færeyingar stofnuðu þing árið 900 og færeyska landsstjórnin hefur nú aðsetur sitt. Eftir það er frjáls tími í Þórshöfn og gefst þá hverjum og einum tími til að skoða sig betur um. Áhugasamir geta farið með ferju út í Nólsey sem er um 20 mínútum frá Þórshöfn.

30. maí | Heimferð

Nú er komið að leiðarlokum, við kveðjum Færeyjar og höldum út á flugvöll í Vágum. Brottför er með flugi kl. 07:45 og er áætluð lending í Keflavík kl. 08:15 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Hotel Hilton Garden Inn í Þórhöfn

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki, Suður-Tíról og Færeyjar. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti