25. maí - 7. júní 2025 (15 dagar)
Glæsileg eyjaferð til Sardiníu þar sem við ferðumst í stórbrotinni náttúrufegurð. Hér er fjölbreytilegt landslag, einar fallegustu strendur Miðjarðarhafsins, tær sjór, hellar og víkur. Eyjan á sér merkilega sögu og ríka menningararfleifð og eyjarskeggjar eiga sitt eigið tungumál, sardu. Hér er einnig rík hefð fyrir handverki, vefnaði, skartgripum og leirmunum. Áður en siglt er yfir til Sardiníu heimsækjum við gömlu virkisborgina Lucca en hún er fæðingarborg tónskáldsins Puccini. Á Sardiníu bíður stórkostlega Costa Smeralda ströndin okkar í allri sinni dýrð en hún teygir sig yfir norðausturströndina og státar af einstaklega fögrum bæjum. Við gistum í bænum Baja Sardinia en Porto Rotondo, Porto Cervo ásamt fjallaþorpinu San Pantaleo verða einnig á vegi okkar. Við siglum til La Maddalena eyjanna þar sem við upplifum heillandi strendur sem minna um margt á karabíska hafið. Fjallafegurð Barbagía hálendisins umvefur okkur á leið til bæjarins Orgosolo en hann er einna þekktastur fyrir fjölbreytilegar veggmyndir. Við njótum hressingar að hætti hjarðmanna með söng og dansi. Við skoðum einnig konunglegar minjar frá bronsöld í Santa Antine sem eru einhverjar merkustu fornminjar eyjunnar. Blær miðalda er allt umlykjandi í fallegustu borg Sardiníu, Alghero, sem eitt sinn tilheyrði konungsríki Arogons á Spáni en þar gistum við seinni hluta ferðar. Fegurðin lætur ekki á sér standa í miðaldabænum Castelsardo, við Roccia dell‘ Eleante eða Fílaklettinn og við höfðann Capo Caccia á norðvesturströnd eyjunnar. Förum í ævintýralega siglingu að dropasteinshelli Neptúnusar og njótum þess að vera á þessari dásamlegu eyju. Við kveðjum Sardiníu eftir yndislega daga og siglum yfir til Barcelona, höfuðborgar Katalóníu, þar sem gist verður síðustu nóttina. Í þessari ferð njótum við töfra Sardiníu, næstu stærstu eyjunnar á Miðjarðarhafi, þar sem finna má gullnar sandstrendur, sægrænt haf, ilmandi gróður og dásamlega menningu.